Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.Þingskjal 618  —  420. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001,
með síðari breytingum (stöðugleikaframlag).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)
1. gr.

    Í stað 3., 4. og 5. málsl. í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum koma þrjár nýjar málsgreinar, 2., 3. og 4. mgr., svohljóðandi:
    Þau verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. skulu renna í ríkissjóð og vera til varðveislu hjá bankanum eða félagi í hans eigu, sbr. 3. mgr., að undanskildum eignarhlutum sem Bankasýsla ríkisins fer með á grundvelli laga um Bankasýslu ríkisins. Laust fé, þ.m.t. söluandvirði eigna, skal varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í bankanum.
    Seðlabankinn skal stofna félag með þann tilgang að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á mótteknar eignir skv. 2. mgr. aðrar en eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og laust fé. Stjórn félagsins skal skipuð af Seðlabankanum og skulu stjórnarmenn hafa víðtæka og haldgóða þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum. Stjórnsýslulög gilda ekki um ákvarðanir sem teknar eru af hálfu félagsins. Við umsýslu, fullnustu og sölu eigna skal félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar. Gerður skal sérstakur samningur milli félagsins og ráðherra um verkefni þess og starfshætti, þar á meðal um framangreindar áherslur ríkisins sem eiganda eignanna og sérstakt hæfi stjórnar- og starfsmanna til ákvarðanatöku í einstökum málum. Þá er ráðherra heimilt að mæla fyrir um skaðleysi stjórnar- og starfsmanna félagsins á athöfnum þeirra í samningnum, enda séu þær í fullu samræmi við það verklag sem viðhafa skal samkvæmt ákvæði þessu og ákvæðum samningsins. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með starfsemi félagsins og framkvæmd samningsins. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu félagsins eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Ráðstöfun ríkisins á verðmætum skv. 2. málsl. 1. mgr. skal samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áætlaðri meðferð og ráðstöfun verðmætanna. Ráðherra skal hafa samráð við Seðlabankann um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynna málið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.
    Með lögum nr. 59/2015, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, var nýjum málsliðum bætt við ákvæði til bráðabirgða III í lögum um Seðlabanka Íslands þar sem fjallað er um móttöku, varðveislu, umsýslu og ráðstöfun verðmæta sem Seðlabankinn tekur á móti í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Tilefni þykir til þess að gera ítarlegri grein fyrir þessum þáttum þannig að ekki leiki vafi á um heimildir og skyldur þeirra sem koma að ferlinu frá því að verðmætin eru móttekin og þar til þeim er ráðstafað.
    Lagt er til að löggjafinn feli félagi í eigu Seðlabankans að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum, í stað þess að ráðherra sé heimilt að fela „sérhæfðum aðila sem starfar í umboði bankans“ verkefnin, sbr. 5. málsl. ákvæðis til bráðabirgða III í gildandi lögum. Þá er kveðið á um að félagið skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni í störfum sínum við umsýslu, fullnustu og sölu eigna ríkissjóðs.
    Verði frumvarpið að lögum verður félagi í eigu Seðlabankans, í samræmi við samning milli þess og ráðherra, falið að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Með stofnun félagsins, þeim meginreglum sem lagðar eru til og þeim faglegu kröfum sem gerðar eru til stjórnar félagsins þykir tryggt að úrvinnsla þeirra eigna sem félaginu er falið að sinna verði fagleg og hlutlæg.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæði til bráðabirgða III í lögunum. Hér er lagt til að ákvæðinu verði skipt upp í nokkrar málsgreinar til þess að skapa skarpari skil á milli þátta í því ferli sem fjallað er um í ákvæðinu. Lagt er til að fjallað verði um viðtöku og varðveislu verðmætanna í sérstakri málsgrein. Þá er enn fremur lagt til að fjallað verði um umbreytingu verðmæta í laust fé í næstu málsgrein. Loks er lagt til að fjallað verði um meðferð og ráðstöfun verðmætanna í lokamálsgrein ákvæðisins.
    Ákvæðið sem verður 2. mgr. er í meginatriðum samhljóða 3. málsl. gildandi bráðabirgðaákvæðis. Hér er þó lagt til að sérstaklega verði áréttað að Bankasýsla ríkisins annist meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sbr. lög nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins. Þá er áfram gert ráð fyrir að laust fé verði varðveitt á sérstökum reikningum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands en önnur verðmæti verði til varðveislu hjá bankanum eða félagi sem lagt er til að verði stofnað.
    Í ákvæðinu sem verður 3. mgr. er lagt til að Seðlabanki Íslands skuli stofna félag til þess að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem ekki eru laust fé eða eignarhlutir í fjármálafyrirtækjum. Þannig er félaginu til að mynda falið í samræmi við samning milli ráðherra og félagsins að fara með hluti ríkissjóðs í félögum, innheimta skuldabréf, hafa eftirlit með fjársópseignum og ráðstafa eignum, þar á meðal hvernig og hverjum þær verði seldar og við hvaða verði og hvort kröfu verði haldið uppi, mál verði höfðað um hana eða hún gefin eftir.
    Stjórn félagsins skal skipuð af Seðlabankanum og skulu stjórnarmenn búa yfir tilhlýðilegri þekkingu. Stjórninni er fengin víðtæk heimild til þess að umbreyta mótteknum verðmætum í laust fé án þess að heimildar verði leitað í fjárlögum hverju sinni. Þannig er byggt á því að í málsgreininni felist fullnægjandi lagaheimild í skilningi 40. gr. stjórnarskrárinnar til þeirra aðgerða sem þar eru taldar. Þá er hvorki gert ráð fyrir að ráðherra né Seðlabankinn komi að einstökum ákvörðunum félagsins, þ.m.t. meðferð eða sölu eigna. Með þessu fyrirkomulagi er ætlunin að tryggja hlutlæga og faglega ákvarðanatöku. Þá er áréttað að jafnræðis og gagnsæis skuli gætt við sölu eigna þannig að allir líklegir kaupendur hafi jafna möguleika á því að gera tilboð. Einnig skal félagið tryggja að salan sé hagkvæm, þ.e. að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs á hverjum tíma.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra og félagið geri með sér sérstakan samning um verkefni og störf félagsins þar sem nánar er kveðið á um umboð þess varðandi umsýslu, fullnustu og sölu þeirra eigna sem fjallað er um. Enn fremur er byggt á því að í samningnum verði ítarlega fjallað um verklag við sölu á einstökum flokkum eigna, til að mynda hvernig gætt verði jafnræðis og hagkvæmni við sölu og meðferð verðmæta, auk umboðs til samningsgerðar fyrir hönd ríkissjóðs. Þannig verði áherslur ríkisins sem eiganda eignanna útfærðar nánar í samningnum. Þá er gert ráð fyrir að fjallað verði um sérstakt hæfi stjórnar- og starfsmanna til ákvarðanatöku í einstökum málum í samningnum og að sömu kröfur verði gerðar til hæfis og gerðar eru í II. kafla stjórnsýslulaga. Enn fremur er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til þess að veita loforð í samningnum um að stjórnar- og starfsmönnum félagsins verði haldið skaðlausum af athöfnum þeirra, enda fylgi þeir því verklagi sem mælt er fyrir um í ákvæðinu og í samningnum. Þar sem byggt er á því að hvorki Seðlabankinn né ráðherra hafi afskipti af verkefnum félagsins samkvæmt frumvarpi þessu er lagt til að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með starfsemi félagsins og framkvæmd samnings milli ríkisins og félagsins, sem marka mun ramma utan um verkefni félagsins og verklag við þau. Þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi fullnægjandi heimildir samkvæmt lögum um stofnunina til slíks eftirlits er sá munur á að hér er beinlínis kveðið á um að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með þessum þætti. Það er hins vegar lagt í hendur stofnunarinnar að afmarka og móta hvernig hún hyggst sinna slíku eftirliti með hinum samningsbundnu verkefnum félagsins. Þar sem félagið mun hafa með höndum upplýsingar sem varða viðskipta- og einkamálefni er mælt fyrir um þagnarskyldu þessara aðila. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
    Í nýrri 4. mgr. er kveðið á ráðstöfun ríkisins á verðmætum sem móttekin eru á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. ákvæðisins. Í 4. málsl. gildandi ákvæðis er mælt fyrir um að meðferð og ráðstöfun verðmætanna skuli hagað í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um stöðugleikaskatt. Hér er lagt til að ákvæðið sem vísað er til í lögum um stöðugleikaskatt verði tekið upp sem 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins til skýringarauka. Þar er fjallað um ráðstafanir sem eru annars eðlis en þær ráðstafanir sem félaginu er falið að annast og lúta að því heimta inn fjármuni og koma eignum í verð. Þær ráðstafanir sem fjallað er um í ákvæðinu eru ráðstafanir sem skulu fara fram á grundvelli heimilda í fjárlögum að undangengnu samráði við Seðlabanka Íslands um mat á áhrifum þessa á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og kynningu málsins fyrir efnahags- og viðskiptanefnd á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 2. mgr. 1. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt.

