Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 504  —  371. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur
og lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu
(sameining stofnana).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur,
nr. 60/1992, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stofnunin rekur starfsstöð á Akureyri og náttúrurannsóknastöð við Mývatn, sbr. lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Stofnunin getur rekið aðrar starfsstöðvar á landinu.
     b.      2. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Orðin „forstöðumenn setra og aðra“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þá mótar hann stefnu hennar, skipulag og starfshætti.
     c.      3. og 4. málsl. 2. mgr. falla brott.
     d.      Orðin „og forstöðumanna, svo og um aðsetur forstjóra á hverjum tíma“ í 4. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir á náttúru Íslands og annast skipulega heimildasöfnun um hana.
     b.      Í stað orðsins „Hún“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: Stofnunin.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að stunda rannsóknir á náttúrufari Mývatns- og Laxársvæðisins, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004. Afla skal vísindalegrar þekkingar sem nýtist við verndun svæðisins í víðum skilningi, en í því felst að fá yfirlit yfir náttúru þess og breytingar á henni, rannsaka orsakasamhengi í vistkerfi Mývatns og Laxár og kanna áhrif af umsvifum manna.

4. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðsins „setranna“ í 2. málsl. 8. gr. laganna kemur: sínum.

    II. KAFLI
    Breyting á lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu,
    nr. 97/2004, með síðari breytingum.

    6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Náttúrufræðistofnun Íslands starfrækir náttúrurannsóknastöð við Mývatn.
     b.      Í stað orðsins „stofnunarinnar“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: náttúrurannsóknastöðvarinnar.
     c.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

7. gr.

    8. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Samráðsfundir.


