Ferill 398. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 695  —  398. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra,
lögum um almannatryggingar og lögum um sjúkratryggingar
(samningar sjúkratryggingastofnunar við stofnanir fyrir aldraða).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


         Minni hlutinn gagnrýnir harðlega vinnubrögðin við þetta mál. Frumvarpið er allt of seint fram komið, þótt það tengist afgreiðslu fjárlaga og tilefnið því átt að vera ljóst frá því í sumar, og var dreift fyrst 2. desember sl. Mælt var fyrir frumvarpinu í fyrrakvöldi, þ.e. að kvöldi 17. desember, og velferðarnefnd fékk eina klukkustund til að kanna málið í hádegisverðarhléi 18. desember. Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram snemma í september hefur þó gert ráð fyrir því að fjárheimildir í þessu sambandi færist frá Tryggingastofnun ríkisins til sjúkratryggingastofnunarinnar. Af þeim sökum er því nú borið við að afgreiða verði frumvarpið án nokkurrar teljandi skoðunar af hálfu Alþingis því annars verði ekki hægt að inna af hendi greiðslur eftir áramót. Þannig er Alþingi, eða a.m.k. velferðarnefnd Alþingis, stillt upp við vegg.
    Málið er þó stórt í sniðum þegar betur er að gáð og tengist þeim kerfisbreytingum sem ákveðin stjórnmálaöfl, þau sem stóðu að tilurð sjúkratryggingastofnunarinnar á sínum tíma, halda nú áfram að knýja á um, þ.e. að líta í æ ríkari máli á velferðarþjónustuna sem rekstur og færa inn á samningasviðið þjónustu sem jafnvel opinberir eða hálfopinberir aðilar veita.
    Frumvarpið gengur út á að færa endanlega vald yfir og framkvæmd kostnaðarþátttöku ríkisins þegar kemur að stofnunum fyrir aldraða frá ráðuneyti og Tryggingastofnun yfir til sjúkratryggingastofnunarinnar. Hún á svo að gera samninga við rekstrar- eða ábyrgðaraðila stofnananna. Ekki gengur þetta þó betur en svo að samningaviðræður sem staðið hafa allt þetta ár hafa ekki skilað niðurstöðu og allt er í óvissu um hvenær á næsta ári slíkir samningar takast, ef þeir þá takast. Er þess vegna gert ráð fyrir því, sbr. 12. gr. frumvarpsins, að þangað til slíkir samningar takist geti sjúkratryggingastofnunin einhliða ákveðið framlögin með gjaldskrá. Er þá komin upp sú snúna staða að annar tilvonandi samningsaðila getur ákveðið verðlagninguna einhliða þangað til viðsemjandinn, þ.e. rekstaraðilar stofnananna, gefur sig og gengur til samninga. Hér er ekki um smáaura að ræða því undir liggur velta upp á 25–26 milljarða kr.
    Þá er rétt að minna á að rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila sem hefur byggst á daggjöldum hefur verið mjög þungur undanfarin ár og hafa sveitarfélögin, sem í reynd standa ábyrg eftir í flestum tilvikum, mátt búa við að verja verulegum fjárhæðum í meðgjöf með rekstri margra heimila. Hefur af þeim sökum víða safnast upp skuldahali vegna rekstrarins sem sveitarfélögin hafa knúið á um að fá gerðan upp. Ekki verður séð að sá róður léttist eftir að sjúkratryggingastofnunin, sem mun væntanlega telja sér fortíðina óviðkomandi, tekur við málinu. Þetta og margt fleira gerir að verkum að óviðunandi er að málið sé afgreitt án samráðs við sveitarfélögin og án þess að tími gefist til að senda málið út til umsagnar.
    Þá má að lokum geta þess að Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, þeirra sem heimilin reka, gera athugasemdir við það fyrirkomulag að þeim sé gert að annast um og bera ábyrgð á innheimtu greiðslna frá heimilismönnum. Skiljanlega er slíkt fyrirkomulag erfitt í návígi stjórnenda við heimilismenn. Enginn tími gafst til að skoða þessar athugasemdir.
    Minni hlutinn getur með engu móti staðið að afgreiðslu málsins á þeim forsendum sem boðið er upp á af hálfu ráðherra, ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Kemur þar hvoru tveggja til að vinnubrögðin við þetta mál eru ótæk eins og hér hefur verið rakið og auk þess hefur minni hlutinn efnislegar athugasemdir við málið og þá grundvallarnálgun hvað varðar velferðarþjónustu sem það er hluti af.

Alþingi, 19. desember 2015.

Steingrímur J. Sigfússon.