Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 634  —  373. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (ýmsar breytingar).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt S. Benediktsson og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Skúla Eggert Þórðarson og Jón Ásgeir Tryggvason frá ríkisskattstjóra, Magnús Kristin Ásgeirsson og Þóru Björk Smith frá Kauphöll Íslands hf. og Lárus M. K. Ólafsson frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu. Umsagnir bárust frá Kauphöll Íslands hf., ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu.

Um efni frumvarpsins og vinnu nefndarinnar.
    Frumvarpið er lagt fram annars vegar til að koma til móts við rökstutt álit og athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem snúa að tilteknum ákvæðum laga um tekjuskatt og laga um tryggingagjald. Hins vegar er tilefni frumvarpsins yfirferð fjármála- og efnahagsráðuneytisins yfir ákveðin atriði í skattalöggjöfinni sem talin er þörf á að samræma, einfalda og skýra með gleggri hætti til að styrkja skattaframkvæmd og auka réttaröryggi. Jafnframt lýtur frumvarpið að breytingartillögum sem til eru komnar vegna alþjóðlegra skuldbindinga um upplýsingaskipti á sviði skattamála.
    Í athugasemdum sem bárust nefndinni og á fundum um málið komu fram ábendingar sem nefndin telur rétt að taka til nánari skoðunar og leggur hún til nokkrar breytingar til að koma til móts við þær.

Rafræn framtalsskil.
    Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að ríkisskattstjóra verði heimilt að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skuli almennt vera rafræn og að málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við á. Í umsögn sem barst nefndinni kemur fram ábending um að æskilegt sé að umorða ákvæðið þannig að við það bætist í dæmaskyni tilgreining á þeim ákvæðum tekjuskattslaga þar sem einkum kunni að reyna á að sending rafrænna ákvarðana sé efnislega og formlega bindandi. Lagt er til að orðalagi ákvæðisins verði lítillega breytt með það að markmiði að gera það skýrara. Nefndin fellst á þessi sjónarmið og gerir breytingartillögu þess efnis.

Staðgreiðsla skatts af fjármagnstekjum.
    Í 18. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 3. mgr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þess efnis að verðbréfafyrirtækjum, líkt og bönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum, verði bætt við upptalningu á þeim aðilum sem undanþegnir eru staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum. Nefndinni barst ein umsögn varðandi þennan hluta frumvarpsins og telur umsagnaraðili ástæðu til að útvíkka fyrrgreinda undanþágu enn frekar og fella þar undir verðbréfamiðstöðvar samkvæmt lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Í umsögninni kemur fram að heimfæra megi þá röksemdafærslu sem hvílir að baki fyrrgreindri tillögu 18. gr. frumvarpsins yfir á verðbréfamiðstöðvar með sama hætti og verðbréfafyrirtæki. Nefndin telur þörf á að breyta orðalagi ákvæðisins til að bregðast við þessari athugasemd. Eftir sem áður er fjármálafyrirtækjum skylt að skila fjármagnstekjuskatti sem innheimtur er af viðskiptavinum.