    Náttúrufræðistofnun Íslands heldur reglulega fundi, þó ekki sjaldnar en árlega, með sveitarfélögum á svæðinu og Umhverfisstofnun, þar sem farið er yfir rannsóknir og vöktun svæðisins og rekstur náttúrurannsóknastöðvarinnar.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Starfsmönnum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn sem vinna að verkefnum sem færast 1. janúar 2016 til Náttúrufræðistofnunar Íslands skal boðið starf hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá og með sama tíma. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í júní 2015 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp til að hafa umsjón með sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, en slík sameining er í samræmi við tillögu stýrihóps sem gerði frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands og skilaði ráðherra skýrslu sinni í mars 2015. Í starfshópnum um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn sátu Stefán Guðmundsson, formaður, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, og Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Með starfshópnum starfaði einnig Sigríður Svana Helgadóttir, lögfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, auk ritara. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra 24. september 2015 og var í kjölfarið hafist handa við gerð frumvarps þessa svo að sameining stofnananna gæti farið fram.
    Í frumvarpinu er einnig að finna breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 60/1992, sem lúta að breytingum á ákvæðum er fjalla um staðsetningu stofnunarinnar og stjórnskipulag hennar.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.
    Með sameiningu Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands er leitast við að einfalda stofnanaumgjörðina í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og niðurstöður hagræðingahóps hennar. Sameiningin er liður í því að efla faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands þar sem áhersla er lögð á markvissa uppbyggingu gagnasafna og rannsóknainnviða með betri þjónustu við samfélagið og nýtingu fjármuna að leiðarljósi. Jafnframt er verið að styrkja starfsemi stöðvarinnar og efla rannsóknir og vöktun á náttúru Mývatns- og Laxársvæðisins.
    Sett eru fram sjö meginmarkmið með sameiningu Náttúrufræðistofnunar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn:
          Að efla stefnumótun og áætlanagerð á sviði rannsókna og vöktunar.
          Að efla rannsóknir á náttúru Mývatns og Laxár og vöktun hennar með kerfisbundnum, tímaháðum mælingum og athugunum á náttúrufari.
          Að efla þverfaglegt starf og stuðla að samþættingu verkefna á sviði rannsókna og vöktunar.
          Að bæta rannsóknaaðstöðu og auka stuðning við gagnaöflun á Mývatns- og Laxársvæðinu og úrvinnslu sýna.
          Að bæta og auka miðlun upplýsinga og þjónustu, m.a. á grunni upplýsinga um náttúrufar Mývatns og Laxár.
          Að auka getu til að uppfylla lagalegar og alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingagjöf.
          Að einfalda og styrkja stofnanaumgjörð, gera stjórnsýslu skilvirkari og bæta tæknilegt stofnanaumhverfi náttúrurannsóknastöðvarinnar.
    Í raun er ekki um verulega breytingu að ræða þar sem stöðin hefur lengst af starfstíma sínum verið hluti af annarri stofnun, fyrst Náttúruverndarráði 1974–1997, síðan Náttúruvernd ríkisins 1997–2002 og loks Umhverfisstofnun 2002–2004 en það ár var stöðin gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun. Umhverfisstofnun sinnti bókhaldsumsjón náttúrurannsóknastöðvarinnar fyrstu árin eftir 2004 vegna mannfæðar og aðstöðuleysis stöðvarinnar, en eftir að Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við að ein ríkisstofnun annaðist bókhaldsþjónustu annarrar var umsjón með bókhaldinu færð frá Umhverfisstofnun til umhverfisráðuneytisins. Mestu máli skiptir að áfram verður staðið við það ákvæði fyrstu laganna um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, að ríkið starfræki náttúrurannsóknastöð við Mývatn og er gert ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands sinni þessu lögbundna hlutverki.
    Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn hefur staðið fyrir vöktun og rannsóknum við Mývatn og Laxá í fjóra áratugi. Brýnt er að áfram verði tryggð samfella í náttúruvöktun stöðvarinnar og að það mikilvæga vísinda- og fræðastarf sem þar fer fram verði styrkt enn frekar. Eitt af meginmarkmiðunum með sameiningu stöðvarinnar og Náttúrufræðistofnunar Íslands er að efla rannsóknir á náttúru Mývatns og Laxár og vöktun hennar, m.a. með fjölgun verkefna, jafnframt að efla þverfaglegt starf og stuðla að samþættingu verkefna á sviði rannsókna og vöktunar.
    Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er lítil stofnun með stórt hlutverk, en fastráðnir starfsmenn eru aðeins tveir. Aðstöðuleysi er farið að segja til sín og stofnunin hefur ekki næga burði ein og sér eigi hún að uppfylla þær margvíslegu stjórnsýsluskyldur sem ríkisstofnunum ber að sinna. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur þá aðstöðu, búnað og starfsfólk sem þarf til að sinna verkefninu og tryggja stofnanaumgjörð sem upp á vantar. Með sameiningu við stærri einingu er því ekki síst horft til samnýtingar á húsnæði, búnaði og starfsfólki.
    Starfsemi Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn fellur mjög vel að starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands þótt umfangið sé miklu minna og verksvið þrengra. Við sameiningu stofnananna þarf því ekki að breyta gildandi stjórnskipulagi Náttúrufræðistofnunar að ráði. Gert er ráð fyrir að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og rannsókna- og vöktunarverkefni tengd henni verði sérstakt fagsvið í skipuriti Náttúrufræðistofnunar Íslands. Jafnframt verður bundið í lög að Náttúrufræðistofnun Íslands starfræki Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og sinni meginverkefnum hennar, en þau eru núna tíunduð í reglugerð sem sett er á grundvelli laga um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004.

Breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun vegna staðsetningar og stjórnskipulags.
    Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, segir að stofnunin geti byggst upp af allt að fimm setrum sem hvert um sig hefur sjálfstæðan fjárhag. Auk seturs í Reykjavík getur ráðherra heimilað eitt setur í hverjum landsfjórðungi. Setrin hafa verið tvö síðan lögin tóku gildi, eitt á Akureyri og annað í Reykjavík, sem árið 2010 var flutt í Garðabæ. Síðastliðna rúma tvo áratugi hefur enginn vilji verið hjá stjórnvöldum að stofna til fleiri setra og ekkert útlit fyrir að það breytist. Ákvæði um sjálfstæðan fjárhag setra og ákveðin völd forstöðumanna þeirra við fjármálastjórn gerðu rekstur stofnunarinnar þungan í vöfum um langt skeið. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í nóvember 2004 um stjórnsýslu- og fjárhagsendurskoðun á Náttúrufræðistofnun Íslands kemur fram að þáverandi stjórnskipulag stofnunarinnar sé óþarflega flókið miðað við stærð hennar og ábyrgð ekki nægilega skýr. Breyta þurfi stjórnskipulagi til að auka sveigjanleika og skýra ábyrgð. Óeðlilegt sé að setur fái sjálfstæðar fjárveitingar og að forstöðumenn þeirra hafi ákveðið sjálfstæði í stefnumótun og fjármálum. Þetta færi þeim ákveðið vald óháð því valdi og ábyrgð sem forstjóra sé falið af ráðherra. Ríkisendurskoðun taldi óæskilegt að binda stjórn og skipulag stofnana með lögum og reglugerðum og lagði til að setraskiptingin yrði lögð af til að bæta úr annmörkum stjórnskipulagsins, jafnframt að stofnunin fengi óskipta fjárveitingu.
    Brugðist var við ábendingum og tillögum Ríkisendurskoðunar og stjórnskipulagi Náttúrufræðistofnunar Íslands var breytt árið 2005 og setrin lögð niður í reynd. Í staðinn var tekið upp deildaskipulag þar sem forstöðumenn deilda sækja umboð sitt beint til forstjóra. Starf forstöðumanns Reykjavíkurseturs var í raun lagt niður, en til að uppfylla ákvæði laganna um forstöðumenn setra var forstjóri stofnunarinnar settur í það starf samhliða forstjórastarfinu. Forstöðumaður Akureyrarseturs var skilgreindur í skipulaginu sem forstöðumaður Akureyrardeildar og fékk sömu stöðu og aðrir forstöðumenn deilda. Forstöðumaður Akureyrardeildar hefur í dag lokið störfum og enginn verið ráðinn í hans stað. Árið 2007 var fjárlagalið Náttúrufræðistofnunar Íslands breytt og síðan þá hefur stofnunin fengið eina óskipta fjárhæð til rekstrar líkt og Ríkisendurskoðun lagði til. Breytingarnar hafa reynst vel og auðveldað verulega rekstur stofnunarinnar og gert hann skilvirkari. Hér er lagt til að málinu verði fylgt eftir með nauðsynlegum lagabreytingum, setraskiptingin verði formlega lögð af og þar með störf forstöðumanna setra og ákvæðið um aðsetur í Reykjavík fellt brott. Breytingin er í fullu samræmi við þá stefnu stjórnvalda að kveða ekki á um stjórnskipulag og skipurit stofnana í lögum um viðkomandi stofnun heldur nota samræmd almenn ákvæði.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, og lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 97/2004.
    Breytingarnar í frumvarpinu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, en gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun Íslands taki við hlutverki stöðvarinnar frá 1. janúar 2016. Þær breytingar snúa bæði að lögum nr. 60/1992 og nr. 97/2004. Í öðru lagi er um að ræða breytingar á lögum nr. 60/1992 er varða staðsetningu og stjórnskipulag Náttúrufræðistofnunar Íslands. Stofnunin hefur frá árinu 2010 starfað í nýju húsnæði í Urriðaholti í Garðabæ, en samkvæmt lögum um stofnunina getur hún byggst upp af allt að fimm setrum sem staðsett eru í hverjum landsfjórðungi, auk seturs í Reykjavík. Slík setur hafa hins vegar ekki verið stofnuð fyrir utan setrin í Reykjavík, nú Garðabæ, og á Akureyri. Með sameiningu Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands verða lögbundnar starfsstöðvar stofnunarinnar þrjár, en frumvarpið gerir ráð fyrir að stofnunin hafi áfram heimild til að reka aðrar starfsstöðvar á landinu. Aðrar breytingar í frumvarpinu snúa að stjórnskipulagi stofnunarinnar, en það er að einhverju leyti lögfest í lögum nr. 60/1992. Slík lögfesting verður að teljast afar óheppileg enda eðlilegt að það sé hlutverk forstjóra að móta stefnu stofnunarinnar, skipulag hennar og starfshætti og eins og áður hefur komið fram er sú breyting í fullu samræmi við þá stefnu stjórnvalda að kveða ekki á um stjórnskipulag og skipurit stofnana í lögum um viðkomandi stofnun.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið gefur ekki tilefni til þess að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Í nóvember 2014 tók til starfa stýrihópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem var falið að vinna frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar. Meðal þeirra sviðsmynda sem hópurinn skoðaði var sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Þær meginforsendur sem lagðar voru til grundvallar verkefninu voru að stefna bæri að aðskilnaði á milli rannsóknar- og vöktunarverkefna og stjórnsýslu annars vegar og framkvæmdaverkefna stofnana hins vegar, jafnframt að leitast við að styrkja og samræma rannsókna- og vöktunarinnviði svo að fyrir liggi skýr sýn hvaða rannsóknir og vöktun á náttúru landsins teljist rétt að stunda á vegum stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Stýrihópurinn fundaði alls tíu sinnum, en að auki boðaði ráðuneytið fund með helstu hagaðilum 16. febrúar 2015 þar sem fjallað var um umgjörð stefnumörkunar og efnisþætti varðandi rannsóknar- og vöktunaráætlanir um náttúru Íslands. Því til viðbótar fundaði ráðgjafi stýrihópsins sérstaklega með forstjórum einstakra stofnana, skrifstofustjórum og ráðuneytisstjóra þar sem fjallað var um einstök viðfangsefni. Skýrsla starfshópsins var afhent ráðherra 24. mars 2015.
    Í niðurstöðum stýrihópsins er að finna tillögur um að sameina Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Náttúrurannsóknastöðin sé lítil starfseining með aðeins tvo starfsmenn og verkefni hennar eigi mikla samleið með verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands, en í tillögunum er lagt til að rannsóknastöðin verði áfram við Mývatn og ekki sé gert ráð fyrir að breyta starfseminni, heldur efla hana og skapa henni traustari umgjörð sem hluta af stærri ríkisstofnun. Að mati stýrihópsins ætti því slík sameining að verða báðum stofnunum til hagsbóta.
    Í kjölfar þess að stýrihópur um frumathugun á samlegð stofnana á sviði rannsókna og vöktunar skilaði skýrslu til ráðherra var skipaður sérstakur starfshópur um sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Starfshópurinn hélt fund 2. september 2015 með fulltrúum hagaðila þar sem farið var yfir vinnu starfshópsins og umræður um einstaka þætti sameiningarinnar. Á fundinum sátu fulltrúar Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Norðurþings og Náttúrustofu Norðausturlands. Á fundinum lögðu fulltrúar hagaðilanna fram sameiginlegt minnisblað þar sem afstaða þeirra til fyrirhugaðrar sameiningar kom fram. Minnisblaðið var birt sem viðauki í skýrslu starfshópsins. Í því kemur fram að samstaða sé meðal viðkomandi sveitastjórna um að náttúrurannsóknastöðin við Mývatn verði áfram sjálfstæð stofnun og að fallið verði frá hugmyndum um sameiningu stofnunarinnar við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í stað þess verði horft til formlegs samstarfs eða samrekstrar rannsóknastöðvarinnar og Náttúrustofu Norðausturlands. Niðurstaða stýrihópsins var að það fælist tækifæri í því að sameina einstakar stofnanir sem vinna að rannsóknum og vöktun á náttúru landsins og að eðlilegt væri að taka upp formlegt samtal við náttúrustofurnar almennt varðandi aukna samþættingu verkefna. Benda má á að ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofu er hjá viðkomandi sveitarfélögum sem hafa gert samning um rekstur hennar en framlag ríkissjóðs er í formi fjárframlaga. Náttúrustofur starfa þannig á vegum sveitarfélaga en náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfis- og auðlindaráðherra. Að mati ráðuneytisins er sameining stofnananna tveggja eðlilegt framhald þeirrar vinnu sem átt hefur sér stað. Jafnframt skal það tekið fram að ekki er gert ráð fyrir breytingum á störfum rannsóknastöðvarinnar við Mývatn að öðru leyti en að hún mun verða hluti af stærri og öflugri stofnun. Ekkert er því til fyrirstöðu að stofnunin haldi áfram því samstarfi sem verið hefur við Náttúrustofu Norðausturlands, en til staðar er samstarfssamningur á milli stofunnar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn um samstarf og gagnkvæma aðstöðu.
    Umhverfis- og auðlindaráðuneytið taldi ekki þörf á samráði um breytingar á þeim ákvæðum laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 62/1992, er snúa að stjórnskipulagi og skipuriti stofnunarinnar. Breytingarnar voru unnar í samráði við stofnunina, en mat ráðuneytisins var að tillögurnar gæfu ekki tilefni til þess að auglýsa efni frumvarpsins til umsagnar opinberlega.

