Ferill 404. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 550  —  404. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009 (gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
1. gr.

    Á undan 1. tölul. 3. gr. laganna kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Fasteign: Afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt, eins og fasteignin er nánar skilgreind í fasteignaskrá hverju sinni. Þá telst eignarhluti í fjöleignarhúsi vera sérstök fasteign.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Heimilt er að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Gjald vegna losunar kemur til viðbótar fráveitugjaldi skv. 1. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      2. og 3. málsl. 2. mgr. falla brott.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Fráveitugjald skal vera hlutfall af fasteignamati fasteignar í heild en þó aldrei hærra en 0,5% af heildarmatsverði hennar. Í þeim tilvikum þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir við álagningu fráveitugjalds en tenging er fyrir hendi er heimilt að ákveða fráveitugjald með hliðsjón af áætluðu fasteignamati eignarinnar fullfrágenginnar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.
                      Geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, geti ekki tengst fráveitu af landfræðilegum eða tæknilegum ástæðum eða vegna eðlis þess getur hann beint erindi til stjórnar fráveitu um að álagning fráveitugjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar vera undanþegin við álagningu fráveitugjalds ef þau mynda umtalsverðan hluta af matsverði.
                      Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 3. mgr., er heimilt að miða fráveitugjald við fast gjald á hverja fasteign fyrir sig, auk álags vegna annars eða hvors tveggja af eftirfarandi, en þó aldrei hærra en segir í 1. málsl. 2. mgr.:
              a.      rúmmáls allra mannvirkja á fasteign eða
              b.      flatarmáls allra mannvirkja á fasteign og/eða notkunar samkvæmt mæli.
             Álagning skv. a- og b-lið skal þó aldrei vera hærri en segir í 1. málsl. 3. mgr.

4. gr.

