Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 544  —  398. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um málefni aldraðra, lögum um almannatryggingar og lögum um sjúkratryggingar (samningar sjúkratryggingastofnunar við stofnanir fyrir aldraða).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
I. KAFLI

Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

1. gr.

    3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 1. mgr. er heimilt að samþykkja dvöl einstaklinga sem eru yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða enda hafi þeir verið metnir í þörf fyrir dvöl skv. 15. gr. Um greiðsluþátttöku þeirra fer samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

    Í stað orðanna ,,Tryggingastofnun ríkisins“ í 19. gr. laganna kemur: sjúkratryggingastofnun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Hafi heimilismaður engar tekjur, sbr. 26. gr., skal sjúkratryggingastofnun greiða dvalarheimilinu dvalarframlag til greiðslu dvalarkostnaðar hans á stofnuninni. Dvalarframlagið skal nema hámarki dvalarkostnaðar sem um er samið skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, sbr. þó 22. gr. laga þessara.
     b.      Í stað orðanna ,,það er ákveðið af ráðherra hverju sinni, sbr. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar“ í 3. mgr. kemur: samið hefur verið um skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar.

4. gr.     

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað „34.659 kr.“ í 1. málsl. 1. mgr. og 1. tölul. 2. mgr. kemur: 74.696 kr.
     b.      Í stað orðanna ,,þau eru ákveðin af ráðherra, sbr. 6. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 3. mgr. 23. gr. laga þessara“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: samið hefur verið um skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, sbr. þó 24. gr. laga þessara.
     c.      2. tölul. 2. mgr. orðast svo: Ef tekjur heimilismanns á dvalar- eða hjúkrunarheimili ná ekki 74.696 kr. á mánuði greiðir sjúkratryggingastofnun dvalarkostnað hans.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ tvívegis í 1. mgr. kemur: sjúkratryggingastofnun.
     b.      Orðin „sbr. 3. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
     c.      3. mgr. fellur brott.

6. gr.

    24. gr. laganna, með áorðnum breytingum, sbr. 25. gr. laga nr. 88/2015, orðast svo:
    Ráðherra ákveður með reglugerð hámark greiðsluþátttöku heimilismanns í dvalarkostnaði á stofnun, óháð því hvort stofnunin er á föstum fjárlögum eða ekki. Greiðsluþátttaka skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en nemur umsömdum dvalarkostnaði. Lög um sjúkratryggingar gilda þegar ekki liggja fyrir samningar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna, með áorðnum breytingum, sbr. 25. gr. laga nr. 88/2015:
     a.      Í stað orðanna „og greiðir“ í 3. mgr. kemur: en sjúkratryggingastofnun greiðir.
     b.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ og „Tryggingastofnun“ í 1. málsl. 8. mgr. kemur: sjúkratryggingastofnun.
     c.      Í stað orðanna „skv. 5. mgr. 45. gr. og 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: samkvæmt almennum reglum um innheimtu krafna.
     d.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 11. mgr. kemur: sjúkratryggingastofnun.

II. KAFLI

Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

8. gr.

    Orðið „dvalarframlag“ í 3. gr. laganna, með áorðnum breytingum, sbr. 1. gr. laga nr. 88/2015, fellur brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
     a.      6. mgr. fellur brott.
     b.      Orðin „og 6.“ í 7. mgr. falla brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

10. gr.

    24. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Þjónusta í rýmum fyrir aldraða.

    Sjúkratrygging tekur til þjónustu sem veitt er í rýmum fyrir aldraða. Skilyrði er að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir þjónustuna hafi farið fram samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

11. gr.

    Við lokamálsgrein 29. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um gjaldtöku af heimilismanni fyrir þjónustu í dvalar- og hjúkrunarrýmum, svo og í dagdvöl, fer samkvæmt lögum um málefni aldraðra.

12. gr.

    Við 1. mgr. 38. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Séu samningar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða ekki fyrir hendi, sbr. IV. kafla, er einnig í sérstökum tilfellum heimilt að greiða stofnunum kostnað vegna þjónustu tímabundið á grundvelli gjaldskrár sem sjúkratryggingastofnun gefur út.

13. gr.

