Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 624  —  360. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Lárusi Ástmari Hannessyni
um sameiningu öldrunarstofnana í Stykkishólmi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða áform eru um sameiningu öldrunarþjónustu í Stykkishólmi í húsnæði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands við Austurgötu? Hvenær hefjast framkvæmdir við þetta verkefni og hvenær er áætlað að þeim ljúki?

    Vilji hefur verið til að endurskoða fyrirkomulag öldrunarþjónustu í Stykkishólmi. Árið 2011 skipaði þáverandi velferðarráðherra nefnd um endurskoðun á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi. Árið 2014 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp til að koma með tillögur um samstarf Stykkishólmsbæjar, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi og velferðarráðuneytis um samþættingu stofnanaþáttar öldrunarþjónustu í Stykkishólmi. Niðurstaða beggja nefndanna var m.a. að æskilegt væri að sameina starfsemi Dvalarheimilis aldraðra við starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi og koma henni fyrir í húsnæði stofnunarinnar í Stykkishólmi.
    Ákveðin vinna í tengslum við þessa niðurstöðu hefur þegar verið unnin. Ekki hefur verið horfið frá áformum um sameiningu öldrunarþjónustu í Stykkishólmi.
    Hvað varðar seinni lið fyrirspurnarinnar liggur ekki fyrir framkvæmdaáætlun um þær breytingar sem lagðar hafa verið til, hvorki ákvörðun um hvenær framkvæmdir hefjist né hvenær þeim ljúki. Að þeirri ákvörðun þurfa að koma nokkrir aðilar þar sem byggingar, rekstur og fjármögnun eru á margra höndum. Þar má nefna velferðarráðuneytið og Heilbrigðisstofnun Vesturlands, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Fasteignir ríkisins, Stykkishólmsbæ auk Alþingis sem fer með fjárlagagerð.