Ferill 447. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 660  —  447. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013,
með síðari breytingum (reikningsár og frestun gildistöku).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Þó öðlast 4. mgr. 7. gr. og 1. og 2. mgr. 14. gr. gildi 1. janúar 2016 og 4. gr. öðlast gildi 1. janúar 2018.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneyti og við undirbúning þess hefur verið haft samráð við Ríkisútvarpið.
    Á hluthafafundi Ríkisútvarpsins sem haldinn var 24. febrúar 2015 var samþykkt að miða reikningsárið við almanaksár í stað tímabilsins frá 1. september til 31. ágúst ár hvert. Til að bregðast við því er í 1. gr. lagt til að skylda til að halda aðalfund félagsins í janúar ár hvert verði felld brott. Í þess stað er gert ráð fyrir að kveðið verði á um tímasetningu aðalfundar í samþykktum félagsins.
    Í 4. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, er kveðið á um skyldu Ríkisútvarpsins til að reka aðra starfsemi en almannaþjónustu og sölu í viðskiptaboðum í dótturfélagi og átti hún að taka gildi 1. janúar 2014. Með lögum nr. 140/2013 var gildistökunni frestað í sparnaðarskyni til 1. janúar 2016 vegna fyrirsjáanlegra aukinna útgjalda við breytinguna.
    Í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 11. september 2013 (mál nr. 70476, ákvörðun nr. 318/13/COL) er tilgreint að með útfærslunni í 4. gr. laganna sé verið að færa fjárhags- og lagaumhverfi Ríkisútvarpsins að ríkisstyrkjareglum EES-samningsins með því að aðskilja samkeppnisrekstur frá almannaþjónustu með dótturfélögum og að samskipti milli móður- og dótturfélags fari fram á markaðslegum forsendum.
    Til þess að Ríkisútvarpinu gefist kostur á að undirbúa breytinguna er nauðsynlegt að gildistökunni verði frestað til 1. janúar 2018.