    Við 1. mgr. 39. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá annast stofnunin einnig samningsgerð um veitingu þjónustu í rýmum fyrir aldraða og um endurgjald ríkisins vegna hennar.

14. gr.

    Í stað orðsins „hjúkrunarrýmum“ í 4. mgr. 43. gr. laganna kemur: rýmum fyrir aldraða.

15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2016. Þó skal 2. málsl. 1. gr. einungis gilda um þá sem hefja dvöl á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða eftir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp það sem hér er lagt fram var samið í velferðarráðuneytinu í þeim tilgangi að auka heimildir sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða og einfalda um leið stjórnsýslu í samskiptum við stofnanir fyrir aldraða.
    Hinn 1. janúar 2015 komu að fullu til framkvæmda lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og þar með ákvæði IV. kafla, er varðar samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili. Samtímis féll úr gildi heimild heilbrigðisráðherra til að ákveða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða og hjúkrunarheimila. Með frumvarpi því er varð að lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, var skilið á milli heilbrigðisþjónustu við aldraða annars vegar og almennrar öldrunarþjónustu hins vegar. Sú skipting er í samræmi við það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kallar á heilbrigðisþjónustu heldur almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu. Heilbrigðisþjónusta við aldraða var því á forræði heilbrigðisráðuneytisins en búsetuúrræði og almenn öldrunarþjónusta var flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Í greinargerð með frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl. (verkaskipting ráðuneyta, kaup á heilbrigðisþjónustu – 195. mál 135. löggjafarþings), sem varð að lögum nr. 160/2007, sagði að ljóst væri að nokkurn tíma tæki að skilja á milli þess sem teldist almenn öldrunarþjónusta og þess sem teldist heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða. Meðal þess sem ráðuneytin þyrftu að skilgreina nánar væri hvernig samskiptum og greiðslum við stofnanir fyrir aldraða skyldi háttað. Orðrétt sagði: „Meðal annars þarf að skipta daggjöldum í tvennt þar sem annars vegar verða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneyti ákveður og hins vegar daggjöld vegna búsetu- og almennrar öldrunarþjónustu sem félags- og tryggingamálaráðuneytið ákveður.“
    Með lögum nr. 162/2010, um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar ráðuneyta, sbr. lög nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, voru félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið sameinuð í velferðarráðuneytið og heyrði málaflokkurinn um málefni aldraðra aftur undir einn ráðherra. Með b-lið 21. gr. laganna var 1. mgr. 3. gr. laga um málefni aldraðra breytt þannig: „Velferðarráðherra fer með yfirstjórn öldrunarmála samkvæmt lögum þessum og með yfirstjórn heilbrigðisþjónustu við aldraða.“
    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra, nr. 72/2013, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna, nr. 71/2013, var verkefnum velferðarráðuneytisins skipt á milli tveggja ráðherra og fer félags- og húsnæðismálaráðherra með stjórnarmálefni er varða málefni aldraðra skv. g-lið 2. tölul. 8. gr. Heilbrigðisráðherra fer aftur á móti með stjórnarmálefni er varða málefni aldraðra skv. a–d-lið 5. tölul. 8. gr., þ.e. þau er varða hjúkrunarheimili, dvalarheimili, dagdvöl aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Af framangreindu leiðir að dvalar- og hjúkrunarheimilin eru nú öll á forræði heilbrigðisráðherra. Er það gert í þeim tilgangi að einfalda stjórnsýslu í samskiptum við nefnd heimili. Er því lagt til að sjúkratryggingastofnunin semji bæði um hjúkrunarrými og dvalarrými, auk dagdvalar séu stofnanirnar ekki á föstum fjárlögum.
    Samkvæmt 24. gr. laga um sjúkratryggingar semur sjúkratryggingastofnun um heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum. Dvalarrými hafa aftur á móti lengst af verið talin félagslegt úrræði og sem slík ekki fallið undir lög um sjúkratryggingar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá nóvember 2012, ,,Dvalarheimili aldraðra: Rekstur og starfsemi 2006–11“, 1 segir m.a.:

         Þar sem dvalarheimili fyrir aldraða eru ekki á sama hátt og áður búsetu- eða félagslegt úrræði heldur hafa færst nær eiginlegum hjúkrunarheimilum telur Ríkisendurskoðun að taka ætti upp RAI-mat vegna þjónustu þeirra og miða daggjöld a.m.k. að hluta til við niðurstöður þess. Færa má rök fyrir því að þannig megi stuðla að sem réttlátastri dreifingu fjármuna milli heimila og tryggja að þeir nýtist helst þeim sem mest þurfa á þjónustu heimilanna að halda.
        
