Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 455  —  164. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um umhverfissjónarmið við opinber innkaup.


     1.      Hver er staða stefnumörkunar um vistvæn innkaup sem undirrituð var í apríl 2013, en í texta með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er sérstaklega fjallað um opinber innkaup án þess að vikið sé að umhverfissjónarmiðum eða vistvænum innkaupum?
    Stefna um vistvæn innkaup ríkisins og grænan ríkisrekstur fyrir árin 2013–2017 var samþykkt af umhverfis- og auðlindaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra 9. apríl 2013. Sú stefna er enn í gildi og ennþá er unnið samkvæmt þeirri stefnumörkun sem þar kemur fram. Stýrihópur vinnur að innleiðingu stefnunnar en í hópnum eiga sæti fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sveitarfélögum, Umhverfisstofnun, Landspítala og Ríkiskaupum. Hlutverk stýrihópsins er að vinna að sameiginlegum verkefnum sem styðja við vistvæn opinber innkaup á Íslandi.
    Í tengslum við innleiðingu á stefnumótuninni var árið 2014 ákveðið að byrja á nýju verkefni sem snýr að því að aðstoða opinbera aðila við að vinna markvisst að umhverfismálum. Verkefnið Græn skref í ríkisrekstri var sett á laggirnar í ársbyrjun 2015 og snýr að því að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Verkefnið er einfalt og aðgengilegt og allar stofnanir ættu að geta tekið þátt í því. Markmið verkefnisins er að gera starfsemi ríkisins umhverfisvænni, auka vellíðan starfsmanna og bæta starfsumhverfi þeirra auk þess að draga úr rekstrarkostnaði.

     2.      Hvernig telur ráðherra að tekist hafi að framfylgja markmiðum um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur samkvæmt stefnumörkuninni?
    Stýrihópurinn sem vinnur að innleiðingu stefnunnar um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur lét gera könnun sumarið 2015 þar sem allir forstöðumenn ríkisstofnana voru annars vegar spurðir hver staðan væri á umhverfisstarfi stofnunarinnar og hins vegar spurðir um vistvæn innkaup. Spurt var um viðhorf og viðleitni forstöðumannanna til vistvænna innkaupa og umhverfisstarfs. Niðurstaða könnunarinnar var að umhverfismál og vistvæn innkaup væru komin betur á dagskrá hjá stofnunum en áður og greina mátti aukinn skilning á áhrifum umhverfismála. Einnig kom fram að um 56% svarenda hefðu áhuga á því að innleiða verkefnið Græn skref í starfsemi sinni.
    Hvað varðar innleiðingu á þeim verkefnum sem tilgreind eru í stefnunni um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur, þá er unnið að þeim á vettvangi stýrihópsins og hjá Ríkiskaupum og Umhverfisstofnun.

     3.      Hvernig er háttað samstarfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins varðandi opinber innkaup?
    Stefna um vistvæn innkaup ríkisins fyrir árin 2013–2017 var undirrituð sameiginlega af umhverfis- og auðlindaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Í framhaldi var skipaður stýrihópur sem vinnur að innleiðingu stefnunnar. Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, sveitarfélögum, Umhverfisstofnun, Landspítala og Ríkiskaupum. Hlutverk stýrihópsins er að vinna að sameiginlegum verkefnum sem styðja við vistvæn opinber innkaup á Íslandi.

     4.      Hvernig vinna Ríkiskaup að vistvænum innkaupum?
    Ríkiskaup hafa um árabil átt fulltrúa í stýrihópi um vistvæn innkaup og vinnuhópum honum tengdum. Stofnunin hefur þannig átt þátt í að uppfylla og framfylgja þeim aðgerðum sem kveðið er á um í stefnu ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup og nú síðast stefnu um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur frá 2013.
    Í aðgerðaáætlun stefnunnar er kveðið á um að útboðsaðilar ríkisins innleiði verklag sem tryggir að umhverfisskilyrði séu ávallt notuð þegar mögulegt er. Ríkiskaup hafa uppfyllt þetta ákvæði með þeim hætti að útboðsferlar stofnunarinnar voru endurskoðaðir þannig að tryggt væri að umhverfisskilyrðin yrðu innleidd í alla rammasamninga ríkisins þar sem þau eiga við. Það þýðir að ákvæði um upptöku umhverfisskilyrða hafa verið felld inn í stöðluð útboðsgögn rammasamninga ásamt leiðbeiningum til útboðsaðila. Þá er unnið að þróun birgjamats hjá stofnuninni sem kaupendur geta nýtt sér við að koma upp skilvirku verklagi við eftirfylgni á útboðskröfum.
    Rammasamningsflokkar eru nú 31 og flokkar umhverfisskilyrða sem þýdd hafa verið eru 18. Fjöldi rammasamningsflokka sem unnt er að tengja umhverfisskilyrði við eru 15 og hafa þau þegar verið tekin upp í 14 þeirra.
    Upplýsingagjöf til kaupenda varðandi vistvænar kröfur í rammasamningum fer fyrst og fremst fram í gegnum vef Ríkiskaupa, www.rikiskaup.is, en einnig eru haldnar kynningar með stofnunum og ráðuneytum. Í október 2015 var í tvígang haldið námskeið fyrir rekstrarstjóra og innkaupafólk í samvinnu við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála þar sem yfir 90 manns fengu fræðslu um opinber innkaup, þ.m.t. vistvæn innkaup.
    Hvað varðar almenn útboð sem Ríkiskaup vinna fyrir aðrar stofnanir og sveitarfélög, þá hefur sami háttur verið hafður á, þ.e. ákvæði um upptöku umhverfisskilyrða hafa verið felld inn í stöðluð útboðsgögn og eru Ríkiskaup leiðbeinandi þar um.

     5.      Hver er staða græns bókhalds í opinberum rekstri nú um stundir?
    Umhverfisstofnun heldur nú utan um skil á grænu bókhaldi og samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hafa 24 stofnanir þegar skilað inn bókhaldi fyrir árið 2014 en stofnunin gerir ráð fyrir að þegar upp verður staðið munu 30–33 stofnanir skila inn grænu bókhaldi fyrir rekstrarárið 2014.