Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 558  —  272. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Silju Dögg Gunnarsdóttur
um leigusamning við framhaldsskólann Keili.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra gera leigusamning við framhaldsskólann Keili? Ef ekki, hvers vegna?

    Árið 2008 keypti Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf. fasteignina Grænásbraut 910 í Reykjanesbæ af ríkissjóði. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) sá um sölu eignarinnar og gerð kaupsamnings, en þróunarfélagið hefur með höndum lögbundna umsýslu og sölu á flestum þeim eignum sem ríkið tók við á svæðum sem áður voru varnarsvæði og ákveðið var að taka í borgaraleg not.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðherra hefur aflað sér frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar er Keilir ehf. skráður eigandi umræddrar fasteignar samkvæmt kaupsamningi og hefur á grundvelli samningsins fullan nýtingarrétt eignarinnar.
    Varðandi það hvort ráðherra hyggst gera leigusamning við Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf. þá er það ekki á hendi ráðherra að hlutast til um samninga vegna þeirra eigna sem eru, eða hafa verið, í umsýslu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Ráðherra kemur heldur ekki að ákvörðunum um húsaleigumál annarra skóla en þeirra sem teljast í eigu ríkisins. Í því sambandi er bent á að umræddur framhaldsskóli er rekinn sem einkahlutafélag.