Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 614  —  173. mál.




Svar


sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur
um samþjöppun aflaheimilda og veiðigjald.


     1.      Hvernig hefur aflahlutdeild stærstu útgerðanna þróast frá árinu 2010, þ.e.:
                  a.      þeirrar útgerðar sem nú er stærst,
                  b.      fimm stærstu útgerðanna samtals,
                  c.      tíu stærstu útgerðanna samtals,
                  d.      20 stærstu útgerðanna samtals?

    Taflan hér á eftir, sem fengin er frá Fiskistofu, sýnir aflahlutdeildir stærstu útgerða í samræmi við framangreint. Við útreikningana eru aflaheimildir umreiknaðar til þorskígilda miðað við þá þorskígildisstuðla sem voru í gildi á hverjum tíma. Jafnframt er miðað við skráð skip viðkomandi útgerða 1. september ár hvert og þær hlutdeildir sem þá voru bundnar við sömu skip.
    
2010 2011 2012 2013 2014 2015
a) stærsta 10,56% 11,74% 11,60% 11,87% 11,78% 10,86%
b) 5 stærstu 32,18% 31,92% 32,85% 32,85% 32,84% 31,14%
c) 10 stærstu 51,25% 50,13% 51,40% 51,98% 51,83% 50,45%
d) 20 stærstu 69,99% 70,09% 71,16% 71,66% 72,36% 70,70%

    Sé litið á þær breytingar sem orðið hafa á aflahlutdeild stærstu útgerðanna á tímabilinu sést að aflahlutdeild stærstu útgerðarinnar lækkaði milli 2010 og 2015 og sömu sögu má segja um 5 stærstu og 10 stærstu útgerðirnar. Það eru aðeins þær 20 stærstu sem bætt hafa eilítið í hlutdeildir sínar á tímabilinu. Breytingarnar í öllum stafliðunum a–d) eru þó ekki miklar og þessar hlutdeildir í nokkru jafnvægi þannig að því verður tæpast haldið fram, sé miðað við þessi gögn, að samþjöppun hafi aukist í íslenskum sjávarútvegi á tímabilinu. Þetta er þó sagt með fyrirvara um breytingar á eignarhald þessara útgerða í öðrum útgerðum sem ekki voru skoðaðar hér.

     2.      Hverjar yrðu tekjur ríkissjóðs ef sett yrði þrepaskipt stærðarálag á veiðigjaldið og það hækkaði um 10 prósentustig við hver 3.000 tonn þorskígildis þannig að ekkert álag yrði greitt fyrir fyrstu 3.000 þúsund þorskígildin, og þær útgerðir greiddu því veiðigjald sam­kvæmt gildandi lögum, en 100% álag, þ.e. tvöfalt veiðigjald, yrði greitt fyrir 30.000 þorskígildi og allt þar fyrir ofan?
    Samkvæmt þeim forsendum sem gefnar eru í spurningunni má áætla að tekjur ríkissjóðs af þrepaskiptu stærðarálagi næmu rúmum 2,1 milljarði kr. og heildartekjurnar yrðu því samtals rúmir 9,8 milljarðar kr. af veiðigjaldi.
    Við framangreinda útreikninga og aðra útreikninga samkvæmt 3. og 4. tölul. fyrir­spurnarinnar var stuðst við úthlutun aflamarks til útgerða á fiskveiðiárinu 2014/2015 og afla þeirra utan aflamarks á sama tímabili. Aflamark og afli er reiknað til þorskígilda miðað við það fiskveiðiár. Miðað er við heildarálagningu veiðigjalda vegna fiskveiðiársins 2014/2015 hafi numið alls 7,7 milljörðum kr.