    Enn fremur segir í skýrslunni:

         1. júní 2012 tók gildi ný reglugerð nr. 466/2012 um færni- og heilsumat vegna dvalar- og hjúkrunarrýma. Samkvæmt henni skal velferðarráðherra skipa eina nefnd í hverju heilbrigðisumdæmi, færni- og heilsumatsnefnd, sem skal koma í stað vistunarmatsnefnda og meta þörf fólks fyrir hjúkrunar- og dvalarrými. Þessi breyting var gerð í samræmi við breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu sem Alþingi samþykkti 20. mars 2012. Markmið hennar var að auðvelda fólki að sækja um búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili og jafnframt að einfalda stjórnsýsluna, enda fækkaði þar með nefndum úr fjórtán í sjö.
        
    Af þessum tilvitnunum er ljóst að munur á dvalar- og hjúkrunarrýmum má frekar teljast stigsmunur en eðlismunur. Því er lagt til að í stað þess að ráðherra ákveði með reglugerð daggjöld í dvalarrýmum semji sjúkratryggingastofnun heildstætt við stofnanirnar fyrir aldraða, þ.e. bæði um dvalar- og hjúkrunarrými. Á það ekki einvörðungu við um heilbrigðisþjónustu, heldur einnig aðra þjónustu sem þar er veitt auk húsnæðis.
    Eftir sem áður þykir samt rétt að ráðherra ákveði hámark kostnaðarþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði með reglugerð.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni og nauðsyn lagabreytinganna er að viðeigandi löggjöf sé færð í það form að sjúkratryggingastofnun verði gert heimilt að semja heildstætt við stofnanir fyrir aldraða um þjónustu, þ.e. um heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu sem stofnanirnar veita, auk húsnæðis, í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum.
    Í framhaldi af því að ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, komu til framkvæmda 1. janúar 2015 skipaði ráðherra með bréfi, dags. 19. mars 2015, vinnuhóp um verkaskiptingu velferðarráðuneytisins og sjúkratryggingastofnunar vegna yfirfærslu á samningum um öldrunarþjónustu til sjúkratryggingastofnunar. Fyrir hópnum fór Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri, en auk hennar voru í hópnum Björn Zoëga, Steingrímur Ari Arason, Sveinn Magnússon og Viðar Helgason. Skilabréf vinnuhópsins er dags. 30. júní 2015. Niðurstaða vinnuhópsins var að sjúkratryggingastofnun mundi semja um og greiða fyrir dvöl á öldrunarstofnunum en ráðherra mundi eftir sem áður ákveða hámarkskostnaðarþátttöku einstaklinga.
    Auk þess að skipa framangreindan vinnuhóp fól ráðherra starfshópi innan ráðuneytisins að skoða samræmi laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, vegna samninga sjúkratryggingastofnunar við dvalar- og hjúkrunarheimili. Sú skoðun leiddi í ljós að sum ákvæði laganna koma í veg fyrir að sjúkratryggingastofnun geti samið heildstætt við stofnanir fyrir aldraða. Sem dæmi má nefna ákvæði laga um almannatryggingar og laga um málefni aldraðra sem kveða á um að ráðherra ákveði daggjöld í dvalarrýmum með reglugerð. Þá má nefna 24. gr. sjúkratryggingalaga þar sem segir að sjúkratrygging taki til heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða og hjúkrunarheimila samkvæmt samningum, sbr. IV. kafla laganna, en í greinargerð með frumvarpi því sem varð að sjúkratryggingalögum segir að eingöngu sé átt við þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á stofnununum en ekki húsnæði og aðra þjónustu.
    Í framhaldi af könnun vinnuhópsins var ákveðið að leggja til breytingar á framangreindum lögum og auka þannig heimildir sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða og einfalda stjórnsýslu í samskiptum við stofnanir fyrir aldraða.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins felst í því að fella brott ákvæði í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, er heimila ráðherra að ákveða daggjöld í dvalarrýmum með reglugerð. Auk þess að breyta 24. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, þannig að sjúkratrygging nái til þjónustu sem veitt er í rýmum fyrir aldraða, en ekki einvörðungu til heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum, er bætt við nýju ákvæði þess efnis að náist ekki samningar við stofnanir fyrir aldraða sé ráðherra heimilt að setja reglugerð og sjúkratryggingastofnun gjaldskrá um endurgjald fyrir veitta þjónustu stofnana til að brúa tímabundið bil á meðan unnið er að samningsgerð. Þá er lagt til að í stað 3. mgr. 23. gr. laga um málefni aldraðra komi nýtt ákvæði í 24. gr. þess efnis að ráðherra ákveði hámark greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði með reglugerð.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið felur í sér breytingar til samræmis við nútímastjórnarhætti, þ.e. að þjónustukaupandi og þjónustuveitandi semji sín á milli um veitta þjónustu og endurgjald fyrir hana í stað þess að stjórnvöld ákveði einhliða verð fyrir veitta þjónustu. Frumvarpið gaf ekki tilefni til að skoða samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Við gerð frumvarpsins hefur verið haft samráð við sjúkratryggingastofnun og Tryggingastofnun ríkisins. Auk þess var fundað með starfsmönnum beggja stofnana og bárust skriflegar umsagnir frá þeim sem tekið var tillit til við gerð frumvarpsins. Einnig var Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu gefinn kostur á að koma að umsögn. Umsögn barst ekki frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu kom fram að samtökin mundu fagna því almennt fengi sjúkratryggingastofnun umboð til að semja heildstætt við stofnanir fyrir aldraða um þjónustu.

