Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 601  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.

Frá 3. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fjárlögin fyrir árið 2016 bera þess merki að kosningar nálgast. Útgjöld aukast umtalsvert sem skýrist að miklu leyti af kjarasamningum sem gerðir voru á árinu en af þeim hljótast reyndar líka auknar tekjur. Ekki eru gerðar teljandi aðhaldskröfur í frumvarpinu. Gerðar eru breytingartillögur fyrir tæplega 9 milljarða kr. á gjaldahlið frumvarpsins en ekki er farið í sparnaðaraðgerðir né aukna tekjuöflun á móti. Hins vegar voru tekjurnar endurmetnar í ljósi nýrrar þjóðhagsspár og hækkuðu þá um rúma 4 milljarða kr. Gert er ráð fyrir afgangi upp á tæpa 11 milljarða kr. eða 1,6% sem verður að teljast í minna lagi.

Í milljörðum kr. Fjárlagafrumvarp Breytingartillaga
við 2. umr.
Samtals
Frumtekjur 679,7 5,1 684,8
Frumgjöld 606,6 10,6 617,2
Frumjöfnuður 73,1 -5,5 67,6
Vaxtatekjur 16,6 -0,9 15,8
Vaxtagjöld 74,4 -1,8 72,6
Vaxtajöfnuður -57,8 1,0 -56,9
Heildartekjur 696,3 4,2 700,6
Heildargjöld 681,0 8,8 689,8
Heildarjöfnuður 15,3 -4,6 10,7

    Þriðji minni hluti ítrekar fyrri ábendingar um vinnubrögð í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Eins og venja er hefur frumvarpið tekið mjög miklum breytingum frá því að það var lagt fram. Fjármálaráðherra leggur sjálfur fram umfangsmiklar breytingartillögur við eigið frumvarp sem verður að kallast einsdæmi því yfirleitt eru breytingar á lagafrumvörpum á ábyrgð þingsins. Meiri hlutinn gefur ekkert eftir og leggur einnig fram gríðarlega margar breytingartillögur og er nú farinn að deila út fjármagni af miklum móð til verkefna sem búið var að koma fyrir á safnliðum ráðuneyta. Það verklag sem er viðhaft um fjárlagafrumvarpið er að mati Bjartrar framtíðar ómarkvisst og gefur til kynna að frumvarpið sé ekki nógu vel unnið af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar það er lagt fram að hausti. Þá verður að gagnrýna hversu langan tíma tók fyrir meiri hlutann að leggja fram sínar breytingartillögur.

Lífeyrissjóðir ríkisins.
    Þótt Ísland standi nokkuð vel að vígi í lífeyrismálum miðað við aðrar þjóðir er þó áhyggjuefni hve miklar skuldbindingar ríkissjóðs eru.
    Árið 1999 sömdu fjármálaráðherra og stjórnir LSR og LH um fyrirframgreiðslur ríkissjóðs upp í lífeyrisskuldbindingar hjá sjóðunum. Uppsafnaðar greiðslur ríkissjóðs vegna samkomulagsins námu 231,8 milljörðum kr. með áunnum vöxtum og verðbótum í árslok 2014 en voru 205,2 milljarðar kr. í ársbyrjun. Hefði ekki komið til þessara viðbótarinnborgana hefðu eignir B-deildar LSR verið uppurnar árið 2016 og árið 2018 hjá LH og allar greiðslur sjóðanna þurft að koma úr ríkissjóði eftir það. Aukagreiðslurnar fresta þessari stöðu til ársins 2030. Við það að sjóðirnir tæmast mundi ríkissjóður sem bakábyrgðaraðili þurfa að greiða til sjóðanna u.þ.b. 6 milljarða kr. árið 2030. Árið 2031 yrði fjárhæðin nálægt 13 milljörðum kr. en færi lækkandi eftir það og hefði u.þ.b. helmingast árið 2039.
    Þessar greiðslur ríkissjóðs vegna bakábyrgðarinnar bætast við greiðslur lífeyrishækkana sem munu árlega nema 13–14 milljörðum kr. á þessu tímabili miðað við 3,5% raunávöxtun eigna frá árslokum 2013.
    Inn í lífeyrisskuldbindingarnar vantar skuldbindingar A-deildar LSR en fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur kosið að færa þær ekki til bókar þrátt fyrir að ríkissjóður beri fulla fjárhagslega ábyrgð á að greiða þær þegar þar að kemur. Heildarstöðu A-deildar í lok árs 2014 var neikvæð um 9,6% af heildarskuldbindingum.

Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun
Almennur rekstur: Frumvarp 2016 Fjárlög 2015 Breyting milli ára Breyting í %
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 8.820,6 6.835,6 1.985,0 29,0%
Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga 469,7 431,7 38,0 8,8%
Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands 283,2 261,3 21,9 8,4%
Eftirlaun fyrrum bankastjóra Útvegsbanka Íslands 54,8 50,3 4,5 8,9%
Lífeyrissjóðir sveitarfélaga vegna samrekstrarstofnana 190,3 174,9 15,4 8,8%
Eftirlaun ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara 455,9 419,1 36,8 8,8%
Aðrar lífeyrisskuldbindingar og eftirlaun 2.094,0 1.840,1 253,9 13,8%
Gjöld samtals 12.368,5 10.013,0 2.355,5 23,5%

