Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 577  —  2. mál.
Breyttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson, Steinar Örn Steinarsson, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Björneyju Ingu Björnsdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Özur Lárusson og Jón Trausta Ólafsson frá Bílgreinasambandinu, Sigurð Berndsen frá Hertz bílaleigu, Vilhjálm Sigurðsson frá Alp hf. bílaleigu, Steingrím Birgisson frá Bílaleigu Akureyrar, Halldór Halldórsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Ellen Calmon frá Öryrkjabandalagi Íslands, Jónu Björk Guðnadóttur og Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Lárus M. K. Ólafsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Gunnar Val Sveinsson og Hendrik Berndsen frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Sigurjón Högnason frá KPMG, Jóhannes Svavar Rúnarsson og Bryndísi Haraldsdóttur frá Strætó bs., Jón Daða Ólafsson frá Go Green/Rental 1, Ólaf Stephensen og Ingu Skarphéðins­dóttur frá Félagi atvinnurekenda, Björgu Ástu Þórðardóttur og Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins og Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alp hf. bílaleigu, Alþýðusambandi Íslands, Árna Davíðssyni, Bílaleigu Akureyrar – Höldi ehf., Bílgreinasambandinu, Félagi atvinnurekenda, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Go Green/Rental 1, Hertz bílaleigu – bílaleigu Flugleiða, KPMG ehf., Öryrkjabandalagi Íslands, Route 1 Car Rental ehf., Sambandi íslenskra sveitar­félaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferða­þjónustunnar, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Strætó bs. og Félagi eigenda torfærubifreiða í atvinnu­rekstri.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum er snúa að tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs. Frumvarpið hefur sterk tengsl við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.

Þjóðhagsspá, vetur 2015.
    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 og tekjuaðgerðir í frumvarpinu byggjast í grunninn á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júní 2015. 13. nóvember sl. birti Hagstofa Íslands upp­færða þjóðhagsspá fyrir árið 2015. Helstu atriði uppfærðrar þjóðhagsspár má finna í Hag­tíðindum Hagstofu Íslands 1 þar sem fram kemur að gert sé ráð fyrir að hagvöxtur nemi 4,3% á árinu 2015, 3,5% árið 2016 og 2,5–2,8% árin 2017–2019. Einkaneysla er talin aukast um 4,4% árið 2015, um 4,7% árið 2016, 4,2% árið 2017 en um 3% árin 2018 og 2019. Hagstofan telur að nokkur vöxtur verði í fjárfestingum á fyrri hluta spátímans og gerir ráð fyrir að hún muni aukast um 17,7% árið 2015, 15,5% árið 2016 og 5,7% árið 2017 en mun minna eftir það þegar fyrirséðum stóriðjuverkefnum lýkur. Samneysla eykst um 1,1–1,5% árlega og verður hlutur samneyslu í þjóðarbúskapnum nánast óbreyttur út spátímann. Verðbólga stefnir nú í að verða 1,7% árið 2015, en spáin gerir ráð fyrir að hún aukist í 3,2% árið 2016 og 3,7% árið 2017 en fari lækkandi eftir það.
    Önnur helstu atriði uppfærðrar þjóðhagsspár eru eftirfarandi:
     1.      Útflutningur eykst allan spátímann.
     2.      Innflutningur eykst enn meira en orðið er vegna kröftugrar neyslu og fjárfestingar.
     3.      Afgangur verður af utanríkisviðskiptum allan spátímann en mestur á fyrri hlutanum. Lágt heimsmarkaðsverð á eldsneyti og innfluttri hrávöru, gengisstyrking krónunnar, niðurfelling vörugjalda og lítil alþjóðleg verðbólga stuðlar að lágri verðbólgu þrátt fyrir aukinn kostnaðarþrýsting vegna kjarasamninga.
     4.      Launahækkanir og lítil verðbólga ásamt lækkun skatta og gjalda leiða til þess að kaup­máttur ráðstöfunartekna eykst mjög mikið árin 2015 og 2016.
     5.      Fjölgun starfa og ársverka stefnir í að verða 3–4% árið 2015. Fjöldi starfandi fólks árið 2015 slær met ársins 2008.
     6.      Aðgerðum stjórnvalda til afléttingar fjármagnshafta miðar áfram og er nú líklegra en áður að höftunum verði aflétt í náinni framtíð.
    Séu helstu forsendur bornar saman við nýjustu þjóðhagsspá kemur eftirfarandi m.a. í ljós:
     1.      Verg landsframleiðsla vex að raungildi árið 2015 um 4,3% í stað 3,8%, 3,5% í stað 3% árið 2016 og 3,5% í stað 2,7% árið 2017.
     2.      Hagvaxtarspá fyrir árin 2015 og 2016 hækkar um 0,5% og um 0,8% fyrir árið 2017.
     3.      Gert er ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði örlítið hærri en gert var ráð fyrir í spá Hag­stofunnar frá júní sl. fyrir árið 2015 eða um 4,4%. Þá verður vöxturinn um 4,7% árið 2016 í stað 4,1%. Spá fyrir árið 2017 gerir ráð fyrir 4,2% vexti í stað 3% samkvæmt júníspá.
     4.      Áfram er gert ráð fyrir hóflegum vexti samneyslu. Gert er ráð fyrir 1,5% vexti árið 2015 samanborið við 1,8% í júní sl., 1,2% í stað 1,5% árið 2016 og um 1,1% árið 2017 í stað 1,7% í júní.
     5.      Fjármunamyndun verður minni árið 2015 en gert var ráð fyrir í júníspá Hagstofunnar eða um 17,7% samanborið við 18,1%. Þá er gert ráð fyrir að hún verði 15,5% í stað 14,6% árið 2016 og 5,7% í stað 2,9% árið 2017.
     6.      Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði nokkru meira en samkvæmt júníspá Hagstofunnar eða 3,7% í stað 3,1% árið 2015 og 5,1% í stað 3,0% árið 2016. Þá er gert ráð fyrir nokkru minna atvinnuleysi árið 2017 eða 1,8% í stað 2,9%.
     7.      Vegna umtalsvert meiri launahækkana en gert var ráð fyrir í voráætlun Hagstofunnar er útlit fyrir mun meiri verðbólgu á næstu árum en gert var ráð fyrir og að stýrivextir Seðlabankans fari hækkandi í samræmi við þær horfur.
    Að mati meiri hlutans kallar uppfærð þjóðhagsspá ekki á breytingar á ákvæðum frum­varpsins.

