Ferill 457. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 731  —  457. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði
og skemmtanahald, nr. 85/2007 (heimagisting,
veitingastaðir án áfengisveitinga,
ótímabundin rekstrarleyfi).

(Lagt fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „til lengri eða skemmri tíma“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: að hámarki í 30 daga samfleytt í senn.
     b.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Húsnæðið má ekki bjóða til leigu lengur en í 90 daga samanlagt á ári hverju.
     c.      Í stað flokka IV og V í 3. mgr. kemur einn nýr flokkur, Flokkur IV, svohljóðandi: Gististaður með áfengisveitingum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 4. gr. laganna:
     a.      Flokkur II orðast svo: Umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu.
     b.      Flokkur III orðast svo: Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist, og staðir sem kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.

3. gr.

    Í stað orðanna „4. mgr. 18. gr.“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 17. gr.

4. gr.

    Í stað orðsins „hæfi“ í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: hæfni.

5. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Sá sem hyggst stunda starfsemi sem fellur undir gistiflokka II–IV og veitingastaðaflokka II og III skal hafa til þess rekstrarleyfi útgefið af leyfisveitanda.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 8. gr. laganna:
     a.      Orðið „annarra“ í a-lið fellur brott.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „500.000 kr.“ í g-lið kemur: 1.000.000 kr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Útgáfa rekstrarleyfis samkvæmt lögum þessum er háð því að kröfur á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli séu uppfyllt og, eftir því sem við á, að starfsleyfi sem gefin eru út af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga fáist fyrir þeirri starfsemi sem umsókn lýtur að.
     b.      1. tölul. 4. mgr. orðast svo: Sveitarstjórnar sem m.a. staðfestir eftirfarandi atriði:
               a.      að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála,
               b.      að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu,
               c.      að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um,
               d.      að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli og, þegar við á, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist,
               e.      að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.
     c.      2., 3. og 5. tölul. 4. mgr. falla brott.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Rekstrarleyfi til starfsemi samkvæmt lögum þessum skal vera ótímabundið. Leyfishafi skal tafarlaust og í samræmi við 2. mgr. 12. gr. tilkynna leyfisveitanda að hann hyggist hætta hinni leyfisskyldu starfsemi.
     b.      1. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „gildistími leyfis“ í 1. málsl. 3. mgr. falla brott.
     d.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Í rekstrarleyfi skal koma fram númer sem leyfisveitandi úthlutar leyfishafa. Leyfishafi skal nota númerið í allri markaðssetningu á starfsemi sinni, svo sem í auglýsingum, á vefsíðum og bókunarsíðum, innlendum sem erlendum.

9. gr.

    1. málsl. 6. mgr. 12. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    13. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Skráningarskylda.

    Hver sem hyggst bjóða upp á heimagistingu í samræmi við 1. mgr. 3. gr. skal tilkynna sýslumanni í viðkomandi umdæmi að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Aðila ber að staðfesta við skráningu að húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Endurnýja þarf skráningu á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti yfir þá daga sem húsnæði var leigt út. Skil á nýtingaryfirliti er skilyrði fyrir endurnýjun skráningar á næsta almanaksári. Sýslumanni er heimilt að senda upplýsingar þær sem fram koma í nýtingaryfirliti til skattyfirvalda.
    Við skráningu heimagistingar skal sýslumaður úthluta aðila númeri skráningar og ber aðila að nota númerið í allri markaðssetningu og kynningu, þ.m.t. á vefsíðum, bókunarsíðum og í auglýsingum hvers konar.
    Um skráningarskylda aðila gilda, eftir því sem við á, ákvæði 19. og 26. gr.
    Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd skráningarskyldu, upplýsingar sem veita skal og kröfur til notkunar skráningarnúmers. Ráðherra er í reglugerð enn fremur heimilt að kveða á um að öll skráning, vinnsla og/eða allt eftirlit með heimagistingu geti farið fram hjá einu sýslumannsembætti.

11. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Leyfisveitingar og skráningarskylda.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Orðið „jafnframt“ í 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Orðin „þótt leyfistími sé ekki liðinn“ í 1. málsl. 6. mgr. falla brott.
     d.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sýslumanni er heimilt að fella niður rekstrarleyfi hafi ekki verið nein starfsemi af hálfu leyfishafa á þeim veitingastað, gististað eða skemmtistað sem fram kemur í leyfinu í samfellt tólf mánuði. Skal leyfishafa tilkynnt skriflega um að niðurfelling standi til og honum heimilað að gera athugasemdir við niðurfellinguna.

13. gr.

    Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Afskráning og synjun skráningar.

    Sýslumaður skal afskrá heimagistingu verði aðili uppvís að því að leigja út húsnæði sitt til lengri tíma en 90 daga á ári hverju.
    Áður en kemur til afskráningar skal sýslumaður senda skráningaraðila tilkynningu þar um þar sem fram kemur tilefni afskráningar, og skal skráningaraðila gefinn frestur til að andmæla eða bæta úr annmörkum sé það mögulegt.
    Sýslumaður skal enn fremur synja um skráningu hafi heimagisting ítrekað verið afskráð, nýtingaryfirliti ekki verið skilað eða hafi aðili ítrekað misnotað skráningu sína.
    Sýslumanni er heimilt að senda tilkynningar samkvæmt ákvæði þessu með rafrænum hætti á uppgefið tölvupóstfang skráningaraðila.

14. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna verður: Synjun, brottfall, afturköllun og svipting rekstrarleyfis og afskráning.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Orðin „og eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     c.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Sækja þarf um tækifærisleyfi til áfengisveitinga við einstök tækifæri í atvinnuskyni hvort sem um beina sölu veitinganna er að ræða eða afhendingu þeirra, svo sem í kynningarskyni, á sýningum eða sem lið í hvers konar samkomu- og/eða ráðstefnuhaldi, hvort sem er innan dyra, undir berum himni eða í tjaldi. Slík leyfi verða eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en tólf sinnum ár hvert vegna sama staðar. Tækifærisleyfi til áfengisveitinga má þó samþykkja sem viðbót við gilt rekstrarleyfi, svo sem vegna tímabundins viðbótarafgreiðslutíma áfengisveitinga.
                  Ekki þarf tækifærisleyfi fyrir einkasamkvæmum.
     d.      Í stað orðanna „einnar viku“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: þriggja vikna.
     e.      1. málsl. 3. mgr. orðast svo: Leyfisveitandi getur bundið leyfi eftirfarandi skilyrðum að fengnum umsögnum lögreglustjóra, heilbrigðisnefnda, sveitarstjórnar, slökkviliðs og eftir atvikum annarra umsagnaraðila skv. 10. gr.
     f.      4. mgr. fellur brott.

16. gr.

    18. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Við 20. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Leyfisveitandi skal enn fremur birta lista yfir skráða heimagistingu í miðlægu kerfi og á heimasíðu sinni. Nánar skal kveðið á um birtingu upplýsinga í reglugerð.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sýslumenn skulu hafa eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum, svo sem varðandi skráningarskyldu, tímalengd útleigu í heimagistingu og skil á nýtingaryfirliti. Sýslumenn geta leitað atbeina lögreglu við eftirlit með skráðum og skráningarskyldum aðilum.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Heilbrigðisnefnd skal tilkynna viðkomandi leyfisveitanda ef fyrirhuguð er svipting starfsleyfis eða ef starfsemi uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til heimagistingar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, og um frávik sem koma fram í eftirliti. Leyfisveitandi skal tilkynna heilbrigðisnefnd ef fyrirhuguð er svipting rekstrarleyfis eða afskráning heimagistingar.
     c.      Á eftir orðunum „rekstur leyfishafa“ í 4. mgr. kemur: eða skráðs aðila; og í stað orðanna „endurnýjun þess“ í sömu málsgrein kemur: skráningu.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „sbr. 7., 12., 17. og/eða 18. gr.“ í 1. mgr. kemur: sbr. 7., 12. og 17. gr.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Hver sá sem rekur heimagistingu án skráningar skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     c.      Í stað orðanna „1. og 2. mgr.“ í 3. og 4. mgr. kemur: 1.–3. mgr.