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög til lífeyrisskuldbindinga og eftirlauna nemi tæplega 12,4 millj. kr. og hækka þau því um 23,5% á milli ára.
    Unnið hefur verið að endurskoðaðri framtíðarskipan lífeyrismála á íslenskum vinnumarkaði með það að markmiði að eitt samræmt lífeyriskerfi verði í gildi á almennum og opinberum vinnumarkaði. Þessi vinna er mjög mikilvæg og brýnt að hún haldi áfram. Þjóðin er að eldast og ekki óeðlilegt að hefja hækkun á lífeyristökualdri sem fyrst enda er það ferli sem tekur ár eða áratugi að komast í framkvæmd. Þá vekur það athygli 3. minni hluta að starfsmenn sumra félagasamtaka og stofnana sem ekki flokkast sem ríkisstofnanir greiða í opinbera lífeyrissjóði. Ekki fæst séð að nein regla sé í þeim málum en vekur það óneitanlega upp spurningar um jafnræði.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.
    Það verður að teljast með hreinum ólíkindum hversu illa sitjandi stjórnvöldum hefur gengið að ráða við fjárlagaliðinn 04-555 Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Frá því að ný ríkisstjórn tók til við að semja fjárlög árið 2013 hefur þessi liður alltaf verið vanáætlaður og stjórnvöld ítrekað óskað eftir meiri fjárframlögum í fjáraukalögum hvers árs. Fjáraukalög eiga hins vegar að tryggja fjármagn vegna óvæntra og ófyrirséðra atburða en ekki til að fjármagna verkefni sem stjórnvöld vanáætla á fjárlögum. Í fjárlögum fyrir 2015 var einungis gert ráð fyrir 145,8 millj. kr. í framkvæmdasjóðinn. 3. minni hluti gagnrýndi þessa ráðstöfun sem fyrr. Ekki liðu margir mánuðir frá því að fjárlagafrumvarp fyrir 2015 var samþykkt þar til ríkisstjórnin tilkynnti að setja þyrfti 850 millj. kr. inn í framkvæmdasjóðinn og er sú upphæð á fjáraukalögum 2015. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir 149 millj. kr. en sú upphæð var hækkuð upp í 749 millj. kr. í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar en svo lækkuð í 490 millj. kr. fyrir 2. umræðu fyrir utan hækkun á gistináttagjaldi. Það er gott að stjórnvöld sáu að sér og setja fjármagn í fjárlög í stað fjáraukalaga. Mikilvægt er að úthlutunarreglum sjóðsins verði breytt hið fyrsta en krafan um 50% mótframlag er of hár þröskuldur fyrir mörg sveitarfélög, sérstaklega þau minni, og hamlar því að ráðist sé í nauðsynlega uppbyggingu.

Sóknaráætlun landshluta.
    Þriðji minni hluti gagnrýnir þá ákvörðun stjórnvalda að skera niður verkefnið Sóknaráætlun landshluta um leið og þau komust til valda. Mikil vinna hafði verið lögð í að móta ferla og verklag við að útdeila fjármunum sem ekki fara til lögbundinna verkefna í landshlutum. Sú stefna að færa ákvörðunarvaldið til heimamanna var skref í rétta átt og það eru vonbrigði hvað ríkisstjórnin hefur lítinn skilning og áhuga á þessi verklagi. Fjárveitingar til sóknaráætlunar landshluta voru 400 millj. kr. á fjárlögum fyrir árið 2013 en eftir að ríkisstjórnin tók við voru fjárframlög skorin niður í 15 millj. kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014. Fjárframlög voru hækkuð í 100 millj. kr. og í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 var aftur lagt til 15 millj. kr. framlag en hækkað við 2. umræðu í 100 millj. kr. Í frumvarpinu eru lagðar til 145 millj. kr. sem er of lág upphæð því hún deilist niður á átta landshlutasamtök. Breytingartillaga gerir ráð fyrir 35 millj. kr. í menningarsamninga við sveitarfélög en verulega hefur hallað á fjárframlög til menningarstarfs á landsbyggðinni eins og Björt framtíð hefur bent á.