Um 2. gr.

    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands,
nr. 36/2001, með síðari breytingum (stöðugleikaframlag).

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, sem gert er ráð fyrir að öðlist gildi við samþykkt þeirra. Tilgangur frumvarpsins er að komið verði á fót félagi sem sjái um umsýslu eigna ríkissjóðs, annarra en lauss fjár og eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, sem berast Seðlabankanum sem stöðugleikaframlög frá föllnum fjármálafyrirtækjum. Þó að umsýslan verði í höndum félags á vegum Seðlabankans færast eignirnar beint til ríkissjóðs og munu þær því færast í reikninga ríkissjóðs en ekki í samstæðureikninga Seðlabankans. Annar tilgangur frumvarpsins er að skapa ákveðna fjarlægð á milli stjórnvalda og umsýslu eignanna.
    Verði frumvarpið að lögum verður sérstöku og sérhæfðu félagi í eigu Seðlabankans falið að annast umsýslu og að fullnusta og selja eftir því sem við á verðmæti sem Seðlabankinn tekur á móti fyrir hönd ríkissjóðs í þeim tilgangi að draga úr, koma í veg fyrir eða gera kleift að bregðast við neikvæðum áhrifum á greiðslujöfnuð og stöðugleika í gengis- og peningamálum.
    Skipting á kostnaði við rekstur félagsins og stjórnar þess hefur ekki verið ákveðin á þessu stigi en gera má ráð fyrir því að ríkissjóður beri kostnað af 1,2 stöðugildum sérfræðings árið 2016, sem jafngildir um 20 m.kr. Ekki hefur verið gert sérstaklega ráð fyrir þeim kostnaði í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 en ætla má að svigrúm verði fyrir hann innan útgjaldaramma fjármála- og efnahagsráðuneytisins.