Ferill 346. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 573  —  346. mál.




Svar


félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá
Steinunni Þóru Árnadóttur um ofbeldi gegn fötluðum konum.


     1.      Hvernig hefur af hálfu ráðuneytisins verið brugðist við niðurstöðum skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum sem birtist 25. mars 2013 og unnin var fyrir atbeina ráðuneytisins?
    Velferðarráðuneytið hefur látið vinna fræðsluefni fyrir starfsfólk í þjónustu við fatlað fólk. Efnið verður aðgengilegt á vefnum í upphafi árs 2016. Fræðsluefninu er ætlað að mæta þörf fyrir aukinni fræðslu starfsfólks samkvæmt niðurstöðum skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum sem og að bæta sérþekkingu og hæfni þeirra sem starfa að málefnum fatlaðs fólks. Barnahúsi verður veitt fjármagn til að starfsfólk geti aflað sér aukinnar menntunar og þjálfunar til að sérhæfa sig í að veita fötluðum börnum, sem grunur leikur á að hafi verið beitt ofbeldi, sérhæfða þjónustu.
    Gerð fræðsluefnis um kynfræðslu fyrir fatlað fólk verður styrkt af velferðarráðuneytinu í ljósi þeirra niðurstaðna að þörf sé á aukinni kynfræðslu fyrir fatlaðar konur. Í fræðsluefninu er m.a. tekið á því hvernig eigi að setja mörk í kynlífi og hver séu einkenni kynferðislegs ofbeldis og fjallað um kynheilbrigði og samskipti í víðu samhengi.
    Geðsvið Landspítalans og sjúkrahúsið á Akureyri hafa verið styrkt til að ráða sérfræðinga til að veita áfallahjálp í kjölfar ofbeldis. Þetta er m.a. gert til að fylgja eftir þeirri niðurstöðu að tryggja þurfi aðgengi fatlaðra kvenna að félagslegri og sálfræðilegri ráðgjöf og að auka þurfi sérhæfingu innan kerfisins til að mæta þörfum þeirra. Einnig hefur Stígamótum verið veitt sérstakt framlag til að ráða sérfræðing til að veita fötluðu fólki ráðgjöf og stuðning vegna kynferðisofbeldis.
    Í skýrslunni er bent á að endurskoða þurfi búsetuúrræði til að auka sjálfræði fatlaðs fólks og að skoða þurfi eftirlit með innra starfi á heimilum fatlaðs fólks og það hvort starfshættir séu í samræmi við þarfir íbúa og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frá því að málaflokkur fatlaðs fólks var færður frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur herbergjasambýlum fækkað verulega, samhliða því sem sértækum búsetuúrræðum hefur fjölgað. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 er kveðið á um að öll heimilisumgjörð fatlaðs fólks skuli fullnægja almennum viðmiðum og að herbergjasambýli sem ekki uppfylli slík viðmið skuli lögð niður í áföngum þar sem rannsóknaniðurstöður sýna að hætta er mest á skerðingu á sjálfræði íbúa í húsnæðisúrræðum sem ekki uppfylla slík almenn viðmið. Í skýrslunni kemur fram að ein leið til að efla sjálfræði fatlaðs fólks á heimilum sínum og annars staðar sé notendastýrð persónuleg aðstoð og að mikilvægt sé að sjá til þess að notendastýrð persónuleg aðstoð sé valkostur. Í október árið 2015 voru samningar um notendastýrða persónulega aðstoð 55 talsins á 15 svæðum, en árið 2012 voru þeir 20 alls á 10 þjónustusvæðum. Réttindagæslumenn heimsækja heimili fatlaðs fólks í sértækum búsetuúrræðum og kynna íbúunum hlutverk sitt og kynna sér viðhorf starfsfólks og koma með ábendingar ef þurfa þykir. Samvinna milli rannsóknarlögreglu og réttindagæslumanna fatlaðs fólks er víða komin á og mun auka á réttaröryggi fatlaðs fólks á heimilum sínum og hefur leitt til bætts verklags við rannsókn mála.

