Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 501  —  254. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Ernu Indriðadóttur
um fjárveitingar til endurhæfingar geðsjúkra.


     1.      Hver eru rökin fyrir því að félagasamtökum sem veita geðsjúkum endurhæfingu er mismunað með fjárveitingum frá ríkinu?
    Þessari fyrirspurn er beint til félags- og húsnæðismálaráðherra en endurhæfing geðsjúkra heyrir undir heilbrigðisráðherra annars vegar eðli máls samkvæmt og félags- og húsnæðismálaráðherra hins vegar, að því leyti sem þjónustan er veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks.
    Fjárveitingar ríkisins til verkefna á sviði endurhæfingar geðsjúkra gerast með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða hefðbundið undirbúningsferli í aðdraganda frumvarps til fjárlaga og hins vegar hefur velferðarráðuneytið, í október ár hvert, auglýst eftir umsóknum um styrki á þeim málasviðum sem heyra undir ráðherrana tvo í velferðarráðuneytinu. Áhersla er lögð á að verklag við úrvinnslu umsókna sé eins gagnsætt og nokkur kostur er. Einnig er gætt að samræmingu við meðferð umsóknanna þannig að ekki komi til mismununar. Faghópur á skrifstofu félagsþjónustu í ráðuneytinu hefur t.d. í þessu sambandi notað sérstakan matsramma við yfirferð umsóknanna.

     2.      Hvers vegna hefur umsóknum Hugarafls um styrki til endurhæfingar geðsjúkra verið hafnað?
    Á grundvelli þess að Hugarafl hefur frá upphafi verið rekið í samvinnu við Geðheilsu – eftirfylgd og í húsnæði hennar, sem stofnað var til af þáverandi heilbrigðisráðherra, hefur verið litið svo á að umsóknir Hugarafls ættu frekar heima á málasviði heilbrigðisráðherra en félags- og húsnæðismálaráðherra.