Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 521  —  385. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ólögmætur er sá sjávarafli:
     a.      sem er umfram það aflamark eða krókaaflamark sem veiðiskip hefur eða umfram hámarksafla sem veiðiskipi er settur með öðrum hætti,
     b.      sem fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi,
     c.      sem fenginn er utan leyfilegra veiðidaga,
     d.      sem fenginn er með óleyfilegum veiðarfærum,
     e.      sem fenginn er á svæði þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar,
     f.      sem ekki nær þeirri lágmarksstærð sem kveðið er á um í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum,
     g.      sem 2. mgr. 7. gr. tekur til.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og lagt fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
    Reglur um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla réttlætast af ríkri nauðsyn á verndun fiskstofna. Markmið þeirra er að ekki sé fjárhagslegur hvati til að veiða umfram lögbundinn hámarksafla eða fram hjá öðrum fiskveiðistjórnarreglum og þar með vinna gegn sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Hugmyndafræðin byggist á því að enginn öðlist rétt yfir ólögmætum sjávarafla og verði betur settur fjárhagslega eftir brotið. Aflinn er í raun gerður upptækur með því að leggja á sérstakt gjald sem nemur andvirði aflans. Aðili getur því ekki notað andvirði aflans til að borga sektargreiðslu sem hlýst af brotinu eins og ef eingöngu væri um sektarviðurlög að ræða, né greitt útgerðarkostnað sem fellur til vegna veiða ólögmæta aflans. Gjald vegna ólögmæts sjávarafla er lagt á án refsinæmis verknaðar og hefur ekki áhrif á önnur viðurlög sem finna má í löggjöf um heimildir til fiskveiða.

II.     Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í núgildandi lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla skortir á samræmi í því hvenær lagt er á sérstakt gjald vegna afla sem fenginn er án veiðiheimilda eða andstætt friðunarreglum. Í skilgreiningu á því hvað telst ólögmætur sjávarafli er einungis vísað til afla sem fenginn er umfram aflamark, án tilskilinna leyfa skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og svo þess afla sem fellur undir 2. mgr. 7. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Ekki eru nein haldbær rök fyrir því að afmarka hugtakið ólöglegur sjávarafli svo þröngt og er því lagt til að hugtakið verði víkkað út þannig að allur afli sem veiddur er án aflamarks, án veiðiheimilda eða andstætt friðunarreglum falli þar undir. Er slík breyting í samræmi við upphaflegt gildissvið laganna og laga nr. 32/1976, um upptöku ólöglegs sjávarafla.

III. Meginefni frumvarps.
    Skilgreining á því hvað telst vera ólögmætur sjávarafli í skilningi laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald fyrir ólögmætan sjávarafla, er grundvöllur fyrir gjaldtökuheimild Fiskistofu samkvæmt lögunum. Í núgildandi lögum telst ólögmætur sá sjávarafli sem fenginn er umfram aflaheimildir eða fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi skv. 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands séu fyrir hendi, svo og afli sem 2. mgr. 7. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla tekur til (afli umfram uppgefin kaup eða aðföng).
    Í frumvarpinu er lagt til að skilgreiningin á því hvað telst ólögmætur sjávarafli í skilningi laganna verði víkkuð út og einnig látin taka til afla sem fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi, sem fenginn er utan leyfilegra veiðidaga, sem fenginn er með óleyfilegum veiðarfærum, sem fenginn er á svæði þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar og sem ekki nær þeirri lágmarksstærð sem kveðið er á um í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða sérstökum veiðileyfum

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarpsins gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við Fiskistofu.

