Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 584  —  308. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur
um ráðstöfun fjár til löggæslumála.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig var því fé varið sem veitt var til löggæslumála í fjárlögum fyrir árið 2014, sbr. athugasemdir við lið 06-390 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014, einkum um eflingu almennrar löggæslu?
    Óskað er eftir að í svarinu komi fram eftirfylgni við tillögur þingmannanefndar um skiptingu viðbótarfjármagns til löggæslu 2014, úthlutun til einstakra lögregluembætta og ráðstöfun þess hjá embættunum og heildarupphæð fjárins.


    Ráðherra skipaði á árinu 2014 nefnd þingmanna úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi sem fékk það verkefni að skipta því viðbótarfjármagni sem fékkst til löggæslu á árinu 2014. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 var samþykkt ný viðvarandi 500 millj. kr. fjárveiting til að efla löggæsluna í landinu í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Fól ráðherra þingmannanefndinni að gera tillögur um ráðstöfun fjárveitingarinnar.
    Tillögur nefndarinnar, sem samþykktar voru af ráðherra, miðuðust við að efla lögreglulið á landsbyggðinni, auka sýnilega löggæslu og efla rannsóknarstarf lögreglu.
    Tillögur nefndarinnar um eflingu lögreglunnar á árinu 2014 skiptust að meginstefnu til í fernt, þ.e. fjölgun lögreglumanna, aukinn akstur ökutækja lögreglu, þjálfun og búnaðarmál og mannauðsmál.
    Hér á eftir fara tillögur þingmannanefndarinnar sem samþykktar voru af ráðherra.
    Við undirbúning tillagna þingmannanefndarinnar var byggt á greiningum ríkislögreglustjóra um fjölda ársverka lögreglumanna hjá einstökum umdæmum, eknum kílómetrafjölda lögreglubifreiða hvers lögregluumdæmis auk greininga rekstrarskrifstofu ráðuneytisins á nýtingu viðbótarfjárveitinga á árinu 2014 til þess að efla löggæsluna. Niðurstaðan varð sú skipting sem eftirfarandi tafla sýnir.

Tafla 1. Fjárveiting til eflingar almennrar löggæslu 2014:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í nóvember gerði rekstrarskrifstofa ráðuneytisins könnun á þróun starfsmannafjölda embættanna í því skyni að sannreyna hvort þeir fjármunir sem ætlaðir voru til fjölgunar starfa hefðu skilað sér í auknum starfsmannafjölda. Niðurstaða þeirrar greiningar leiddi í ljós að í flestum tilvikum hafði lögreglumönnum fjölgað svo sem áskilið var. Haft var samband við þau embætti þar sem vanhöld virtust vera á áskilinni fjölgun og í öllum tilvikum komu fram viðhlítandi skýringar. Niðurstaðan varð því sú að allir þeir fjármunir sem ætlaðir höfðu verið til eflingar almennrar löggæslu höfðu verið nýttir til þeirrar eflingar.