Ferill 312. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 536  —  312. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um afsökunarbeiðni
til þjóðarinnar vegna stuðnings við Íraksstríðið.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Mun ráðherra, í ljósi þess að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur beðist afsökunar á rangri upplýsingagjöf til bresks almennings í aðdraganda Íraksstríðsins sem hófst árið 2003, gangast fyrir sambærilegri afsökunarbeiðni stjórnvalda til Íslendinga sökum þess að sömu blekkingar voru nýttar til að skipa íslenska ríkinu í hóp stuðningsríkja árásarstríðsins gegn Írak?

    Væntanlega er verið að vísa til viðtals bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN við Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í október sl. um ástand mála fyrir botni Miðjarðarhafs. Í umræddu viðtali segist Blair geta beðist afsökunar á þeirri staðreynd að trúnaðarupplýsingar sem Bretar hefðu fengið hefðu verið rangar og gereyðingarvopn íraskra stjórnvalda ekki til staðar með þeim hætti sem talið hafði verið. Þá afsakar Blair einnig sum þeirra mistaka sem gerð hafi verið í hernaðaráætlunum og jafnframt afsakar hann skilningsleysi á því sem kynni að gerast í kjölfar þess að Íraksstjórn væri komið frá völdum.
    Aðdragandi þessara ummæla er vel þekktur. Á það hefur verið ítrekað bent í ræðu og riti í kjölfar stríðsins í Írak að ákvarðanir voru teknar af íslenskum stjórnvöldum árið 2003 um að heimila yfirflug og lendingar og fjárframlag veitt til enduruppbyggingar í Írak. Voru íslensk stjórnvöld þar í hópi margra annarra vina- og bandalagsþjóða sem vildu tafarlausa afvopnun Íraks og tryggja framkvæmd allra viðeigandi ályktana Sameinuðu þjóðanna sem írösk stjórnvöld höfðu þverbrotið um langa hríð.
    Vegna óska fjölmiðla um upplýsingar árið 2010 birti utanríkisráðuneytið, í nóvember það ár, skjöl er varða aðdraganda stuðnings Íslands við Íraksstríðið í samræmi við upplýsingalög. Skjölin má finna hér:
     www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/irak/Irak_skjol-1-14.pdf
     www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/irak/Irak_skjol-14-31.pdf
     www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/irak/Irak_skjol-33-47.pdf
     www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/irak/Irak_skjol-48-73.pdf
     www.utanrikisraduneyti.is/media/Utgafa/irak/Irak_skjol-74-92.pdf
    Ekki verður séð af umræddum gögnum að íslensk stjórnvöld hafi haft nokkra aðkomu að ákvörðun um árás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á Írak, undir stjórn Saddams Hussain, árið 2003. Þvert á móti sýna gögn málsins að skráning Íslands á lista sem í daglegu tali gekk undir nafninu „listi hinna viljugu þjóða“ hafi verið að frumkvæði bandarískra stjórnvalda og að sá fulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins (skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu) sem veitti listanum viðtöku hafi gert erindreka bandarískra stjórnvalda ljóst að Ísland væri herlaust ríki og gæti ekki stutt hernaðaraðgerðir.
    Ekki verður annað séð en að aðkoma Íslands hafi verið bundin við fyrirheit um þátttöku í uppbyggingu í Írak að stríði loknu auk þess sem flug yfir landið og millilendingar voru heimilaðar.
    Það er skoðun ráðherra að ekki hefði átt að heimila bandarískum stjórnvöldum að skrá Ísland á lista sem tengdur var við hernaðaraðgerðir og að eftir birtingu listans hefði verið æskilegt að Íslendingar hefðu áréttað betur, opinberlega, að vera á listanum fæli ekki í sér stuðning við hernaðaraðgerðir eins og fulltrúa bandarískra stjórnvalda hafði verið gert ljóst þegar hann afhenti listann.
    Afsökunarbeiðni fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sú sem vísað er til í fyrirspurninni, var sett fram í tengslum við stöðu og þróun mála í löndum araba þar sem íslamistum hefur vaxið ásmegin eftir að harðstjórum sem héldu slíkum öflum niðri var steypt af stóli, í sumum tilvikum með stuðningi erlendra herja. Í aðeins einu tilviki hefur Ísland haft beina aðkomu að ákvörðun um hernaðaríhlutun en það var vegna árásarinnar á Líbýu árið 2011.
    Ljóst má vera að ef til greina kæmi, af hálfu íslenskra stjórnvalda, að biðjast afsökunar á einhverjum þeim hernaðaraðgerðum sem ráðist hefur verið í með það að markmiði að steypa einræðisherrum af stóli koma vart önnur átök til álita en árásin á Líbýu þar sem ríkisstjórn Íslands var virkur þátttakandi í ákvörðun um hernaðaraðgerðir. Ekki verður þó lagt mat á það hér hvort tilefni eða forsendur séu fyrir slíkri afsökunarbeiðni.