    2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
    Stjórn fráveitu er skylt að yfirtaka eina tengingu við fráveitu frá safnkerfi að lóðamörkum sveitarfélagsins að fenginni skriflegri beiðni frá eiganda. Aukatengingar tilheyra áfram viðkomandi fasteign.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er unnið af vinnuhópi sem í voru fulltrúar umhverfis- og auðlindaráðuneytis, innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá er jafnframt byggt á vinnu Trausta Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, varðandi þær kröfur sem Hæstiréttur Íslands hefur gert til lagasetningar og skilyrða um þjónustugjöld.
    Samorka – samtök orku- og veitufyrirtækja og Samband íslenskra sveitarfélaga sendu umhverfis- og auðlindaráðherra og innanríkisráðherra sameiginlegt erindi 2. júlí 2013, vegna þá nýlegra úrskurða innanríkisráðuneytis og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, varðandi skyldu húseiganda til þess að tengjast veitustofnunum sveitarfélaga og greiða fyrir það lögbundin þjónustugjöld. Í erindinu var þess jafnframt óskað að nauðsynlegar lagabreytingar yrðu gerðar til að bregðast við framangreindum úrskurðum. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fékk sambærilegt erindi frá Samorku 28. ágúst 2012.
    Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi innanríkisráðherra til sambærilegra breytinga á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Samkvæmt 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, er heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags. Að áliti Samorku og Sambands íslenskra sveitarfélaga felur framangreint ákvæði í sér að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem annaðhvort eru tengdar fráveitukerfi sveitarfélags eða ættu að vera tengdar því. Óheimilt sé hins vegar að leggja fráveitugjald á fasteignir sem af tæknilegum ástæðum er ómögulegt eða óhóflega kostnaðarsamt að tengja við fráveitukerfi sveitarfélags. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt lögum nr. 7/1998 var hins vegar talið að heimild til álagningar fráveitugjalds ætti aðeins við þegar verulegar líkur væru á að viðkomandi fasteign tengdist eða mundi tengjast fráveitu viðkomandi sveitarfélags.
    Af hálfu Samorku og Sambands íslenskra sveitarfélaga er lögð áhersla á að löggjafinn girði fyrir þá túlkun á ákvæðum laga nr. 9/2009 að fasteignaeigendur geti ráðið því sjálfir hvort og þá hvenær þeir tengjast fráveitu sveitarfélags. Samtökin leggja til í framangreindu erindi að lögfestur verði hlutlægur mælikvarði um það hvenær fasteign getur tengst fráveitukerfi og í því skyni væri unnt að miða við tiltekið byggingarstig húss.
    Í lögum nr. 9/2009 kemur ekki fram með nákvæmum hætti hvenær heimild til að innheimta fráveitugjald stofnast. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekur undir með samtökunum að rétt sé að lögfesta hlutlægan mælikvarða um hvenær fasteign gæti tengst fráveitukerfi og heimild til innheimtu fráveitugjalds stofnast. Hóf ráðuneytið undirbúning að lagabreytingu til að endurspegla framangreint í samráði við innanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll þeirrar álagningar fráveitugjalds sem þegar fer fram á vegum fráveitna sveitarfélaga fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita og er frumvarpinu ætlað að skýra og styrkja gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna gagnvart viðskiptavinum þeirra. Hæstiréttur dæmdi í máli nr. 613/2013 frá 6. febrúar 2014 að óheimilt væri að innheimta fráveitugjald af húsum á fasteign sem ekki voru tengd fráveitukerfi sveitarfélags. Enn fremur kom fram í dómnum að 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 fæli í sér að um fráveitugjöld færi samkvæmt þeim lögum og reglum sem um þjónustugjöld gilda. Af því leiddi að gjaldið yrði ekki lagt á nema að gjaldandi fengi þá þjónustu sem til gjaldtökunnar svaraði. Í þessu tilliti má einnig sjá einnig dóma Hæstaréttar Íslands nr. 396/2013 og nr. 397/2013.
    Framangreind dómaframkvæmd sýnir að ákvæði laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, eru ekki nógu skýr hvað varðar andlag gjaldtökuheimilda fráveitna. Eins og rakið er í III. kafla vinnur niðurstaða dómsins gegn markmiðum laga nr. 9/2009. Ekki þarf að deila um mikilvægi fráveitna fyrir umhverfið og nauðsyn þess að hægt sé að reka þær af hagkvæmni. Fráveitur eru eitt af grunnkerfum byggðarkjarna sem fjármagnaðar eru af þjónustutekjum og almennu skattfé og því er óeðlilegt að einstakir fasteignaeigendur geti ákveðið sjálfir hvort þeir tengist fráveitu og greiði lögboðin gjöld vegna aðgangs að fráveitu.
