Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 571  —  409. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um stofnun ofbeldisvarnaráðs.


Flm.: Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
Elín Hirst, Karl Garðarsson, Páll Valur Björnsson.


    Alþingi ályktar að kanna beri fýsileika þess að stofna ofbeldisvarnaráð sem verði falið að samhæfa rannsóknir og framkvæmd forvarna gegn ofbeldi á Íslandi. Verkefninu verði beint til stýrihóps um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Greinargerð.

Inngangur.
    Árið 2011 lagðist UNICEF á Íslandi í gerð mælistiku á velferð barna hérlendis, með skýrslunni Staða barna á Íslandi. Niðurstöðurnar voru skýrar: Ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi er ofbeldi. Samkvæmt skýrslunni er ógnin mikil og forvarnir takmarkaðar. Ofbeldi á sér stað á heimilum, í skólum og á opinberum stöðum. Samkvæmt tölum UNICEF á Íslandi frá 2012 verða a.m.k. 5 % barna og ungmenna sjálf fyrir ofbeldi eða vitni að ofbeldi áður en þau verða 18 ára. 1 Þessar tölur ná ekki yfir þann gríðarlega fjölda sem verður svo fyrir ofbeldi á fullorðinsárum.
    Börn eru sérstaklega berskjölduð fyrir ofbeldi og geta afleiðingar þess að upplifa það með beinum eða óbeinum hætti verið miklar. Í skýrslu UNICEF kom m.a. fram að þau börn sem verða fyrir hvers kyns ofbeldi eru líklegri til að telja framtíð sína vonlausa, neyta vímuefna og áfengis og nota tóbak. Einnig voru þau líklegri til að vera sammála fullyrðingum um að í lagi sé að beita aðra ofbeldi. Þá voru þau einnig líklegri til að líða illa í skóla, vera einmana og meta andlega heilsu sína slæma. Rannsóknir sýna jafnframt að börn sem búa við heimilis- og eða kynferðisofbeldi séu líklegri en önnur börn til að hafa skerta sjálfsmynd, sýna lakari félagslega færni, eiga í erfiðleikum með lausn félagslegra vandamála, vera þunglynd eða sýna einkenni áfallastreituröskunar eða andfélagslegrar hegðunar. 2

Mikilvægi forvarna í baráttunni gegn ofbeldi.
    Þó að vel hafi tekist á síðustu árum að bregðast við uppsöfnuðum vanda og veita brota­þolum nauðsynlega þjónustu er enn þörf fyrir aðgerðir sem hugsaðar eru til lengri tíma. Mikil þörf er fyrir markvissar aðgerðir sem stuðla að því að komið sé í veg fyrir ofbeldi. Jafnframt er þörf fyrir rannsóknir á ofbeldi, eðli þess og umfangi. Með tíðum rannsóknum og gagnaöflun væri yfirvöldum gert auðveldara fyrir að taka ákvarðanir tímanlega. Með nákvæmari og nýrri gögnum væri auðveldara að réttlæta ákvarðanir sem hefðu hagsmuni barna og ung­menna að leiðarljósi.
    Á árunum 2012–2015 stóðu þrjú ráðuneyti fyrir verkefninu Vitundarvakning um kyn­ferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Ákveðið hefur verið að byggja frekara samstarf ráðuneytanna á þessari vinnu og í júní sl. var skipaður stýrihópur sem vinna mun að víðtæku landssamráði um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Landssamráðinu er lýst í samstarfsyfirlýsingu sem undirrituð var í desember 2014, um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þar segir m.a.: „Félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra eru sammála um að efna til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds undir forystu ráðuneytanna í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Samstarfinu er einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis, og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Til ofbeldis sem yfirlýsing þessi tekur til telst einnig hatursfull orð­ræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógn­andi í garð einstaklinga eða hópa fólks, svo sem vegna þjóðernis, kynþáttar, trúar, fötlunar, kynhneigðar eða kyns.“
    Í áranna rás hafa stjórnvöld álitið ýmsar ógnir nógu alvarlegar til að ákveða að berjast gegn þeim með reglubundnum og markvissum hætti. Lagður hefur verið tími, orka og ómælt fé í að koma í veg fyrir að börn og fullorðnir verði þessum ógnum að bráð, enda sé það sam­félagslega mikilvægt og skili sér margfalt til baka. Þannig hefur sem dæmi verið barist af krafti gegn áfengisneyslu, tóbaksnotkun og umferðarslysum. Gríðarlegur árangur hefur náðst í því forvarnarstarfi. Er þá svo fjarlægt að spyrja af hverju við gerum ekki það sama varðandi ofbeldi?