Háskólar og framhaldsskólar.
    Ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu bæði háskóla og framhaldsskóla. Útgjöld á hvern nemanda á báðum þessum skólastigum eru undir meðaltali OECD-ríkjanna. Þau eru jafnframt mun lægri en annars staðar á Norðurlöndum. Árið 2014 gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um stöðu framhaldsskólanna og benti m.a. á mikilvægi þess að reiknilíkan framhaldsskólanna yrði endurskoðað enda væri það of flókið og ógagnsætt og nýttist ekki sem raunhæft stjórntæki. Það var síðast endurskoðað árið 2003. Þá er þeim tilmælum beint til mennta- og menningarmálaráðuneytisins að launastika reiknilíkansins taki mið af raunverulegum launakostnaði skólanna þar sem laun séu langstærsti kostnaðarliðurinn. Mjög mikilvægt er að úr þessu sé bætt.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 var framlag á hvern nemanda hækkað en að sama skapi var nemendaígildum fækkað um 916. Talið var að vegna minni árganga mundi nemendum í framhaldsskólum fækka en auk þess var nemendum í bóknámi, 25 ára og eldri, gert að klára stúdentspróf með öðrum leiðum en í framhaldsskóla. Ekki lá þó fyrir nein greining á þeim áhrifum sem þetta kynni að hafa í för með sér auk þess sem ekki var sýnt fram á að því fylgdi neinn sparnaður að beina nemendum í önnur úrræði en framhaldsskólana. Það er gagnrýnisvert að farið sé í svona aðgerðir án þess að fyrir liggi ítarleg greining á áhrifum hennar, bæði fjárhagslegum og félagslegum.
    Í fjárlagafrumvarpinu segir að unnið sé að því að móta heildstæða stefnu fyrir háskóla- og vísindastarfsemi til næstu fimm ára sem verði lögð til grundvallar þegar ákvarðanir sem snúa að háskólastarfinu verða teknar. 3. minni hluti fagnar því að slík vinna sé í gangi og ekki seinna vænna því háskólastarf á Íslandi geldur fyrir skort á stefnu og að því er virðist tilviljanakenndar ákvarðanir oft og tíðum. Þá er rétt að vekja athygli á því að menntamálaráðherra skipaði nefnd í febrúar sl. sem á að skoða ávinning samstarfs háskólanna þriggja í norðvesturkjördæmi. Sú nefnd mun hafa skilað niðurstöðum en Björt framtíð gagnrýnir að verið sé að skipa nefndir um einstaka skóla eftir því hvernig þeir skipast í kjördæmi á sama tíma og unnið er að stefnumótun fyrir alla háskóla landsins.
    Staða háskólanna er mjög misjöfn og erfiðlega gengur að finna lausn á vanda þeirra skóla sem glímt hafa við rekstrarvanda og eru með uppsafnaðan halla eins og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum. Brýnt er að úr þeim málum verði leyst. 3 minni hluti leggur áherslu á að fjárframlög til háskólanna eiga að endurspegla áherslur stjórnvalda á hverjum tíma sem og tryggja að skólarnir geti sinnt sínum skyldum. Endalausar reddingar á fjáraukalögum og í breytingartillögum við fjárlög eru ekki boðleg vinnubrögð. Háskólar rétt eins og aðrar stofnanir verða að geta skipulagt sig fram í tímann og mótað stefnu en með þeim vinnubrögðum sem eru ástunduð er þeim gert afar erfitt fyrir.

Samgöngur.
    Ástand vega er víða mjög slæmt og vegakerfið líður fyrir niðurskurð undanfarinna ára. Á sama tíma er umferð að aukast, ekki síst vegna fjölgunar erlendra ferðamanna. Malarvegir eru sums staðar allt að því ófærir. Ástand hafna er einnig áhyggjuefni og víða er orðin mikil þörf á viðhaldi. Í breytingartillögum er gert ráð fyrir auknu fjármagni í viðhald hafna og flugvalla og er það skref í rétta átt. Fjárframlög til vegaframkvæmda þyrftu að vera mun hærri til að bæta úr brýnni þörf, bæði hvað varðar viðhald en einnig í nýframkvæmdir. Þó virðist ómögulegt að áætla fyrir vetrarþjónustu og er sá liður ítrekað rekinn með halla. Ekki er gert ráð fyrir auknum fjárheimildum sem neinu nemur í vegasamgöngur þrátt fyrir að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar komi fram að unnið verði að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða. Í breytingartillögum eru settar 235 millj. kr. til vegagerðar í dreifðum byggðum. Það dugar skammt og ítrekar 3. minni hluti áhyggjur af því hversu lítið fjármagn er sett í vegaframkvæmdir nú þegar betur árar og fara þarf í margvíslegar framkvæmdir sem hafa setið á hakanum. Þá er gagnrýnisvert að ný samgönguáætlun hafi ekki enn litið dagsins ljós.

Ljósleiðaravæðing.
    Þriðji minni hluti telur að eitt af brýnustu byggðamálunum sé uppbygging ljósleiðara um landið og örugg fjarskipti. Miðað við þær fjárveitingar sem settar hafa verið í verkefnið mun því ekki ljúka fyrr en eftir mörg ár. Á meðan sjá mörg sveitarfélög sig knúin til að leggjast í framkvæmdir og tilheyrandi kostnað við lagningu ljósleiðara á svæðum sem búa við markaðsbrest enda ekki hægt að bjóða íbúum upp á sambandsleysi við umheiminn. Lagt er til aukið fjármagn í verkefnið í breytingartillögum meiri hlutans en betur má ef duga skal.

Fæðingarorlof.
    Það eru vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir auknu fjármagni í fæðingarorlofssjóð nema vegna hagrænna áhrifa. Sjóðurinn var skorinn niður eftir hrun og þak sett á hámarksorlof. Samkvæmt heimildum frá Vinnumálastofnun urðu 45,7% feðra og 19% mæðra fyrir skerðingum á greiðslum árið 2010. Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með hlutdeild í tryggingagjaldi. Sú hlutdeild var skorin verulega niður í fjárlögum 2014 og fjárhæðir sem hefðu átt að renna til sjóðsins látnir renna til annarra verkefna ríkissjóðs. Lög um fæðingar- og foreldraorlof sem sett voru árið 2000 voru framsýn og gríðarlega stórt skref í jafnréttisbaráttunni, bæði hvað varðar að tryggja börnum umönnun beggja foreldra og að tryggja betur atvinnumöguleika kvenna á barneignaraldri. Lögin eins og þau eru í dag með þaki á hámarksgreiðslur gera það að verkum að feður taka síður fæðingarorlof en mæður en slíkt gengur þvert á markmið laganna.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Dregið er úr fjárframlögum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem eru rúmir 8 milljarðar kr. í frumvarpi 2016 að meðtöldum breytingartillögum ríkisstjórnarinnar. Er þessi lækkun skýrð þannig að gert sé ráð fyrir að lántakendum fækki á árinu. 3. minni hluti telur að fyrir löngu sé kominn tími á að endurskoða lánakerfið frá grunni. Mjög mismunandi er hversu mikinn styrk námsmenn fá. Sumir greiða öll sín lán til baka á meðan dæmi eru um einstaklinga sem greiða aðeins hluta sinna lána til baka. Það gæti verið hagkvæmara og réttlátara að ríkið styrkti einfaldlega grunnnám eins og er t.d. gert í Danmörku. Þá hefur lengi gætt óánægju með upphæð framfærslu, ekki síst meðal námsmanna erlendis. Samtök þeirra hafa bent á að upphæð lána til námsmanna erlendis hríðlækkar og hamlar orðið íslenskum nemum að sækja út í framhaldsnám.