20. gr.

    Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Stjórnvaldssektir.

    Sýslumaður getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem rekur heimagistingu án skráningar skv. 13. gr. eða stundar útleigu lengur en 90 daga á hverju almanaksári.
    Einnig er sýslumanni heimilt að leggja stjórnvaldssektir á hvern þann sem ekki notar númer rekstrarleyfis eða skráningar í markaðssetningu skv. 4. mgr. 11. gr. og 3. mgr. 13. gr.
    Stjórnvaldssektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvert brot, eru aðfararhæfar og skulu renna í ríkissjóð. Við ákvörðun sekta skal tekið tillit til alvarleika brots.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum má beita óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Aðili máls getur skotið ákvörðun sýslumanns um stjórnvaldssektir til ráðherra innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot til ráðherra frestar aðför.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Orðin „útrunnið rekstrarleyfi hefur ekki verið endurnýjað“ í a-lið 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað „18. gr.“ í c-lið 1. mgr. kemur: 17. gr.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sýslumaður getur farið fram á að lögreglustjóri, án fyrirvara eða aðvörunar, stöðvi skráningarskylda starfsemi sem fram fer án skráningar.

22. gr.

    Í stað orðanna „Um gjald“ í 24. gr. laganna kemur: Um skráningargjald og gjald.

23. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

24. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2016.

25. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum:
     a.      20. tölul. orðast svo: Gistileyfi og skráningargjald skv. 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
        a.     flokkur I (skráningargjald) 8.000 kr.
        b.     flokkur II 30.000 kr.
        c.     flokkur III 38.000 kr.
        d.     flokkur IV 250.000 kr.
     b.      21. tölul. orðast svo: Veitingaleyfi skv. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald
        a. flokkur II 200.000 kr.
        b. flokkur III 250.000 kr.
     c.      22. tölul. orðast svo: Tækifærisleyfi fyrir skemmtun skv. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 10.000 kr.
     d.      23. tölul. orðast svo: Tækifærisleyfi fyrir áfengisveitingar skv. 17. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 31.500 kr.
     e.      24. tölul. fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Öll rekstrarleyfi sem gefin hafa verið út á grundvelli laga nr. 85/2007 halda gildi sínu fram að endurnýjun samkvæmt leyfisbréfi enda komi ekki til niðurfellingar eða sviptingar. Þegar leyfi hefur runnið út skal sækja um nýtt rekstrarleyfi á grundvelli laganna.

II.

