Ferill 400. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.



Þingskjal 546  —  400. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004 (skilgreining og álagning vatnsgjalds).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Lokamálsliður 3. gr. laganna orðast svo: Ákvæði sveitarstjórnarlaga gilda um samvinnu sveitarfélaga á þessu sviði, eftir því sem við á.

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Hafi vatnsveita verið tengd við mannvirki á fasteign er heimilt að leggja á hana almennt vatnsgjald. Mannvirki telst tengt vatnsveitu þegar heimæð hefur verið tengd frá vatnsveitulögn í vatnsinntak notanda. Gjaldið skal þá vera hlutfall af fasteignamati fasteignarinnar í heild, sbr. 3. mgr., þó aldrei hærra en 0,5% af heildarmatsverði hennar. Í þeim tilvikum þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir við álagningu vatnsgjalds er heimilt að ákveða upphæð vatnsgjalds með hliðsjón af áætluðu fasteignamati eignarinnar fullfrágenginnar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.
    Geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, geti ekki tengst vatnsveitu af landfræðilegum eða tæknilegum ástæðum eða vegna eðlis þess getur hann beint erindi til vatnsveitu um að álagning almenns vatnsgjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar vera undanþegin við álagningu almenns vatnsgjalds ef þau mynda umtalsverðan hluta af matsverði.
    Fasteign samkvæmt lögum þessum telst vera afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt, eins og hún er nánar skilgreind í fasteignaskrá hverju sinni. Þá telst eignarhluti í fjöleignarhúsi vera sérstök fasteign.
    Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 1. mgr., er heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald á hverja fasteign fyrir sig, sbr. 3. mgr., auk álags vegna annars eða hvors tveggja af eftirfarandi:
     a.      Stærðar allra mannvirkja sem tilheyra fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli.
     b.      Notkunar samkvæmt mæli.
Álagning samkvæmt þessari málsgrein skal aldrei vera hærri en segir í 1. mgr. Með sama hætti og tilgreint er í 2. mgr., og að fullnægðum sömu skilyrðum, er við álagningu samkvæmt þessari málsgrein hægt að sækja um undanþágu frá því að álagning taki til tilgreindra mannvirkja á fasteign.
    Heimilt er að innheimta vatnsgjald með fasteignaskatti. Skulu þá gjalddagar vatnsgjalds vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Notkunargjald kemur til viðbótar vatnsgjaldi skv. 6. gr.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Við skammtímanotkun vatns frá vatnsveitu, svo sem vegna byggingarframkvæmda, eða þegar óskað er sérstakrar tengingar við vatnsveitu, og gjaldtaka samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara á ekki við, er vatnsveitu heimilt að heimta sérstök tengi- og notkunargjöld til viðbótar við heimæðargjald skv. 5. gr. ef við á. Gjöld má innheimta fyrir vinnu við tengingu og/eða aftengingu vatns, sem föst gjöld, t.d. fyrir þá daga sem tenging varir, á grundvelli mælingar og/eða áætlaðrar notkunar.

4. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn vatnsveitu skal semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda samkvæmt lögum þessum. Miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, ásamt kostnaði við að standa undir þeirri skyldu veitunnar að tryggja nægilegt vatn og vatnsþrýsting til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, sbr. 5. mgr. 5. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu er kveðið á um tilteknar breytingar á lögum nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga. Breytingarnar varða skilgreiningu og álagningu vatnsgjalds, sem lagt er á allar fasteignir sem tengdar eru vatnsveitum sveitarfélaganna. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra til breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, en þær breytingar varða skilgreiningu og álagningu fráveitugjalds með sambærilegum hætti.