    Í ljósi fyrrnefndrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands þarf að breyta lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, þannig að skýrt sé að greiðsluskylda stofnist við tengingu heimæðar og að greiða þurfi af öllu flatarmáli/rúmmáli mannvirkja innan fasteignar.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Í frumvarpi þessu er leitast við að skýra réttindi og skyldur fráveitna hvað varðar andlag gjaldtökuheimilda fráveitna. Í frumvarpinu er gengið út frá því að þegar fráveita hefur lokið skyldum sínum varðandi tengingu fasteignar sé heimilt að hefja innheimtu fráveitugjalds. Frá þeim tíma hefur eigandi eða forráðamaður fasteignar einn ákvörðunarrétt og forræði á því hvort og hvaða rými innan viðkomandi fasteignar eru tengd vatni eða við niðurföll. Af sömu ástæðum er skýrð heimild fráveitu til innheimtu fráveitugjalds af öllum mannvirkjum innan fasteignar sem frá kemur skólp sem þarf að fara í fráveitu, án tillits til þess hvort viðkomandi rými er í raun tengt fráveitunni um niðurfall, enda eru fæst rými í húsum í raun með niðurfalli og þannig beintengd fráveitu. Það er því alfarið í höndum eiganda eða forráðamanns fasteignar að ákveða hvaða rými eru tengd fráveitu og að sama skapi ómögulegt fyrir fráveitu að hafa yfirsýn yfir hvaða hlutar fasteignar eru tengdir. Í frumvarpinu er þó einnig tekið mið af því að það getur verið því sem næst útilokað að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, muni tengjast fráveitu vegna landfræðilegra eða tæknilegra ástæðna eða vegna eðlis mannvirkisins. Er því gert ráð fyrir því, sem algerri undantekningarreglu, að fasteignareigandi geti beint erindi til fráveitu um að álagning fráveitugjalds taki mið af því. Þá er jafnframt gerður sá fyrirvari að hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar, og mynda umtalsverðan hluta af fasteignamatsverði, skuli vera undanþegin við álagningu almenns fráveitugjalds. Með þessu er betur mætt því sjónarmiði um töku þjónustugjalda að endurgjald notandans taki mið af þeirri þjónustu sem veitt er.
    Mikilvægt er að almennar og hlutlægar reglur gildi um innheimtu fráveitugjalds. Vert er að minna á að á meðal markmiða skv. 1. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er að tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna. Þá er mikilvægt að löggjöfin endurspegli einkarétt og skyldu sveitarfélags skv. 9. mgr. 4. gr. laganna til að reka fráveitu þar sem skylda er fyrir hendi, þ.e. innan þéttbýlis. Uppbygging og rekstur fráveitna er mikilvægt hollustuháttamál og fer það augljóslega í bága við markmið laganna að eigendur eða umráðamenn fasteigna geti valið að haga frágangi fráveitumála sinna öðruvísi en með því að tengjast og greiða til þeirrar fráveitu sem er til staðar og er rekin á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags.
    Í frumvarpinu felast nokkrar meginbreytingar frá gildandi lögum. Kveðið er skýrt á um að heimilt verði að heimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengjast fráveitu sveitarfélagsins og þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar, auk þess sem gjald vegna losunar komi til viðbótar fráveitugjaldi. Lagt er til að sett verði ákvæði um hámarksgjald sem er tiltekið hlutfall af heildarfasteignamati en að heimilt verði að ákveða fráveitugjald með hliðsjón af áætluðu fasteignamati þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir, en tenging er fyrir hendi. Geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að útilokað sé að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, muni tengjast fráveitu vegna landfræðilegra eða tæknilegra ástæðna eða vegna eðlis mannvirkisins getur hann þó beint erindi til fráveitu um að álagning fráveitugjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar, og mynda umtalsverðan hluta af matsverði, vera undanþegin við álagningu fráveitugjalds. Þá er kveðið á um að heimilt verði að ákveða fráveitugjald miðað við fast gjald auk álags vegna rúmmáls allra mannvirkja á fasteign eða flatarmáls allra mannvirkja á fasteign og/eða notkunar samkvæmt mæli. Þessar breytingar eru í meginatriðum efnislega samhljóða breytingum í lagafrumvarpi um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga sem innanríkisráðherra leggur fyrir Alþingi. Loks er lögð til breyting í þá veru að stjórn fráveitu verði skylt að yfirtaka eina tengingu við fráveitu frá safnkerfi að lóðamörkum sveitarfélagsins sé þess óskað og séu aukatengingar til staðar þá skuli þær tilheyra áfram viðkomandi fasteign.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta hefur ekki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá þar sem um er að ræða breytingu á núgildandi ákvæðum laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009. Þá gaf frumvarpið ekki tilefni til að meta samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

