Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 681  —  1. mál.

3. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið eftir að það gekk til hennar að nýju eftir 2. umræðu 17. desember. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa komið á fund nefndarinnar og farið yfir áhrif áætlunar stjórnvalda um losun fjármagnshafta á tekjur og gjöld ríkissjóðs.
    Áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta er nú óðum að raungerast þar sem kröfuhafar hafa samþykkt frumvarp að nauðasamningum vegna slitabúa þriggja stærstu bankanna og yfirgnæfandi hluti tillagna meiri hlutans við 3. umræðu tengist áætluninni. Hér á eftir er eingöngu gerð grein fyrir beinum áhrifum stöðugleikaframlaga á ríkisfjármál á næsta ári en þau eru þó aðeins hluti af víðtækari áhrifum sem gert er ráð fyrir að aðgerðirnar hafi á fjármálastöðugleika og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins.
    Í töflunni er sundurliðun á eignum sem ríkissjóður yfirtekur í formi stöðugleikaframlaga á næsta ári og áætluðu verðmæti þeirra.

Milljarðar kr. Tekjufærslur Greiðslur
Stöðugleikaframlög í formi eigna
Laust fé
17,2 17,2
Auðseljanlegar eignir í krónum
17,0 17,0
Umsýslueignir í krónum
28,5 8,7
Umsýslueignir í erlendum gjaldmiðlum
14,9 9,8
Skilyrtar fjársópseignir
1,9 1,9
95% eignarhlutur í Íslandsbanka
184,7 0,0
Skuldabréf Kaupþings með veði í Arionbanka
84,0 0,0
Afkomuskiptasamingar vegna sölu Arionbanka
0,0 0,0
Samtals stöðugleikaframlög í formi eigna
348,3 54,7
Önnur áhrif stöðugleikaframlaga
Lækkun bankaskatts vegna slitabúa
-17,0 -17,0
Auknar arðgreiðslur Íslandsbanka
5,3 5,3
Vaxtatekjur af skuldabréfi Kaupþings
3,5 0,0
Vaxtatekjur af víkjandi lánum
-1,2 -1,2
Önnur áhrif stöðugleikaframlaga, samtals
-9,4 -12,9
Samtals stöðugleikaframlög á tekjuhlið ríkissjóðs
338,9 41,8

    Á heildina litið fela tillögur meiri hlutans í sér að tekjur aukist um 340.400 millj. kr. og gjöld um 4.021 millj. kr. á rekstrargrunni. Að meðtöldum stöðugleikaframlögum er áætlað að heildartekjur ríkissjóðs nemi 1.040.705,3 millj. kr. og gjöldin 695.061,2 millj. kr. á næsta ári. Án stöðugleikaframlaga verða tekjurnar 700.305,3 millj. kr. og gjöldin 693.561,2 millj. kr. og áætlaður rekstrarafgangur þá aðeins 6.744,1 millj. kr.
    Meiri hlutinn leggur sérstaka áherslu á nauðsyn þess að stöðugleikaframlögunum verði að fullu varið til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og mun fylgja því sérstaklega eftir. Alls ekki má hvika frá þeirri fyrirætlan og vísast í því sambandi til umfjöllunar í nefndaráliti meiri hlutans við 2. umræðu þar sem vakin var athygli á hækkun lífeyrisskuldbindinga og áhrifum af fjölgun aldraðra á útgjöld til heilbrigðismála. Veruleg lækkun skulda ríkissjóðs er forsenda þess að ríkisfjármálin geti orðið sjálfbær til lengri tíma.
    Meiri hlutinn bendir á að verulegur munur er á tekjufærslum á rekstrargrunni og greiðslum á næsta ári eins og fram kemur í töflunni. Þar munar langmestu að ekki er gert ráð fyrir að selja Íslandsbanka eða Arionbanka á næsta ári en stærstu einstöku hlutar stöðugleikaframlaganna eru eignarhlutir í Íslandsbanka og skuldabréf Kaupþings með veði í Arionbanka ásamt afkomuskiptasamingi sem greiða skal upp við sölu bankans, í síðasta lagi eftir þrjú ár.