VI. Mat á áhrifum.
    Samþykkt frumvarpsins mun ekki hafa neikvæð áhrif á þá starfsemi sem þegar er fyrir hendi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn. Áfram verður tryggt að staðið verði að vöktun og rannsóknum við Mývatn og Laxá, en með sameiningu stöðvarinnar og Náttúrufræðistofnunar Íslands verður sú starfsemi efld, m.a. með fjölgun verkefna, auknu þverfaglegu starfi og samþættingu verkefna á sviði rannsókna og vöktunar.
    Samkvæmt 8. gr. laga nr. 97/2004 og reglugerð nr. 664/2012 um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn o.fl. skipar umhverfis- og auðlindaráðherra fagráð náttúrurannsóknastöðvarinnar samkvæmt tilnefningum Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Veiðimálastofnunar og forstöðumanns náttúrurannsóknastöðvarinnar. Að auki á fulltrúi sveitarfélaga nyrðra sæti í fagráðinu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði þetta verði fellt brott og í staðinn verði kveðið á um samráðsfundi sem Náttúrufræðistofnun Íslands haldi með sveitarfélögunum og Umhverfisstofnun þar sem farið er yfir rannsóknir og vöktun svæðisins ásamt rekstri náttúrurannsóknastöðvarinnar. Þó svo að ákvæði um fagráð verði fellt brott er í frumvarpinu leitast við að viðhalda góðu sambandi við sveitarfélög á svæðinu, enda nauðsynlegt að verkefni sem tengjast Mývatni og Laxá séu unnin í samkomulagi við þá aðila.
    Að öðru leyti snertir sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn einkum þá starfsmenn sem starfa hjá síðarnefndu stofnuninni. Gert er ráð fyrir því að þeir starfsmenn starfi áfram við þau verkefni hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og er ákvæði þar að lútandi í 8. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 2. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992. Lagt er til að fram komi í 1. mgr. ákvæðisins að stofnunin reki starfsstöð á Akureyri og náttúrurannsóknastöð við Mývatn, sbr. lög þess efnis. Stofnunin geti að auki rekið aðrar starfsstöðvar á landinu. Með breytingunni verður ekki lengur kveðið á um að stofnunin geti byggst upp af allt að fimm setrum sem hvert um sig hafi sjálfstæðan fjárhag. Breytingin er í samræmi við athugasemdir Ríkisendurskoðunar sem vísað er til í almennum athugasemdum við frumvarp þetta. Starfsemi stofnunarinnar er í dag á þá leið að höfuðstöðvar hennar eru í Garðabæ en auk þess rekur hún starfsstöð á Akureyri. Verði breytingin samþykkt mun Náttúrufræðistofnun Íslands að auki reka náttúrurannsóknastöðina við Mývatn.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga nr. 60/1992. Breytingarnar gera ráð fyrir að fellt verði úr lögunum orðalag er snýr að forstöðumönnum setra, en með breytingu á 2. gr. laganna verður Náttúrufræðistofnun Íslands ekki samsett af setrum með sjálfstæðan fjárhag heldur mun stjórnskipulag hennar verða í samræmi við aðrar opinberar stofnanir ríkisins.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 4. gr. laga nr. 60/1992 er snúa að verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Orðalagsbreytingar í a- og b-lið ákvæðisins eru í samræmi við hlutverk stofnunarinnar eins og það hefur þróast frá því að lög nr. 60/1992 voru sett. Stofnunin stundar undirstöðurannsóknir á náttúru Íslands, en ekki eingöngu í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins.
    Í c-lið ákvæðisins er bætt við nýju aðalhlutverki stofnunarinnar sem er að stunda rannsóknir á náttúrufari Mývatns- og Laxársvæðisins, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Með þessari viðbót er tryggð samfella í náttúruvöktun náttúrurannsóknastöðvarinnar og styrkir það mikilvægi þess vísinda- og fræðastarfs sem þar fer fram.