V. Samráð.
    Frumvarp þetta varðar sveitarfélögin í landinu, rekstraraðila fráveitna, húseigendur og almenning. Eins og áður hefur komið fram er frumvarpið unnið í samráði við innanríkisráðuneytið, Samorku, Orkuveitu Reykjavíkur og Samband íslenskra sveitarfélaga. Auk þess hafði ráðuneytið samband við Húseigendafélagið vegna málsins.
    Frumvarpið var kynnt á vefsíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í janúar 2015 og í otkóber 2015. Eftir fyrri kynningu barst sameiginleg umsögn frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins þar sem þau gera athugasemd við ákvæði um það hvenær gjaldtaka hefst og telja ekki rétt að miða við tiltekið byggingarstig húss heldur hvenær viðkomandi getur tengst fráveitu. Brugðist var við þessari umsögn með því að kveða á um að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar, sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins. Engin umsögn barst eftir kynningu á frumvarpinu í seinna skiptið.

VI. Mat á áhrifum.
    Starfsemi fráveitna á að tryggja meðhöndlun frárennslis sem er forsenda almenns heilbrigðis og öryggis íbúa. Sveitarfélög gegna skyldum varðandi uppbyggingu og rekstur fráveitna hér á landi. Framangreindur dómur Hæstaréttar nr. 613/2013 sýnir að ákvæði laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, eru ekki nógu skýr hvað varðar andlag gjaldtökuheimilda fráveitna. Óljóst lagaumhverfi varðandi gjaldtökuheimildir fráveitna veldur hættu á tekjutapi þeirra en jafnframt er það markmið lagabreytingarinnar að tryggja heilnæmt umhverfi með því að allar fasteignir á starfssvæði fráveitna verði tengdar við fráveitukerfi nema sýnt sé fram á að ómöguleiki sé til staðar vegna landfræðilegra eða tæknilegra ástæðna eða vegna eðlis mannvirkisins. Verði frumvarpið samþykkt verður tryggt að upphaf greiðsluskyldu verði við tengingu heimæðar en heimæð er skv. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 9/2009 fráveitulögn sem flytur frárennsli að tengingu frá mannvirkjum og lóðum, þ.m.t. leigulóðum sveitarfélags. Enn fremur verður tryggt að greiða þurfi af öllum mannvirkjum innan fasteignar, hvort sem gjaldtaka miðar við fasteignamat eða stærð mannvirkja. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að kveða skýrt á um það að þar sem einkaréttur sveitarfélaga til reksturs fráveitu, m.a. í þéttbýli, er fyrir hendi sé ekki valkvætt hvort skólpi sé veitt í fráveitu sveitarfélagsins eða meðhöndlað á annan hátt. Þannig verði rekstrargrundvöllur fráveitna styrktur og stuðlað að því að sveitarfélög geti sinnt betur þeirri skyldu að skólpi sé safnað, það meðhöndlað og hreinsað á kerfisbundinn hátt með samræmdum hætti í samræmi við ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp.
    Farið hefur fram mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins í samræmi við 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sbr. fylgiskjal I.
    Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að skýra réttarstöðuna en ekki að kveða á um grundvallarbreytingar á lögunum. Þar sem markmiðið með frumvarpinu er að skýra upphaf gjaldtökunnar eru heildaráhrif frumvarpsins á einstaklinga og lögaðila hverfandi. Örfá dæmi eru þó um að einhverjir hafi ekki verið að greiða fráveitugjöld þrátt fyrir tengingu við fráveitu og mun verða breyting á því verði frumvarp þetta að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að hugtakið fasteign verði skilgreint. Vísað er til þeirrar skilgreiningar á hugtakinu fasteign sem almennt er notuð í íslenskum rétti, sbr. 3. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum, og 2. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002. Með fasteign í frumvarpi þessu er einnig átt við eignarhluta í fjöleignarhúsum, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laga um skráningu og mat fasteigna og 11. gr. laga um um fasteignakaup. Í þessu felst skýr afmörkun á því að hugtakið fasteign vísar til þeirrar heildarfasteignar sem um ræðir óháð því hvernig hún skiptist í einstaka matshluta eða eindir samkvæmt nánari skráningu í fasteignaskrá.

Um 2. gr.