    Gerð er tillaga um sérstakar fjármagnstilfærslur á tekjuhlið fjárlaga vegna stöðugleikaframlaga sem nema samtals 348,3 milljörðum kr. á næsta ári. Framlögin hafa einnig áhrif á nokkra aðra tekjuliði. Þar ber hæst að 17 milljarða kr. tekjur af fyrirhuguðum bankaskatti falla niður þar sem nú er gert ráð fyrir að öll stóru þrotabú bankanna velji þá leið að greiða stöðugleikaframlag í stað skattlagningar. Önnur áhrif á tekjuhlið eru hækkun arðgreiðslna þar sem ríkissjóður eignast allt hlutafé í Íslandsbanka hf. og hækkun vaxtatekna þar sem ríkissjóður eignast skuldabréf í eigu slitabús Kaupþings með veði í Arionbanka. Afleiðing þessa er um 1,5 milljarða kr. hækkun tekna af fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður þarf að greiða en það hefur engin áhrif á afkomuna í heild þar sem jafnhá fjárhæð kemur til gjalda hjá ríkissjóði.
    Á gjaldahlið er ekki gert ráð fyrir öðrum áhrifum af stöðugleikaframlögum en áðurnefndum fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir. Í frumvarpinu sjálfu var búið að reikna með lækkun á vaxtagjöldum vegna uppgreiðslu á skuldabréfi ríkissjóðs til endurfjármögnunar á Seðlabanka Íslands.
    Hins vegar er gerð tillaga um fjórar aðrar breytingar á gjaldahlið. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 1.096 millj. kr. hækkun á fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en breytingin er tvíþætt, annars vegar 1.445 hækkun vegna samkomulags um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk, hins vegar 349 millj. kr. lækkun í samræmi við endurmat á tekjuáætlun ríkissjóðs.
    Í öðru lagi er gerð tillaga um 1.000 millj. kr. tímabundið framlag til að fjölga úrræðum fyrir sjúklinga, sérstaklega þá sem þurfa ekki nauðsynlega að dvelja á bráðalegudeildum Landspítalans.
    Í þriðja lagi er lögð til 250 millj. kr. tímabundin hækkun á framlagi til viðhalds á húsnæði Landspítalans.
    Í fjórða lagi er gerð er tillaga um 175 millj. kr. tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins til eflingar framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni og innlendri dagskrárgerð sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda.
    Nánari skýringar á breytingartillögum við tekju- og gjaldahlið eru aftar í áliti þessu.
    Nokkrar breytingartillögur eru gerðar við aðra hluta frumvarpsins. Meðal þeirra er tillaga um lítils háttar breytingu á fjármálum tveggja lánastofnana í C-hluta. Ástæðan er breytingar á rekstrarframlagi vegna endurmats á launa- og verðlagsforsendum við 2. umræðu og samsvarandi breytingar á rekstrarkostnaði á móti.
    Þrjár breytingartillögur í viðbót tengjast allar stöðugleikaframlögunum. Lögð er til ný framsetning á 1. og 2. gr. fjárlaga þannig að ýmsir liðir verði sýndir bæði með og án stöðugleikaframlaga. Einnig er lögð til sú breyting á 5. gr. að við bætist nýr töluliður þar sem fjármála- og efnahagsráðherra verði heimilað að taka lán allt að 200.000 millj. kr. eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í innlendri eða erlendri mynt til eflingar gjaldeyrisforða.