IV. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarp þetta að lögum mun Fiskistofa hafa heimild til að innheimta sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla sem nemur aflaverðmæti þess afla sem fellur undir 1. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir því að frumvarpið feli í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð þar sem ekki er verið að breyta grunnstoðum eftirlitsins hjá Fiskistofu heldur víkka út gildissvið laganna varðandi hvaða afli telst ólögmætur. Gjald sem innheimt er samkvæmt lögunum rennur í sérstakan sjóð í vörslu sjávarútvegsráðherra í þágu hafrannsókna og eftirlits með fiskveiðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um að veiði og meðferð afla sem veiðst hefur án veiðiheimildar eða andstætt friðunarreglum skapi gjaldskyldu samkvæmt lögunum. Talin eru upp þau tilvik sem leitt geta til gjaldskyldu. Reynt er að girða fyrir að farið sé fram hjá ákvæðum sem gilda um friðun fiskstofna.
    Í a-lið ákvæðisins er átt við það þegar skip hefur fengið úthlutað aflamarki á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, eða laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.
    Tilskilin veiðileyfi í b-lið greinarinnar vísar bæði til almenns veiðileyfi, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og til þess þegar löggjafinn eða ráðherra hefur falið Fiskistofu að gefa út leyfi til veiða í einstökum tegundum, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum,
    Í c-lið ákvæðisins er vísað til afla sem fenginn er utan leyfilegra veiðidaga. Bæði grásleppa og makríll eru veidd á ákveðnu veiðitímabili. Afli sem landaður er utan þess tímabils telst vera ólögmætur sjávarafli verði frumvarpið að lögum.
    Í d-lið ákvæðisins er vísað til veiðarfæra þar sem algengt er að fiskiskipum séu settar skorður við notkun á ákveðnum veiðarfærum við veiðar eða gert að stunda veiðar með ákveðnum veiðarfærum.
    Í e-lið er vísað til svæðis þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar. Lokun svæða fyrir öllum veiðum eða sérstökum veiðarfærum er mikilvægt tæki í friðunaraðgerðum.
    Í f-lið vísast til afla sem er undir stærðarmörkum þeim sem sett eru til verndar ungfiski, svokallað undirmál.
    Í g-lið er vísað til 2. mgr. 7. gr. laganna sem kveður á um heimild Fiskistofu til að leggja á gjald vegna sjávarafla sem er umfram uppgefin kaup hjá vinnslu án þess að aflinn sé rakinn til sérstaks veiðiskips eða ákveðins veiðitímabils. Getur þetta m.a. verið afli sem hefur farið fram hjá vigt og hvergi verið skráður.
    Ef afli fellur undir skilgreininguna um ólögmætan sjávarafla er gjaldið lagt á án tillits til refsinæmis verknaðarins sem leiddi til veiða eða löndunar á aflanum.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að skilgreining núgildandi laga á því hvað teljist vera ólögmætur sjávarafli verði víkkuð út á þann veg að hún taki til alls þess afla sem fenginn er án þess að tilskilin veiðileyfi hafi verið fyrir hendi, sem fenginn er utan leyfilegra veiðidaga, með óleyfilegum veiðarfærum, á svæði þar sem viðkomandi veiðar eru bannaðar og þess afla sem ekki nær tiltekinni lágmarksstærð. Samkvæmt núverandi skilgreiningu hugtaksins er ólögmætur afli einungis sá afli sem fenginn er umfram aflamark fiskiskips eða afli sem veiddur er án tilskilinna sérveiðileyfa, sem og afli umfram uppgefin kaup eða aðföng. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu komu 17 mál á borð Fiskistofu á árunum 2013–2015 vegna brota á fiskveiðilöggjöf þar sem ekki var hægt að gera aflann upptækan með því að leggja á sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Aflinn var fenginn með ólögmætum hætti en féll þó ekki undir skilgreiningu ólögmæts sjávarafla þar sem henni er markað svo þröngt gildissvið í núgildandi lögum.
    Samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins af gjaldinu séu markaðar til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og skal sjóðurinn verja fé úr honum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir 35 m.kr. fjárheimild til sjóðsins vegna tekna af gjaldinu. Verði skilgreiningin víkkuð út og látin taka til fleiri tilvika, líkt og lagt er til í frumvarpi þessu, er áætlað að ríkistekjur af gjaldinu geti hugsanlega aukist um 15–20 m.kr. á móti samsvarandi hækkun á fjárheimild Verkefnasjóðsins eftir því hversu mörg mál af þessum toga kynnu að koma til meðferðar hjá stjórnvöldum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði óbreytt eftir sem áður.