    Frumvarpið var samið í innanríkisráðuneytinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur, auk þess sem Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, vann álitsgerð um málið.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilefni frumvarpsins eru tveir dómar Hæstaréttar (mál nr. 396/2013 og 397/2013) sem báðir lutu að álagningu vatnsgjalds samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Í þessum dómum kom fram þrengri túlkun á skyldu húseigenda til greiðslu vatnsgjalds en vatnsveiturnar höfðu fram að því byggt gjaldtöku sína á, annars vegar varðandi upphaf gjaldtökunnar og hins vegar varðandi túlkun á því orðalagi 1. mgr. 6. gr. laganna að heimilt sé að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta betur grundvöll álagningar vatnsgjalds sem þjónustugjalds fyrir þá almannaþjónustu sem vatnsveitur sveitarfélaga veita. Sú þjónusta felst fyrst og fremst í þeim aðgangi að neysluvatni sem eigendur fasteigna á veitusvæðum eiga kost á með tengingu við veiturnar, óháð því hvernig einstakir fasteignareigendur haga dreifingu vatnsins innan fasteignar sinnar hverju sinni. Þá er það einnig mikið öryggismál fyrir alla fasteignareigendur að eiga tryggan aðgang að slökkvivatni, óháð vatnsnýtingu þeirra að öðru leyti, en töluverður kostnaður fylgir því að tryggja nægan þrýsting á dreifikerfi vatnsveitna til slökkvistarfs. Það er hins vegar ekki tilgangur frumvarpsins að útvíkka eða auka gjaldtökuna frá því sem verið hefur í framkvæmd.
    Það skal tekið fram að við undirbúning frumvarpsins var kannaður sá möguleiki að komið yrði upp notkunarmælum hjá öllum greiðendum vatnsgjalds og álagning gjaldsins yrði þannig aðeins byggð á mældri notkun. Í ljósi þess mikla kostnaðar sem fylgja mundi uppsetningu notkunarmæla var hins vegar ekki talið réttlætanlegt að fara þá leið.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpinu felast tvær meginbreytingar frá gildandi lögum sem báðar eru viðbrögð við framangreindum dómum Hæstaréttar. Í fyrsta lagi er kveðið með skýrum hætti á um það að vatnsgjald verði ekki innheimt af fasteign fyrr en hún hefur verið tengd dreifikerfi vatnsveitu um heimæð. Er þannig horfið frá þeirri framkvæmd að upphaf gjaldtöku miðist við tiltekið byggingarstig mannvirkja á fasteign, óháð því hvort fasteignin hafi verið tengd vatnsveitunni með heimæð, enda markar sú tenging þann aðgang að þjónustu vatnsveitunnar sem innheimta vatnsgjaldsins byggist á.
    Í öðru lagi er nú kveðið skýrt á um það að vatnsgjaldið skuli taka mið af fasteignamati fasteignar í heild eða stærð allra mannvirkja á fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli, sé notkunin ekki mæld. Hafi það þannig almennt ekki áhrif á fjárhæð vatnsgjaldsins hvernig eigandi fasteignar kýs að nýta þá þjónustu sem felst í tengingu við vatnsveituna innan sinnar fasteignar hverju sinni, sem er alfarið á hans forræði.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Eins og fram hefur komið er meginmarkmið frumvarpsins að skýra og treysta grundvöll álagningar vatnsgjalds sem þjónustugjalds fyrir þá almannaþjónustu sem vatnsveitur sveitarfélaga veita, án þess þó að komið verði upp notkunarmælum hjá öllum greiðendum vatnsgjalds. Enda þótt gjaldstofnar þessa gjalds séu skýrlega útfærðir í löggjöf eru tilteknar takmarkanir á því hversu langt löggjafinn getur gengið í því efni að heimila stjórnvöldum að leggja þjónustugjöld á eftir almennum gjaldstofnum sem ekki standa nauðsynlega í beinum tengslum við þá þjónustu sem veitt er. Ef of langt er gengið í því efni, og tengsl gjaldstofnsins og hinnar veittu þjónustu eru ekki fyrir hendi, má færa rök að því að gjaldtökuheimildin sé í raun skattlagningarheimild, og verði þá að fullnægja kröfum 77., sbr. eftir atvikum 78. gr. stjórnarskrárinnar. Til þess að mæta þessu er í frumvarpinu bæði kveðið skýrt á um það að gjaldtaka hefjist ekki fyrr en fasteign hefur verið tengd dreifikerfi vatnsveitunnar sem og að tilteknir hlutar fasteigna, sem fyrir liggur að ekki geti tengst vatnsveitu, séu undanþegnir vatnsgjaldinu.