    Í yfirlitinu um stöðugleikaframlögin í töflunni hér að framan sést að þótt háar fjárhæðir felist í framlögunum verður stærstum hluta þeirra ekki komið í verð strax. Laust fé á næsta ári nemur aðeins rúmlega 41 milljarði kr. sem verður til ráðstöfunar til að greiða niður skuldir á næsta ári. Því er ekki gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs lækki á næsta ári fyrir utan að miðað er við að skuldabréf vegna endurfjármögnunar Seðlabankans verði greitt upp á árinu. Eftirstöðvar þess í árslok 2015 eru áætlaðar um 90 milljarðar kr.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að útfærslu á áætlun um að koma umsýslueignum í verð þannig að eignarhlutir verði seldir á næstu árum og tryggt verði að allar sölutekjur renni til þess að lækka skuldir. Áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta tekur til mun fleiri þátta en gerðar eru tillögur um hér í tengslum við fjárlög fyrir árið 2016. Til viðbótar við stöðugleikaframlögin er talið að auknar endurheimtur Eignasafns Seðlabanka Íslands vegna uppgjöra slitabúanna geti orðið um 81 milljarður kr. Þá geta 30 milljarða kr. skattgreiðslur slitabúanna dregið úr neikvæðum greiðslujafnaðaráhrifum. Heildargreiðslur til opinberra aðila eru í heild áætlaðar um 495 milljarðar kr. Til viðbótar eru fleiri mótvægisaðgerðir fyrirhugaðar og er áætlað að þær nemi í heild um 660 milljörðum kr.
    Hlutfall heildarskulda ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu fór hæst í nærri 85% í árslok 2011 en hefur síðan farið ört lækkandi og áætlað er að það verði um 62% í árslok 2015. Vakin er athygli á því að heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar um 1.177 millj. kr. í árslok 2016 og að jafnvel eftir að búið verði að ráðstafa öllum stöðugleikaframlögum til niðurgreiðslu skulda verði þær samt sem áður á bilinu 800–850 millj. kr. Því er brýnt að beita áfram aðhaldi í rekstri ríkissjóðs til þess að ríkisfjármálin verði sjálfbær til lengri tíma.
    Launahækkanir í nýgerðum kjarasamningum eru miklu hærri en verið hefur á undanförnum árum og vægi launabóta í fjárheimildum stofnana því mun meira en áður. Í tengslum við umræður í nefndinni um útgjöld vegna kjarasamninga, sérstaklega í tilfelli Landspítalans, bendir meiri hlutinn á nauðsyn þess að forsendur og útreikningar vegna mats á kostnaðaráhrifum kjarasamninga sé aðgengilegt þannig að forstöðumenn og einstök ráðuneyti geti með einföldum hætti kynnt sér allar forsendur. Brýnt er að verklag í þessum málum verði skoðað sérstaklega á næsta ári.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að þar sem dregin var til baka við 2. umræðu tillaga um 13 millj. kr. lækkun fjárveitinga til umboðsmanns Alþingis vegna lægri húsnæðiskostnaðar, þá eykst fjárhagsrammi embættisins í reynd að raungildi frá fyrra ári. Með þessu skapast enn meira svigrúm til frumkvæðisrannsókna af hálfu embættisins. Á næsta ári þarf að ganga formlega frá fjárhagslegum samskiptum milli embættisins og Alþingis.
    Loks vill meiri hlutinn leiðrétta fullyrðingu úr nefndaráliti sínu við 2. umræðu þar sem sagt var að fyrri ríkisstjórn hefði ákveðið á sínum tíma að útvarpsgjald næmi 16.400 kr. en að betur athuguðu máli kom í ljós að það var ekki rétt.

Skýringar við breytingartillögur á tekjuhlið.
    Lagðar eru til breytingar á nokkrum liðum á tekjuhlið frumvarpsins vegna stöðugleikaframlaga af eftirfarandi ástæðum:
     1.      Stöðugleikaframlag fallinna fjármálafyrirtækja að frádregnum hluta sem færist á móti niðurfelldum bankaskatti: Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaframlögum í formi fjármagnstilfærslna frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja sem afhentar verða Seðlabanka Íslands til umsýslu á árinu 2016 verði 331,3 milljarðar kr. á rekstrargrunni en 37,7 milljarðar kr. á greiðslugrunni.