    Þegar kemur að lokum gildistíma er leyfisveitanda heimilt að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða með sömu skilmálum og giltu um hið fyrra leyfi til allt að þriggja mánaða. Á gildistíma bráðabirgðaleyfis skal leyfishafi sækja um nýtt leyfi á grundvelli nýrra laga eða skrá starfsemi sína í samræmi við ákvæði þar um. Einungis er heimilt að framlengja bráðabirgðaleyfi ef umsækjanda verður ekki kennt um tafir á útgáfu nýs leyfis eða skráningar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði í ágúst 2013. Málefni veitingastaða, gististaða og skemmtanahalds höfðu þá um vorið flust til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá innanríkisráðuneytinu og var hópnum falið að endurskoða löggjöfina, meðal annars með einföldun í huga, en í maí 2014 hafði komið út skýrsla á vegum Ferðamálastofu um einföldun regluverks í ferðaþjónustu. Starfshópurinn hefur fundað alls 26 sinnum síðan þá og fengið til sín ýmsa gesti. Í starfshópnum sitja Brynhildur Pálmarsdóttir frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Helena Karlsdóttir frá Ferðamálastofu, Gunnar Valur Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Helga Björk Laxdal sem situr fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga og nokkrir aðilar hafa komið að málinu sem fulltrúar innanríkisráðuneytis. Þeir eru Gunnlaugur Geirsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Óskar Sigurðarson og Sigurður G. Hafstað.
    Hópurinn sendi í byrjun árs 2014 bréf til ýmissa aðila og haghafa þar sem óskað var eftir ábendingum um hvað mætti betur fara í löggjöf veitinga-, gisti- og skemmtistaða. Tillögur hópsins byggjast m.a. á þessum svörum ásamt áðurnefndri skýrslu um einföldun regluverks í ferðaþjónustu. Þá hefur hópurinn fengið á fund til sín fjölda gesta sem hafa lagt sitt af mörkum við vinnslu þessa frumvarps.
    Frumvarp sama efnis að hluta var lagt fram á Alþingi vorið 2015 (704. mál á þingskjali 1178) en varð ekki fullrætt. Áfram var því unnið að frumvarpinu sumarið 2015 og mið tekið af þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust við þinglega meðferð frumvarpsins þá um vorið. Leggur starfshópurinn því hér til svipað frumvarp og á síðasta þingi en með víðtækari tillögum.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Á undanförnum árum hafa leyfisveitingar í veitinga- og gistirekstri verið töluvert til umræðu og m.a. í tengslum við meint flækjustig leyfisferilsins. Einnig hefur umræða um leyfislausa gististarfsemi verið hávær. Þá hefur verið mikil aukning á því að einstaklingar leigi út húsnæði sitt til ferðamanna tiltekinn tíma úr árinu og að það sé gert t.d. með milligöngu sérstakra aðila eða gegnum sérstakar vefsíður. Einnig er orðið algengt að einstaklingar og lögaðilar eigi fjölda íbúða sem leigðar eru út til ferðamanna.
    Í skýrslu Rannsóknastofnunar atvinnulífsins 1 kemur fram að stærsta vandamálið í gistiþjónustu sé fjöldi óskráðra og leyfislausra gististaða sem líklega standi ekki skil á öllum sköttum. 2 Þá hefur Íslandsbanki skoðað fjölda gistinátta á landinu og nýtingu þeirra. 3 Í samantekt bankans kemur m.a. fram að fjöldi gistinátta á hvern ferðamann hefur dregist nokkuð saman frá árinu 2010 sem bendir til þess að ferðamenn nýti sér í auknum mæli annars konar gistiþjónustu en þá sem skilar inn upplýsingum um fjölda gistinátta. 4 Einnig segir að aukning ferðamanna hafi undanfarin ár verið talsvert yfir fjölgun hótelherbergja og að mismuninum hafi m.a. verið mætt með framboði af gistirými í íbúðum í miðbæ Reykjavíkur. 5 Á sama tíma hefur ferðamönnum fjölgað og því er hægt að draga þá ályktun að hluti ferðamannastraumsins gisti annars staðar en á skráðum gististöðum. Einnig telja leyfisveitendur gististaða á landinu, þ.e. sýslumannsembættin, að fjöldi gististaða sé ranglega skilgreindur og hafi m.a. leyfi í röngum flokki. Til dæmis séu margir sem skrái starfsemi sína í flokki I fyrir heimagistingu þegar í raun sé um að ræða gistiheimili eða íbúðargistingu sem fellur í flokk II.
    Í frumvarpi þessu er áhersla lögð á að bregðast við þróun í gistiframboði og þeirri leyfislausu starfsemi sem áður var getið. Nauðsyn var talin á að gera breytingar á löggjöfinni ásamt því að endurskoða reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá er ljóst að eftirlit með málaflokknum er umfangsmikið verkefni og þörf á að tryggja fjármagn og mannafla til þess.
    Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var þann 24. maí 2013 er kveðið á um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir endurskoðun regluverks atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að markmiði. Í ljósi þessarar stefnu er endurskoðun þessari einnig sérstaklega ætlað að einfalda eftir föngum umsóknarferlið á grundvelli laganna. Skýrsla um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu lýsir því að haghafar í ferðaþjónustu vilji sjá einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu enda sé núverandi fyrirkomulag flókið og lítil samvinna milli stofnana sem sjá um leyfisveitingar og umsagnir. Með frumvarpinu eru lögð til fyrstu skref í átt að einföldun regluverksins, þó með það að leiðarljósi að tryggja öryggi gesta, hreinlæti og gæði þjónustunnar sem boðin er.