    Frumvarpið þykir hins vegar ekki gefa tilefni til að meta samræmi þess við alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarpið var kynnt á vef innanríkisráðuneytisins í janúar 2015 og bárust tvær umsagnir, önnur frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, sem jafnframt tekur til framangreinds frumvarps umhverfis- og auðlindaráðherra um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og hin frá einstaklingi. Gefur sú fyrrnefnda tilefni til sérstakrar umfjöllunar hér.
    Í umsögn sinni gerðu Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins þá meginathugasemd við efni frumvarpsins að það fæli í sér útvíkkun á gjaldstofni vatnsveitna frá því sem nú er. Horfið væri frá því orðalagi gildandi laga að heimta megi vatnsgjald af öllum fasteignum sem vatns geti notið og því verði nú allar fasteignir gjaldskyldar, hvort sem þær geti notið vatns eður ei. Á þessa athugasemd verður ekki fallist. Eins og rakið er hér að framan er meginmarkmið frumvarpsins að skýra og treysta grundvöll álagningar vatnsgjaldsins en hvorki að útvíkka né auka gjaldtökuna frá því sem verið hefur. Frumvarpið kveður þannig á um að gjaldtaka hefjist ekki fyrr en fasteign hefur raunverulega verið tengd vatnsveitu og því verði vatnsgjald ekki innheimt af fasteignum sem ekki hafa verið tengdar vatnsveitu og geta því ekki notið vatns. Ráðuneyti hefur þó brugðist við þessari athugasemd með þeim hætti að nú er gerður sá fyrirvari í frumvarpinu að ef fasteignareigandi getur sýnt fram á að ómögulegt sé að tengja tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er tilgreint í fasteignaskrá, geti hann sótt um það sérstaklega að álagning vatnsgjalds taki mið af því. Þá er nú jafnframt gerður sá fyrirvari að hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi, sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar og mynda umtalsverðan hluta af matsverði, skuli vera undanþegin við álagningu almenns vatnsgjalds. Með þessu er betur mætt því sjónarmiði um töku þjónustugjalda að endurgjald notandans taki mið af þeirri þjónustu sem veitt er.
    Frumvarpið var kynnt að nýju í núverandi mynd á vef innanríkisráðuneytisins í október 2015 og barst þá ein umsögn frá sveitarfélaginu Mosfellsbæ. Umsögnin þótti hins vegar ekki gefa tilefni til frekari breytinga á frumvarpinu.

VI. Mat á áhrifum.
    Sveitarfélögum ber að starfrækja vatnsveitur í þéttbýli í þeim tilgangi að fullnægja, eins og kostur er, vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, og þeim er jafnframt heimilt að gera það í dreifbýli, sé það hagkvæmt. Fyrir þessa þjónustu er innheimt vatnsgjald af notendum veitunnar sem ásamt öðrum tekjum vatnsveitu á að standa undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, og fyrirhuguðum stofnkostnaði.
    Með samþykkt frumvarpsins er skotið tryggari stoðum undir álagningu vatnsgjalds sem þjónustugjalds og sanngjarna kostnaðarskiptingu milli þeirra sem þjónustunnar sannarlega njóta. Frumvarpið felur hins vegar ekki í sér að gjaldtakan sé útvíkkuð eða aukin frá því sem verið hefur. Verði frumvarpið ekki að lögum má hins vegar búast við því að gjaldstofn vatnsveitnanna þrengist þannig að kallað geti á hækkun vatnsgjaldsins.