Vörugjöld vegna bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum.
    Á fundum nefndarinnar kom fram nokkur gagnrýni á boðaðar breytingar þar sem kveðið er á um að heimild til lækkunar á vörugjaldi vegna bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum verði lögð af.
    Umsagnaraðilar töldu að rétt væri að falla frá boðuðum breytingum eða endurskoða þær og fresta gildistöku þar til heildarendurskoðun hefði farið fram á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Bent var á ýmis atriði í boðuðum breytingum sem gætu haft slæm áhrif á rekstur bílaleiga og bílaumboða. Bent var á að ekki væri fyrirhugað að afnema undanþágur á vöru­gjöldum til leigubifreiða og hópferðabíla. Lögð var áhersla á það sjónarmið að bílaleigur hér á landi búa við erfiðari rekstrarskilyrði en bílaleigur í samkeppnislöndum þar sem hér eru hærri vextir, meiri afföll og mikil samkeppni á takmörkuðum endursölumarkaði. Einnig kom fram að með fjölgun ferðamanna til landsins yrði þáttur bílaleigufyrirtækja í að dreifa ferða­mönnum jafnt um landið meiri og því mikilvægt að friður ríkti um skattaumhverfi grein­arinnar. Auk þess var látin í ljós sú skoðun að boðaðar breytingar samræmdust ekki stefnu stjórnvalda í ferðamálum.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis frá 13. nóvember sl. er t.d. fjallað um það óréttlæti að ferðamenn, sem aki sams konar bifreiðum og nýti sömu umferðarmannvirki og hinn almenni borgari, njóti afsláttar af vörugjöldum. Það kunni að reynast rétt að ef breyting á vörugjöldum á ökutæki orsaki hækkun leiguverðs kunni að einhverju leyti að vera unnið gegn markmiðum um arðsemi bílaleiguhluta ferðaþjónustunnar og ánægju viðskiptavina hans.
    Meiri hlutinn bendir á að vörugjöld á bílaleigubíla hafa verið til umræðu um nokkurt skeið á Alþingi og hefur umræðan snúist um að atvinnugreinin hafi styrkst með fjölgun ferða­manna. Þörfin fyrir lækkunarheimild hefur því minnkað. Í nefndaráliti um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 fjallaði meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar um breytingu á viðmiðunarfjárhæð undanþágu og tók sérstaklega fram að stjórnvöld gerðu ráð fyrir að lækka viðmiðunarfjárhæðina enn frekar í framtíðinni. Þær breyt­ingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru því í samræmi við það sem búast mátti við. Eigi að síður telur meiri hlutinn rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem hafa komið fram og leggur til breytingar sem miða að því að milda áhrif á bílaleigur án þess þó að falla frá því að afnema lækkunarheimildina sem frestast um eitt ár frá því sem upphaflega var áætlað og mun taka gildi frá og með ársbyrjun 2018. Meiri hlutinn leggur því til að gerðar verði breyt­ingar á nýju bráðbirgðaákvæði sem lagt er til í 24. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að bráðabirgðaákvæðið taki bæði til ársins 2016 og 2017. Í öðru lagi er lagt til að viðmið­unarfjárhæð verði lækkuð frá núgildandi lögum í 500.000 kr. Í þriðja lagi er lagt til að hinn svokallaði binditími verði óbreyttur eða 15 mánuðir en ekki 24 mánuðir eins og fyrirhugað er í frumvarpinu. Einnig er lagt til að fallið verði frá því að innheimta sérstakt gjald vegna leyfis til að njóta lækkaðra vörugjalda. Meiri hlutinn áréttar að gert er ráð fyrir að brottfall lækkunarheimildarinnar taki gildi ári síðar þannig að undanþága bílaleiga frá vörugjöldum falli alfarið niður 1. janúar 2018.
    Meiri hlutinn telur að með þessari tillögu til að milda áhrif af lækkuðu þaki verði komið til móts við sjónarmið atvinnugreinarinnar og jafnframt að tveggja ára frestur gefi færi á að ljúka heildarendurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti sem gert er ráð fyrir að hefjist í fjármála- og efnahagsráðuneyti á nýju ári. Í því samhengi vill meiri hlutinn taka fram að hann væntir þess að skattbyrði bílaleiga verði skoðuð á heildrænan hátt við heildarendur­skoðun skattlagningar á ökutæki og eldsneyti. Í þeirri vinnu leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkt samráð verði haft við alla hagsmunaaðila í greininni.

