Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 394  —  210. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur
um löggæslumál á Seyðisfirði.


     1.      Hyggst ráðherra stuðla að því að löggæsla á Seyðisfirði verði efld og lögreglustöð komið þar upp á nýjan leik?
    Samkvæmt upplýsingum lögreglustjórans á Austurlandi er löggæslu á Seyðisfirði sinnt með þeim hætti að lögreglumenn fara í reglubundnar eftirlitsferðir. Þá hafa 2–3 lögreglumenn jafnan viðveru á Seyðisfirði við komur og brottfarir ferjunnar Norrænu, en fyrir liggur matsskýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá því í júní 2015 um löggæsluþörf vegna ferjunnar.
    Lögregluvarðstöð var starfrækt á Seyðisfirði en var lokað á árunum 2007–2008. Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 1150/2014, um umdæmi lögreglustjóra, er gert ráð fyrir lögreglustöð á staðnum en fjárheimildir embættisins hafa ekki gert ráð fyrir því.
    Ráðuneytið hefur til skoðunar hvernig efla megi löggæslu í öllum lögregluumdæmum landsins, þ.m.t. embætti lögreglustjórans á Austurlandi, enda mikilvægt að lögreglan geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu með fullnægjandi hætti í samræmi við ákvæði lögreglulaga, nr. 90/1996, og almannavarnalaga, nr. 82/2008. Vinna við gerð löggæsluáætlunar í samræmi við þingsályktun nr. 49/140 er langt komin. Þar verða lagðar til grundvallar skilgreiningar á öryggisstigi hér á landi og þjónustustigi lögreglu í þeim tilgangi m.a. að skilgreina mannaflaþörf lögreglu og þörf löggæslunnar fyrir fjármagn í samræmi við fyrirætlanir Alþingis.

     2.      Hvert telur ráðherra að hlutverk lögreglu eigi að vera gagnvart almannavá á borð við ofanflóðahættu og er mönnun og aðstaða lögreglunnar á Austurlandi fullnægjandi hvað Seyðisfjörð varðar með tilliti til þessa?
    Að því er varðar þann þátt fyrirspurnarinnar, sem lýtur að hlutverki lögreglu gagnvart almannavá á borð við ofanflóðahættu, skal þess getið að ríkislögreglustjóri annast málefni almannavarna í umboði ráðherra, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 82/2008, um almannavarnir. Ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um almannavarnastig hverju sinni í samráði við viðkomandi lögreglustjóra ef unnt er og tilkynnir það ráðherra. Heimilt er að lýsa yfir almannavarnaástandi þegar neyðarástand er líklegt, yfirvofandi eða ríkir, eða ef sambærilegar aðstæður eru fyrir hendi.
    Lögreglan er lykilþáttur í viðbragðskerfi almannavarna. Stjórn aðgerða í héraði er í höndum lögreglustjóra í viðkomandi lögregluumdæmi og á hann jafnframt sæti í aðgerðastjórn og almannavarnanefnd þess umdæmis sem sveitarfélagið er í. Sveitarfélög og stofnanir á þeirra vegum skulu, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, kanna áfallaþol í umdæmi sínu. Þá skulu almannavarnanefndir, í samvinnu við ríkislögreglustjóra, gera viðbragðsáætlun í samræmi við hættumat í umdæmi þeirra.
    Um hlutverk lögreglu gagnvart almannavá á borð við ofanflóðahættu vísast að öðru leyti til laga nr. 82/2008, um almannavarnir, reglugerðar nr. 100/2009, um skipulag og störf stjórnar samhæfingar- og stjórnstöðva og viðbragðsaðila almannavarna, reglugerðar nr. 650/2009, um flokkun almannavarnastiga, reglugerðar nr. 323/2010, um efni og gerð viðbragsáætlana, reglugerðar nr. 505/2000, um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats, og reglugerðar nr. 459/2009, um starfshætti almannavarna- og öryggismálaráðs.
    Að lokum hvort mönnun og aðstaða lögreglunnar á Austurlandi sé fullnægjandi hvað Seyðisfjörð varðar með tilliti til þessa vísast í niðurlag svars við 1. lið fyrirspurnarinnar um vinnu við gerð löggæsluáætlunar.