    Farið hefur fram mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Almenn tilvitnun til ákvæða gildandi sveitarstjórnarlaga hverju sinni kemur hér í stað tilvitnunar til brottfallinna sveitarstjórnarlaga. Breytingin hefur ekki í för með sér frávik frá þeirri reglu 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2004 að heimilt sé að fela einkarétt á rekstri vatnsveitu tilteknu félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Tvö eða fleiri sveitarfélög geta í þessu sambandi falið sama félaginu sinn einkarétt til reksturs vatnsveitu.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er að finna þær meginbreytingar sem frumvarpið felur í sér. Í 1. mgr. er nú annars vegar kveðið á um að heimilt sé að heimta almennt vatnsgjald af fasteignum þar sem mannvirki á fasteigninni hefur verið tengt vatnsveitu um heimæð. Er þannig kveðið á um það með skýrum hætti að upphaf gjaldskyldunnar er tenging fasteignar við dreifikerfi vatnsveitu og því óheimilt að hefja gjaldtökuna fyrr. Heimæð er almennt lögð um leið og tengt er við vatnsinntak og tengigrind húss og því er vatn komið inn í hús þegar heimæð hefur verið lögð. Hlutverki vatnsveitu við afhendingu vatnsins er þá í raun lokið en húseigandi og umráðamaður húss hefur í hendi sér hvort eða hvenær hann hleypir vatni á innanhúskerfi og um hvaða hluta fasteignarinnar hann leggur það.
    Þá er hins vegar í 1. mgr. kveðið með skýrum hætti á um þá meginreglu að almennt vatnsgjald skuli taka mið af fasteignamati fasteignar í heild sinni, óháð því hvernig eigandi fasteignar kýs að nýta þjónustu vatnsveitunnar innan fasteignarinnar hverju sinni. Ljóst er að í útdeilingu gjalda á grundvelli fasteignamats felst niðurjöfnun á kostnaði af vatnsveitum á notendur þeirra sem ekki stendur nauðsynlega í beinu hlutfalli við notkun hvers og eins. Nokkur mikilvæg rök standa þó til þess að halda þessu formi gjaldtökunnar sem meginreglu og varða tvö þeirra mestu. Í fyrsta lagi hefur verið framkvæmd könnun á hagkvæmni þess að byggja alla sölu neysluvatns á mældri notkun. Niðurstaðan er sú að af því mundi hljótast mikill kostnaður sem óhjákvæmilega mundi leiða til hækkunar vatnsgjalda. Sú leið hefði því í för með sér samfélagslegt óhagræði, óþarfa sóun á verðmætum og hækkun gjalda á notendur. Í öðru lagi er meginkostnaðurinn við vatnsveitur sá stofnkostnaður og fasti kostnaður sem hlýst af því að byggja vatnsveitukerfið, reka það og viðhalda. Því er málefnalegt að deila þessum fasta kostnaði niður á notendur eftir öðrum mælikvarða en eingöngu notkun hverju sinni.
    Ef andlag gjaldstofnsins er skýrlega lögákveðið með þeim hætti sem hér er lagt til verður ekki talið að framangreint fyrirkomulag gjaldtökunnar gangi gegn lögmætisreglu íslensks réttar, enda málefnaleg tengsl milli gjaldstofnsins og tilgangs hennar. Mikilvægt er að tryggja leiðir til einfaldrar álagningar, auk þess sem rík tengsl eru á milli verðmætis fasteigna og stærðar þeirra og þar með líklegrar eða mögulegrar vatnsnotkunar sem þeim tengist. Í því felst að almennt eru hvorki líkur til þess að sú útfærsla á andlagi gjaldtökunnar sem hér um ræðir gangi gegn sjónarmiðum um jafnræði né meðalhóf. Ber hér jafnframt að hafa í huga að ef verðmæti fasteigna er mjög mismunandi eftir einstökum svæðum innan starfssvæðis vatnsveitu, án þess þó að kostnaður af vatnsveitu sé það, er vatnsveitu rétt á grundvelli jafnræðis notenda þjónustunnar að haga gjaldtökunni þannig að hver og einn notandi þjónustunnar greiði sem næst þeim kostnaði sem hlýst af því að tryggja honum eða notendum á viðkomandi svæði afnot vatnsveitu, svo sem með því að skipta starfssvæði vatnsveitu í veitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laganna.
    Lokamálsliður 1. mgr. er efnislega óbreyttur frá gildandi lögum.