Löggæsla og fangelsismál.
    Ljóst er að efla þarf löggæslu í landinu enda er henni ætlað víðtækt og mikilvægt hlutverk. Lögreglan er undirmönnuð og hefur ekki bolmagn til að sinna frumkvæðisrannsóknum sem eru mjög mikilvægar. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjöldi lögreglumanna langt í frá haldið í við fólksfjölgun og er oft erfitt að manna vaktir svo vel sé. Víða á landsbyggðinni telur lögreglan sig ekki geta haldið úti ásættanlegu öryggisstigi. Þannig er t.d. eftirlit með höfnum á Austurlandi lítið þrátt fyrir miklar skipakomur og enginn fíkniefnahundur er á Austurlandi þrátt fyrir að nauðsyn sé á öflugu eftirliti, ekki síst á Seyðisfirði. Flogið er með hund frá Reykjavík þegar þess þykir þörf. 3. minni hluti fagnar því að fjárframlög til lögreglunnar séu aukin um 400 millj. kr. en telur að meira þurfi til. Sum lögregluembætti glíma við rekstrarhalla og jafnvel skuldahala sem verður að vinna á. Þá þykir 3. minni hluta ljóst að auka þurfi framlög til fangelsismála ella stefni í mikið óefni í þeim málaflokki. Þótt mikilvægt skref verði tekið með opnun nýs fangelsis á Hólmsheiði liggur ekki fyrir hvernig á að fjármagna þann rekstur nema öðrum fangelsum verði lokað. Á sama tíma bíða um 500 manns eftir að hefja afplánun. Björt framtíð kallar eftir því að þessi málaflokkur verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar og það verði gert í þverpólitískri samvinnu. Hægt er að spara til framtíðar ef fjármunir eru veittir skynsamlega og lögð áhersla á betrun og færri endurkomur fanga. Ekki er gert ráð fyrir nema 45 millj. kr. í breytingartillögum meiri hlutans og það dugar skammt.

Heilbrigðismál.
    Þótt aukið fjármagn hafi verið sett í heilbrigðismál undanfarin ár eftir mikinn niðurskurð fyrst eftir hrun er enn þá mikill óleystur vandi til staðar. Það kemur m.a. til af því að hlutfallslega lítið fé er sett í innviðauppbyggingu í heilbrigðisþjónustu miðað við önnur lönd eða aðeins 0,1% af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.
    Ríkisstjórnin talar ítrekað um að aldrei hafi meira fé verið varið til heilbrigðismála og er það rétt sé bara horft á krónutölu og án verðlagsbreytinga. Ef útgjöld eru skoðuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru þau rétt rúmlega 7% á árinu 2014 eða sambærileg og á árunum 2007 og 2008. Árið 2003 voru þau 8,2% og árið 2009 tæp 7,5%. Ef gögn frá Alþjóðabankanum eru skoðuð sést sama þróun, þ.e. útgjöld til heilbrigðismála árið 2009 voru hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en á árunum fyrir hrun. Ekki liggur fyrir hvernig hlutfallið er í ár.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Ef gögn frá OECD eru skoðuð kemur í ljós að á Íslandi er varið hlutfallslega minna fé í heilbrigðismál en annars staðar á Norðurlöndum að Finnlandi undanskildu sem er á svipuðu róli og Ísland.

Fjárframlög til heilbrigðismála sem hlutföll af vergri þjóðarframleiðslu á Norðurlöndum
2006, 2009, 2011, 2013 og 2014 samkvæmt Alþjóðabankanum og OECD.

Land 2006 2009 2011 2013 2014
Ísland 9,1 9,6 9,0 9,1 8,7
Danmörk 9,9 11,5 10,9 10,6 10,4
Svíþjóð 8,9 9,9 9,5 9,7 11
Noregur 8,6 9,7 9,3 9,6 8,9
Finnland 8,3 9,2 8,9 9,4 8,6
                             Heimildir:
                              data.worldbank.org/indicator/SH.XPD.TOTL.ZS
                              www.oecd.org/health/slow-growth-in-health-spending-but-europe-lags-behind.htm