                 Stöðugleikaskilyrði sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja þurfa að uppfylla áður en dómstólum verður heimilt að staðfesta nauðasamninga þeirra og Seðlabanka Íslands verður heimilt að veita þeim undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál verða að mati bankans að vera næg til að varðveita fjármálalegan stöðugleika og greiðslujöfnuð þjóðarbúsins samfara losun fjármagnshafta. Reiknað er með að slitum allra búanna verði lokið með greiðslu stöðugleikaframlaga og að ekkert þeirra muni greiða stöðugleikaskatt. Stöðugleikaframlögin verða innt af hendi með reiðufé og öðrum eignum, svo sem skuldabréfum, hlutabréfum og afkomuskiptasamningum en einnig með arði af viðkomandi eignum. Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins er verðmæti stöðugleikaframlaga sem færast á tekjuhlið ríkissjóðs samtals 408,1 milljarður kr. Á móti lækkar bankaskattur sem áður hafði verið gert ráð fyrir á tekjuhlið ríkisfjármálaáætlunar 2016–2019 um samtals 33,6 milljarða kr. Heildaráhrif stöðugleikaframlaga á tekjur ríkissjóðs eru því talin vera 374,5 milljarðar kr. til hækkunar tekna og gert er ráð fyrir að þau falli til og færist til tekna í fjárlögum og ríkisreikningi á nokkrum næstu árum. Áætlað er að þar af muni 338,9 milljarðar kr. falla til á rekstrargrunni á árinu 2016 en 41,8 milljarðar kr. á greiðslugrunni.
     2.      Stöðugleikaframlag fallinna fjármálafyrirtækja sem færist á móti niðurfelldum bankaskatti: Gert er ráð fyrir að 17 milljarðar kr. af tekjum ríkissjóðs af stöðugleikaframlögum verði nýttir til að bæta ríkissjóði upp tekjulækkun af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki á árinu 2016 sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja hefðu að óbreyttu þurft að greiða samkvæmt ríkisfjármálaáætlun 2016–2019.
     3.      Hliðaráhrif af breytingum á vaxtatekjum og arði: Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir árið 2016 hækki um 1,5 milljarða kr. á rekstrargrunni og 0,8 milljarða kr. á greiðslugrunni vegna arðs- og vaxtatekna af eignum sem slitabú fallinna fjármálafyrirtækja afhenda ríkissjóði til greiðslu stöðugleikaframlaga.
     4.      Lækkun bankaskatts um 17 milljarða kr.: Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki á árinu 2016 lækki um 17 milljarða kr. frá fyrri áætlun í kjölfar nauðasamninga fallinna fjármálafyrirtækja og greiðslu stöðugleikaframlaga.
     5.      Aukinn eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka: Áætlað er að arðstekjur ríkissjóðs frá Íslandsbanka árið 2016 hækki um 5,3 milljarða kr. frá fyrri áætlun í samræmi við aukna eignarhlutdeild ríkissjóðs í bankanum við greiðslu slitabús Glitnis á stöðugleikaframlagi.
     6.      Hrein áhrif á vaxtatekjur ríkissjóðs: Áætlað er að á rekstrargrunni fái ríkissjóður 3,5 milljarða kr. vaxtatekjur árið 2016 af veðskuldabréfi sem slitabú Kaupþings afhendir til greiðslu stöðugleikaframlags. Gert er ráð fyrir að greiðsla þessara vaxta fari fram á árinu 2017. Á móti er gert ráð fyrir 1,2 milljarða kr. lækkun vaxtatekna frá fyrri áætlun af lánum sem ríkissjóður veitti Arionbanka og Íslandsbanka við stofnun þeirra vegna uppkaupa slitabúa föllnu bankanna á lánunum.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.
    Á gjaldahlið eru lagðar til breytingar á fimm fjárlagaliðum. Gerð er tillaga um 1.096 millj. kr. hækkun á fjárheimild liðarins 06-841 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga en breytingin er tvíþætt, annars vegar 1.445 millj. kr. hækkun vegna samkomulags um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk, hins vegar 349 millj. kr. lækkun í samræmi við endurmat á tekjuáætlun ríkissjóðs. Einnig er lögð til breyting á liðnum 09-721 Fjármagnstekjuskattur vegna skatts sem gjaldfærist hjá ríkissjóði vegna vaxtatekna. Þá er lögð til 1.000 millj. kr. framlag á safnlið hjúkrunarheimila 08-401-1.01 vegna fráflæðisvanda Landspítalans og 250 millj. kr. til viðhalds Landspítala á lið 08-373-5.60. Loks er gerð tillaga um 175 millj. kr. tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins ohf. Nánari skýringar fylgja hér á eftir.