    Líkt og fyrr segir miðast álagning vatnsgjalds við tengingu við vatnsveitu. Frá og með þeim tíma skal vatnsgjald lagt á þá fasteign í heild sinni sem um ræðir. Minnt skal á í þessu sambandi að hin lögmælta skylda sveitarfélaga til að reka vatnsveitur tekur til þéttbýlis. Mannvirki þau sem standa á fasteign, og ákvarða þar með almennt verðmæti hennar, eru að öðru jöfnu hús og sambærileg mannvirki. Í 2. mgr. er hins vegar lagt til að ef eigandi eða umráðamaður fasteignar getur sýnt fram á að ekki sé hægt að tengja við vatnsveitu tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, geti hann sótt um það til vatnsveitunnar að álagning vatnsgjalds taki mið af því. Hér er leitast við að mæta tveimur mikilvægum sjónarmiðum. Annars vegar er talið nauðsynlegt að byggja á því sem meginreglu að miða gjaldtöku almenns vatnsgjalds við fasteign í heild sinni. Eigandi fasteignar á að öðru jöfnu rétt á tengingu fasteignar sinnar við vatnsveitu, en ómögulegt er frá og með þeim tíma að hafa almennt eftirlit með því hvaða hluta fasteignarinnar eða þeirra mannvirkja sem á henni eru fasteignareigandi kýs að tengja vatni. Það fyrirkomulag er alfarið í höndum eiganda eða forráðamanns. Eftir atvikum kunna aðstæður hins vegar að vera þannig að fasteignareigandi geti sýnt fram á að illmögulegt sé að tengja tiltekin mannvirki við það vatnsinntak sem á fasteigninni er. Til að mæta sjónarmiðum um að gjaldtakan taki sem best mið af raunverulegri notkun er lögð til framangreind undantekning. Gert er ráð fyrir að eigandi fasteignar sæki um slíka undanþágu til vatnsveitu, sem ber þá að afgreiða beiðnina eftir almennum reglum stjórnsýsluréttarins.
    Til að tryggja enn frekar málefnaleg tengsl gjaldstofns vatnsgjaldsins og tilgangs gjaldtökunnar er jafnframt tiltekið í 2. mgr. að hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi, sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignar, skuli vera undanþegin við álagningu almenns vatnsgjalds ef þau mynda umtalsverðan hluta af matsverði, enda ekki sömu tengsl milli slíkra fasteignarréttinda og vatnsnotkunar.
    Í 3. mgr. er vísað til þeirrar skilgreiningar á hugtakinu fasteign sem almennt er notuð í íslenskum rétti, sbr. 3. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001. Með fasteign er einnig átt við eignarhluta í fjöleignarhúsum, sbr. 2. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002. Í þessu felst skýr afmörkun á því að hugtakið fasteign í lögunum vísar til þeirrar heildarfasteignar sem um ræðir óháð því hvernig hún skiptist í einstaka matshluta eða eindir samkvæmt nánari skráningu í fasteignaskrá.
    Í 4. mgr. er mælt fyrir um valkost við 1. mgr. um útfærslu á álagningu almenns vatnsgjalds. Samkvæmt 1. mgr. er hin almenna regla sú að almennt vatnsgjald taki mið af fasteignamati fasteignar í heild, með mögulegum undantekningum. Í 4. mgr. er hins vegar mælt fyrir um heimild til þess að miða gjaldtöku við fast gjald auk álags vegna annars eða beggja eftirfarandi þátta: (a) stærðar allra mannvirkja sem tilheyra fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli og (b) notkunar samkvæmt mæli. Þetta ákvæði er efnislega sambærilegt við 2. mgr. 6. gr. gildandi laga. Við mat á þessu kemur meðal annars til skoðunar sú skylda vatnsveitu að haga gjaldtökunni þannig að hver og einn notandi þjónustunnar greiði sem næst þeim kostnaði sem hlýst af því að tryggja honum eða notendum á viðkomandi svæði afnot vatnsveitu.
    Í niðurlagi 4. mgr. er tekið fram að álagning samkvæmt málsgreininni skuli aldrei vera hærri en hámark gjaldtöku skv. 1. mgr. Er þessi regla í samræmi við gildandi lög, sbr. niðurlag 2. mgr. 6. gr. gildandi laga. Þá er þar jafnframt tekið fram, í samræmi við 2. mgr. og á grundvelli sömu forsendna, að fasteignareigandi geti sótt um undanþágu frá því að álagning taki til tilgreindra mannvirkja á fasteign. Af samhengi ákvæðanna leiðir að þessi heimild tekur bæði til fastagjaldsins og álagningar á grundvelli stærðar eignar, eða eingöngu fastagjaldsins ef vatnsnotkunin er mæld.