     3.      Hver var afsláttur á veiðigjaldi til smærri útgerða fiskveiðiárið 2014/2015? Hve mikið væri hægt að hækka afslætti til smærri útgerða með tekjuauka af þrepaskiptu aflamarki, sbr. 2. tölul., ríkissjóði að skaðlausu.
    Samkvæmt lögum nr. 74/2012 og reglugerð nr. 588/2014 skyldi við álagningu sérstaks veiðigjalds á gjaldskyldan aðila fella niður þá álagningu sem ekki næði 250.000 kr. og allt að 250.000 kr. jafnframt dregnar frá öllu reiknuðu veiðigjaldi umfram þau mörk áður en til álagningar þess kæmi. Alls nam þessi afsláttur rúmum 118 millj. kr. á fiskveiðiárinu 2014/2015.
    Af framangreindum afslætti fengu útgerðir stærri skipa tæpar 22 millj. kr. í afslátt. Afgangurinn, um 96 millj. kr., gekk þá til smábáta með aflamark, krókaaflamarksbáta og báta án hlutdeilda sem veiddu afla sem sérstakt veiðigjald var lagt á.
    Lækkun sérstaks veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2014/2015 vegna bráðabirgðaákvæðis um lækkun vegna hlutdeildarkaupa og skuldsetningar útgerða nam rúmum 860 millj. kr. Af þeirri upphæð gengu rúmar 700 millj. kr. til stærri skipa en um 160 millj. kr. til útgerða smærri skipa.
    Gera má ráð fyrir að 2,1 milljarðs kr. þrepaskipta stærðarálagið sem um ræðir í 2. tölul. fyrirspurnarinnar mundi greiðast af 29 stærstu útgerðunum. Af 1.140 greiðendum veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2014/2015 yrðu því um 1.120 greiðendur gjaldfrjálsir ef álagið á stærri út­gerðir yrði eingöngu notað til að mæta álögðum veiðigjöldum minni útgerða.

     4.      Hversu hátt var veiðigjald sem hlutfall af meðalverði aflamarks í viðskiptum á milli út­gerða á fiskveiðiárinu 2014/2015 og hvernig hefði það verið með sambærilegri þrepa­skiptingu og lýst er í 2. tölul.?
    Álögð veiðigjöld 2014/2015 námu um 7,7 milljörðum kr. en sé þrepaskipta stærðarálagið tekið með næmi fjárhæðin 9,8 milljörðum kr. eins og fram hefur komið. Þetta svarar til 14,13 kr/kg á þorskígildi annars vegar og með þrepaskipta stærðarálaginu 17,98 kr/kg á þorskígildi hins vegar.
    Meðalverð í viðskiptum með aflamark í þorski á fiskveiðiárinu 2014/2015 var samkvæmt Fiskistofu 233 kr/kg.
    Samkvæmt framangreindu yrði veiðigjaldið án þrepaskipts stærðarálags um 6,1% af meðalverði aflamarks í þorski en með þrepaskipta stærðarálaginu um 7,7%.

     5.      Hver var verðþróun aflamarks á markaði frá 1. janúar 2014 til 1. september 2015?
    Meðalverð á aflamarki í þorski og ýsu á þessu tímabili, samkvæmt Fiskistofu, eru sýnd sem dæmi í eftirfarandi töflu:
         
Þorskur (kr./kg) Ýsa (kr./kg)
janúar 2014 204 300
febrúar 2014 204 304
mars 2014 202 306
apríl 2014 200 308
maí 2014 198 308
júní 2014 219 304
júlí 2014 221 294
ágúst 2014 223 290
september 2014 231 302
október 2014 234 313
nóvember 2014 231 314
desember 2014 227 315
janúar 2015 228 300
febrúar 2015 239 301
mars 2015 239 289
apríl 2015 234 270
maí 2015 229 240
júní 2015 233 215
júlí 2015 238 199
ágúst 2015 224 192

     6.      Telur ráðherra að samþjöppun aflaheimilda sé áhyggjuefni og ef svo er, til hvaða að­gerða telur ráðherra best að grípa til að sporna gegn henni?
    Það er óumdeilt að aflahlutdeildarkerfið hefur skilað miklum árangri á mörgum sviðum. Of mikil samþjöppun aflaheimilda er óæskilegt og þess vegna voru settar reglur um hámarks­aflahlutdeild til að koma í veg fyrir það. Á hverjum tíma er þörf á að endurmeta allar reglur til að tryggja öruggari framkvæmd. Nú er unnið að endurmati á reglum um hámarkshlutdeild í ráðuneytinu.