Ríkisútvarpið – efling innlendrar dagskrárgerðar.
    Gerð er tillaga um 175 millj. kr. tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins ohf. til eflingar innlendrar dagskrárgerðar. Ekki er lögð til breyting á útvarpsgjaldinu heldur er hér um framlag úr ríkissjóði að ræða. Framlaginu skal verja til að auka kaup Ríkisútvarpsins á efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að keypt verði efni frá þeim fyrir um 450 millj. kr. og gert er ráð fyrir að sú fjárhæð verði 625 millj. kr. á næsta ári. Í áliti meiri hlutans við 2. umræðu um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 kom fram sú skoðun að fjárlaganefnd hefði ekki fengið viðunandi svör um rekstur félagsins og að ráðherranefnd um ríkisfjármál hefði ekki samþykkt rekstraráætlanir sem var skilyrði þess að 181 millj. kr. fjárveiting yrði greidd til félagsins. Meiri hlutinn væntir þess að þetta breytist á komandi ári og bendir á að með útleigu húsnæðis og öðrum hagræðingaraðgerðum hefur Ríkisútvarpið brugðist við rekstrarvanda og leigutekjur geta numið um 60 millj. kr. á ári auk þess sem sala á byggingarrétti getur lækkað skuldir um 1,5–2 milljarða kr. Meiri hlutinn telur það mjög jákvæða þróun og hvetur stjórnvöld til að skoða dreifikerfi Ríkisútvarpsins í samhengi við fjarskiptakerfin til þess að ná fram sem mestri hagkvæmni.
    Meiri hlutinn bendir á að sérstök tímabundin fjárveiting til innlendar dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins skekki samkeppnisstöðu innlendra ljósvakamiðla enn frekar. Því er nauðsynlegt að mennta- og menningarmálaráðuneytið marki stefnu til framtíðar um eflingu innlendrar dagskrárgerðar almennt þar sem allir fjölmiðlar sitja við sama borð. Þar hlýtur að verða skoðað sérstaklega hvort skynsamlegt sé að koma á fót sjálfstæðum dagskrárgerðarsjóði til að efla innlenda dagskrárgerð sem yrði að stærstum hluta fjármagnaður með útvarpsgjaldi. Meiri hlutinn telur óumdeilt að frá menningarlegu sjónarmiði sé mikilvægt að efla innlenda dagskrárgerð, jafnt í útvarpi sem sjónvarpi, og að löggjafinn geti tryggt það án þess að afleiðingin verði aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð eða hækkun gjalda sem eru lögð á einstaklinga og lögaðila. Jafnframt er nauðsynlegt að stuðla að jafnræði á fjölmiðlamarkaði og ýta undir valddreifingu og fjölbreytni í dagskrárgerð.
    Meiri hlutinn beinir því jafnframt til mennta- og menningarmálaráðherra að í nýjum þjónustusamningi ráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf. verði ákvæði um stighækkandi útboðsskyldu vegna dagskrárefnis á samningstímanum.

Samkomulag um fjármögnun lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk.
    Lagt er til að fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækki um 1.445 millj. kr. í tilefni af samkomulagi innanríkisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um endanlega niðurstöðu um fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Þjónusta við fatlað fólk fluttist frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 en meginmarkmiðið með yfirfærslunni var að tryggja að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð yrði samþætt á hendi eins aðila og þannig stuðlað að samþættingu nærþjónustu við íbúa með því að efla félagsþjónustu sveitarfélaga. Samhliða var undirritað samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma vegna þjónustu við fatlað fólk og var markmið þess að færa ábyrgð á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum sanngjarnan fjárhagsramma sem tæki tillit til umfangs verkefna, brýnnar þarfar fyrir aðhald í opinberum rekstri og sameiginlegra áforma ríkis og sveitarfélaga um að bæta afkomu hins opinbera og skapa þannig forsendur fyrir lækkun skulda. Samkomulagið fól í sér að útsvarshlutfall sveitarfélaga var hækkað um 1,20% sem áætlað var að mundi skila sveitarfélögum um og yfir 10 milljörðum kr. í aukið útsvar en auk þess var gert ráð fyrir tímabundnum beinum framlögum á fjárlögum áranna 2011–2013 vegna biðlista, breytingakostnaðar við yfirfærsluna, tilraunaverkefnis með notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins á þeim tíma.
