Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 445  —  277. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Páli Val Björnssyni um ófrjósemisaðgerðir.


     1.      Hversu margar ófrjósemisaðgerðir voru gerðar á árunum 1975–2014 og hvernig skiptust þær milli kynja?
    Upplýsingar um fjölda ófrjósemisaðgerða á árabilinu 1975–1980 eru geymdar á pappírseyðublöðum í skjalasafni embættis landlæknis. Ekki var unnt að afgreiða þær innan gefins tímafrests en frá 1981 hafa upplýsingar um ófrjósemisaðgerðir verið færðar í rafrænan gagnagrunn embættisins og miðast svörin við það ár.
    Á árunum 1981–2014 hafa ófrjósemisaðgerðir á Íslandi verið á bilinu 461–775 á ári. Flestar aðgerðir voru framkvæmdar á árunum 1996–2000, yfir 700 talsins hvert ár, sjá nánar í meðfylgjandi töflu sem einnig sýnir skiptingu milli kynja.

Ófrjósemisaðgerðir Ófrjósemisaðgerðir
Ár Fjöldi Karlar Konur Ár Fjöldi Karlar Konur
1981 461 23 438 1998 716 147 569
1982 618 37 581 1999 775 202 573
1983 679 28 651 2000 770 248 522
1984 646 25 621 2001 671 251 420
1985 626 31 595 2002 662 297 365
1986 693 33 660 2003 629 263 366
1987 626 34 592 2004 516 216 300
1988 495 30 465 2005 565 285 280
1989 532 28 504 2006 531 316 215
1990 571 28 543 2007 496 297 199
1991 580 27 553 2008 520 339 181
1992 634 38 596 2009 512 358 154
1993 684 64 620 2010 605 419 186
1994 592 78 514 2011 582 424 158
1995 640 87 553 2012 607 483 124
1996 719 127 592 2013 676 508 168
1997 775 134 641 2014 584 463 121

     2.      Hversu margar ófrjósemisaðgerðir voru gerðar á fötluðu fólki á árunum 1975–2014 og hvernig skiptust þær milli kynja?
     3.      Hversu margar ófrjósemisaðgerðir hafa verið gerðar á fólki með:
                  a.      þroskahömlun,
                  b.      geðröskun,
                  c.      sjónskerðingu,
                  d.      heyrnarskerðingu,
                  e.      hreyfihömlun,
                  f.      fleiri en eitt af framangreindu?

    Þegar óskað er eftir ófrjósemisaðgerð þarf viðkomandi að sækja um á eyðublöðum sem embætti landlæknis gefur út. Fyrirkomulag skráningarinnar er í samræmi við lög nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Gögnin sem liggja fyrir um ófrjósemisaðgerðir hjá embætti landlæknis byggjast á þeim upplýsingum sem skráðar eru á umsóknareyðublöðin. Þar eru fötlun eða tegund fötlunar ekki skráð og því liggja upplýsingar um fötlun hjá þessum einstaklingum ekki fyrir.
    Í 20. gr. laga nr. 25/1975 segir að umsækjandi skuli undirrita umsókn um ófrjósemisaðgerð og jafnframt yfirlýsingu um að viðkomandi sé ljóst í hverju aðgerðin er fólgin og að óskað sé eftir ófrjósemisaðgerð af fúsum og frjálsum vilja.
    Í I. lið 18. gr. laganna er ófrjósemisaðgerð heimiluð ef viðkomandi er fullra 25 ára og óskar eindregið og að vel íhuguðu máli eftir aðgerð og engar læknisfræðilegar ástæður mæla gegn því.
    Fyrir þá einstaklinga sem eru undir 25 ára aldri og falla undir II. lið 18. gr. er heimilt að veita leyfi til aðgerðar samkvæmt umsókn sérstaklega skipaðs lögráðamanns ásamt greinargerð tveggja lækna, eða læknis og félagsráðgjafa.
    Undirritun lögráðamanns skal líka vera til staðar á umsóknum einstaklinga 25 ára og eldri ef þeir eru varanlega ófærir um að gera sér grein fyrir afleiðingum aðgerðarinnar vegna geðsjúkdóms, geðtruflana eða greindarskorts (22. gr.).
    Langalgengast var á því árabili sem spurt er um að forsendur fyrir ófrjósemisaðgerðum féllu undir I. lið 18. gr.
    Aðeins var um 52 tilfelli að ræða, þar sem einstaklingar gengust undir ófrjósemisaðgerð skv. II. lið 18. gr. á þessu árabili. Af þessum 52 einstaklingum voru 41 kona og 11 karlar. Engin aðgerð var framkvæmd samkvæmt þessari grein árin 1981–1986 en oftast voru gerðar ein til þrjár aðgerðir á ári, flestar árin 2001 og 2002 eða sex og átta aðgerðir hvort ár.
    Á árunum 1981–1983 voru engar umsóknir um ófrjósemisaðgerðir undirritaðar af lögráðamanni. Árin 1984–2014 voru alls 62 umsóknir undirritaðar af lögráðamanni fyrir 42 konur og 20 karla. Um er að ræða eina til fjórar aðgerðir á ári. Undirritun einstaklinganna sjálfra var einnig nær alltaf til staðar, þrátt fyrir að lögráðamaður undirriti umsóknina.

     4.      Hversu margar ófrjósemisaðgerðir hafa verið gerðar á fólki yngra en 25 ára?
    Fjöldi fólks undir 25 ára aldri sem gekkst undir ófrjósemisaðgerðir á árabilinu 1981–2014 er 34, þar af eru 25 konur og 9 karlar.

     5.      Hafa ófrjósemisaðgerðir verið gerðar á fötluðum börnum og þá á hvaða aldri?
    Eins og greint er frá að framan kemur ekki fram á umsóknareyðublöðum fyrir ófrjósemisaðgerðir hvort um fatlaða einstaklinga er að ræða. Á tímabilinu 1981–1997 eru engin gögn um aðgerðir á einstaklingum undir 18 ára aldri en milli 1998–2014 voru samtals framkvæmdar níu ófrjósemisaðgerðir á einstaklingum 18 ára og yngri þar sem umsóknin er undirrituð að lögráðamanni. Það voru átta stúlkur og einn piltur á aldrinum 15–18 ára.