III. Meginefni frumvarpsins.
    Hér á eftir fara helstu atriði frumvarpsins en meginmarkmið þess er að einfalda regluverk með því að aflétta leyfisskyldu í tilteknum flokkum, gera rekstrarleyfin ótímabundin og koma til móts við þá þróun sem orðið hefur í framboði gistirýma með skráningarskyldu í stað leyfisskyldu.

Breytt skilgreining á heimagistingu og skráningarskylda í stað rekstrarleyfisskyldu.
    Í frumvarpinu er lögð til útvíkkun á flokki heimagistingar sem er flokkur I samkvæmt núgildandi lögum. Í lögunum eru gerðar allar sömu kröfur í umsóknarferli til að öðlast rekstrarleyfi sem heimagisting og gerðar eru um aðra gististaði, svo sem hótel eða gistiheimili. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að einstaklingum verði heimilt að starfrækja heimagistingu hafi þeir skráð sig á vefsvæði sýslumanns á viðkomandi stað eða á tiltekinni sameiginlegri vefsíðu eða vefgátt. Lögaðilum er ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar, einungis einstaklingum.
    Þar sem ekki verður lengur gerð krafa um rekstrarleyfi munu þessir aðilar ekki fara í sama umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðilum ber þó að uppfylla kröfur um brunavarnir sem fram munu koma í reglugerð, svo sem varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna.
    Þá er gististarfsemi starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Mikilvægt er að gististarfsemi uppfylli ýtrustu kröfur um hollustuhætti og mengunarvarnir og að hægt sé að bregðast við ef frávik eru frá því. Í umræðu hefur verið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að draga úr vægi leyfisveitinga og þess í stað að taka upp tilkynningarskyldu (skráningu) á grundvelli samræmdra skilyrða um viðkomandi starfsemi sem sætir eftir sem áður eftirliti heilbrigðisnefnda. Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun í þessa veru en málið er þó til skoðunar. Verði frumvarp þetta að lögum hyggst umhverfis- og auðlindaráðuneytið breyta reglugerð um hollustuhætti til samræmis við þær breytingar sem frumvarp þetta kveður á um hvað varðar heimagistingu þannig að skráðum heimagistingaraðilum dugi að tilkynna um útleigu og sæta eftirliti hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
    Rýmkun heimagistingar felst enn fremur í því að aðilum verður nú heimilt að leigja út lögheimili sitt auk einnar annarrar fasteignar í eigu viðkomandi. Er þar komið til móts við einstaklinga sem vilja geta leigt út sumarhús sitt eða frístundaíbúð til skamms tíma og er hugmyndin að ekki sé um að ræða tvær eignir í sama hverfi heldur lögheimili og frístundaeign annar staðar á landinu. Á móti kemur að þeim aðilum sem eru skráningarskyldir verður aðeins heimilt að leigja út viðkomandi eignir í 90 daga samtals á ári hverju. Er þar átt við að heildarleigutími, ekki samfelldur þó, megi ekki vera lengri en 90 dagar og gildir þessi tímalengd hvort sem um er að ræða leigu einnar eða tveggja eigna.
    Við ákvörðun um tímalengd útleigu sem heimil er án skráningar var fyrirkomulag í þessum málaflokki í nágrannalöndum okkar skoðað ásamt því að tekið var tillit til umsagna sem bárust við fyrra frumvarp þar sem miðað var við tímalengdina átta vikur eða 56 daga. Í Danmörku þarf ekki gistileyfi fyrir húsnæði með allt að þrjú herbergi til leigu eða átta rúm. Í Svíþjóð er hins vegar aðeins þörf fyrir gistileyfi þegar stærð gistingar fer fram yfir fjögur herbergi eða átta gesti.
    Á meginlandi Evrópu hefur þróunin orðið sú t.d. að borgaryfirvöld í Amsterdam hafa sett reglur sem heimila skammtímaleigu til mest átta vikna og fyrir mest fjórar manneskjur á hverjum tíma. Yfirvöld í Katalóníu á Spáni settu strangari reglur um útleigu til ferðamanna þar sem heimilt er að leigja ferðamönnum í fjóra mánuði á ári hverju en þó með því skilyrði að eigandi sé í íbúðinni meðan á leigu stendur. Lundúnaborg tók þá afstöðu til málsins að samþykkja breytingar á regluverki sínu sem gera íbúum kleift að leigja út eignir sínar í borginni í allt að 90 daga á ári hverju án þess að þurfa til þess leyfi stjórnvalda.