    Í samkomulaginu var gert ráð fyrir að árið 2014 færi fram sameiginlegt mat ríkis og sveitarfélaga á faglegum og fjárhagslegum árangri tilfærslunnar en gert var ráð fyrir að matið yrði undirbúið árið 2013 og sú vinna mundi nýtast til að ákveða endanlegan útsvarsstofn sem mundi fjármagna þjónustuna til frambúðar frá og með árinu 2014. Endurmatið dróst m.a. vegna þess að upplýsingaöflun frá sveitarfélögum tók lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir. Á meðan dráttur var á endurmatinu var útsvarshlutfall sveitarfélaga hækkað tímabundið um 0,04% með viðaukasamkomulagi sem felur í sér nálægt 470 millj. kr. auknar tekjur til sveitarfélaga til reksturs málaflokksins. Verkefnisstjórn um endurmatið lauk störfum í nóvember 2015 en komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu um tillögu að endanlegri útsvarsprósentu til fjármögnunar málaflokksins. Í kjölfarið fóru fram samningaviðræður milli ríkis og sveitarfélaga þar sem samkomulag náðist um endanlega fjármögnun á lögbundinni þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarshlutfall til að fjármagna þjónustuna verði 1,24% sem skiptist milli sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Með því er tímabundna 0,04% hækkunin frá árinu 2014 lögfest varanlega. Þá er einnig gert ráð fyrir að lögbundið framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem hlutfall af innheimtum skatttekjum ríkisins verði hækkað úr 2,12% í 2,355% eða um 0,235%.
    Áætlað er að 0,235% hækkunin skili sveitarfélögum 1.445 millj. kr. auknum tekjum til að sinna málaflokknum miðað við áætlun um innheimtar skatttekjur á árinu 2016. Auk þess er áætlað að 0,04% hækkun útsvarshlutfallsins skili 472 millj. kr. tekjum þannig að samanlagt er áætlað að sveitarfélögin fái með þessu samkomulagi ríflega 1,9 milljarða kr. hækkun á framlagi til að standa undir þjónustu við fatlað fólk. Það er u.þ.b. 18% hækkun á framlögum til málaflokksins eins og hann var áætlaður í fjárlögum fyrir árið 2010. Auk þess aukast tekjur sveitarfélaganna að öðru leyti um 35% miðað við þann hluta af áætlaðri innheimtu útsvars sem ætlað er til málaflokksins. Samanlagt hafa tekjur sveitarfélaganna þá aukist um nærri 53% á tímabilinu frá framlögum ríkisins til málaflokksins í fjárlögum fyrir árið 2010. Til samanburðar er áætlað að vísitala neysluverðs hækki um 22% á sama tímabili.

Breyting á fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna endurmats á tekjuáætlun ríkissjóðs.
    Lagt er til að fjárheimild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði lækkuð um 349 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðið framlag í sjóðinn af skatttekjum ársins 2016 og útsvarsstofni árið 2015. Tilefnið er áhrif af greiðslu stöðugleikaframlaga á árinu 2016 sem leiða til þess að samkvæmt áætlun minnka innheimtar skatttekjur um 16.200 millj. kr. Annars vegar er reiknað með 17.000 millj. kr. lækkun skatttekna vegna þess að gert er ráð fyrir að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiði ekki bankaskatt á næsta ári heldur stöðugleikaframlög. Á móti vegur til hækkunar áætlun um 800 millj. kr. hækkun fjármagnstekjuskatts ríkissjóðs á greiðslugrunni. Í annarri tillögu á þessum lið er gert ráð fyrir 1.445 millj. kr. hækkun á framlögum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna samkomulags um fjármögnun á lögbundinni þjónustu við fatlað fólk. Að teknu tilliti til þess er hækkun framlags við 3. umræðu 1.096 millj. kr.