Um 4. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að 7. gr. laga nr. 60/1992 falli brott. Sú grein kveður á um deildaskiptingu setra stofnunarinnar en samkvæmt frumvarpinu verða setrin lögð niður og því ekki þörf fyrir greinina. Brottfall 7. gr. laganna er í samræmi við aðrar breytingar á lögunum, sbr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu er lögð til orðalagsbreyting í 8. gr. laganna til samræmis við breytingar í 1. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laga nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Breytingin felur í sér að í stað þess að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn sé starfrækt sem sjálfstæð ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra mun rekstur hennar falla undir Náttúrufræðistofnun Íslands.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu eru lagðar til breytingar á 8. gr. laga nr. 97/2004. Í fyrsta lagi er ákvæði laganna um skipun forstöðumanns náttúrurannsóknastöðvarinnar fellt brott, enda er gert ráð fyrir að stofnunin verði eitt fagsvið innan Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í öðru lagi er lagt til að ekki verði kveðið á um að ráðherra skipi fagráð stöðvarinnar heldur sé kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands haldi reglulega fundi, þó ekki sjaldnar en árlega, með sveitarfélögum á svæðinu og Umhverfisstofnun, þar sem farið er yfir rannsóknir og vöktun svæðisins og rekstur náttúrurannsóknastöðvarinnar. Með sameiningu stöðvarinnar og Náttúrufræðistofnunar Íslands verður hún hluti af stærri heild með mikla faglega þekkingu og því talið óþarfi að skipa sérstakt fagráð henni til aðstoðar.