    Við vinnslu frumvarpsins var tekin sú ákvörðun að heimagisting á Íslandi skyldi miðast við dagafjölda og húsnæðisstærð en ekki eingöngu húsnæðisstærð eins og er á Norðurlöndunum. Að baki þeirri ákvörðun liggur sú hugsun að með afléttingu skilyrðis um rekstrarleyfi sé ætlunin að ná til starfsemi sem verður ekki talin atvinnustarfsemi í raun. Þótti viðmiðun við stærð eignar eingöngu ekki ná því markmiði. Gistiheimili sem rúmar fimm gesti allt árið um kring getur t.d. talist full atvinnustarfsemi. Eins geta aðilar átt stórar fasteignir með fleiri herbergjum en fimm og haft áhuga á að leigja út til skamms tíma og þá ekki sem hluta af atvinnustarfsemi. Gerir frumvarpið því ráð fyrir að heimagisting miðist við 90 daga á hverju almanaksári í samræmi við þróunina í Bretlandi. Hvað varðar húsnæðisstærð mun verða gerð breyting á reglugerð nr. 585/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þannig að stærðarmörkin endurspegli samræmi við kröfur í byggingarreglugerð þar sem miðað er við fimm herbergi eða tíu einstaklinga. Í núgildandi reglugerð er heimagisting skilgreind þannig að ekki séu leigð út fleiri en átta herbergi eða sextán rúm. Þá teljist gististaður gistiheimili í skilningi reglugerðarinnar.
    Þá er samkvæmt frumvarpinu lögð sú krafa á aðila með skráða heimagistingu að þeir skili nýtingaryfirliti til sýslumannsins á viðkomandi svæði. Er þar um að ræða skjal þar sem fram kemur nýting á fasteign aðila á almanaksárinu. Markmið þessarar kröfu er að auðvelda eftirlit með heimagistingu og auk þess verður sýslumönnum heimilt að afhenda skattyfirvöldum umræddar skýrslur til samkeyrslu við skattskil aðila.
    Mikið hefur verið rætt um rekstur heimagistingar í fjöleignarhúsum og það ónæði sem talið er hljótast af umferð ferðamanna í og við fjöleignarhús. Á grundvelli laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, hefur eigandi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greinir í lögum, því sem leiðir af óskráðum grenndarreglum, eðli máls eða því sem byggist á löglegum ákvörðunum og samþykktum húsfélags. Þessi eignarráð má takmarka í tilteknum tilvikum sem nánar eru skilgreind í 27. gr. laga um fjöleignarhús, svo sem þegar breyting er gerð á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð fyrir gert í upphafi og hefur í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur. Þörf fyrir samþykki eigenda annarra eignarhluta við breytingu á hagnýtingu eignar veltur á ákvæðum og túlkun áðurnefndra laga. Ekki þykir eðlilegt að taka afstöðu til slíkra tilfella í löggjöf um veitingastaði og gististaði heldur fer betur á að slíkt mat eigi sér stað á grundvelli áðurnefndra laga um fjöleignarhús. Því leggur starfshópurinn það til að velferðarráðuneytið, sem fer með málaflokk fjöleignarhúsa, taki afstöðu til málsins og meti hvort nauðsynlegt sé að setja sérstakt ákvæði eða leiðbeiningar í tengslum við leigu íbúða í fjöleignarhúsum til ferðamanna.
    Einnig hafa verið til umræðu tengsl nýtingar fasteignar til útleigu fyrir ferðamenn og álagning fasteignaskatts á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, og reglugerðar þar um, nr. 1160/2005. Í sumum tilfellum hefur legið fyrir það mat sveitarstjórna að útleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna leiði til hækkunar fasteignaskatta viðkomandi eignar meðan önnur sveitarfélög hafa ekki lagt sama mat á þessi tilfelli. Lagt er til að reynt verði að haga skattlagningu fasteigna hvað varðar útleigu sem fellur undir flokk heimagistingar á samræmdan hátt milli sveitarfélaga og á sem sanngjarnastan máta fyrir bæði eigendur og sveitarfélög.
    Nýmæli frumvarpsins um skráningarskyldu og breytta skilgreiningu heimagistingar er tilraun til þess að einfalda fyrirkomulag útleigu einstaklinga á heimilum sínum til skamms tíma. Markmið ákvæðanna um heimagistingu er einnig að ná skammtímaleigu til ferðamanna upp á yfirborðið og aðskilja þetta form útleigu frá hefðbundinni gististarfsemi í atvinnuskyni. Með þessum nýju reglum má einnig gera ráð fyrir að samkeppnisstaða gististaða almennt styrkist þegar flokkur heimagistingar mun aðeins ná til útleigu sem aukabúgreinar og utan almennrar atvinnustarfsemi.