VI. Mat á áhrifum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar að sjúkratryggingastofnun semji heildstætt við stofnanir fyrir aldraða, þ.e. bæði um dvalar- og hjúkrunarrými auk dagdvalar. Með frumvarpinu er lagt til að heimild ráðherra til að ákveða daggjöld í dvalarrýmum með reglugerð falli brott. Með frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að heimilismenn í hjúkrunarrýmum yngri en 67 ára taki þátt í kostnaði við dvölina á sama hátt og 67 ára og eldri. Verði frumvarpið að lögum munu því þeir sem eru yngri en 67 ára og dveljast í hjúkrunarrýmum þurfa að taka þátt í dvalarkostnaði á sama hátt og aðrir heimilismenn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 3. mgr. 14. gr. laganna sem varðar heimild til að samþykkja dvöl fyrir þá sem eru yngri en 67 ára í hjúkrunarrýmum, að undangengnu mati á þörf fyrir dvölina, er vísað til matsins í lögum um heilbrigðisþjónustu. Í 16. gr. laga um heilbrigðisþjónustu er á hinn bóginn vísað til matsins í lögum um málefni aldraðra, enda eru ákvæði um færni- og heilsumatsnefndir í 15. gr. þeirra laga. Því þykir rétt að breyta 3. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra til samræmis við gildandi lög og vísa til 15. gr. laganna.
    Einnig er lagt til að við 3. mgr. 14. gr. bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um það að um greiðsluþátttöku þeirra einstaklinga sem eru yngri en 67 ára á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða fari samkvæmt lögum um málefni aldraðra. Tryggingastofnun ríkisins hefur hingað til ekki innheimt dvalargjald af þessum einstaklingum þar sem stofnunin hefur ekki talið sér það heimilt á þeim grundvelli að eingöngu sé fjallað um þátttöku einstaklinga í dvalargjaldi í lögum um málefni aldraðra og að þau lög gildi aðeins um þá sem eru 67 ára og eldri. Aftur á móti verður að teljast eðlilegt með tilliti til jafnræðissjónarmiða að sömu reglur gildi um greiðsluþátttöku allra heimilismanna á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða og að ekki gildi aðrar reglur þegar samþykkt hefur verið dvöl einstaklinga sem eru yngri en 67 ára. Er því gert ráð fyrir að sjúkratryggingastofnun innheimti dvalargjald af öllum einstaklingum sem dvelja á hjúkrunarheimilum og í hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða, óháð aldri þeirra, að uppfylltum skilyrðum laganna. Á það þó einungis við um þá sem hefja dvöl eftir gildistöku laganna eins og nánar kemur fram í 15. gr. frumvarpsins og í athugasemdum við þá grein.