    Húsnæðismál Landspítalans hafa verið í umræðunni vegna raka, myglu og leka auk annars óhagræðis, m.a. vegna þess að spítalinn er rekinn í mörgum byggingum á nokkrum stöðum í borginni. Viðhaldsframkvæmdir á spítalanum duga skammt til að mæta þessum vanda en frá árinu 2007 til 2015 hefur 2.182 milljörðum kr. verið varið til viðhalds og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2016 er gert ráð fyrir 477 millj. kr. Samkvæmt ríkisreikningi hefur viðhald sl. tveggja ára farið tæplega hálfum milljarði kr. fram úr fjárheimildum. Það þýðir að fjármagn í viðhald hefur verið tekið af öðru rekstrarfé spítalans. Nauðsynlegt er að hraða uppbyggingu nýs Landspítala þannig að húsnæðismálum spítalans verði komið í gott horf. Þá liggur einnig fyrir vaxandi þörf fyrir nýjar legudeildir á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Legudeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri er t.d. lýst þannig í úttekt landlæknisembættisins: „Legudeild geðdeildar er enn í bráðabirgðahúsnæði en hún er barn síns tíma og stenst ekki kröfur nútímans. Húsnæðið er afar þröngt og óheppilega staðsett innan sjúkrahúsbyggingarinnar. Öll er aðstaða farin að láta á sjá, loftleysið og hreinlætisaðstaða er óásættanleg.“
    Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa verið sameinaðar og vonandi mun nást hagræðing þegar fram líða stundir. Enn á þó eftir að gera upp halla nokkurra heilbrigðisstofnana sem liggur fyrir að verður ekki greiddur upp nema fjárframlög verði aukin verulega. Taka þarf á þeim vanda, hann hverfur ekki af sjálfu sér.
    Það felst mikið hagræði í því að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður sjúklinga en margt virðist benda til að aukin ásókn á bráðamóttökur sjúkrahúsanna sé vegna lélegs aðgengis að heilsugæslu. Stefnan virðist vera sú að efla heilsugæsluna og hefur verið gripið til aðgerða eins og að fjölga heilsugæslulæknum og auka þjónustu sálfræðinga inni á heilsugæslustöðvum auk þess að leggja meiri áherslu á heimahjúkrun. Þetta eru vissulega jákvæð skref en duga þó skammt.
    Björt framtíð telur að skoða eigi alvarlega hvernig hægt er að auka samvinnu heilbrigðisstétta í heilsugæslunni til þess að mæta þörfum skjólstæðinganna og til að koma úrlausnarefnum þeirra í réttan farveg. Heimilislæknar og hjúkrunarfræðingar gegna auðvitað lykilhlutverki í heilsugæslunni en samvinna fleiri fagstétta væri af hinu góða. T.d. ætti að nýta þjónustu næringarfræðinga betur en nú er gert, sérstaklega í ljósi þess að hluti af þeim vanda sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir er vegna lífsstílstengdra sjúkdóma sem tengjast aukinni kyrrsetu og óhollu mataræði. Það sama mætti segja um iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og fleiri stéttir sem geta gegnt mikilvægu hlutverki í forvörnum og meðferð innan heilsugæslunnar enda er það ekki þannig að allir sem leita til heilsugæslu verði nauðsynlega að hitta lækni. Þá er mikilvægt að nýta sem best nútímatækni til að bæta þjónustu heilsugæslunnar og hraða eins og kostur er framkvæmdaáætlun um fjarheilbrigðisþjónustu.
    Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Þetta er mjög jákvætt skref. Líklegt verður að teljast að tillagan verði samþykkt og miðast áætlunin við að 112 millj. kr. verði varið í aðgerðir á næsta ári og alls 562 millj. kr. Það er fagnaðarefni að loksins liggi fyrir áætlun í geðheilbrigðismálum en athygli vekur að mjög mörg verkefni eru talin rúmast innan ramma fjárlaga. 3. minni hluti hefur efasemdir um að það fái staðist ef betur er að gáð.
    Meiri hlutinn leggur til tímabundið framlag, 30 millj. kr., til að gera úttekt á rekstri Landspítalans og er það vel. Nauðsynlegt er að skoða reksturinn ofan í kjölinn og ljóst að ráðuneytið hefur ekki bolmagn til þess. Styr hefur staðið um útreikninga fjármálaráðuneytisins vegna kjarasamninga, þ.e. spítalinn telur að kjarasamningar séu ekki að fullu bættir. Einnig hafa forsvarsmenn Landspítalans bent á að Sjúkrahótelið nýtist ekki sem skyldi og telur 3. minni hluti mjög mikilvægt að úr því verði skorið sem fyrst hvort samningur sá sem Sjúkratryggingar hafa gert við Sjúkrahótelið þjóni sínu hlutverki og sé skynsamleg ráðstöfun á almannafé.

Málefni fatlaðs fólks.
    Eftir að sveitarfélögin tóku við þjónustu við fatlað fólk hefur farið fram mikil umræða um kostnað vegna þjónustunnar. 3. minni hluti telur ljóst að að þjónusta við fatlað fólk hafi farið vanfjármögnuð frá ríki til sveitarfélaga. Mikil óánægja er meðal margra sveitarfélaga með stöðu mála og víða hefur verið mikill halli á þjónustunni. Sveitarfélög halda því m.a. fram að nýjar þjónustukröfur hafi komið fram frá ríkinu eftir yfirfærslu málaflokksins sem ekki hafi verið fjármagnaðar. Verið er að vinna endurmat á yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga og hefur sú vinna dregist mjög á langinn en nú munu niðurstöður liggja fyrir. Ekki er þó að sjá í breytingartillögum að gert sé ráð fyrir uppgjöri frá ríki til sveitarfélaga og eru það vonbrigði og ítrekar 3. minni hluti að niðurstaða þarf að fást í þessi mál sem allra fyrst. Það er ekki boðlegt að þjónusta við hóp fólks sem á allt sitt undir henni sé í uppnámi og að sveitarfélög víða um land hóti því að „skila málaflokknum“. Dæmi um uppnám er sú staða sem notendur notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) eru nú í en sveitarfélög hafa alla jafna ekki hækkað samninga til samræmis við kjarasamninga með þeim alvarlegu afleiðingum að notendur þurfa annaðhvort að stofna öryggi sínu í hættu með því að skerða þjónustu eða brjóta á rétti aðstoðarfólks til kjarabóta. Yfir fimmtíu fatlaðar manneskjur hafa gert samning um NPA við sveitarfélagið sitt. Þessir samningar eru hluti af innleiðingarverkefni sem snýst um að gera NPA að lögbundnum valkosti í þjónustu við fatlað fólk eins og Alþingi hefur ákveðið með lögum og þingsályktunum að skuli gert. Þetta þjónustuform eykur möguleika notenda á að geta lifað sjálfstæðu lífi og það er mat 3. minni hluta að þar sem þessi þjónusta hentar eigi hún að vera jafnrétthár valkostur fyrir allt fatlað fólk enda bendir allt til þess að reynslan af henni sé góð. 3. minni hluti minnir enn fremur á að Ísland hefur ekki enn fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ætti það að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Í því ljósi er vert að benda á að fagleg og fjárhagsleg stefna verður að endurspegla samninginn og aðrar alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sem Ísland er aðili að.

