Ferill 231. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 556  —  231. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn
frá Heiðu Kristínu Helgadóttur um rekstur áfangaheimila.


     1.      Er í gildi reglugerð um rekstur áfangaheimila og ef ekki, stendur til að setja slíka reglugerð?
    Gildandi lög og reglugerðir sem heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra hafa ekki að geyma ákvæði sem taka sérstaklega til reksturs áfangaheimila og eftirlits með þeim. Enn fremur liggur ekki fyrir lagaheimild til handa ráðherra til að setja slíka reglugerð. Í þessu sambandi skal þess jafnframt getið að orðið áfangaheimili er hvergi skilgreint í lögum eða reglugerðum en orðið er almennt notað um dvalarheimili sem hefur það að markmiði að stuðla að endurhæfingu einstaklinga.
    Núna eru starfrækt margvísleg áfangaheimili sem þjóna ólíkum hópum, svo sem einstaklingum sem lokið hafa áfengis- eða vímuefnameðferð, einstaklingum sem eru við það að ljúka afplánun fangelsisvistunar og einstaklingum með geðfötlun. Þá eru áfangaheimili ýmist rekin af opinberum aðilum eða einkaaðilum, þar á meðal sjálfseignarstofnunum, og ber þess að geta að unnt er að reka ýmsa starfsemi undir þessu heiti enda ekki einskorðað við tiltekna starfsemi.
    Eftirlit með áfangaheimilum er afar mismunandi og fer það eftir þeim skilyrðum sem ábyrgðaraðili þjónustunnar (sveitarfélag eða lögaðili) setur rekstraraðila þjónustunnar. Í þeim tilvikum þar sem sveitarfélagið sjálft annast rekstur áfangaheimila skilgreinir það í sínum verklagsreglum hvernig eftirliti skuli vera háttað. Þá yrði sá hluti rekstursins, er fæli í sér veitingu lögboðinnar þjónustu, jafnframt undir ytra eftirliti velferðarráðuneytisins sem og Barnaverndarstofu ef þjónustan er veitt til barna eða ungmenna. Ef á hinn bóginn er um það að ræða að ábyrgðaraðili útvisti rekstri áfangaheimila þá er mælt með því að í þjónustusamningi sem ábyrgðaraðili gerir við rekstraraðila séu ákvæði um hvernig eftirliti verði háttað. Þess ber þó að geta að einstaklingar geta samið við fyrirtæki um að veita tilgreinda þjónustu sem slíkir rekstraraðilar geta ákveðið að kalla áfangaheimili eða eitthvað annað.
    Í nýjum frumvörpum félags- og húsnæðismálaráðherra er varða framtíðarskipan í húsnæðismálum þótti mikilvægt að skýra nánar hvað átt er við með áfangaheimili en sem dæmi er lagt til að þeir sem þar dvelja geti átt rétt til húsnæðisbóta og að sérstakar reglur gildi um leigusamninga þessara heimila í ljósi sérstaks eðlis starfsemi þeirra. Að teknu tilliti til framangreinds er gert ráð fyrir að með orðinu áfangaheimili í skilningi umræddra frumvarpa sé átt við „dvalarheimili sem starfrækt er með það að markmiði að stuðla að endurhæfingu einstaklinga sem í flestum tilfellum hafa verið á meðferðar- eða endurhæfingarstofnun eða í fangelsi“. Þessum frumvörpum er hins vegar ekki ætlað að fjalla um rekstur áfangaheimila og eftirlit með starfsemi þeirra.

     2.      Hvernig er háttað eftirliti með áfangaheimilum og þeim sem reka þau? Er þetta eftirlit virkt?
    Gildandi lög sem heyra undir félags- og húsnæðismálaráðherra hafa ekki að geyma ákvæði sem taka sérstaklega til reksturs áfangaheimila og þar af leiðandi er ekki skipulagt opinbert eftirlit með starfsemi þeirra.
    Í þeim tilvikum sem félagsþjónusta sveitarfélags bæri ábyrgð á rekstri áfangaheimilis, svo sem fyrir geðfatlaða, mundi það falla undir eftirlit ráðherra líkt og önnur úrræði félagsþjónustunnar.