    Í 5. mgr. er að finna sömu reglu og nú kemur fram í 3. mgr. 6. gr. Þarfnast hún ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Með nýjum málslið í 1. mgr. er tekinn af vafi um það að notkunargjald skv. 7. gr. laganna kemur til viðbótar almennu vatnsgjaldi skv. 6. gr. Þá er vatnsveitum, í nýrri málsgrein, heimilað sérstaklega að innheimta gjald fyrir aðgang að vatni til byggingarframkvæmda eða annarrar skammtímanotkunar, þegar gjaldtaka samkvæmt öðrum flokkum ákvæðisins á ekki við. Með þessu er settur öruggur lagagrundvöllur undir gjaldtöku fyrir vatnsnot til byggingarframkvæmda en heimild til hennar hefur til þessa byggst öðrum þræði á hinu svonefnda notkunargjaldi skv. 7. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 10. gr. laganna að kveðið verði á um það með skýrum hætti að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu skuli meðal annars standa undir kostnaði veitunnar við að uppfylla þá skyldu að tryggja nægilegt vatn og vatnsþrýsting til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, sbr. nánar 5. mgr. 5. gr. laganna.

    Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal I.


Innanríkisráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarps til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004 (skilgreining og álagning vatnsgjalds), á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta þá álagningu vatnsgjalds sem þjónustugjalds sem þegar fer fram á vegum sveitarfélaga. Skv. 10. gr. gildandi laga um vatnsveitur sveitarfélaga skal miða við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Í frumvarpinu felast tvær meginbreytingar frá gildandi lögum. Í fyrsta lagi er kveðið með skýrum hætti á um það að vatnsgjald verði ekki innheimt af fasteign fyrr en hún hefur verið tengd dreifikerfi vatnsveitu um heimæð. Er þannig horfið frá þeirri framkvæmd að upphaf gjaldtöku miðist við tiltekið byggingarstig mannvirkja á fasteign, óháð því hvort fasteignin hafi verið tengd vatnsveitunni með heimæð, enda markar sú tenging þann aðgang að þjónustu vatnsveitunnar sem innheimta vatnsgjaldsins byggist á. Í öðru lagi er nú kveðið skýrt á um þá meginreglu að vatnsgjaldið skuli taka mið af fasteignarmati fasteignarinnar í heild, þó með tilteknum undantekningum sé.
    Það er mat ráðuneytisins að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það hafa óveruleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Það muni hins vegar treysta tekjuöflun vatnsveitna og eyða ákveðinni óvissu um grundvöll álagningar vatnsgjalds. Þessi niðurstaða hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við hana.



Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004 (skilgreining og álagning vatnsgjalds).

    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær meginbreytingar á gildandi lögum um vatnsveitur sveitarfélaga en markmið þeirra er að skýra og treysta grundvöll álagningar vatnsgjalds sem þjónustugjalds fyrir þá almannaþjónustu sem vatnsveitur sveitarfélaga veita. Annars vegar er gert ráð fyrir að kveðið verði á um það með skýrum hætti að vatnsgjald verði ekki innheimt af fasteign fyrr en hún hefur verið tengd dreifikerfi vatnsveitu um heimæð. Verði þannig horfið frá þeirri framkvæmd að upphaf gjaldtöku miðist við tiltekið byggingarstig mannvirkja á fasteign, óháð því hvort fasteignin hafi verið tengd vatnsveitunni með heimæð. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að kveðið verði með skýrum hætti á um þá meginreglu að vatnsgjald skuli taka mið af fasteignarmati fasteignarinnar í heild eða stærð allra mannvirkja á fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli, sé vatnsnotkun ekki mæld. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra til breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, en þær breytingar varða skilgreiningu og álagningu fráveitugjalds með sambærilegum hætti.
    Telja má að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á útgjöld sveitarfélaga. Um þau áhrif er fjallað í annarri umsögn en hér er eingöngu fjallað um áhrif lagasetningarinnar á fjárhag ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér áhrif á útgjöld ríkissjóðs.