Afnám tolla.
    Við umfjöllun um frumvarpið var bent á að í athugasemdum við 9. gr., þar sem fjallað er um tilfærslu tollnúmera, séu misvísandi tilvísanir. Meiri hlutinn hefur kannað þetta sérstak­lega og telur að umræddar athugasemdir byggist á ákveðnum misskilningi á texta athugasemda við frumvarpið. Í ljósi þess telur meiri hlutinn rétt að taka af allan vafa um hvað átt er við.
    Fram kom í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti frá 13. nóvember sl. að af texta athugasemda við frumvarpið leiði að vörur sem falla undir númerin 2105.0021 og 2105.0029 verði felldar undir hin nýju númer, þ.e. 2105.0091 og 2105.0099. Undir númerið 2105.0029 (sem þegar er að finna í tollskrá) verði hins vegar felldar vörur sem innihalda minna en 3% mjólkurfitu miðað við þyngd og eru t.d. úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum og sams konar vörur sem innihalda kakó verði felldar undir númer­ið 2105.0021. Vörur sem nú falla undir númerin 2105.0021 og 2105.0029 verði því færðar undir nýju númerin 2105.0091 og 2105.0099.
    Við vinnslu málsins var bent á að ákveðnar vörur sem að mati umsagnaraðila gætu talist staðgengdarvörur mjólkurafurða verða ekki undanþegnar tollum. Meiri hlutinn áréttar að markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu á tollskrárnúmerum í 21. kafla tollskrár er að stuðla að því að þeir sem ekki neyta mjólkuríss af einhverjum ástæðum verði í sambærilegri stöðu og þeir sem neyta íss úr mjólkurafurðum. Tillagan vísar í breytingar sem voru gerðar með samþykkt laga nr. 76/2014 en þar var markmiðið að fella niður tolla af staðgengdarvörum mjólkur. Það er mat meiri hlutans að í umsögnum sé hugtakið staðgengdarvörur mjólkur útvíkkað umfram það sem má leiða af tilgangi laga nr. 76/2014 og því gert ráð fyrir að niðurfelling tolla taki eingöngu til íss úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum en ekki til annarra tegunda, svo sem ávaxtaíss.
    Að undanförnu hefur borið nokkuð á gagnrýni á skattlagningu á dömubindi og tíðatappa. Að mati meiri hlutans á gagnrýnin rétt á sér og því er lagt til að tollar á vörur sem falla undir tollskrárnúmerið 9619.0012 verði 0% frá og með 1. janúar 2016.