Innflutningur vegna framkvæmda.
    Þá hefur nefndin tekið til skoðunar frekari breytingar á IX. kafla frumvarpsins. Í 121. gr. tollalaga, nr. 88/2005, er kveðið á um rétt aðila sem flytja inn vörur í atvinnuskyni til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum þegar þeir eru skráðir á virðisaukaskattsskrá og eru í skilum við ríkissjóð. Í 122. gr. laganna er fjallað um greiðslufresti aðflutningsgjalda þeirra sem njóta greiðslufrests skv. 121. gr. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 122. gr. að gjalddagi skuldfærðra aðflutningsgjalda sé 15. dagur næsta mánaðar eftir lok tveggja mánaða uppgjörstímabils aðflutningsgjalda. Skv. 3. mgr. 122. gr. laganna er tollstjóra hins vegar heimilað að víkja frá framangreindri meginreglu á grundvelli umsóknar. Að fenginni slíkri umsókn er tollstjóra heimilað að fresta gjalddaga aðflutningsgjalda allt fram að uppgjöri virðisaukaskatts fyrir sama uppgjörstímabil að því gefnu að umsækjandi uppfylli tiltekin skilyrði. Á grundvelli ákvæðisins hefur tollstjóri frestað gjalddaga allt þar til ríkisskattstjóri hefur ákvarðað endurgreiðslu virðisaukaskatts við uppgjör virðisaukaskatts og er það í efnislegu samræmi við skýringar í lögskýringargögnum. Eins og fram hefur komið nær frestunarheimild 3. mgr. 122. gr. til tilvika þegar aðili sem stundar útflutning flytur inn aðföng til nota í starfsemi sinni. Hið sama kann að eiga við þegar slíkir aðilar flytja inn vörur til nota við uppbyggingu varanlegra rekstrarfjármuna sem notaðir verða í starfseminni. Þegar svo háttar til að slíkir aðilar ráðast í uppbyggingu en fela öðrum að annast uppbygginguna á grundvelli verksamninga tapast hagræðið enda eru það að jafnaði viðsemjendur þeirra, aðalverktakar, sem flytja vörurnar inn og greiða aðflutningsgjöld. Í hefðbundnu verktakasambandi leggst virðisaukaskattur á verklaun aðalverktaka. Verkkaupi leggur út fyrir skattinum en getur fengið þá fjárhæð endurgreidda úr ríkissjóði við uppgjör virðisaukaskatts. Til að takmarka fjármagnskostnað útflytjenda sem standa í uppbyggingu er lagt til að tollstjóra verði heimilað að veita aðalverktökum sem gert hafa verksamninga um uppbygginguna gjaldfrest sambærilegan þeim sem kveðið er á um í 3. mgr. 122. gr. Til þess að tryggja eðlilega virkni ákvæðisins og til að fyrirbyggja misnotkun er lagt til að heimild tollstjóra verði því aðeins virk að tiltekin skilyrði séu uppfyllt. Lagt er til að ný málsgrein bætist við 122. gr. laganna þar sem kveðið verði á um heimild tollstjóra til að fresta gjalddaga skuldfærðs virðisaukaskatts skv. 2. mgr. lagagreinarinnar fram að uppgjöri virðisaukaskatts fyrir sama uppgjörstímabil, þ.e. uppgjörstímabil samkvæmt ákvæðum 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
    Heimildinni er ekki ætlað að ná til alls innflutnings sem aðilinn kann að stunda heldur aðeins til innflutnings þeirra vara sem verða nýttar við samningsbundna uppbyggingu varanlegra rekstrarfjármuna sem notaðir verða til öflunar tekna í atvinnurekstri. Með orðunum „samningsbundna uppbyggingu“ er vísað til uppbyggingar sem unnið er að á grundvelli verksamnings við útflytjanda, sbr. a- og c-lið málsgreinarinnar.