     2.      Er áformað af hálfu ráðuneytisins að bregðast við niðurstöðum nýlegrar skýrslu sem ber heitið „Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum“? Ef svo er, hvernig?
    Rannsóknasetri í fötlunarfræðum verður veittur styrkur til að láta útbúa kynningarefni þar sem fylgt verður eftir niðurstöðum skýrslunnar um ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum og einnig til að prenta fleiri eintök af skýrslunni. Skýrslunni á auðlesnu máli og kynningarbæklingi um úrræði hefur þegar verið dreift til réttindagæslumanna í nokkru upplagi til kynningar og uppfræðslu. Ráðuneytið hefur einnig dreift skýrslunni og bæklingnum til sveitarfélaganna.
    Tímamótayfirlýsing um landssamráð gegn ofbeldi og afleiðingum þess var undirrituð í lok síðasta árs af þremur ráðherrum, innanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra. Sú staðreynd að þrír ráðherrar komi að málinu segir ein og sér mikið um hve víða þarf að vera á verði gegn ofbeldi hvers konar – raunar á öllum sviðum samfélagsins. Stýrihópur þessara ráðuneyta vinnur nú að aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir gegn ofbeldi gegn fötluðum konum og samráð haft við hagsmunasamtök fatlaðs fólks í þeirri vinnu.
    Í velferðarráðuneytinu er nú unnið að nýrri framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks. Í henni verður sérstakt mið tekið af skýrslunni „Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum“. Stefnt er að því að taka sérstaklega mið af rannsóknaniðurstöðum skýrslunnar, t.d. hvað varðar þær hindranir sem fatlaðar konur verða fyrir þegar kemur að aðgengi að réttlæti og réttlátari málsmeðferð og skertum möguleikum þeirra á þátttöku.
    Í réttindavakt velferðarráðuneytis sitja fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og starfa réttindagæslumenn um allt land á hennar vegum við að aðstoða fatlað fólk við að gæta réttar síns. Réttindagæslumenn hafa m.a. tekið þátt í samstarfi við lögreglu sem hefur leitt til bættra vinnubragða við lögreglurannsóknir þar sem grunur leikur á að fatlaðar konur hafi verið beittar ofbeldi. Þetta starf og áherslur verður eflt.
    Í ráðuneytinu er verið að skipa nefnd með þátttöku hagsmunasamtaka fatlaðs fólks til að fara yfir orlofsdvalarmál fatlaðs fólks. Velferðarráðuneytið hefur sent skriflega fyrirspurn til þjónustusvæðanna um hver aðkoma þeirra sé að sumarorlofsdvalarmálum fatlaðs fólks.

     3.      Hvaða ráðstafanir telur ráðherra haldbestar til að hindra ofbeldi gegn fötluðum konum og hyggst ráðherra gera ráðstafanir til þess að þeim verði beitt?
    Þær aðgerðir sem nefndar hafa verið hér að ofan og byggjast á víðtæku samstarfi og samráði, á þingsályktunun um framkvæmdaáætlun í máefnum fatlaðs fólks og á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru allar liðir í því hindra ofbeldi gegn fötluðum konum. Sérstaklega skal bent á nokkur atriði. Fyrst skal nefna mikilvægi fræðslu og að fræðsluefni sé unnið og gert aðgengilegt á vefnum fyrir allt starfsfólk sem kemur að þjónustu við fatlað fólk. Allt sem eykur menntun og hæfni starfsmanna til að takast á við málefni fatlaðs fólks og stuðlar að aukinni sérþekkingu á málasviðinu er mikilvægt. Fræðsla eykur víðsýni, breytir viðhorfum og ýtir undir virðingu í garð fatlaðs fólks. Ekki verður gert of mikið úr mikilvægi þess að fatlað fólk búi við heimilisaðstæður sem líkastar því sem almennt tíðkast. Með því fækkar áhættuþáttum sem leiða til skerðingar á sjálfræði og auka líkur á að fatlaðar konur séu beittar ofbeldi. Samhliða því er mjög mikilvægt að sjálfstætt líf sé raunhæfur valkostur með aukin lífsgæði sem takmark. Þjónustan þarf að vera sveigjanleg og sniðin að þörfum þess sem hana fær. Þjónustutilboðin þurfa að vera fjölbreytileg, notendastýrð persónuleg aðstoð verði raunhæfur valkostur fyrir þá sem þess æskja, en um leið þarf vera val um þjónustu sem er samfelld og örugg og veitt inni á heimili fatlaðs einstaklings með þeim hjálpartækjum sem til þarf. Sértækar aðgerðir, svo sem þær að auka þekkingu og skilning löggæslu og dómskerfis á félagslegum aðstæðum fatlaðra kvenna og rétti þeirra til kynvitundar og kynlífs, mun vinna gegn ofbeldi gegn fötluðum konum. Þekking fatlaðra kvenna á kynlífi og kynheilbrigði og fræðsla um hvar setja eigi mörk og hver séu einkenni kynferðislegs ofbeldis eru allt mikilvægir þættir sem lögð er áhersla á að veita fræðslu um.
    Réttindavakt velferðarráðuneytis, með þátttöku fulltrúa hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og starfa réttindagæslumanna um allt land eru mikilvægur þáttur í að vinna gegn þeim hindrunum sem fatlaðar konur verða fyrir þegar kemur að aðgengi að réttlæti og réttlátari málsmeðferð og skertum möguleikum þeirra á þátttöku.

     4.      Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fjármunum verði varið til fræðslu starfsfólks sem vinnur með fötluðu fólki um ólíkar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðu fólki?
    Ráðherra hefur þegar beitt sér fyrir því að fjármagni sé varið í fræðslu starfsfólks um ólíkar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðu fólki. Það verður mikilvæg áhersla til framtíðar og í nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem nú er í vinnslu verður enn skerpt á þeirri áherslu í ljósi þeirrar þekkingar sem nú liggur fyrir í þeim skýrslum sem hér um ræðir.