Ferðaleiðsögn.
    Í VI. kafla frumvarpsins eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögum nr. 50/ 1988, um virðisaukaskatt, sem eru í framhaldi af breytingum sem gerðar voru á þeim lögum með lögum nr. 124/2014 og sneru að miklu leyti að virðisaukaskatti í ferðaþjónustu. Eftir 1. janúar 2016 mun ferðaþjónustan að mestu leyti falla undir neðra þrep virðisaukaskatts. Á fundum nefndarinnar var bent á að svokölluð ferðaleiðsögn mun hins vegar falla í efra þrep virðisaukaskatts. Með ferðaleiðsögn er átt við störf leiðsögumanna í þágu ferðamanna eins og útlistað er í námsskrá leiðsögunáms sem útgefin er af menntamálaráðuneytinu árið 2004. Meiri hlutinn telur að til að auðvelda skattframkvæmd sé nauðsynlegt að ferðaleiðsögn falli einnig undir 11% skatthlutfall virðisaukaskatts eins og önnur ferðaþjónusta. Í minnisblaði sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, dags. 13. nóvember sl., kemur fram að ekki liggja fyrir upplýsingar um virðisaukaskattsskil þessa hóps og því erfitt að leggja mat á hver lækkun virðisaukaskattstekna ríkissjóðs verði ef ferðaleiðsögn verður færð í neðra þrepið. Meiri hlutinn telur að það geti verið til þess fallið að valda vandkvæðum í skattframkvæmd þegar tveir þjónustuþættir falla hvor undir sitt skatthlutfallið. Að athuguðu máli telur meiri hlutinn bæði samræmisrök og skattatæknileg rök standa til þess að ferða­leiðsögn verði felld undir 11% skatthlutfall virðisaukaskatts. Breytingin er fyrst og fremst til einföldunar í skattlagningu ferðaþjónustunnar og ætti að vera til þess fallin að minnka hættu á undanskotum.

Fækkun skattþrepa í tekjuskatti einstaklinga – tekjuskattur samskattaðs fólks.
    Í 1. og 5. gr. frumvarpsins er lagt til að skattþrepum vegna tekjuskatts einstaklinga verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum ásamt því sem tekjumörkum verði breytt á þann veg að mörk efra og neðra þreps verði 8,4 millj. kr. Tillögurnar miða að því að minnka skattbyrði og auka ráðstöfunartekjur einstaklinga. Í þessu samhengi var bent á að með brottfalli mið­þreps tekjuskatts fellur jafnframt niður ákvæði sem tekur til samskattaðs fólks og felst í flutn­ingi helmings ófyllts miðþreps þess sem lægri hefur tekjurnar til þess sem hærri tekjur hefur. Ákvæðinu er ætlað að draga úr þeim mun sem annars væri á heildarskattbyrði samskattaðs fólks eftir því hvort tekjuöflun þeirra er jöfn eða ójöfn innbyrðis.
    Í þessu samhengi bendir meiri hlutinn á að fram kom við vinnslu málsins að heimild sú sem vísað er í er þannig úr garði gerð að þegar skattaðilar eru samskattaðir skal taka tillit til þess hvort tekjuskattsstofn annars er undir tekjuviðmiðum þriðja þreps, þ.e. 10.036.847 kr. á ári, og hins yfir sömu fjárhæð. Við ákvörðun tekjuskatts þess tekjuhærri skal taka tillit til þess ef tekjuskattsstofn hins tekjulægri er undir 10.036.847 kr., þó að hámarki 3.163.584 kr. árlega. Sú fjárhæð sem þannig myndast er skattlögð í öðru þrepi í stað þriðja og er hámarks­lækkun tekjuskatts um 205 þús. kr. á ári. Tilfærslan er milli tveggja efstu skattþrepanna.
    Fram kom í athugasemdum dæmi um áhrif þess ef þessu verður breytt, t.d. varðandi tekju­skatt samskattaðs fólks með 16,8 millj. kr. samanlagðan skattstofn á ársgrundvelli sem er tvöföld fjárhæð lægra þreps einstaklings samkvæmt nýju tillögunum. Ef annað þeirra aflaði allra teknanna má gera ráð fyrir að skattur af þeim verði 30% hærri en ef hvort þeirra aflaði helmings teknanna. Þessi skekkja er tilkomin af því að ef annað hefur allar tekjurnar skatt­leggst helmingur þeirra í efra þrepinu en ef tekjurnar skiptast jafnt skattleggjast allar tekjurn­ar í lægra þrepinu. Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að þessi heimild haldist inni og telur að einföldunar- og skilvirknissjónarmið sem bent hafi verið á vegi ekki eins þungt og þeir hagsmunir einstaklinga sem þarna búa að baki. Meiri hlutinn telur rétt að áfram verði heimilt að færa tekjur milli skattþrepa eins og kveðið er á um í 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. Lagt er til að hætt verði við að fella brott 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. laganna og honum breytt til sam­ræmis við fækkun þrepa. Einnig er lögð til breyting á 18. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda til samræmingar en þar er heimild til handa ríkisskattstjóra til að endurgreiða greidda staðgreiðslu við vissar aðstæður, þ.m.t. þegar fyrirsjáanleg er heimild til tilfærslu milli skatt­þrepa hjá samsköttuðu fólki.

