Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 581  —  2. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Annar minni hluti er í nokkrum grundvallaratriðum ósammála áherslum meiri hlutans þegar kemur að tekjuöflun ríkisins, eins og þær áherslur birtast í þessu máli.

Tekjuskattskerfið og jöfnuður.
    Markmiðið um einföldun skattkerfisins er góðra gjalda vert. Mikilvægt er að innheimta skatta sé skilvirk og skiljanleg og flækjustig sé lágt. Önnur sjónarmið en skilvirkni eru þó ekki síður mikilvæg þegar kemur að hönnun skattkerfisins, og stundum þarf að vega og meta hvaða markmið skulu höfð að leiðarljósi hverju sinni. Hönnun skattkerfisins hefur til að mynda mikil áhrif á jöfnuð í þjóðfélaginu. Að mati 2. minni hluta er skynsamlegt að líta á suma þætti skattkerfisins sem hentug tæki til tekjujöfnunar, þó ekki alla. Þannig er markmiðum um tekjujöfnuð líklega best náð í gegnum tekjuskattskerfið en síður annars staðar. Innheimta tekjuskatts er ekki bara mikilvægt tæki til þess að afla tekna til sameiginlegra verkefna, heldur einnig tæki til þess að stuðla að jafnari dreifingu lífsgæða í þjóðfélaginu, sem er bæði hagfræðilega mikilvægt markmið og sanngjarnt, þótt vissulega verði að gæta þess einnig að fólk njóti afraksturs erfiðis síns og skattkerfið virki ekki letjandi. Í frumvarpinu er lagt til að skattþrepum tekjuskatts verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum og tekjumörkum breytt. Með þessum breytingum verður tekjuskattskerfið vissulega einfaldara, en markmiðum um meiri jöfnuð – sem hægt er að ná betur með þrepaskiptu kerfi – er fórnað. 2. minni hluti getur því ekki stutt þessa stefnumörkun.
    Breytingin felur í sér lækkun skatta, sem einnig er góðra gjalda vert. Mikilvægt er hins vegar að tímasetja slíkar ákvarðanir vel með tilliti til hagsveiflunnar. Þannig getur lækkun skatta haft mikilvæg örvandi áhrif í samdrætti og hækkun þeirra dempað þenslu. Margt bendir til, eins og kom fram í umsögnum, að skattalækkunin nú sé illa tímasett, enda töluverður hagvöxtur áætlaður og kjarabætur umtalsverðar á vinnumarkaði. Margt bendir til að betra væri að eiga slíka skattalækkun inni fyrir lakari tíma. Auk þess er fjármuna þörf til uppbyggingar innviða samfélagsins, t.d. í heilbrigðiskerfinu, í kjölfar langvarandi þrenginga.

Virðisaukaskattur.
    Að mati 2. minni hluta eiga sjónarmið um einfalt skattkerfi betur við í tilviki virðisaukaskatts, en sá skattur hentar hins vegar síður til tekjujöfnunar. Einföldun á virðisaukaskattskerfinu hefur verið boðuð af núverandi ríkisstjórn, en lítið bólar á henni. Mörg rök hníga að því að skynsamlegt væri að hafa einungis eitt þrep í virðisaukaskatti, nokkuð lægra en hærra þrepið er nú. Slíkt mundi minnka flækjustig og bæta skattskil. Í öllu falli saknar 2. meiri hluti umræðunnar um kosti þess og galla, sem hefur ekki farið fram svo heitið geti. Það er holur hljómur í allri stefnumörkun um einföldun skattkerfisins ef skrefin sem stigin eru í þá átt innan virðisaukaskattskerfisins eru á sama tíma í mýflugumynd.
    Annar minni hluti styður þau skref sem þó eru stigin í þessu frumvarpi. Nauðsynlegt er að leiðsögumennska í ferðaþjónustu sé höfð á sama virðisaukaskattsþrepi og önnur starfsemi í ferðaþjónustu, og lengi hefur verið aðkallandi að áfengi sé haft í sama þrepi og önnur drykkjarvara sem jafnvel er seld í sömu andrá og í sama ílátinu. Eins er mikilvægt að samræma skattaumhverfi almenningssamgangna. Jafnframt þarf að finna viðunandi framtíðarlausn á skattaumhverfi bílaleigna. Að mati 2. minni hluta er mikilvægt að bílaleigur njóti góðra rekstrarskilyrða, enda er það mikilvægt markmið að ferðamenn geti leigt bíla á samkeppnishæfu verði sem hefði m.a. þau jákvæðu áhrif að straumur ferðafólks dreifðist jafnar yfir landið. Skattaumgjörð bílaleigna þarf þannig að samrýmast heildarstefnumörkun í ferðamálum. Einnig væri skynsamlegt að hvetja bílaleigur, sem og aðra, til notkunar á vistvænum ökutækjum, í gegnum skattalega hvata í mun meira mæli en nú er gert.