    Í frumvarpinu og með samþykktum breytingartillögum við 2. umræðu hefur þegar verið gert ráð fyrir 1.637 millj. kr. hækkun á framlaginu frá fjárlögum fyrir árið 2015. Að meðtalinni hækkun framlaga nú við 3. umræðu nemur heildarhækkun framlaga ríkisins því 2.733 millj. kr. á árinu 2016. Lögbundin framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru ákvörðuð með tvenns konar hætti samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í fyrsta lagi er 14.474 millj. kr. framlag úr ríkissjóði sem er 2,355% af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs. Í öðru lagi er 3.113 millj. kr. framlag sem er 0,264% af álagningarstofni útsvars næstliðins tekjuárs. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að lögbundin framlög til sjóðsins verði samtals 17.041 millj. kr. árið 2016.

Landspítali – viðhald.
    Gerð er tillaga um 250 millj. kr. tímabundið framlag til að auka viðhaldsframkvæmdir á húsnæði Landspítalans. Samtals eru þá veittar 723 millj. kr. til viðhalds á Landspítalanum og hefur framlagið aldrei numið hærri fjárhæð. Fyrir liggja ástandsúttektir á húsnæði Landspítalans og er framlagið t.d ætlað í viðhald á Grensási, endurhæfingardeild.

Fráflæðisvandi Landspítalans.
    Lögð er til tímabundin 1.000 millj. kr. fjárveiting til að bæta úr fráflæðisvanda Landspítalans þannig að sjúklingar sem eiga ekki að dvelja á legudeildum spítalans en gera það vegna skorts á öðrum úrræðum fái þess í stað kost á einhverju öðru. Í tillögunni felst að fjárhæðin verði vistuð á safnlið hjúkrunarheimila en hugmyndin er að við ráðstöfun fjárins verði horft til þess að bæta flæði sjúklinga, stytta legutíma, draga úr bið aldraðra eftir viðeigandi þjónustu og auka jafnframt öryggi þjónustunnar. Með þessu móti skapast svigrúm á Landspítala til að sinna veikara fólki og flóknari verkefnum á sama tíma og eldri borgarar fá greiðari aðgang að viðeigandi þjónustu. Þannig getur sjúkrahúsið betur sinnt bráðahlutverki sínu þar sem kostnaðarsamur viðbúnaður og sérhæft starfsfólk nýtist á sem hagkvæmastan hátt. Allt þetta dregur úr sóun og kemur til móts við sívaxandi þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Í þessu sambandi má geta þess að legudagur á bráðalyflækningadeild Landspítalans kostar að meðaltali um 100 þús. kr. en dvöl á hjúkrunarheimili fyrir sama einstakling kostar u.þ.b. fjórðung af spítalavistinni.

Fjármagnstekjuskattur af vaxtatekjum og söluhagnaði.
    Gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur sem gjaldfærist hjá ríkissjóði vegna vaxtatekna, arðgreiðslna og söluhagnaðar eigna hækki um 1.500 millj. kr. á rekstrargrunni og verði 6.320 millj. kr. en á greiðslugrunni hækki hann um 800 millj. kr. og verði 5.290 millj. kr. Fjármagnstekjuskatturinn færist einnig á tekjuhlið ríkissjóðs og hefur því ekki áhrif á afkomu ársins. Tilefni hækkunarinnar eru áhrif af greiðslu stöðugleikaframlaga árið 2016. Gert er ráð fyrir að stofninn sem fjármagnstekjuskatturinn reiknast af hækki um 7,6 milljarða kr. á rekstrargrunni vegna þessa en á greiðslugrunni nemi hækkunin 4,1 milljarði kr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 18. desember 2015.

Vigdís Hauksdóttir,
form., frsm.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ásmundur Einar Daðason.
Haraldur Benediktsson. Páll Jóhann Pálsson. Valgerður Gunnarsdóttir.