Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 717  —  410. mál.
Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur
um útgáfu vegabréfa í sendiráðum Íslands.


     1.      Hvaða sendiskrifstofur Íslands erlendis hafa aðstöðu til að taka við umsóknum um vegabréf?
    Í sendiráðum Íslands í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Berlín, London, Washington DC og Peking er búnaður til móttöku umsókna um vegabréf.

     2.      Á íslenska ríkið færanlegan búnað til að gefa út vegabréf erlendis? Ef svo er, til hvaða sendiskrifstofa hefur búnaðurinn verið fluttur, hve lengi hefur hann verið á hverjum stað og hvað ræður flutningi búnaðarins milli staða?
    Öll vegabréf, að frátöldum neyðarvegabréfum, eru gefin út af Þjóðskrá Íslands á Íslandi. Þjóðskrá getur hins vegar tekið á móti umsóknum um vegabréf með beinu tölvusambandi um sérstakan búnað frá nokkrum sendiráðum erlendis, sbr. svar við 1. lið, og hefur sú regla verið í gildi frá því breyting varð á útgáfu íslenskra vegabréfa árið 2006 þegar föstum búnaði var komið fyrir í sendiskrifstofum til að taka á móti umsóknum. Jafnframt voru keyptar tvær færanlegar umsóknarstöðvar. Önnur stöðin er hjá Þjóðskrá Íslands en hinni stöðinni var komið fyrir í sendiráði Íslands í Peking árið 2008 og hefur hún síðan þá þjónað fyrir móttöku umsókna um vegabréf fyrir Íslendinga í Asíu.
    Tekið skal fram að sú stöð sem er í umsjá utanríkisráðuneytisins í umboði Þjóðskrár Íslands í Peking er hátt í tíu ára gömul og illfæranleg þar sem tilflutningur á milli heimshluta er bæði afar kostnaðarsamur og eingöngu á færi tæknimanna. Upphaflega var ráðgert að tæknimenn utanríkisráðuneytisins tækju stöðina með sér í þjónustuferðir til þeirra sendiráða sem ekki hafa búnað til móttöku umsókna um vegabréf og var stöðin flutt í þjónustuferðum tæknimanna ráðuneytisins til tveggja sendiráða, annars vegar sendiráðsins í Moskvu og hins vegar í Nýju-Delí.

     3.      Hefur ráðuneytið upplýsingar um hve margir Íslendingar eru í útlöndum án gilds vegabréfs?
    Utanríkisráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hversu margir íslenskir ríkisborgarar eru erlendis án gilds vegabréfs á hverjum tíma. Í hverjum mánuði koma upp tilvik þar sem íslenskir ríkisborgarar glata vegabréfum sínum erlendis eða vegabréf renna úr gildi. Þessum tilvikum er mætt þannig að viðkomandi sækir um og fær útgefið neyðarvegabréf ef viðkomandi er ekki í aðstöðu til að fara til sendiráðs sem getur tekið við umsókn um vegabréf.