Tryggingagjaldið.
    Þróun tryggingagjalds og aukið vægi þess í tekjuöflun ríkissjóðs er annar vitnisburður um það að markmiðið um einföldun skattkerfisins er meira í orði en á borði. Nauðsynlegt var að hækka tryggingagjald umtalsvert á árunum eftir hrun til að mæta kostnaði vegna aukins atvinnuleysis. Atvinnuleysi hefur síðan minnkað mjög, en tryggingagjaldið svo til staðið í stað og andvirði þess að stærri hluta runnið í ríkissjóð í gegnum almenna hluta gjaldsins. Með þessu móti hefur ríkissjóður sótt sér tekjur með ógagnsæjum hætti, bakdyramegin ef svo má að orði komast. Því má halda fram að sú upphæð nemi allt að 25 milljörðum kr. á ári. Einnig má nefna Fæðingarorlofssjóð í þessu sambandi. Sú umdeilda ákvörðun var tekin af núverandi ríkisstjórn í upphafi kjörtímabilsins að hætta við lengingu fæðingarorlofs í skrefum. Þessi ákvörðun hafði þó ekki áhrif til lækkunar tryggingagjaldsins, heldur hefur mismunurinn runnið í ríkissjóð. Fleiri dæmi eru til um slíka misnotkun tryggingagjaldsins þar sem mikilvæg verkefni sem gjaldið á að fjármagna í samvinnu við atvinnulífið eru vanfjármögnuð eða þeim jafnvel ýtt yfir á sveitarfélög, en mismunurinn látinn renna í ríkissjóð. Þetta er hvorki gagnsæ né einföld skattheimta.
    Að mati 2. minni hluta er mikilvægt að endurreisa tryggingagjaldið sem tekjustofn sem ætlað er að fjármagna nauðsynleg verkefni á vinnumarkaði, eins og jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða, starfsendurhæfingu, atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof, en að tekjur til reksturs ríkisins og velferðarkerfisins séu að öðru leyti sóttar til annarra tekjustofna, eins og tekjuskattskerfisins, virðisaukaskattskerfisins og arðs af auðlindum sem er stórlega vannýtt tekjuöflunarleið hér á landi. Ef slík stefnumörkun réði för yrði tryggingagjaldið umtalsvert lægra, jafnvel þótt þessi mikilvægu verkefni á vinnumarkaði yrðu að fullu fjármögnuð með gjaldinu, miðað við áætlaða þörf og pólitískan vilja.
    Skattheimta í gegnum tryggingagjald er ekki einungis slæm vegna ógagnsæis og brota á samningum ríkisvaldsins við aðila vinnumarkaðarins sem slíkri tekjuöflun óhjákvæmilega fylgir. Hún er einnig slæm í sjálfu sér vegna eðlis gjaldsins. Allir launagreiðendur þurfa að greiða jafnháa prósentutölu af launum vegna hvers einasta launamanns. Af þessum sökum leggst gjaldið þungt á lítil og meðalstór fyrirtæki með litla veltu og vinnur gegn möguleikum þeirra til að skapa ný störf. Jafnframt er ljóst að hátt tryggingagjald gerir það að verkum að fyrirtæki hafa úr minni fjárhæðum að spila til þess að hækka laun eða verja í rannsóknir, nýsköpun og þróun. Gjaldið vinnur því gegn fjölbreytni á vinnumarkaði sem er einkar slæmt. Nær væri að lækka frekar tryggingagjald en að lækka tekjuskatt.

