Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 452  —  352. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999 (réttur til sambúðar á stofnunum).

Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir.


1. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilismaður sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða skal eiga kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn þar.

2. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Þessu frumvarpi er ætlað að tryggja hjónum, og sambúðarfólki, rétt til að vera áfram samvistum þótt annað þeirra þurfi vegna skertrar heilsu eða færni að dveljast til langframa á stofnun fyrir aldraða. Sá réttur er ekki tryggður nú og því geta öldruð hjón eða sambýlisfólk þurft að slíta samvistum gegn vilja sínum þegar svo er komið fyrir öðru þeirra að langtímadvöl á stofnun fyrir aldraða er nauðsynleg. Aðskilnaðurinn getur reynst þeim og aðstandendum þungbær og því mikið hagsmunamál aldraðra að tryggja rétt sinn til áframhaldandi sambúðar. Slíkar ráðstafanir samræmast einnig sjónarmiðum um eflingu sjálfstæðis og sjálfsákvörðunarréttar eldri borgara.
    Gagnrýni á gildandi tilhögun varð til þess að vorið 2013 undirrituðu þáverandi velferðarráðherra og forstjóri Hrafnistu samning um tilraunaverkefni til tveggja ára sem fól í sér að hjón gætu búið saman á hjúkrunarheimili Hrafnistu þótt einungis annað þeirra þyrfti þess af heilsufarsástæðum. Í lokaskýrslu verkefnisstjóra og forstöðumanns á Hrafnistu um verkefnið frá 26. janúar 2015 sagði að það væri „samdóma álit allra sem komu að þessu tilraunaverkefni á Hrafnistu Kópavogi að verkefnið hafi ekki gengið sem skyldi“. Lagt var til að verkefninu yrði ekki haldið áfram með þeim hætti sem stofnað var til. Þess í stað yrði maka gefinn kostur á nábýli við heimilismann á hjúkrunarheimili og tíðum heimsóknum en sá kostur hefur verið í boði um nokkurt skeið. Gera verður þann fyrirvara við ályktanirnar að þær byggðust aðeins á sambúð tveggja heimilismanna og maka þeirra, annars vegar í þrjár vikur og hins vegar í ellefu mánuði, auk þess sem skýrslan lýsir einungis sjónarmiðum starfsmanna og stjórnenda á Hrafnistu en ekki viðhorfum heimilismanna eða maka þeirra.
    Kannaður var réttur para til sambúðar á stofnunum fyrir aldraða í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Er slíkur réttur við lýði í þessum löndum en misjafnlega tryggður og útfærður. Í Danmörku er réttur eldri borgara til sambúðar við maka í þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara tryggður í lögum um félagslegt íbúðarhúsnæði (lov om almene boliger m.v.) og í lögum um félagsþjónustu (lov om social service).
    Í Noregi annast sveitarfélög þjónustu við aldraða samkvæmt lögum um heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga (lov om kommunale helse- og omsorgstjenester m.m.). Þar er sambúðarréttur ekki lögfestur en sum sveitarfélög, þar á meðal Ósló, hafa skuldbundið sig til að gefa hjónum og sambúðarfólki kost á að búa saman á hjúkrunarheimilum þótt einungis hafi verið úrskurðað um rétt annars þeirra til langtímadvalar þar. Hefur með þessu verið komið til móts við kröfur borgaranna um að hætt verði að þvinga öldruð pör til aðskilnaðar þegar annar aðilinn vistast á hjúkrunarheimili.
    Með breytingu á lögum um félagsþjónustu (socialtjänstlag) sem gekk í gildi 1. nóvember 2012 var eldri borgurum í Svíþjóð sem búa á hjúkrunarheimilum eða í öðrum sérstökum búsetuúrræðum fyrir aldraða og sjúka einstaklinga veittur réttur til sambúðar við maka þar. Lagabreytingunni var m.a. ætlað að auka sjálfsákvörðunarrétt og búsetuval aldraðra, bæta lífsgæði þeirra og draga úr þörf fyrir umönnun starfsmanna. 1
    Réttur aldraðra í Danmörku, Noregi og Svíþjóð til sambúðar við maka eða lífsförunaut á stofnun fyrir aldraða byggist á þeirri grunnforsendu að með því aukist réttindi og lífsgæði aldraðra og eru færð fyrir því ýmis rök. Sömu sjónarmið og urðu til þess að öldruðum pörum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur verið veittur réttur til sambúðar á stofnunum fyrir aldraða hljóta einnig að eiga við hérlendis.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda fólks hérlendis sem ætla má að nýtti sér rétt til sambúðar. Úttekt í Svíþjóð leiddi í ljós að fáir sóttu um sambúð á grundvelli fyrrnefndrar breytingar á þarlendum lögum um félagsþjónustu fyrsta árið. Fólkið sem tók þann kost hafði yfirleitt verið lengi samvistum, gjarnan 60–70 ár. Almennt ríkti ánægja með fyrirkomulagið meðal heimilismanna og stjórnenda á stofnununum. Það var talið bæta líðan hinna öldruðu og efla öryggistilfinningu þeirra. Helstu ókostir fyrirkomulagsins voru taldir þeir að dæmi væru um að heilbrigðir einstaklingar teldu sér skylt að fylgja mökum á sjúkrastofnanir þótt þeir hefðu ekki löngun til þess og að það yki álag á stofnanir að makar dveldust þar áfram eftir fráfall þess sem þurfti að dveljast þar af heilsufarsástæðum. 2
    Að ýmsu er að hyggja áður en hjónum og sambýlisfólki verður veittur réttur til sambúðar á dvalar- og hjúkrunarheimilum hérlendis. Því er ætlaður aðlögunartími til 1. janúar 2018, m.a. til að læra af reynslu grannþjóðanna og til að kanna hug eldri borgara til sambúðar á dvalar- og hjúkrunarheimilum þannig að unnt sé að gera áætlanir um nauðsynlegar breytingar á heimilunum og hrinda þeim í framkvæmd. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar heimilanna geti sótt fjárstyrk í framkvæmdasjóð aldraðra til þeirra breytinga sem þarf að gera, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um málefni aldraðra.
Neðanmálsgrein: 1
1     Regeringens proposition 2011/12:147. Rätten att få åldras tillsammans – en fråga om skälighet, värdighet och välbefinnande i äldreomsorgen, bls. 8, 9, 13, 26, 39.
Neðanmálsgrein: 2
2     Äldres rätt att fortsätta bo tilsammans i äldreboende. Uppföljning av en lagändring, 2014. Socialstyrelsen, Stockholm 2014, bls. 9–12, 18–22.