Um 2. og 3. gr.

    Þær breytingar sem hér eru lagðar til á 19. og 21. gr. laga um málefni aldraðra eru afleiðing af þeirri breytingu sem felst í öðrum ákvæðum frumvarpsins um að dvalarkostnaður verði ákveðinn með samningum skv. IV. kafla laga um sjúkratryggingar og greiðist af sjúkratryggingastofnun en ekki Tryggingastofnun ríkisins. Þá eru felldar brott tilvísanir í 6. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, en lagt er til að það ákvæði falli brott með frumvarpi þessu eins og gerð er frekari grein fyrir í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 22. gr. laga um málefni aldraðra eru uppfærðar þær fjárhæðir sem heimilismenn mega hafa á mánuði eftir staðgreiðslu skatta áður en þeir taka þátt í kostnaði fyrir dvöl í dvalar- eða hjúkrunarrými. Tekjumarkið tekur breytingum árlega í samræmi við hækkun á bótum almannatrygginga.
    Lagðar eru til þær breytingar á 2. tölul. 2. mgr. að sjúkratryggingastofnun er gert að greiða dvalarkostnað heimilismanns á dvalarheimili í stað Tryggingastofnunar. Það sama á við um greiðslu dvalarkostnaðar heimilismanns á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými stofnunar fyrir aldraða.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að í 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um málefni aldraðra verði vísað til sjúkratryggingastofnunar í stað Tryggingastofnunar varðandi upplýsingar um innheimtu hjá heimilismanni, en þær upplýsingar eru nú veittar Tryggingastofnun. Þar sem lagt er til í frumvarpinu að sjúkratryggingastofnun verði samningsaðilinn þykir eðlilegt að sú stofnun fái þessar upplýsingar.
    Þá er lagt til að 3. mgr. 23. gr. laga um málefni aldraðra falli brott en gert er ráð fyrir að um hámark greiðsluþátttöku fari skv. 24. gr. laganna, sjá nánar athugasemdir við 6. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Lagt er til að við lög um málefni aldraðra bætist nýtt ákvæði í 24. gr., þess efnis að greiðsluþátttaka heimilismanns skuli aldrei nema hærri fjárhæð en nemur dvalarkostnaði á stofnun eins og hann er ákveðinn í samningum sjúkratryggingastofnunar. Ákvæði 24. gr. laganna var fellt brott með lögum nr. 88/2015 og þykir skýrara að kveða á um hámark greiðsluþátttöku í sérstakri grein, en nú er kveðið á um hámark greiðsluþátttöku í 3. mgr. 23. gr. laganna. Einnig er lagt til að bætt verði við nýjum málslið þar sem kveðið er á um að séu samningar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða ekki fyrir hendi fari um það samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, sbr. 38. gr. þeirra laga, sbr. einnig 12. gr. frumvarps þessa.

Um 7. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til á 26. gr. laga um málefni aldraðra fela í sér að í stað Tryggingastofnunar ríkisins skuli sjúkratryggingastofnun greiða stofnunum dvalarframlag og vera í samskiptum við stjórnendur stofnana vegna greiðsluþátttöku heimilismanna. Lagt er til að hlutverk Tryggingastofnunar, hvað varðar framkvæmd útreiknings á tekjum skv. 21, 22. og 26. gr. og endurreiknings skv. 7. mgr. 26. gr., haldist óbreytt. Verði frumvarpið að lögum mun hlutverk Tryggingastofnunar því felast í framkvæmd útreikninga og endurreiknings á greiðsluþátttöku heimilismanna auk samskipta við þá en hlutverk sjúkratryggingastofnunar verður að annast greiðslur til stofnana samkvæmt samningum og samskipti við stjórnendur stofnana.
    Gert er ráð fyrir því að sjúkratryggingastofnun greiði stofnunum vangreiðslur og innheimti ofgreiðslur í kjölfar endurreiknings dvalarframlags. Er því gert ráð fyrir því í c-lið 7. gr. frumvarpsins að vísað verði til almennra reglna um endurheimtu krafna þegar um ofgreiðslur dvalarframlags er að ræða í stað þess að vísa til ákvæða laga um almannatryggingar sem kveða á um innheimtu ofgreiddra bóta lífeyristrygginga, sbr. einnig c-lið 3. tölul. 25. gr. laga nr. 88/2015.