Neytendamál.
    Athygli vekur hversu lítil áhersla er lögð á neytendavernd af hálfu stjórnvalda en framlög til málaflokksins eru vart greinanleg í fjárlagafrumvarpinu og um hann eru skrifaðar þrjár setningar á bls. 362. Neytendastofa er opinber eftirlitsstofnun sem fær 182 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Framlög til Neytendasamtakanna eru 8,1 millj. kr. í frumvarpinu og byggjast þau á þjónustusamningi um að samtökin sinni upplýsingaþjónustu til neytenda. Velferðarráðuneytið hefur einnig gert þjónustusamning við samtökin sem snýr að leigjendum og styrkir samtökin um 3,4 millj. kr. í ár. Vissulega eru aðrar stofnanir sem að hluta sinna hagsmunum neytenda, svo sem Samkeppniseftirlitið, Póst- og fjarskiptastofnun, Fjármálaeftirlitið og Matvælastofnun svo nokkrar séu nefndar. Það vekur hins vegar athygli hvað stjórnvöld eru og hafa reyndar alltaf verið spör á fjármagn þegar kemur að neytendavernd og neytendafræðslu. 3. minni hluti lýsir vonbrigðum með það.

Skuldaniðurfelling.
    Ekki er enn útséð með fjárútlát í skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar því gert er ráð fyrir 15,5 milljörðum kr. á þennan fjárlagalið í fjárlögum 2016. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun árið 2013 að verja í það minnsta 80 milljörðum kr. til að greiða niður hluta verðtryggðra fasteignalána heimilanna. Ekki er þá meðtalinn sá kostnaður sem fellur á Íbúðalánasjóð vegna niðurfærslu lána hjá sjóðnum. Þessi dýra aðgerð mun vera einhvers konar leiðrétting vegna gengisfellingar krónunnar haustið 2008 sem orsakaði hækkun á verðtryggðum lánum. 3. minni hluti hefur ítrekað gagnrýnt þessar aðgerðir og bent á að það tjón sem varð vegna efnahagshrunsins haustið 2008 verði trauðla bætt með þessum hætti. Þvert á móti sé það bruðl og óábyrg meðferð á almannafé að deila út 80 milljörðum kr. til fasteignaeigenda og í öllu falli óskiljanlegt að ekki hafi verið tekið neitt tillit til tekna eða eignastöðu heimila og reyndar liggur fyrir að skuldastaða heimilanna var þegar farin að batna verulega áður en þessar aðgerðir komu til framkvæmda. Þá náði þessi aðgerð ekki yfir önnur verðtryggð lán, svo sem námslán, þrátt fyrir að gengisfallið 2008 hafi haft sömu áhrif á þau.
    Það vekur athygli að samkvæmt bráðabirgðatölum nemur heildarumsýslukostnaður ríkissjóðs við skuldaniðurfellinguna heilum 525,8 millj. kr. Auk þess hefur fallið til kostnaður hjá fjármálastofnun en fjárhæð hans liggur ekki fyrir. Eins og rakið hefur verið í þessu nefndaráliti er víða fjárþörf og velferðarkerfið líður fyrir niðurskurð síðustu ára. Margir ráðherrar hafa lýst því yfir að þeir mundu gjarnan vilja sjá hærri framlög í ýmsa mikilvæga málaflokka en fjárlagaramminn leyfi það ekki. 3. minni hluti minnir á að stjórnvöld tóku meðvitaða ákvörðun um að eyða 80 milljörðum kr. hið minnsta á kjörtímabilinu í umdeilda aðgerð sem miðar að því að lækka fasteignalán heimila á frekar tilviljanakenndan hátt. Björt framtíð ítrekar þá afstöðu sína að þessi ráðstöfun á almannafé var afar óskynsamleg. Forgangsraða hefði átt í uppbyggingu innviða, og til að styrkja velferðar- og menntakerfið, uppbyggingu sem öll heimili hefðu notið.