Veitingastaðir án áfengisveitinga ekki lengur rekstrarleyfisskyld starfsemi á grundvelli laga nr. 85/2007.
    Þá felst í frumvarpinu nýmæli sem varðar niðurfellingu rekstrarleyfisskyldu þegar um er að ræða veitingastað í flokki I, þ.e. veitingastað án áfengisveitinga. Ekki mun því þurfa sama umsóknarferlið og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum.
    Rétt er að taka það skýrt fram að engar breytingar eru gerðar á kröfum sem lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, gera til starfseminnar og aðilar munu enn sem fyrr þurfa uppfylla þær kröfur sem gerðar eru á grundvelli þeirra laga og sæta eftirliti hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.
    Með breytingunni er ætlunin að einfalda og auðvelda stjórnsýsluna gagnvart þessari starfsemi en á það hefur verið bent að krafa um rekstrarleyfi til viðbótar við starfsleyfi heilbrigðisnefndar geti verið íþyngjandi og geri ferlið óþarflega flókið. Sem dæmi má nefna að bakarí sem hefur í verslun sinni nokkur borð og býður gestum að neyta vörunnar innan hennar þarf í dag að hafa bæði starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd og rekstrarleyfi sem veitingastaður án áfengisveitinga.
    Í Svíþjóð er fyrirkomulagið slíkt að öll starfsemi þarfnast leyfis frá heilbrigðisyfirvöldum sveitarfélaganna en aðeins veitingastaðir sem veita áfengi þurfa sérstakt leyfi fyrir slíkt frá ríkisvaldinu. Sömu sögu má segja í Noregi og Danmörku þar sem sérstakt leyfi þarf til að veita áfengi á veitingastöðum en leyfi heilbrigðisyfirvalda dugar fyrir aðra starfsemi.
    Nái frumvarpið fram að ganga mun starfsemi veitingastaða án áfengisveitinga einungis vera skráð hjá viðkomandi sveitarfélagi og skal vera í samræmi við lagaákvæði þar um, byggingarreglugerðir og skipulagsskilmála. Sérstaklega er mikilvægt að veitingamenn kynni sér skipulagsskilmála í viðkomandi sveitarfélagi þar sem sum sveitarfélög hafa sett reglur um staðsetningu veitingastaða og opnunartíma sem virða þarf. Þá þurfa allar breytingar á húsnæði að fara fram með samþykki byggingarfulltrúa á hverjum stað sem meðal annars fer yfir samræmi framkvæmda við skipulagsskilmála.
    Þetta nýmæli mun koma til að með að einfalda verulega allt ferlið við stofnun og rekstur veitingastaða án áfengis og létta þannig kvöðum af atvinnulífinu. Ekki verður þó um að ræða neinn afslátt af kröfum til hreinlætis eða öryggis á veitingastöðum þar sem slíkar kröfur og eftirlit af hálfu heilbrigðisnefnda í landinu er óbreytt með öllu.

