Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 720  —  339. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Steinunni Þóru Árnadóttur
um kynfræðslu nemenda með þroskahömlun.


     1.      Hvernig fer kynfræðsla og fræðsla um einkenni góðs parsambands fram í grunn- og framhaldsskólum fyrir nemendur með þroskahömlun, hvaða námsefni er notað og hver eru skilgreind markmið fræðslunnar?
    Heilbrigði og velferð er einn af sex grunnþáttum menntunar sem birtist í aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem kom út árið 2011. Í umfjöllun um grunnþáttinn heilbrigði og velferð í aðalnámskránni segir m.a. að helstu þættir sem leggja þurfi áherslu á séu jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Einnig segir að mikilvægt sé að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt, að allir sem starfa í skólum þurfi að skoða störf sín með hliðsjón af heilbrigði og gegni starfsfólk skóla miklu hlutverki sem fyrirmyndir í samvinnu við foreldra, heilsugæslu og aðila nærumhverfisins. Í skóla án aðgreiningar ríkir viðhorf sem einkennist af virðingu fyrir rétti allra nemenda til virkrar þátttöku í námi óháð atgervi þeirra og stöðu. Borin er virðing fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum nemenda og lögð er áhersla á að útrýma öllum gerðum mismununar og aðgreiningar í skólum. Í hæfniviðmiðum greinasviða aðalnámskrár er sérstaklega fjallað um líkamsvitund, kynheilbrigði, kynhlutverk og kyngervi í náttúru- og samfélagsgreinum og skólaíþróttum.
    Hver skóli setur sér skólanámskrá í samræmi við hæfniviðmið í aðalnámskrá og eiga grunnþættirnir sex að fléttast inn í allt skólastarf og endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Inntak og viðfangsefni skólastarfsins eru sett fram í námssviðum, námsgreinum og námsáföngum fyrir grunn- og framhaldsskóla.
    Hver og einn skóli skipuleggur nám og kennslu í samræmi við grunnþætti aðalnámskrár og hæfniviðmið og útfærir í skólanámskrá hvernig markmiðum skuli náð. Skólum er í sjálfsvald sett hvaða námsefni þeir kjósa að nýta í kennslu en þeir skulu taka mið af fyrirmælum í aðalnámskrá þar sem við á. Í umfjöllun um námsgögn í grunnskólum segir í aðalnámskrá að þau skuli höfða til nemenda, vera aðlaðandi og áhugavekjandi og taka mið af grunnþáttum menntunar. Þau skuli höfða jafnt til beggja kynja og mismuna ekki einstaklingum eða hópum vegna kynferðis, kynhneigðar, búsetu, uppruna, litarháttar, fötlunar, trúarbragða eða félagslegrar stöðu. Menntamálastofnun útvegar grunnskólum námsgögn í skyldunámi, þ.m.t. í kynfræðslu til að vinna að hæfniviðmiðum aðalnámskrár.
    Kynfræðsla nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi er því útfærð með margvíslegum hætti og er vísað til einstakra skóla um nánari upplýsingar þar að lútandi.

     2.      Telur ráðherra að nóg sé að gert hvað varðar kynfræðslu nemenda með þroskahömlun í grunn- og framhaldsskólum?
    Ekki hefur nýlega verið gerð úttekt á því hvernig kynfræðslu er háttað í grunn- og framhaldsskólum en við síðustu endurskoðun á aðalnámskrá komu fram ábendingar frá hagsmunaaðilum þess efnis að efla þyrfti kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum. Við því var brugðist með því að setja sérstök hæfniviðmið fyrir öll aldursstig á nokkrum námssviðum, eins og að framan er greint.

     3.      Er áformað að gera breytingar á þessari fræðslu nemenda með þroskahömlun, og þá hverjar?
    Nú stendur yfir innleiðing aðalnámskrár fyrir öll skólastig og að því loknu er rétt að leggja mat á hvernig til hafi tekist og hvort ástæða sé til að gera sérstaka könnun á stöðu kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum, áður en ráðist er í tilteknar breytingar.
    Vert er að nefna að á undanförnum árum hefur ráðuneytið í samstarfi við ýmsa aðila staðið að vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum í tengslum við innleiðingu á Lanzarote-sáttmálanum. Í tengslum við það verkefni hefur verið ráðist í margvíslegar aðgerðir, svo sem fræðslufundi, útgáfu efnis og kannanir. Í kjölfarið hafa mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti staðið saman að aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í hvers kyns myndum í samfélaginu, þar á meðal gegn börnum. Stendur sú vinna yfir í samstarfi við ýmsa aðila.
    Gert er ráð fyrir að kynfræðsla nemenda með þroskahömlun sé kynnt þeim með sama hætti og öðrum nemendum. Það er á ábyrgð hverrar skólastofnunar fyrir sig.