Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 473  —  264. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006 (verkefni erlendis).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur, Skúla Þór Gunnsteinsson og Þórunni J. Hafstein frá innanríkisráðuneytinu og Ólaf Pál Vignisson og Auðun Kristinsson frá Landhelgisgæslu Íslands.
    Markmið frumvarpsins er að kveða á um að Landhelgisgæslunni verði heimilt að fengnu samþykki ráðherra að taka þátt í samstarfsverkefnum erlendis, enda verði slíkt verkefni ekki það umfangsmikið að stofnunin fái ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Landhelgisgæslan skal gera ráðherra grein fyrir verkefninu og umfangi þess ásamt hættumati.
    Í 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands er kveðið á um heimild stofnunarinnar til að gera þjónustusamninga um einstök viðfangsefni á verksviði hennar. Fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis, Landhelgisgæsla Íslands: Verkefni erlendis (júní 2012 og júní 2015), að æskilegt væri að kveðið yrði skýrar á um lagaheimild Landhelgisgæslu Íslands til að taka að sér verkefni erlendis sem og að tryggja að innanríkisráðuneytið hefði markvisst eftirlit með þeim. Frumvarpinu er ætlað að taka af öll tvímæli um að lagaheimild sé fyrir hendi.
    Landhelgisgæslan hefur sinnt verkefnum erlendis frá árinu 2010 í því skyni að afla tekna svo halda megi varðskipum, þyrlum og flugvél í rekstri á aðhaldstímum í ríkisfjármálum og gera má ráð fyrir því að stofnunin sinni slíkum verkefnum áfram. Fram kom á fundi nefndarinnar að þessi verkefni á alþjóðavettvangi hafa að mati Landhelgisgæslunnar verið mikilvæg og gert stofnuninni kleift að þjálfa starfsfólk og þróa þekkingu þess. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur þá reynslu og þekkingu sem stofnunin hefur aflað sér mikilvæga. Nefndin vill árétta að þessi verkefni mega ekki hafa áhrif á þá grunnþjónustu sem Landhelgisgæslunni ber að veita við löggæslu og öryggi við Ísland, samkvæmt lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólína Þorvarðardóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. nóvember 2015.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Haraldur Einarsson.
Karl Garðarsson. Ásta Guðrún Helgadóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Vilhjálmur Árnason.