Endurgreiðsla vegna sölu hópbifreiða úr landi.
    Vakin var athygli nefndarinnar á að í inngangsmálslið 16. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að öll greinin sé tekin upp en í 2. málsl. gildandi 6. gr. er að finna reglugerðarheimild sem ekki er ætlunin að falli brott. Í henni er ráðherra heimilað að setja nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslu. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til breytingu á inngangsmálslið 16. gr.

Kostnaður af starfsemi Fjármálaeftirlitsins.
    Fram komu athugasemdir við umfang og kostnað við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Á fyrri stigum hefur verið bent á að neytendavernd stofnunarinnar sé ekki nægilega virk þar sem fjármuni hafi skort í slík verkefni. Við vinnslu málsins fékk nefndin þær upplýsingar að gert sé ráð fyrir að bæta við nýju stöðugildi vegna eftirlits með viðskiptaháttum, m.a. vegna sam­skipta eftirlitsskyldra aðila við viðskiptamenn en um slíkt er fjallað í flestum sérlögum á fjár­málamarkaði sem og í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja neytendavernd á fjármálamarkaði með öflugu eftirliti með neytenda- og viðskiptaháttum. Fram kom að unnið er að samstarfssamningi milli Fjár­málaeftirlitsins og Neytendastofu varðandi neytendavernd á fjármálamarkaði sem meiri hlut­inn fagnar og telur vera skref í rétta átt.

Víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða.
    Í 44. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að framlengja ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta al­mannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju. Ákvæði frumvarpsins kveður á um það að við útreikning tekjutryggingar þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem fá greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum á tímabilinu 1. janúar 2015 til og með 31. desember 2015 skuli gera samanburð á útreikningi tekjutryggingar annars vegar samkvæmt þeim reglum sem gilda á árinu 2015 og hins vegar þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2014 auk 3,6% hækkunar og að teknu tilliti til þess tekjumarks sem myndast hefur við framkvæmd 16. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna fyrir lífeyrisþega skal beitt. Þá er lagt til að í stað 3,6% hækkunar komi 6,7% hækkun.
    Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneyti frá 13. nóvember var vakin athygli nefndarinnar á því að í ljós hefur komið að gera á samanburð á útreikningi tekjutryggingar á milli þeirra reglna sem gilda á árinu 2015 og þeirra reglna sem giltu á árinu 2013 en ekki milli áranna 2015 og 2014 eins og nú er gert ráð fyrir í frumvarpinu.
    Einnig hefur gleymst að gera ráð fyrir sambærilegri framlengingu á ákvæði til bráðabirgða í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á þessum ákvæð­um í því skyni að koma í veg fyrir að víxlverkanir skerðinga fari af stað.
    Þá er lagt til að ákvæðin verði framlengd um tvö ár, þ.e. frá 1. janúar 2015 til 31. desem­ber 2016, en ekki eingöngu vegna ársins 2015. Með því er komist hjá afturvirkni í fram­kvæmd og munu lífeyrisþegar fá réttar greiðslur allt árið 2016 verði tillagan að lögum. Sam­kvæmt upplýsingu frá fjármála- og efnahagsráðuneyti var samráð haft við velferðarráðuneyt­ið, Tryggingastofnun ríkisins og Landssamtök lífeyrissjóða sem styðja tillöguna. Ekki er gert ráð fyrir því að tillagan leiði til útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð.