Um 8. gr.

    Í c-lið 1. gr. laga nr. 88/2015, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, sem öðlast munu gildi 1. janúar 2016, var gildissvið laga um almannatryggingar afmarkað. Í ákvæðinu, sem verður 3. gr. almannatryggingalaga, kemur fram að lögin gildi m.a. um dvalarframlag. Þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að dvalarframlag verði greitt af sjúkratryggingastofnun en ekki Tryggingastofnun ríkisins og að kveðið verði á um útreikning þess í lögum um málefni aldraðra er lagt til að orðið dvalarframlag verði fellt brott í 3. gr. laga um almannatryggingar. Lögin gildi því um lífeyristryggingar almannatrygginga, ráðstöfunarfé og fyrirframgreiðslu meðlaga og annarra framfærsluframlaga.

Um 9. gr.

    Lagðar eru til tvær breytingar á 48. gr. laga um almannatryggingar. Annars vegar er gert ráð fyrir að 6. mgr. falli brott en samkvæmt ákvæðinu ákveður ráðherra daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða með reglugerð auk þess sem þar er kveðið á um greiðslu dvalarframlags af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og um hámark þess. Þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að sjúkratryggingastofnun semji m.a. um gjald fyrir dvöl í dvalarrýmum fyrir aldraða mun ráðherra ekki lengur ákveða gjald þetta með reglugerð verði frumvarpið að lögum. Einnig er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að greiðsla dvalarframlags flytjist frá Tryggingastofnun ríkisins til sjúkratryggingastofnunar. Hins vegar er lagt til að tilvísun til 6. mgr. í 7. mgr. 48. gr. laganna verði felld brott, en eins og áður hefur verið getið er gert ráð fyrir að 6. mgr. 48. gr. falli brott.

Um 10. gr.

    Lagt er til að orðalag 24. gr. laga um sjúkratryggingar verði rýmkað. Í stað þess að ákvæði greinarinnar nái einungis til heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum komi ákvæði sem taka til heilbrigðisþjónustu auk annarra þjónustuþátta og húsnæðis í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Sama á við um dagdvalarrými. Um fyrirkomulag greiðslna, þ.e. útreikning, endurreikning og greiðslur, fer samkvæmt lögum um málefni aldraðra.
    Þá er sú breyting lögð til í 2. málsl. 24. gr. að í stað þess að mat á þörf sjúkratryggðs fyrir þjónustu fari fram samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu fari matið fram samkvæmt lögum um málefni aldraðra. Er það í samræmi við gildandi lög.

Um 11. gr.

    Til áréttingar á lagastoð fyrir greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði í dvalar- og hjúkrunarrýmum er lagt til að nýjum málslið þar að lútandi verði bætt við lokamálsgrein 29. gr. laga um sjúkratryggingar.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar segir að heimilt sé að endurgreiða sjúkratryggðum útlagðan kostnað þegar ekki eru í gildi samningar um heilbrigðisþjónustu. Greiðslur fyrir þjónustu í rýmum fyrir aldraða falla ekki að framangreindu orðalagi.
    Meginreglan er að í öllum tilvikum þurfi að liggja fyrir samningar milli sjúkratryggingastofnunarinnar og veitenda þjónustu ef til þess á að koma að ríkið greiði hlutdeild í kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Því þykir rétt að gera ráð fyrir nýjum málslið sem taki á því þegar ekki eru í gildi samningar við stofnanir fyrir aldraða. Stofnanirnar geta ekki eðli málsins samkvæmt lagt niður starfsemi við þær aðstæður, þannig að viðeigandi úrræði verður að vera fyrir hendi. Samningslaust tímabil er tímabundið bráðabirgðaástand og er úrræðinu ætlað að taka mið af því.

Um 13. gr.

    Lagt er til að nýjum málslið verði bætt við 1. mgr. 39. gr. laga um sjúkratryggingar til að taka af öll tvímæli varðandi samningsumboð sjúkratryggingastofnunar þegar kemur að veitingu þjónustu í rýmum fyrir aldraða.