Ofbeldisvarnaráð á Íslandi.
    Talsmenn barna á Alþingi leggja til að kannað verði hvort ofbeldisforvörnum væri til langs tíma best komið innan sérstaks ofbeldisvarnaráðs sem sæi um samhæfingu aðgerða og framkvæmd forvarna, fræðslu og rannsókna. Með stofnun ofbeldisvarnaráðs væri stuðlað að markvissum og samhæfðum aðgerðum gegn ofbeldi á Íslandi. Einungis með því að hafa forvarnir, fræðslu og rannsóknir á einum og sama stað er raunverulega hægt að ná fram sam­hæfðum langtímaaðgerðum sem miða að því að berjast gegn ofbeldi. Það er aðeins hægt að bregðast við vandanum ef vitað er hver hann er og hvers eðlis.
    Markmið ofbeldisvarnaráðs væri:
     1.      Að auka fræðslu og aðrar aðgerðir gegn ofbeldi með áherslu á ofbeldi gegn börnum. Nauðsynlegt er að litið sé á ofbeldi sem skýra ógn og tryggja að markvisst sé barist gegn því líkt og gert hefur verið um árabil með tilliti til annara ógna sem álitnar eru sam­félaginu skaðlegar.
     2.      Að styðja og hvetja til rannsókna á umfangi og eðli ofbeldis á Íslandi með sérstaka áherslu á ofbeldi gegn börnum. Safna þarf reglulega gögnum um tíðni og eðli ofbeldis. Ofbeldisvarnaráð mundi vinna slíkar rannsóknir í samstarfi við ýmsa aðila og hefði yfirumsjón með þeim.
     3.      Að halda úti miðlægu gagnasafni um málaflokkinn. Í miðlægu gagnasafni gætu allir þeir sem starfa með og fyrir börn nálgast nýjustu upplýsingar um ofbeldi og viðbrögð og forvarnir gegn því. Til að geta brugðist við vandanum er nauðsynlegt að þekkja umfang, áhrif og afleiðingar hans. Það verður ekki gert án tíðra rannsókna.
     4.      Að styðja aðgerðir til að draga úr eftirspurn eftir klámi og auka fræðslu um tengingu ofbeldis, vændis og kláms. Ofbeldisvarnaráð mundi geta sinnt mikilvægu hlutverki með tilliti til þess að skapa umræðu innan samfélagsins um tengingu ofbeldis, vændis og kláms. Þar gæti ráðið byggt á því góða starfi sem Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur unnið að.
    Ljóst er að stofnun nýs sviðs, stofnunar eða embættis mun kosta fjármagn. Það þarf mann­afla til að sinna forvörnum og rannsóknum og nauðsynlegt er að ekki sé litið fram hjá þeim kostnaði sem mun óhjákvæmilega fylgja stofnun slíks ráðs, stofnunar eða embættis. Því er nauðsynlegt að fram fari greining á því hversu marga starfsmenn þyrfti og hvað slíkur rekstur mundi kosta.
Neðanmálsgrein: 1
1     Réttindi Barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir, 2013. Skýrslan er aðgengileg á vef UNICEF: www.unicef.is/sites/unicef.is/files/atoms/files/unicef_rettindi_barna_ofbeldi_og_forvarnir_0.pdf
Neðanmálsgrein: 2
2     Ingólfur V. Gíslason, 2008. Ofbeldi í nánum samböndum: Orsakir, afleiðingar og úrræði. Bókin er aðgengileg hér: www.velferdarraduneyti.is/media/Ofbeldisbaekur/OfbeldiAdalbokin.pdf