Ferill 208. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 450  —  208. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um ráðstöfun fjár til að efla símenntun og önnur námstækifæri fullorðinna.


     1.      Hvernig og eftir hvaða reglum hyggst ráðuneytið ráðstafa fé á liðnum 02-451 Framhaldsfræðsla í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016, þ.e. framlagi sem hefur hækkað um um 105 millj. kr. í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 28. maí 2015 um aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði með því að efla símenntunarstöðvar, námstækifæri fyrir nemendur 25 ára og eldri og vinnustaðanámssjóð?
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí 2015, VI. tölulið, Framhaldsfræðsla og starfsmenntun, segir: „Tryggt verður fjármagn til að fylgja eftir sameiginlegum áherslum menntayfirvalda og aðila vinnumarkaðarins sem lúta að því að tryggja starfsemi símenntunarmiðstöðva og námstækifæri fyrir nemendur yfir 25 ára aldri, bætt skilyrði til starfnáms með reglulegum og auknum framlögum til Vinnustaðanámssjóðs og til að hefja vinnu við að skilgreina fagháskólastig og hvernig það geti tengst bæði framhalds- og háskólakerfinu. Aukin framlög vegna þessara áherslna munu nema 200 m.kr. á ári hverju.“
    Við gerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016 var lagt til að skipta 200 millj. kr. upphæðinni þannig að 105 millj. kr. kæmu til hækkunar á fjárlagaliðnum 02-451 Framhaldsfræðsla, og 95 millj. kr. til hækkunar á fjárlagaliðnum 02-519 Vinnustaðanámssjóður.
    Meiri hluti 105 millj. kr. framlagsins á lið 02-451 Framhaldsfræðsla mundi renna til eflingar á grunnstarfsemi ellefu símenntunarmiðstöðva sem öðlast hafa viðurkenningu á grundvelli laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010, og sem fá framlög á fjárlögum, sbr. yfirlit í töflu á bls. 42 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016. Við skiptingu fjárins yrði m.a. horft til hlutfalls af veltu hverrar stöðvar vegna framhaldsfræðslu. Einnig yrði höfð til hliðsjónar áætluð fjárþörf vegna þeirra nemenda, 25 ára og eldri, sem ekki fá inngöngu á bóknámsbrautir framhaldsskóla vegna ákvæða í innritunarreglum um forgangsröðun umsækjenda og byggjast á upplýsingum um innritun í framhaldsskólana fyrir árið 2016 og eftirspurn þessa hóps eftir námsframboði hjá símenntunarmiðstöðvunum. Yrði takmarkaður hluti framlagsins áætlaður til vinnu við skilgreiningu svokallaðs fagháskólastigs en sú upphæð liggur ekki fyrir.
    Við innritun í framhaldsskóla haustið 2015 sóttu 1.134 nemendur 25 ára og eldri um í framhaldsskólum og fengu 1.026 af þeim skólavist. 108 nemendum var hafnað og af þeim voru 23 umsækjendur um bóknám. Hversu mörgum af þessum 23 var hafnað vegna forgangsröðunar á grundvelli aldurs eingöngu er ekki vitað en um fámennan hóp virðist vera að ræða.
    Stefnt er að skipun vinnuhóps til að skilgreina fagháskólastig og hvernig það geti tengst bæði framhalds- og háskólakerfinu. Kostnaður við störf slíks hóps er óljós á þessu stigi málsins.

     2.      Hvernig og eftir hvaða reglum hyggst ráðuneytið ráðstafa þeirri 95 millj. kr. hækkun á framlagi í vinnustaðanámssjóð sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu?
    Hækkun til vinnustaðanámssjóðs sem nemur 95 millj. kr. verður ráðstafað inn í sjóðinn þar sem hún bætist við fyrirliggjandi upphæð sem var 150 millj. kr. kr. árið 2015. Fjármunum verður úthlutað af stjórn sjóðsins í samræmi við gildandi lög um vinnustaðanámssjóð og úthlutunarreglur.