Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 510  —  329. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994, með síðari breytingum (15. samningsviðauki).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Lilju Borg Viðarsdóttur frá innanríkisráðuneytinu og Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að 15. viðauki við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu) verði lögfestur. Viðaukinn lýtur að efnisbreytingum á regluumhverfi og ákvæðum er varða formþætti um gildistöku og undirritun.
    Samningsviðauki nr. 15 felur í sér að aðfaraorðum mannréttindasáttmálans verður breytt þannig að í þeim verði vísað til nálægðarreglunnar og meginreglunnar um svigrúm aðildarríkjanna til mats sem hafa mótast í framkvæmd dómstólsins. Nálægðarreglan felur í sér að meginábyrgð á vernd mannréttinda í Evrópu liggur hjá aðildarríkjunum sjálfum og þar með er hlutverk aðildarríkjanna í vernd mannréttinda styrkt. Einnig er leitast við að stuðla að auknu samræmi í dómaframkvæmd dómstólsins með því að fella brott heimild annars aðila málsins til þess að hafna því að deild gefi eftir lögsögu í máli til yfirdeildar. Jafnframt er heimild dómstólsins til að vísa frá máli sem ekki hefur valdið kæranda umtalsverðu óhagræði rýmkuð með því að fella úr gildi það skilyrði að innlendur dómstóll hafi áður fjallað um málið á tilhlýðilegan hátt. Þá er skilyrðum um aldur dómara breytt og kærufrestur styttur.
    Nefndin bendir á að kærufrestur til dómstólsins er styttur úr sex mánuðum í fjóra mánuði. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Á fundi nefndarinnar voru þau sjónarmið reifuð að þessi þróun væri í samræmi við kærufresti í aðildarríkjum vegna aukinnar þróunnar í samskiptatækni. Nefndin undirstrikar að tryggja verður að þessi stytting á kærufresti muni ekki fela í sér skerðingu á mannréttindum.
    Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem felst í ákveðnum áhyggjum af þrengingu málskotsréttar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, einkum styttri kærufresti. Í ljósi þess að hvorki Mannréttindaskrifstofa Íslands né önnur samtök á sviði mannréttinda hafa gert athugasemdir samþykkja þingmennirnir nefndarálitið að öðru leyti.
    Helgi Hrafn Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 24. nóvember 2015.


Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Karl Garðarsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.