Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 396  —  108. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni
um skattfrjálsa útgreiðslu séreignarsparnaðar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir hafa nýtt sér skattfrjálsa útgreiðslu séreignarsparnaðar til innborgunar á húsnæðislán og húsnæðissparnað? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um húsnæðislán eða húsnæðissparnað er að ræða, eftir árum, fjölda aðila, fjárhæðum og samanlagðri fjárhæð skattafsláttar.

    Tafla 1 sýnir yfirlit yfir séreignarsparnað sem hefur verið greiddur inn á húsnæðislán ásamt reiknuðum tekjuskatti til ríkisins og reiknuðu útsvari til sveitarfélaga. Samtals hefur verið greiddur séreignarsparnaður að fjárhæð 12,4 milljarðar kr. inn á húsnæðislán. Fjárhæð skattafsláttar er reiknuð miðað við núverandi staðgreiðslu og nemur um 5,1 milljörðum kr. Þar af nemur tekjuskattur til ríkisins 3,3 milljörðum kr. og útsvar til sveitarfélaga 1,8 milljörðum kr. Hafa þarf í huga að reiknaður skattafsláttur af útgreiðslu séreignarsparnaðar til húsnæðismála mundi ekki innheimtast í einu lagi heldur dreifast yfir þann tíma sem séreignarsparnaðurinn hefði annars verið tekinn út. Í tilvikum margra er sá tími langt undan.

Tafla 1. Séreignarsparnaður greiddur inn á húsnæðislán.

Ár Fjárhæð í millj. kr. Reiknaður tekjuskattur, millj. kr. Reiknað útsvar,
millj. kr.
2014 1.643 437 237
2015 10.769 2.865 1.555
Samtals 12.412 3.301 1.792
Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Tafla 2 sýnir séreignarsparnað sem hefur verið nýttur sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Samtals höfðu 482 aðilar nýtt sér þessa leið í september sl. og nemur fjárhæðin 98 millj. kr. Reiknaður skattafsláttur nemur um 40 millj. kr. Þar af er reiknaður tekjuskattur til ríkisins 26 millj. kr. og reiknað útsvar til sveitarfélaga 14 millj. kr.

Tafla 2. Séreignarsparnaður sem útborgun vegna húsnæðiskaupa.

Ár Fjárhæð í millj. kr. Reiknaður tekjuskattur, millj. kr. Reiknað útsvar,
millj. kr.
2015 98 26 14
Heimild: Ríkisskattstjóri.

    Nákvæmar fjöldatölur um þátttöku í úrræðum um greiðslu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán liggja því miður ekki fyrir eins og er vegna ónógra merkinga í kerfinu. Unnið er að því að lagfæra það. Gróflegt mat á fjöldatölum um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán er um 35.000. Umsóknirnar eru þó ekki allar virkar, bæði er nokkuð um að umsækjendur hafi hætt við en einnig er nokkuð um að umsóknum hafi verið synjað, t.d. vegna þess að lánið sem sótt er um að greiða inn á uppfyllir ekki skilyrði laganna.