Staða sveitarfélaga.
    Tryggingagjaldið leggst jafnframt þungt á sveitarfélög sem eru stórir launagreiðendur. Miðað við nýlegar rekstrartölur af sveitarstjórnarstiginu er þar víða mjög þröngt í búi. Að mati 2. minni hluta er orðið mjög aðkallandi að fara í saumana á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en engir tilburðir eru hafðir í frammi til þess í fyrirliggjandi frumvarpi. Í tilviki tryggingagjaldsins væri til að mynda mikilvægt að greina að hversu miklu leyti sveitarfélög sinna verkefnum á sömu sviðum og gjaldinu eru ætlað að dekka. Augljós dæmi eru ýmiss konar aðstoð við atvinnulaust fólk, einkum eftir að hámarkstími atvinnuleysibóta var lækkaður, og nauðsynleg þjónusta við barnafólk, sem hefði orðið minna aðkallandi af hálfu sveitarfélaga ef fæðingarorlof hefði verið lengt eins og til stóð. Með góðum rökum mætti því halda fram að ósanngjarnt sé að sveitarfélög greiði tryggingagjaldið að fullu. Í öllu falli telur 2. minni hluti mun ríkari ástæðu til að veita sveitarfélögum afslátt af tryggingagjaldi, eða jafnvel undanþágu frá því, en erlendri stóriðju eins og nýleg dæmi eru um.
    Margt annað þyrfti að skoða til þess að jafna stöðu ríkis og sveitarfélaga. Fjögur atriði skulu hér nefnd í bili: Sívaxandi straumur ferðamanna skilar litlum beinum tekjum til sveitarfélaga, jafnvel þótt á sveitarfélögunum hvíli margs konar skyldur þegar kemur að ferðaþjónustu. Hanna þarf tekjustofna í ferðaþjónustu sem gagnast sveitarfélögunum. Í annan stað er mikilvægt að skoða hvernig mæta má kostnaði sveitarfélaga vegna þeirra íbúa sem borga nánast eingöngu fjármagnstekjuskatt og þar með ekkert útsvar. Í þriðja lagi mæla sterk rök með því að sveitarfélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt hvort heldur er vegna framkvæmda eða kaupa eða kaupa á vörum eða þjónustu, enda geta sveitarfélög ekki nýtt sér innskattsheimildir. Í fjórða lagi þarf að skoða hvort það fyrirkomulag sé sanngjarnt, sem nú er við lýði, að sveitarfélög greiði fjármagnstekjuskatt til ríkisins.

Tollar.
    Annar minni hluti fagnar þeim áformum um afnám tolla sem fram koma í frumvarpinu. Að sama skapi lýsir 2. minni hluti yfir undrun á því að ekki skuli litið meira til matvæla í þessu sambandi, sem er ekki síðri nauðsynjavara en t.d. föt. Dæmi um afnám tolla á matvælum hér á landi, eins og á ákveðnum tegundum grænmetis upp úr aldamótum, ættu að virka sem hvatning til frekari skrefa í þeim efnum, en reynslan sýnir að innlend framleiðsla á umræddum tegundum, tómötum og gúrkum, efldist í kjölfarið. Að mati 2. minni hluta framleiða Íslendingar góðan og vel samkeppnishæfan mat, sem fyllilega stæðist samkeppni við erlenda tollfrjálsa matvöru, og þyrftu ekki að óttast skertan hlut. Hagsmunir neytenda eru verulegir þegar kemur að verðlagi á mat og löngu tímabært að tekið sé aukið tillit til þeirra þegar kemur að tollaumhverfi matvöru. Sitthvað stendur til í þeim efnum, en betur má ef duga skal. Vel er hægt að samræma hagsmuni neytenda og hagsmuni matvælaframleiðanda, í heimi sem einkennist í sívaxandi mæli af umframeftirspurn eftir mat, ekki síst gæðavöru, fremur en offramboði.

Alþingi, 3. desember 2015.

Guðmundur Steingrímsson.