Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 724  —  412. mál.
Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá
Brynhildi Pétursdóttur um skáldahúsin á Akureyri.


     1.      Hvers vegna fá skáldahúsin þrjú á Akureyri, Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir, enga rekstrarstyrki frá ríkinu og hafa ekki fengið a.m.k. frá árinu 2012?
    Á fjárlögum 2011 fengu Akureyrarstofa og Minjasafnið á Akureyri 2,5 millj. kr. styrk vegna skáldahúsanna á Akureyri. Árið 2012 var ýmsu fyrirkomulagi breytt í meðferð og ákvörðun styrkja. Var ákveðið að veita stofn- og rekstrarstyrki innan menningarsamninga og fengu þá landshlutasamtökin hvert um sig fjárhæð til ráðstöfunar hvert á sínu svæði. Þá var á fjárlögum ársins 2012 fyrirkomulagi við úthlutun styrkja til félaga, samtaka og einstaklinga breytt hvað varðar aðkomu fjárlaganefndar Alþingis og úthlutun færð til ráðuneyta. Á grundvelli þessa sótti Minjasafnið á Akureyri um styrk til skáldahúsanna þriggja en fékk synjun með eftirfarandi rökstuðningi: „Ráðuneytin munu einungis úthluta styrkjum til verkefna sem falla undir málasvið þeirra að svo miklu leyti sem þau falla ekki undir lögbundna sjóði eða samninga, svo sem menningarsamninga eða vaxtarsamninga.“ Þá ber í þessu samhengi að nefna samning um samstarf ríkis og Akureyrarbæjar um menningarmál á Akureyri, sem hefur verið í gildi óslitið í hartnær 20 ár, en að samkomulagi varð að þær fjárveitingar sem renna til Akureyrar af hálfu ríkisins væru eyrnamerktar Leikfélagi Akureyrar, Listasafni Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Ekki hefur ríkt ágreiningur um þessa forgangsröðun við Akureyrarbæ. Í undirbúningi er endurnýjun samningsins til næstu ára. Sömu markmið eru þar sett fram auk þess að efla starfsemi menningarhússins Hofs.

     2.      Telur ráðherra að jafnræðis sé gætt þegar kemur að úthlutun ríkisfjár til höfundasafna á landinu?
    Starfsemi Minjasafnsins á Akureyri er fjölbreytt og stendur safnið fyrir fjölmörgum viðburðum auk sýningarhalds. Markmið Minjasafnsins er að safna, varðveita og rannsaka menningarsögulegar minjar, einkum þær sem eru lýsandi fyrir daglegt líf og atvinnuvegi í Eyjafirði. Minjasafnið á Akureyri er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011, og hefur á þeim grundvelli sótt um og hlotið styrki úr safnasjóði sem nema alls 12.750 þús. kr. á síðastliðnum fjórum árum. Skáldahúsin á Akureyri, Sigurhæðir, Davíðshús og Nonnahús eru hluti af Minjasafninu á Akureyri, þar sem þremur þjóðskáldum er gert hátt undir höfði, og nokkrir verkefnastyrkja úr safnasjóði sérstaklega verið ætlaðir til verkefna á þeirra vegum.

     3.      Hvernig hefur ráðherra gætt jafnræðis skáldahúsanna þriggja og annarra sambærilegra menningarstaða á landsbyggðinni?
    Samningssamband er á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og nokkurra skáldasafna á landinu. Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri, Snorrastofa í Reykholti og Laxnessafn að Gljúfrasteini eru rekin á landi í eigu ríkisins. Þórbergssetur að Hala í Austur-Skaftafellssýslu er staðsett á stað sem skilgreindur hefur verið sem brotthætt byggð og því hefur það verið vilji stjórnvalda að styrkja svæðið á undanförnum árum með sérstökum samningi.