Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 515  —  381. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Á eftir 9. málsl. 3. mgr. 103. gr. a laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Eftir því sem átt getur við fara nauðasamningsumleitanir að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr. 149. gr. og 151.– 153. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., þó með því fráviki að frestur skv. 1. mgr. 51. gr. sömu laga skal vera átta vikur, en slitastjórn gegnir þá því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi og heldur kröfuhafafundi við þessar umleitanir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt til að leiðrétta mistök sem urðu við gerð breytingartillagna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki (172. mál, þskj. 175). Við uppsetningu breytingartillagnanna féll málsliður brott úr 3. mgr. 103. gr. a laga um fjármálafyrirtæki þegar ætlunin var að nýr málsliður bættist við greinina án þess að fella gildandi lið brott. Málsliður sá sem féll brott vegna mistaka og hér er lagt til að verði bætt við lögin að nýju kom fyrst inn í lögin með breytingalögum nr. 78/2011 sem breyttu lögum nr. 161/2002. Í honum er kveðið á um að nauðsamningsumleitanir slitabúa fari eftir því sem við getur átt eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. með því fráviki að frestur skv. 1. mgr. 51. gr. þeirra skuli vera átta vikur og slitastjórn gegni því hlutverki sem skiptastjóri hefði annars á hendi. Ekki er um efnislega breytingu að ræða.