Skipting tekna.
    Í umsögnum margra sveitarfélaga og af máli þeirra má heyra að mikil óánægja ríkir með skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Bent er á að 75% af tekjum sveitarfélaganna séu skatttekjur og það hlutfall sé einsdæmi innan OECD-ríkjanna. Þá sé hlutur tilfærslna frá ríkinu hvergi jafnlítill og hér. Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á að ef þau eigi að geta sinnt sínum lögbundnu skyldum verði að treysta tekjustofna sveitarsjóða. Sérstaklega er bent á eftirfarandi aðgerðir:
    Sveitarfélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt hvort sem er vegna framkvæmda eða kaupa á vörum eða þjónustu, enda geta sveitarfélög ekki nýtt sér innskattsheimildir. Sveitarfélög greiði ekki fjármagnstekjuskatt til ríkisins. Sveitarfélög fái aukna hlutdeild í skattstofnum ríkisins, svo sem í tryggingagjaldi, gistináttagjaldi og gjöldum af umferð. Sveitarfélög fái hlutdeild í tekjum af fjármagnstekjuskatti enda eru margir einstaklingar og lögaðilar sem þiggja þjónustu sveitarfélaga en leggja lítið af mörkum í formi skatttekna. Þá gera þau athugasemdir við að tryggingagjaldið lækki ekki en sveitarfélög eru stórir launagreiðendur.
    Þriðji minni hluti telur ljóst að skoða þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga enda hafi sveitarfélögin nokkuð til sín máls. Rekstur margra sveitarfélaga er þungur á sama tíma og ríkissjóður er að rétta úr kútnum. Ekki er einfaldlega hægt að kenna slæmum rekstri um þá stöðu þótt það eigi vissulega við á einstaka stað.
    Eins liggur fyrir að sveitarfélög hafa mörg hver greitt með þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á, svo sem með rekstri hjúkrunarheimila. Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á að daggjöld frá ríkinu standi ekki undir eðlilegum kostnaði við starfsemi hjúkrunarheimila. Þá hefur Ríkisendurskoðun bent velferðarráðuneytinu á að gera þjónustusamning við öll hjúkrunarheimili en misbrestur hefur verið á því.

Breytingartillögur ríkisstjórnar og meiri hlutans.
    Í fjölmörgum breytingartillögum kennir ýmissa grasa. Vert er að nefna nokkra liði sérstaklega. Í lið 00-205 leggur ríkisstjórnin til 75 millj. kr. til að hefja undirbúning og hönnun á nýrri skrifstofubyggingu við Alþingishúsið. Ekki er gerð athugasemd við þessa ráðstöfun enda mikill kostnaður fólginn í að leigja húsnæði eins og gert er í dag. Hins vegar vekja eftirfarandi skýringar upp spurningar: „Við undirbúning framkvæmda skal hafa hliðsjón af þeim áformum sem uppi voru um uppbyggingu á Alþingisreitnum fullveldisárið 1918, sbr. fyrirliggjandi teikningar Guðjóns Samúelssonar fyrrverandi húsameistara ríkisins og áform um minningarviðburði sem tengjast komandi aldarafmæli fullveldis Íslands.“ 3. minni hluti telur að ákvörðun um þau einkenni sem byggingin á að bera geti ekki verið tekin við afgreiðslu fjárlaga. Þá er ekki augljóst hvernig áform um minningarviðburði sem tengjast aldarafmæli fullveldis Íslands tengjast fyrirhugaðri byggingu.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um að fjárframlög til umboðsmanns Alþingis verði lækkuð þar sem hann þurfi nú ekki lengur að greiða leigu. 3. minni hluti telur mikilvægt að umboðsmaður hafi fjárheimildir til að geta sinnt sínu starfi og þá sérstaklega frumkvæðisrannsóknum og verður minni hlutinn með sameiginlegar breytingartillögur þar um.
    Meiri hlutinn leggur til að stofnað verði nýtt embætti húsameistara ríkisins sem taki við hlutverki Fasteigna forsætisráðuneytisins. Þessi breyting er mjög ómarkviss og tilgangur hennar óljós. Allnokkrir aðilar sjá um rekstur og viðhald fasteigna í eigu ríkisins sem varla getur talist hagkvæmt. Farsælla væri að þessari umsýslu yrði komið fyrir á einni hendi.
    Athygli vekur að við nokkra liði er skýringin sú að með fjárveitingu eigi að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla eða tryggja að ekki verði rekstrarhalli á næsta ári. Þetta á við um framlag til Háskólans á Hólum, Háskólans á Bifröst og Austurbrúar og þá er 15 millj. kr. framlag til að greiða uppsafnaðan rekstrarhalla Snorrastofu. Margar stofnanir glíma við uppsafnaðan rekstrarhalla eða fyrirséðan rekstrarhalla á næsta ári. Mjög mikilvægt er að jafnræðis sé gætt þegar farið er í aðgerðir sem snúa að því að koma rekstri stofnana á réttan kjöl. Ráðuneytið verður að tryggja að reksturinn sé í jafnvægi, þ.e. að ekki komi til frekari skuldasöfnunar, og þá verður eftirlit og utanumhald af hálfu viðkomandi ráðuneytis að vera tryggt. Ekki liggja fyrir neinar greiningar á vanda þessara stofnana utan Hjólastóla og óljóst er hvernig meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að einmitt þessar stofnanir þurfi einmitt þessar fjárhæðir. 3. minni hluti gagnrýnir þessi vinnubrögð.
    Á síðasta ári gerði meiri hlutinn mjög margar breytingartillögur sem sneru að safnliðum, þ.e. verkefnum sem höfðu verið sett inn í ráðuneytin árið 2012 þar sem þeim átti að úthluta á faglegan hátt eftir þar til gerðum verkferlum. Ástæðan var m.a. sú að úthlutanir fjárlaganefndar gátu verið tilviljanakenndar, og þegar verið er að útdeila almannafé er mikilvægt að jafnræðis sé gætt. Voru þau rök gefin í fyrra af hálfu meiri hlutans að þriðji geirinn hefði gleymst en ekki var þó að sjá að allur þriðji geirinn nyti gjafmildi meiri hlutans. Í ár er aldeilis bætt um betur. Nú virðist sem gamla verklagið sé aftur búið að festa sig í sessi en þó þannig að aðeins meiri hlutinn hefur aðkomu að fjárveitingum og þar sem tillögurnar lágu ekki fyrir fyrr en 5. desember hefur minni hlutinn ekki haft nægan tíma til að skoða þær allar niður í kjölinn og fá útskýringar á þeim og hvaða forsendur liggja til grundvallar ákvörðunum meiri hlutans. Þessi vinnubrögð eru afturhvarf til fortíðar og í engu samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í nýjum lögum um opinber fjármál sem Alþingi er eimitt að samþykkja á sama tíma og fjárlagafrumvarpið er rætt í þingsal.