Um 8. gr.


    Ákvæðið gerir ráð fyrir að starfsmönnum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn sem vinna að þeim verkefnum sem færast 1. janúar 2016 til Náttúrufræðistofnunar Íslands skuli boðið starf hjá stofnuninni frá sama tíma og að ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildi ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði. Með sameiningu stofnananna er því ekki gert ráð fyrir fækkun stöðugilda heldur muni þau færast til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt umræddum starfsmönnum. Sameining stofnananna á sér þannig stað fyrst og fremst á faglegum grundvelli.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun
Íslands og náttúrustofur og lögum um verndun Mývatns og Laxár
í Suður-Þingeyjarsýslu (sameining stofnana).

    Tilefni þessa frumvarps er tvíþætt, annars vegar að heimila sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og hins vegar að gera breytingar vegna staðsetningar og stjórnskipulags Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Markmiðið með sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn er að einfalda stofnanaumgjörð og efla starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Miðað er við að Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og rannsókna- og vöktunarverkefni tengd henni verði sérstakt fagsvið í skipuriti Náttúrufræðistofnunar Íslands. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að starfsstöð verði á sama stað og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn er núna og að starfsfólki verði boðið áframhaldandi starf. Breytingar sem snúa að staðsetningu og stjórnskipulagi felast í því að setraskipting verður formlega lögð af og þar með störf forstöðumanna setra. Þá er ákvæði um aðsetur í Reykjavík fellt brott.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.