Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 670  —  386. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um afstöðu
til kröfu Kiribati um alþjóðlegt bann við nýjum kolanámum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Verður af Íslands hálfu studd krafa Kiribati, sem forseti Kiribati hefur sent öllum þjóðarleiðtogum, um að sett verði alþjóðlegt bann við nýjum kolanámum í heiminum í ljósi loftslagsbreytinga?

    Ráðherra hefur ekki borist erindi frá Kiribati um stuðning við bann af því tagi sem spurt er um. Hvað sem því líður þá hefur það verið almenn afstaða íslenskra stjórnvalda að ríki eigi rétt til að nýta sínar auðlindir.
    Ísland styður heilshugar baráttu gegn loftslagsbreytingum sem hefur fengið góðan byr í seglin með nýsamþykktu Parísarsamkomulagi. Þar er kominn sá rammi þar sem ríki heims geta starfað saman til að draga úr losun, auka kolefnisbindingu og aðstoða ríki að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland mun leggja sitt af mörkum þar. Meðal annars verður Ísland í forystu alþjóðlegs samstöðuhóps um nýtingu jarðhita (Global Geothermal Alliance), sem var formlega settur á fót í París nú fyrir skemmstu. Á fjórða tug ríkja og stofnana eiga sæti í hópnum, sem stefnir að því að fimmfalda raforkuframleiðslu með jarðhita fyrir 2030 og tvöfalda húshitun með jarðvarma á sama tíma.
    Ísland telur vænlegast til árangurs í baráttu gegn loftslagsbreytingum að efla veg endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni og lausna. Ísland hætti ekki notkun á kolum til húshitunar á sínum tíma vegna þess að skortur væri á framboði á kolum, heldur vegna þess að vilji var til að nota betri og hreinni lausn, þ.e. jarðhita. Eftir því sem endurnýjanleg orka verður hagkvæmari og þekking á nýtingu hennar útbreiddari mun notkun hennar aukast en brennsla jarðefnaeldsneytis minnka.