Um 14. gr.

    Rétt þykir að leggja til breytt orðalag í 4. mgr. 43. gr. laga um sjúkratryggingar með vísan til þess sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá nóvember 2012 um aukna hjúkrunarþyngd í dvalarrýmum þannig að í stað orðsins hjúkrunarrýmum komi rýmum fyrir aldraða.

Um 15. gr.

    Gert er ráð fyrir að verði frumvarp þetta að lögum öðlist þau gildi 1. janúar 2016. Þó er lagt til að sú breyting sem lögð er til í 2. málsl. 1. gr. um greiðsluþátttöku heimilismanna yngri en 67 ára gildi einungis um þá sem hefja dvöl eftir gildistöku laganna en ekki um þá sem þegar hafa hafið dvöl fyrir þann tíma. Þykir ekki rétt að breyta því fyrirkomulagi sem þeir einstaklingar búa nú við, heldur er gert ráð fyrir að breytingin gildi eingöngu um þá sem hefja dvöl frá og með 1. janúar 2016.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneytið,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, lögum um almannatryggingar og lögum um sjúkratryggingar (samningar sjúkratryggingastofnunar við stofnanir fyrir aldraða).

    Megintilgangur frumvarpsins er að auka heimildir sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar um þjónustu í rýmum fyrir aldraðra og einfalda stjórnsýslu í samskiptum við stofnanir. Tilefni þess er að í byrjun árs 2015 komu að fullu til framkvæmda lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og þar með ákvæði er varðar samninga stofnunarinnar við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili. Við skoðun gildandi laga kom í ljós að sjúkratryggingastofnun skortir lagaheimild til að semja heildstætt við stofnanir fyrir aldraða um heilbrigðisþjónustu, fæði, húsnæði sem og aðra þjónustu. Í þrengstu túlkun laga nr. 112/2008 hefur sjúkratryggingastofnun einungis heimild til að semja um heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum en ekki um aðra þjónustu í hjúkrunarrýmum né heilbrigðisþjónustu í dvalarrýmum og dagdvalarrýmum og er þessu frumvarpi ætlað að bæta þennan lagagrundvöll fyrir samningsgerðinni.
    Meðal breytinga sem frumvarpið felur í sér er að heimild ráðherra til að ákveða daggjöld í dvalarrýmum með reglugerð falli niður. Í fyrri lögum var heimild ráðherra til að ákveða að setja daggjöld í hjúkrunarrýmum í reglugerð felld niður í ársbyrjun 2015. Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um sjúkratryggingar þannig að sjúkratrygging nái til þjónustu sem er veitt í þjónusturýmum af ýmsum toga fyrir aldraða en ekki einungis til heilbrigðisþjónustu sem er veitt í hjúkrunarrýmum. Auk þess er lagt til að bætt verði við nýrri grein þar sem ráðherra fái heimild til að setja reglugerð og sjúkratryggingastofnun gjaldskrá um endurgjald fyrir veitta þjónustu ef ekki er til samningur á milli aðila. Er það gert til að brúa bilið á meðan unnið er að samningagerð. Loks er lagt til í frumvarpinu að greiðsluþátttaka heimilismanna í hjúkrunarrýmum sem eru yngri en 67 ára verði með sama hætti og þeirra sem eru eldri en 67 ára. Ekki er talið að sú breyting á greiðsluþátttöku hafi teljandi áhrif á tekjur ríkissjóðs frá vistmönnum á hjúkrunarheimilum.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir 35 m.kr. fjárveitingu til fullgildingar laga um sjúkratryggingar vegna samningagerðar á vegum sjúkratryggingastofnunar við stofnanir sem veita þjónustu í rýmum fyrir aldraða. Er sú fjárheimild veitt til að standa straum af fjölgun stöðugilda sérfræðinga um 3–4. Þær breytingar sem settar eru fram í frumvarpi þessu miða að því að auka og skýra heimildir sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar við stofnanir en eru í sjálfu sér ekki taldar hafa frekari kostnað í för með sér umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.
    Verði frumvarpið að lögum verður því ekki séð að það hafi teljandi áhrif á fjárhag ríkissjóðs.
Neðanmálsgrein: 1
    1 www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/dvalarheimili_lokaskjal.pdf