Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 714  —  347. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur um
upplýsingar um ofbeldi gegn fötluðu fólki og viðbrögð við því.


     1.      Starfa lögregluembætti landsins eftir sérstökum vinnu- eða verklagsreglum um viðbrögð þegar grunur kemur upp um ofbeldi gegn fötluðu fólki? Ef svo er, hvaða reglur eru þetta og hvar eru þær aðgengilegar?
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hafa ekki verið settar samræmdar verklagsreglur af hálfu embættisins um viðbrögð lögreglu þegar grunur kemur upp um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Í umsögn embættisins, dags. 26. nóvember 2015, kemur fram að samkvæmt verklagsreglum ríkislögreglustjóra frá 2. desember 2014 um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála sem tilkynnt eru lögreglu skal, ef þolandi er fatlaður, tilkynna réttindagæslumanni fatlaðs fólks um málið, sbr. 6. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Einnig er tekið fram í verklagsreglunum að ef sakborningur eða brotaþoli er ekki fær um að eiga orðaskipti á mæltu máli skal á sama hátt kallaður til kunnáttumaður til aðstoðar. Rétt er að geta þess að embætti lögreglustjórans á Suðurlandi hefur í gildi sérstakt verklag þegar rannsökuð eru kynferðisbrot þar sem brotaþoli er með þroskahömlun.
    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara eru ekki í gildi sérstakar vinnu- eða verklagsreglur um viðbrögð þegar upp kemur grunur um ofbeldi gegn fötluðu fólki en ríkissaksóknari hefur heimild til að gefa út almennar reglur og fyrirmæli um meðferð ákæruvalds, sbr. 21. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í umsögn embættisins, dags. 3. desember 2015, kemur fram að til standi að gefa út almenn fyrirmæli til allra lögreglustjóra um tilhögun skýrslutöku af viðkvæmum vitnum og sakborningum í samræmi við ákvæði laga og því sem fram kom á fræðslufundi embættis ríkissaksóknara í apríl 2015, sem reifað verður í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar.