Virðisaukaskattur vegna fólksflutninga.
Almenningssamgöngur.
    Hinn 1. janúar 2016 munu fólksflutningar verða virðisaukaskattsskyldir en frá og með þeim degi mun virðisaukaskattur m.a. leggjast á aðkeypta akstursþjónustu. Umsagnaraðilar lýstu áhyggjum af því að sveitarfélög og stofnanir þeirra sem annast rekstur almennings­samgangna, skipulagðrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks, skiplagðrar ferðaþjónustu aldraðra og akstur skólabarna verði fyrir kostnaðarauka vegna breytinganna.
    Að mati meiri hlutans verður að líta svo á að aðkeypt akstursþjónusta í þágu aðila sem hafa fólksflutninga með höndum, sem undanþegnir verða virðisaukaskatti skv. c-lið 1. gr. laga nr. 124/2014, muni falla undir undanþágu 6. tölu. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda verði hún nýtt sem þáttur í undanþeginni þjónustu samkvæmt ákvæð­inu.

Heimild til færslu innskatts vegna öflunar torfærubifreiða.
    Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytis frá 13. nóvember sl. var nefndinni bent á tillögu um breytingu á reglugerð um innskatt sem fram kom í greinargerð starfshóps um virðisaukaskatt af ferðaþjónustu til að trygga að ferðaþjónustuaðilum sem annast fólksflutn­inga á breyttum jeppabifreiðum í atvinnuskyni verði gert mögulegt að færa innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts. Lagt er til að heimild til færslu innskatts verði látin ná til torfærubifreiða með leyfða heildarþyngd yfir 5.000 kg með þeim skilyrðum að bílarnir verði aðeins notaðir í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og beri rauð/hvít skráningarnúmer. Með torfærubifreið hér er vísað í skilgreiningu í lið 01.205 í 1. gr. reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja. Telur meiri hlutinn rétt að bregðast við framangreindu og gerir breytingartillögu þess efnis.

Lagaskil.     
    Til að taka af mögulegan vafa um hvort velta sem verður til á grundvelli viðskipta sem komist hafa á fyrir gildistöku ákvæða skv. a-lið 11. gr. laga nr. 124/2014 verði virðisauka­skattsskyld við og eftir gildistökuna leggur meiri hlutinn til, að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneyti, að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem kveðið verði á um að afhending skattskyldrar vöru eða þjónustu eftir 31. desember 2015 teljist til virðisaukaskattsskyldrar veltu samkvæmt lögunum og það eigi við án tillits til þess hvort samningur um sölu skattskyldrar vöru eða þjónustu hafi verið gerður fyrir 1. janúar 2016 eða greiðsla farið fram þá að hluta eða fullu. Ákvæði af sama meiði er að finna í lögum nr. 111/1992 og lögum nr. 122/1993.