    Gert er ráð fyrir að heimildin nái aðeins til innflutnings gagnaðila útflytjanda að verksamningi, aðalverktaka, þ.e. verktaka sem á í beinu samningssambandi við verkkaupa, en ekki til undirverktaka aðalverktakans. Svo að tollstjóra sé mögulegt að sannreyna að slíkt samningssamband sé til staðar er gerð krafa um að skriflegur verksamningur hafi verið gerður um uppbygginguna. Þá er lagt til að gerð verði krafa um að staðfest áætlun um greiðslur verkkaupa til aðalverktaka liggi fyrir, hvort sem hana má leiða af ákvæðum verksamningsins eða hún komi fram í sérstöku skjali sem staðfest hefur verið af báðum samningsaðilum. Tillagan byggist m.a. á því markmiði að tryggja að ríkissjóður verði ekki af skatttekjum vegna beitingar heimildarinnar. Því er nauðsynlegt að tollstjóri leggi mat á, að höfðu samráði við ríkisskattstjóra, hvort greiðslufrestunin taki aðeins til fjármuna sem aðili og verkkaupi mundu annars standa ríkissjóði skil á en verkkaupi fengi sömu fjárhæð endurgreidda í kjölfar uppgjörs virðisaukaskatts. Af þeim sökum eru gerðar tilteknar efniskröfur til áætlunarinnar, af henni verður að vera hægt að ráða að innskattur verkkaupa verði jafn eða hærri en virðisaukaskattur sem aðila ber að greiða við uppgjör á virðisaukaskatti að viðbættum aðflutningsgjöldum á gjaldfresti. Til að draga úr hættu á að ríkissjóður verði fyrir skakkaföllum, að hann sitji ekki uppi með ógreidd aðflutningsgjöld þegar búið er að greiða út virðisaukaskattsinneign verkkaupa af verklaunum, er lagt til að það verði gert að skilyrði fyrir frestun gjalddaga að útflytjandinn lýsi því yfir að tollstjóra sé heimilt að ráðstafa endurgreiðslum við uppgjör hans á virðisaukaskatti til greiðslu aðflutningsgjalda aðalverktakans. Að lokum er þess krafist að aðalverktaki haldi sérstakt bókhald um uppbygginguna. Tilgangur kröfunnar er að tryggja tollstjóra möguleika á að hafa eftirlit með því að frestun gjalddaga aðflutningsgjalda hafi sannarlega verið vegna uppbyggingarinnar. Í samræmi við framangreint leggur nefndin til breytingu á IX. kafla frumvarpsins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Tollvörugeymslur.
    Verði 29. gr. frumvarpsins samþykkt mun nokkrum fyrirtækjum sem ekki starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu áfram verða heimilt að geyma tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými í tollvörugeymslu. Að mati nefndarinnar er hætta á að ákvæði 29. gr. hafi óæskilegan aðstöðumun í för með sér. Sú staða kann að koma upp að fyrirtæki sem munu áfram njóta heimildar til að geyma tollafgreidda og ótollafgreidda vöru í sama rými í tollvörugeymslu á grundvelli frumvarpsgreinarinnar verði um ókomna tíð í betri stöðu en þau sem ekki fá slíkrar heimildar notið. Af þessum ástæðum leggur nefndin til þá breytingu á 29. gr. að þeim aðilum sem við gildistöku 27. gr. verður áfram heimil geymsla tollafgreiddrar og ótollafgreiddrar vöru í sama rými í tollvörugeymslu á grundvelli 29. gr. verði slík geymsla aðeins heimil í tíu ár eftir gildistökuna og það óháð því hvort þeir starfa í þeim tilgangi að veita öðrum ótengdum aðilum þá þjónustu sem felst í rekstri tollvörugeymslu, svo fremi sem þeir teljist uppfylla skilyrði annarra ákvæða 94. gr. laganna á þeim tíma. Á tíu árum ættu aðilar sem munu byggja rétt á 29. gr. að njóta nægilegs svigrúms til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að verða til þess að bregðast við samþykkt 27. gr.
    Nefndin áréttar að þrátt fyrir samþykkt 27. gr., sbr. 29. gr. frumvarpsins mun fyrirtækjum áfram verða mögulegt að sækja um leyfi til að reka tollvörugeymslu óháð tilgangi starfa sinna en án heimildar til að hafa tollafgreiddar og ótollafgreiddar vöru á sama svæði í geymslunni.