    Orðalag 1. mgr. 14. gr. gildandi laga er óljóst og er lögð til breyting á ákvæðinu til að setja skýrari reglur um andlag fráveitugjalds og það tímamark þegar fyrst er heimilt að leggja á fráveitugjald. Í gildandi lögum segir: „Heimilt er að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.“ Það eru einkum orðin „eða munu tengjast“ sem hafa valdið óvissu um túlkun laganna og þykir mikilvægt að setja skýrari reglu um slíkt grundvallaratriði um framkvæmd laganna.
    Í a-lið er kveðið á um heimildir fráveitu til innheimtu gjalda svo að hún geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögunum. Þar er kveðið á um að heimilt sé að heimta fráveitugjald af öllum fasteignum þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar. Í þessu sambandi er um skilgreiningu fasteignar vísað til 2. gr. laga um fasteignakaup, nr. 40/2002. Fasteign samkvæmt lögum þessum telst því vera afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru við landið skeytt. Með fasteign er einnig átt við eignarhluta í húsi eða öðru mannvirki sem skiptist í fleiri en einn slíkan. Til að taka af allan vafa um upphaf gjaldskyldu fráveitugjalds er kveðið á um að innheimta megi slíkt gjald þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar og fasteign er skráð og metin í Landskrá fasteigna. Eigandi eða umráðamaður sér um að heimæð sé tengd eftir að fráveita hefur komið tengingu inn fyrir lóðamörk. Hlutverki fráveitu varðandi tengingar er því lokið þegar tenging inn fyrir lóðamörk hefur verið framkvæmd.
    Í b-lið er kveðið á um að gjald vegna losunar skólps komi til viðbótar fráveitugjaldi.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að 2. og 3. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna falli brott og að ákvæðin komi efnislega síðar í greininni í málsgrein sem verður 4. mgr. 15. gr.
    Lagt er til að á eftir 2. mgr. 15. gr. laganna komi þrjár nýjar málsgreinar. Aðrar málsgreinar færast til samkvæmt því. Meginreglan um álagningu fráveitugjalds verður óbreytt um að gjaldið sé lagt á sem tiltekið hlutfall af fasteignamati. Í nýju málsgreinunum er sérstaklega kveðið á um að innheimta megi fráveitugjald af öllum mannvirkjum á fasteign, hvort sem gjaldið er ákveðið sem hlutfall af fasteignamati eða það er reiknað miðað við rúmmál eða flatarmál allra mannvirkja á fasteign, en þó aldrei hærra en 0,5% af heildarfasteignamati. Er hámarkið sambærilegt við ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Fermetra- eða rúmmetrafjöldi á viðkomandi fasteign er fenginn úr fasteignaskrá og því er um rauntölur að ræða. Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um að upphafstími álagningar miðist við að tenging sé fyrir hendi við mörk fasteignar og að fráveita geti þar með uppfyllt skyldur sínar gagnvart viðkomandi fasteign. Frá þeim tíma beri að greiða fráveitugjald af öllum mannvirkjum og rými innan viðkomandi fasteignar, óháð því hvort þau eru raunverulega tengd fráveitu, enda hefur umráðamaður eða eigandi fasteignar í hendi sér hvort og þá hvaða tengingar fara fram innan eða á milli mannvirkja á fasteign. Þá er kveðið á um að heimilt verði að ákveða fráveitugjald miðað við fast gjald auk álags vegna rúmmáls allra mannvirkja á fasteign eða flatarmáls allra mannvirkja á fasteign og/eða notkunar samkvæmt mæli.
    Í frumvarpinu er þó einnig tekið mið af því að við ákveðnar aðstæður geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, muni tengjast fráveitu vegna landfræðilegra eða tæknilegra ástæðna eða vegna eðlis mannvirkisins. Mannvirkið muni af þeirri ástæðu ekki tengjast fráveitu. Er því gert ráð fyrir því, sem algerri undantekningarreglu, að fasteignareigandi geti beint erindi til fráveitu um að álagning fráveitugjalds taki mið af því. Þá er tekið fram að hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar, og mynda umtalsverðan hluta af fasteignamatsverði, vera undanþegin álagningu fráveitugjalds, enda hafa slík réttindi, sem metin eru sérstaklega til fasteignamatsverðs, almennt enga þýðingu við skipulag fráveitumála.

Um 4. gr.

    Hér er lögð til sú breyting að stjórn fráveitu sé einungis skylt að yfirtaka eina tengingu við fráveitu frá safnkerfi að lóðamörkum sveitarfélagsins, en ekki ótilgreindan fjölda eins og er í gildandi ákvæði til bráðabirgða. Því er einnig kveðið á um að þar sem aukatengingar séu til staðar muni þær áfram tilheyra viðkomandi fasteign. Er þetta í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna þar sem segir að óski eigandi eða rétthafi lóðar þess að fá fleiri en eina tengingu af hagkvæmnisástæðum skuli slíkar tengingar teljast einkaeign hans nema sérstakt samkomulag hafi verið gert um annað. Með sama hætti er talið eðlilegt að fráveitu verði einungis skylt að taka yfir eina tengingu á lóð, en aukatengingar verði eign lóðarhafa eins og þegar um nýjar aukatengingar er að ræða.

Um 5. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.Fylgiskjal I.


Umhverfis- og auðlindaráðuneyti:

Mat á áhrifum frumvarps til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, á fjárhag sveitarfélaga skv. 129. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.

    Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll þeirrar álagningar fráveitugjalds sem þegar fer fram á vegum fráveitna sveitarfélaga. Í frumvarpinu er leitast við að skýra betur réttindi og skyldur fráveitna hvað varðar andlag gjaldtökuheimilda fráveitna. Í frumvarpinu er gengið út frá því að þegar fráveita hefur lokið skyldum sínum varðandi tengingu heimæðar sé fyrst heimilt að hefja innheimtu fráveitugjalds. Þá er gert ráð fyrir að geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, geti ekki tengst fráveitu vegna landfræðilegra eða tæknilegra ástæðna eða vegna eðlis mannvirkisins, getur hann beint erindi til fráveitu um að álagning fráveitugjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignarréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar, og mynda umtalsverðan hluta af matsverði, vera undanþegin við álagningu fráveitugjalds. Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarpið að frá þeim tíma sem sveitarfélag hefur lokið skyldum sínum hafi eigandi eða forráðamaður fasteignar einn ákvörðunarrétt og forræði á því hvort og hvaða rými innan fasteignar eru tengd vatni eða við niðurföll. Af sömu ástæðu er skýrð heimild fráveitu til innheimtu af öllum mannvirkjum innan fasteignar sem frá kemur skólp sem þarf að fara í fráveitu, án tillits til þess hvort viðkomandi rými er í raun tengt fráveitunni, enda eru fæst rými í húsum í raun með niðurfalli og þannig beintengd fráveitu en ekki er mögulegt fyrir fráveitu að hafa yfirsýn yfir hvaða hlutar fasteignar eru tengdir.
    Verði frumvarpið samþykkt verður tryggt að upphaf greiðsluskyldu verði við tengingu heimæðar en heimæð er skv. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 9/2009 fráveitulögn sem flytur frárennsli að tengingu frá mannvirkjum og lóðum, þ.m.t. leigulóðum sveitarfélags. Enn fremur verður tryggt að greiða þurfi af öllum mannvirkjum innan fasteignar nema þar sem sýnt er fram á að tiltekið mannvirki á fasteign geti ekki tengst fráveitu. Þar sem einkaréttur sveitarfélaga til reksturs fráveitu, m.a. í þéttbýli, er fyrir hendi verði ekki valkvætt hvort skólpi sé veitt í fráveitu sveitarfélagsins eða meðhöndlað á annan hátt. Þannig verði rekstrargrundvöllur fráveitna styrktur og stuðlað verður að því að sveitarfélög geti sinnt betur þeirri skyldu að skólpi sé safnað, meðhöndlað og hreinsað á kerfisbundinn hátt með samræmdum hætti í samræmi við ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp.
    Þá er lögð til breyting sem snýr að skyldu sveitarfélags til að yfirtaka tengingu frá fráveitu frá safnkerfi að lóðamörkum sveitarfélags. Verði frumvarpið að lögum verður viðkomandi sveitarfélagi eingöngu skylt að yfirtaka eina tengingu við fráveitu frá safnkerfi í stað ótilgreinds fjölda í núgildandi lögum. Ekki er búist við því að sú breyting hafi mikil áhrif á fjárhag fráveitna.
    Það er mat ráðuneytisins að verði frumvarpið óbreytt að lögum muni það hafa óveruleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Það muni hins vegar stuðla að því að treysta tekjuöflun fráveitna og eyða ákveðinni óvissu um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku með því að sporna við því að einstakir fasteignaeigendur geti ákveðið sjálfir hvort þeir tengist fráveitu og greiði lögboðin gjöld vegna aðgangs að fráveitu. Þessi niðurstaða hefur verið borin undir Samband íslenskra sveitarfélaga sem gerir ekki athugasemd við hana.Fylgiskjal II.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009 (gjaldtökuheimildir, réttindi og skyldur fráveitna).

    Með frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á gildandi lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna en markmið þeirra er að skýra og treysta grundvöll álagningar fráveitugjalds sem þegar fer fram á vegum sveitarfélaga. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum þar sem tenging er fyrir hendi við mörk fasteignar. Markmiðið með þessu ákvæði er að skýra hvenær hefja má gjaldtöku, sem er þegar fráveita hefur lokið skyldum sínum með tengingu heimæðar. Jafnframt er kveðið á um að gjald vegna losunar komi til viðbótar fráveitugjaldi. Í öðru lagi er lagt til í frumvarpinu að fráveitugjald skuli vera hlutfall af fasteignamati en þó aldrei hærra en 0,5% af heildarfasteignamati. Heimilt verður að miða fráveitugjald við fast gjald í stað fasteignamats auk álags vegna rúmmáls allra mannvirkja á fasteign eða vegna flatarmáls og/eða notkunar samkvæmt mæli. Þá er hægt að veita undanþágu frá álagningu fráveitugjalds við vissar aðstæður. Í þriðja lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæði gildandi laga sem kveður á um að stjórn fráveitu sé skylt að yfirtaka tengingu við fráveitu frá safnakerfi að lóðamörkum sveitarfélags að skriflegri beiðni eigandans verði breytt á þann veg að sveitarfélagi verði einungis skylt að yfirtaka eina tengingu við fráveitu en aukatengingar tilheyri áfram viðkomandi fasteign. Ekki er gert ráð fyrir að framangreindar breytingar hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Telja má að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á útgjöld sveitarfélaga. Um þau áhrif er fjallað í annarri umsögn en hér er eingöngu fjallað um áhrif lagasetningarinnar á fjárhag ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.