Tilfærsla á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi.
    Í umsögnum er ekki gerð athugasemd við tilfærsluna sem slíka en bent er á að rýmka þurfi greiðslufrest á áfengisgjaldi og færa til samræmis við greiðslufrest á virðisaukaskatti sem er nú tveir mánuðir þannig að breytingin sem lögð er til í frumvarpinu um að færa áfengi í 11% þrepið á móti hækkun á áfengisgjaldinu valdi ekki óþarfa kostnaðarauka hjá innlendum framleiðendum. Greiðslufrestur áfengisgjalds eru tvær vikur og gjalddagar tveir í hverjum mánuði, eða 24 á ári. Að baki þessum óvenjuöru skilum er öryggissjónarmið í ljósi þess um hversu háar fjárhæðir kann að vera að ræða. Greiðslufrestir vegna virðisaukaskatts eru hins vegar tveir mánuðir og gjalddagar sex á ári. Sú u.þ.b. 20% hækkun á áfengisgjaldi sem gerð er tillaga um hefur í för með sér að þær greiðslur sem standa þarf skil á í ríkissjóð með tveggja vikna greiðslufresti hækka við breytinguna en þær sem lengri frestur er á lækka að sama skapi. Einnig var bent á að breytingin mun koma mismunandi út í ólíkum styrkleika- og verðflokkum áfengis. Þannig munu ódýrari léttvín og „kassavín“ hækka í verði en dýrari vín lækka. Sterkt áfengi mun einnig lækka. Fyrir liggur að af 2.668 vörunúmerum hjá ÁTVR munu 1.943 lækka og 725 hækka. Mesta verðhækkun samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er tæp 8% en mesta lækkunin tæp 13%.
    Nefndin kannaði þessi sjónarmið og leggur meiri hlutinn áherslu á að litið sé til tilgangs og markmiða þeirra breytinga sem hér eru lagðar til en þau eru að taka á hvötum til undan­skota. Fyrir liggur að slíkt hefur verið töluvert vandamál og í skýrslunni „Skattsvik í ferða­þjónustu – umfang og leiðir til úrbóta“ frá árinu 2014 er áætlað að yfir 40% af söluandvirði áfengis á vínveitingastöðum séu vantalin við uppgjör á virðisaukaskatti í almennu þrepi. Það er skilningur meiri hlutans að með því að öll skattskylda veitingahúsa verði í sama virðis­aukaskattsþrepinu, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, ættu skattskilin að verða einfaldari og draga ætti úr mögulegum ávinningi af undanskotum. Því ættu skil á virðisaukaskatti af áfengi sem selt er á veitingahúsum að batna.
    Hins vegar telur meiri hlutinn nauðsynlegt að komið verði til móts við sjónarmið þess efnis að þessar breytingar á því fyrirkomulagi sem er á innheimtu áfengisgjalds séu sérstak­lega íþyngjandi fyrir áfengisframleiðendur og setji minni framleiðendur sem eru að komast inn á markaðinn í verri stöðu. Það er mat meiri hlutans að ekki sé ætlunin að breyting þessi hafi neikvæð áhrif á framleiðendur í greininni heldur sé hér á ferðinni breyting til einföldunar á skattskilum. Meiri hlutinn telur rétt að koma til móts við aukna fjárbindingu vegna hækk­unar gjaldsins með því að greiðslufrestur áfengisgjalds verði lengdur í einn mánuð. Meiri hlutinn telur jafnframt rétt að árétta að stefnt skuli að því að finna varanlega lausn og sam­ræmi í skilum sem raski ekki stöðu framleiðenda og birgja.

Framlag til rekstrar umboðsmanns skuldara.
    Fjárlaganefnd hefur lagt til breytingu á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 þar sem lagt er til að framlag til rekstrar umboðsmanns skuldara verði hækkað um 200,5 millj. kr. frá því sem áætlað var. Í ljósi þessa þarf einnig að breyta 40. gr. frumvarpsins á þann veg að álagt gjald fyrir árið 2016 þurfi að nema 0,01118% af gjaldstofni í stað 0,00491% til samræmis við gjöld stofnunarinnar á árinu.
    Þetta aukna framlag til umboðsmanns skuldara er þannig tilkomið að haustið 2014 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur íslenska ríkið til að greiða fjármálafyrirtækinu Lýsingu rúmar 10 millj. kr. vegna ólögmætrar gjaldtöku vegna rekstrar embættis umboðsmanns skuldara. Niðurstaða dómsins var sú að upprunalegt ákvæði 5. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, hafi ekki staðist skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þegar hafa um 250 millj. kr. verið endurgreiddar í kjölfar dómsins af mörkuðum tekjum embættisins á yfirstandandi ári. Það hefur þau áhrif að í stað áætlunar um 239,6 millj. kr. jákvæða höfuð­stólsstöðu í árslok 2015 sem gengið var út frá að nýttist til starfseminnar á árinu 2016 verður hún einungis 34,5 millj. kr. Þetta er þó með þeim fyrirvara að ekki komi til frekari endur­greiðslna vegna dómsins.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði sam­þykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.
    Ásta Guðrún Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. desember 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form.
Willum Þór Þórsson,
frsm.
Sigríður Á. Andersen.
Líneik Anna Sævarsdóttir. Brynjar Níelsson. Vilhjálmur Bjarnason.
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá á vefsíðunni www.hagstofa.is/utgafur/nanar-um-utgafu?id=55330