Starfsendurhæfingarsjóðir.
    Að lokum hefur nefndin tekið til skoðunar breytingar á frumvarpinu er varða VIRK – Starfsendurhæfingarsjóð um að framlög til VIRK verði lækkuð tímabundið árin 2016 og 2017 þannig að þau verði 0,10% af heildarlaunum í stað 0,13%. Í mars 2015 var gert samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra annars vegar og VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar um framlög ríkisins til starfsendurhæfingarsjóða. Þannig var gert ráð fyrir að á árinu 2015 yrði beint framlag úr ríkissjóði um 200 millj. kr., á árinu 2016 yrði framlagið 650 millj. kr. en á árinu 2017 yrði framlagið úr ríkissjóði fjárhæð sem næmi 0,06% af gjaldstofni tryggingagjalds. Eftir sem áður var áfram gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum.
    Fjöldi einstaklinga í þjónustu VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs á árinu 2015 verður minni en áætlanir gerðu ráð fyrir og jafnframt gerir áætlun hans fyrir árið 2016 ekki ráð fyrir fjölgun einstaklinga í þjónustu þó að áfram sé gert ráð fyrir að hlutfallslega fleiri einstaklingar sem hafa verið lengi frá vinnumarkaði muni leita til VIRK. Hjá VIRK hefur enn fremur átt sér stað mikil endurskoðun vinnuferla sem miðar að því að gera þjónustuna sífellt markvissari, hagkvæmari og árangursríkari.
    Það er því ljóst að fjármunir sem nema 0,13% framlagi frá atvinnulífi og lífeyrissjóðum, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, ásamt 650 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði eru meiri fjármunir en VIRK þarf í reksturinn á árinu 2016. Varasjóður VIRK hefur auk þess náð þeirri stærðargráðu sem mælt er með í tryggingafræðilegri greiningu.
    Stjórn VIRK hefur því óskað eftir að framlög til VIRK verði lækkuð tímabundið árin 2016 og 2017 þannig að þau verði 0,10% af heildarlaunum í stað 0,13%. Þá verður ekki þörf fyrir að fullnýta framlagið úr ríkissjóði á árinu 2016, heldur verða nýttar 500 millj. kr. í stað 650 millj. kr. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir að framlag ríkisins muni nema 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds eins og hann er áætlaður í fjárlögum fyrir árið 2017 í stað 0,06%. Lagt er til að þessi breyting verði tímabundin en mikilvægt er að endurskoða umfang starfseminnar áður en tekin er ákvörðun um breytingar til framtíðar enda liggur fyrir að starfsemi VIRK er enn í mótun. Er því gert ráð fyrir að þessar breytingar sem hér eru lagðar til komi fram í bráðabirgðaákvæði við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, og lög nr. 113/1990, um tryggingagjald. Gert er ráð fyrir því að gerður verði viðauki við samkomulagið frá því í mars 2015 þar sem fram komi þær breytingar sem hér eru lagðar til. Nefndin tekur undir þessar óskir stjórnar VIRK og leggur til breytingu þess efnis.
    Í ljósi þess sem að framan hefur verið rakið leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 11. gr. bætist: þ.m.t. samkvæmt ákvæðum 94.–96., 98., 99. og 101. gr.
     2.      Við b-lið 18. gr. bætist: verðbréfamiðstöðvar, sbr. lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.
     3.      Á eftir 27. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      Við 122. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Frestun gjalddaga skv. 3. mgr. er einnig heimil, á grundvelli umsóknar, vegna innflutnings aðila á vörum sem verða nýttar við samningsbundna uppbyggingu varanlegra rekstrarfjármuna sem notaðir verða til að afla tekna í atvinnurekstri. Það er enn fremur skilyrði slíkrar frestunar að:
                  a.      skriflegur verksamningur hafi verið gerður um uppbygginguna,
                  b.      verkkaupi sé skráður á grunnskrá virðisaukaskatts,
                  c.      verulegur hluti veltu í starfsemi verkkaupa verði undanþeginn virðisaukaskatti skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
                  d.      fyrir liggi staðfest áætlun um greiðslur verkkaupa til aðila samkvæmt verksamningnum og af henni megi ráða að innskattur verkkaupa verði jafn eða hærri en virðisaukaskattur sem aðila ber að greiða við uppgjör á virðisaukaskatti að viðbættum aðflutningsgjöldum á gjaldfresti,
                  e.      verkkaupi hafi lýst því yfir með óyggjandi hætti að hinar innfluttu vörur verði nýttar við uppbygginguna og tollstjóra sé heimilt að ráðstafa endurgreiðslum við uppgjör hans á virðisaukaskatti til greiðslu aðflutningsgjalda aðilans,
                  f.      aðili haldi sérstakt bókhald um uppbygginguna.
                      Heimild, útgefin af tollstjóra, skal eigi gilda lengur en gert er ráð fyrir að greiðslur berist verkkaupa samkvæmt verksamningi. Tefjist greiðslur er tollstjóra heimilt, á grundvelli umsóknar, að framlengja gildistímann.
     4.      Í stað orðanna „eftir þann tíma heimil slík geymsla óháð tilgangi starfa sinna“ í 29. gr. komi: heimil slík geymsla til 1. janúar 2026.
     5.      Við bætist tveir nýir kaflar, X. kafli, Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, með tveimur nýjum greinum, 31. og 32. gr., og XI. kafli, Breyting á lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 60/2012, með einni nýrri grein, 33. gr., svohljóðandi:
                  a.      (31. gr. )
                      Í stað orðanna „og 2015“ í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum kemur: 2015, 2016 og 2017.
                  b.      (32. gr.)
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. skulu starfsendurhæfingarsjóðir, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, fá í sinn hlut 0,10% af gjaldstofni skv. III. kafla vegna áranna 2015 og 2016.
                  c.      (33. gr.)
                      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir ákvæði 5. og 6. gr. skulu iðgjöld atvinnurekenda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi og lífeyrissjóða til starfsendurhæfingarsjóðs vera 0,10% af stofni til iðgjalds vegna áranna 2016 og 2017.
     6.      2. mgr. 30. gr. (er verði 34. gr.) orðist svo:
                 Ákvæði 1., 3.–11. og 13.–33. gr. öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2016.

Alþingi, 14. desember 2015.

Frosti Sigurjónsson,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Valgerður Bjarnadóttir,
með fyrirvara.
Willum Þór Þórsson. Katrín Jakobsdóttir,
með fyrirvara.
Sigríður Á. Andersen.