     2.      Er fræðsla um ofbeldisbrot gagnvart fötluðu fólki almennt, og fötluðum stúlkum og konum sérstaklega, þáttur í fagmenntun lögreglumanna og dómara? Ef svo er, hversu umfangsmikil er þessi fræðsla og hverjir eru meginþættir hennar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lögregluskóla ríkisins hefur skólinn sinnt fræðslu um afgreiðslu mála sem tengjast fötluðum skjólstæðingum lögreglunnar, bæði sem brotaþola í ofbeldismálum og einnig almennt um samskipti lögreglu við fatlað fólk. Í grunnnámi lögreglunema er komið inn á málefnið í nokkrum fögum, t.d. lögreglufræði, lögreglusálfræði, réttarfari og mannréttindum.
    Hvað varðar áherslur í kennslu í lögregluskólanum er við kennslu í lögreglufræði fjallað mikið um samskipti við borgarana og brýnt fyrir nemendum að sýna öllum virðingu. Sömuleiðis er lögð áhersla á að samskiptin séu við hæfi eftir því hver viðmælandinn er, m.a. ef hann er fatlaður. Í lögreglusálfræði er sérstaklega tekið á samskiptum lögreglu við fólk sem er greindarskert eða býr við geðfötlun. Í réttarfari er fjallað um aðstoð til handa sakborningi eða brotaþola ef hann er ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við rannsókn máls, sem gæti m.a. átt við ef viðkomandi er fatlaður. Í kennslu í mannréttindum er mjög ítarlega fjallað um bann við mismunun, m.a. vegna fötlunar. Í umsögn Lögregluskóla ríkisins, dags. 7. desember 2015, kemur jafnframt fram að í lok árs 2013 og byrjun árs 2014 hafi verið haldið námskeið í tveimur lotum þar sem fjallað var um rannsóknir kynferðisbrota með sérstaka áherslu á brot gegn börnum en jafnframt vegna annarra þolenda, þar á meðal fatlaðs fólks.
    Í umsögn embættis ríkissaksóknara, dags. 3. desember 2015, kemur fram að á fræðslufundi embættisins með öllum ákærendum í apríl 2015 hafi verið fjallað um skýrslutökur af viðkvæmum vitnum og sakborningum. Á þeim fundi var farið yfir það hverjir teljast til þessa hóps og var sérstök áhersla lögð á fólk með þroskahömlun. Þá var gerð grein fyrir þeim atriðum sem hafa ber í huga þegar rannsókn hefst og fyrir liggur að sakborningur eða brotaþoli er með þroskaskerðingu. Sérstaklega var farið yfir ákvæði laga um tilhögun skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, enda skiptir mjög miklu að vandað sé til verka þegar teknar eru skýrslur í málum sem þessum. Vandaður undirbúningur lögreglu fyrir skýrslutöku er sérstaklega mikilvægur þegar mál varðar vitni/sakborning með þroskahömlun. Þarf rannsakandi að afla sér upplýsinga um það í hverju fötlun viðkomandi vitnis/sakbornings eða þolanda er fólgin og meta í framhaldinu hvernig best sé að standa að skýrslutöku. Upplýsinga getur þurft að afla hjá opinberum aðilum, réttindagæslumanni fatlaðra á svæðinu eða nánustu aðstandendum, ef það á við. Í þeim tilvikum þar sem mat rannsakanda er að hefðbundin skýrslutaka eigi ekki við getur komið til greina að lögregla kalli til sérfræðing til að aðstoða við skýrslutöku. Er það gert á grundvelli 5. mgr. 63. gr. laga um meðferð sakamála. Lögregla stjórnar þá skýrslutöku en fær sérfræðing, t.d. í málefnum fatlaðs fólks, til að vera sér til aðstoðar. Í ákveðnum tilvikum, ef fötlun er mjög mikil, getur verið ástæða til að nýta heimild c-liðar 59. gr. laganna og taka dómskýrslu á rannsóknarstigi af viðkomandi vitni. Dómari getur þá jafnframt kallað til kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutökuna kjósi hann það. Á fundinum var jafnframt gerð grein fyrir verklagsreglum embættis lögreglustjórans á Suðurlandi þegar rannsökuð eru kynferðisbrot þar sem brotaþoli er með þroskahömlun. Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar stendur til að gefa út fyrirmæli af hálfu ríkissaksóknara sem tekur mið af því sem fram kom á fræðslufundi embættisins.
    Í umsögn dómstólaráðs, dags. 8. desember 2015, kemur fram að ákvæði dómstólalaga, nr. 15/1998, geri ráð fyrir að þeir einir geti verið skipaðir dómarar sem teljist til þess hæfir í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Þá sé gerð krafa um að dómarar haldi við þekkingu sinni í lögum, haldin séu endurmenntunarnámskeið í því skyni og að dómurum standi til boða að sækja um leyfi frá störfum til endurmenntunar. Á hinn bóginn sé ekki mælt fyrir um það í lögum í einstökum atriðum hvernig dómarar skuli sinna endurmenntunarskyldu sinni og það er því á ábyrgð hvers dómara hvernig hann sinnir þeirri skyldu. Í umsögninni segir að þar af leiðandi sé ekki mögulegt að svara því til hvort einhverjir dómarar hafi sótt sér fræðslu um ofbeldisbrot gegn fötluðu fólki en fagráð um endurmenntun dómara hefur ekki haldið sérstök námskeið þar um.

     3.      Eru uppi áform um að breyta vinnureglum og starfsháttum lögreglu með tilliti til rannsóknar á ofbeldisbrotum gegn fötluðu fólki? Ef svo er, í hverju eru þær breytingar einkum fólgnar?
    Eins og fram hefur komið er unnið að gerð almennra fyrirmæla frá ríkissaksóknara til allra lögreglustjóra um tilhögun skýrslutöku af viðkvæmum vitnum og sakborningum, sbr. svar við 2. lið fyrirspurnarinnar.
    Þá er rétt að geta þess að í samstarfsyfirlýsingu félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, frá 18. desember 2014, kemur fram að ráðherrarnir eru einhuga um að vinna sameiginlega gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess. Í yfirlýsingunni kemur fram að efna skuli til samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds í því skyni að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi. Samstarfinu sé einkum ætlað að ná til ofbeldis gegn börnum, ofbeldis í nánum samböndum, kynferðislegs, andlegs og líkamlegs ofbeldis, og ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Í yfirlýsingunni kemur enn fremur fram að lögð verði áhersla á að koma á svæðisbundnu samráði sem m.a. verði ætlað að bæta verklag við aðgerðir og rannsóknir ofbeldismála með sérstaka áherslu á ofbeldi gegn börnum og fötluðu fólki. Í kjölfar yfirlýsingarinnar var skipaður stýrihópur með fulltrúum fyrrgreindra ráðuneyta sem hefur það hlutverk að undirbúa aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi með hliðsjón af framangreindri yfirlýsingu ráðherranna.