Norðvesturnefnd.
    Athygli vekur að fjölmargar tillögur eru settar fram sem snúa að verkefnum sem norðvesturnefndin svokallaða hefur lagt til. Um er að ræða verkefni sem eiga að efla byggðaþróun, fjölga atvinnutækifærum og efla fjárfestingar á Norðurlandi vestra eins og segir í skýringartexta. Telst 3. minni hluta til að um sé að ræða 250 millj. kr. sem fari í verkefni sem snúast m.a. um fjölgun á hvíldarrýmum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, flutning starfs á vegum Minjastofnunar, uppbyggingu nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs á Sauðárkróki, áreiðanleikakönnun á lífdísilframleiðslu á Blönduósi og selarannsóknir, auk 30 millj. kr. til Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Þá er einn liðurinn 80 millj. kr. framlag ætlað til byggðastyrkingar á Norðurlandi vestra vegna fólksfækkunar en ekki er nein skýring á því hvernig þessum 80 millj. kr. verður varið.
    Þriðji minni hluti hefur skilning á þeim vandamálum sem blasa við á Norðvesturlandi og víðar þar sem fólksfækkun hefur orðið og atvinnulíf einsleitara en gott væri. Þessi vinnubrögð geta þó á engan hátt talist ásættanleg. Margir landshlutar glíma við sambærileg vandamál án þess að settir hafi verið á fót starfshópar um þá og tillögur sem rata beinustu leið inn í fjárlög. Það fyrirkomulag sem innleitt var með sóknaráætlun landshluta var til fyrirmyndar. Í stað þess að efla það og auka fjárveitingar skar ríkisstjórnin verkefnið verulega niður um leið og hún komst til valda. Ekki er betur hægt að sjá en að flest verkefnin sem þarna eru tínd til hefðu fallið undir sóknaráætlun landshluta. Með því að beina verkefnum í gegnum faglegt ferli eins og sóknaráætlun er auðveldara að tryggja jafnræði en það á alltaf að vera útgangspunktur þegar opinberu fé er útdeilt. Þá virðast nokkur verkefni sem tiltekin eru falla undir samkeppnissjóði og væri nær að efla þá. Björt framtíð furðar sig á þessum vinnubrögðum og telur nær að vinna að uppbyggingu á landsbyggðinni með heildstæðari og gagnsærri hætti en hér er gert.

Breytingartillögur minni hlutans.
    Minni hlutinn leggur til ýmsar breytingar sem snúa m.a. að aukningu í sóknaráætlun landshluta, Landspítalann, háskóla og framhaldsskóla, Fæðingarorlofssjóð, barnabætur, fangelsismál, menningu og loftslagssjóð. Þá er lagt til að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja verði bætt og fylgi hækkun lágmarkslauna. Minni hlutinn gerir tillögu um að leiðrétta kjör afturvirkt á árinu 2015 sem er breytingartillaga við fjáraukann og að kjör á árinu 2016 fylgi hækkun lágmarkslauna. Nú þegar betur árar er ósanngjarnt að kjör þeirra sem höllustum fæti standa séu ekki leiðrétt með sama hætti og annarra.

Tekjur.
    Fækka á tekjuskattsþrepum úr þremur í tvö og er 3. minni hluti ekki samþykkur þeim áformum. Það geta vissulega verið rök fyrir því að einfalda skattkerfið en þrepaskipt tekjuskattskerfi er leið til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu sem er að mati 3. minni hluta mjög mikilvægt. Ríkissjóður verður auk þess af 5,5 milljörðum kr. á næsta ári vegna þessara breytinga.
    Afnám tolla á fatnað og skó er jákvætt skref sem mun vonandi vænka hag neytenda og styrkja íslenska verslun. 3. minni hluti telur að einnig eigi að fella niður tolla á matvælum enda sé sú verndarstefna sem hér er viðhöfð ekki til hagsbóta fyrir neytendur. Þá er 3. minni hluti hlynntur því að skattur á leigutekjur sé lækkaður.
    Ekki er áformað að lækka tryggingagjaldið og kemur það á óvart. Nauðsynlegt var að hækka tryggingagjald umtalsvert á árunum eftir hrun til að mæta kostnaði vegna aukins atvinnuleysis en það hefur nú snarminnkað. Tryggingagjaldið leggst þungt á sveitarfélög og fyrirtæki en þó sérstaklega á þau fyrirtæki þar sem launakostnaður vegur þungt í rekstri. Það ætti að vera forgangsmál stjórnvalda að lækka þennan skatt og í raun óskiljanlegt af hverju það er ekki gert.

Alþingi, 8. desember 2015.

Brynhildur Pétursdóttir.