Breytt flokkun veitingastaða.
    Með frumvarpinu eru enn fremur felld úr gildi viðmið og skil milli flokka byggð á opnunartíma veitingastaða til klukkan 23. Stafar þessi breyting af ákveðnum vandkvæðum sem skapast þegar umfangslitlir veitingastaðir óska eftir að hafa eldhús sín opin lengur en til kl. 23. Slíkir veitingastaðir hafa allir þurft rekstrarleyfi í flokki III sem hugsaður er fyrir umfangsmikla veitinga- og skemmtistaði. Með því að fella brott viðmiðið um tímann er það sett í hendur leyfisveitanda og umsagnaraðila á hverjum stað að meta hvort starfsemi veitingastaðar teljist umfangsmikil eða umfangslítil. Einnig hafa sveitarfélög heimild til þess að hafa áhrif á opnunartíma veitingastaða í skipulagi sínu eins og Reykjavíkurborg hefur gert. Þessi breyting mun hvetja fleiri sveitarfélög til þess að leggja skýrar línur um staðsetningu og opnunartíma veitingastaða á hverjum stað í skipulagi sínu.

Rekstrarleyfi gerð ótímabundin.
    Með breytingu á 11. gr. gildandi laga eru rekstrarleyfi á grundvelli laganna, þ.e. leyfi fyrir veitingastaði í flokki II og III og fyrir gististaði í flokkum II, III og IV gerð ótímabundin en í núgildandi kerfi eru leyfin veitt til fjögurra ára í senn og mögulegt að sækja um endurnýjun að þeim tíma liðnum. Að sama skapi eru felld úr gildi ákvæði í lögunum sem tengjast endurnýjun leyfa.
    Breyting þessi er í samræmi við tillögu stýrihóps Ferðamálastofu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu. Lagði hópurinn til að leyfin yrðu ótímabundin en fyrst færi fram lögbundin úttekt og áhættumat gert. Það var mat starfshópsins að nægilegt væri að í upphafi færi umsókn í lögbundið umsagnarferli þar sem farið væri yfir allar þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar. Eftir að leyfi er veitt er gert ráð fyrir öflugu eftirliti bæði umsagnaraðila og eftirlitsaðila. Er þar um að ræða eftirlit heilbrigðisnefnda, eftirlit með brunavörnum á grundvelli laga um brunavarnir, nr. 75/2000, og eftirlit byggingarfulltrúa ef breytingar eru gerðar á húsnæði á grundvelli mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar ásamt eftirliti lögreglu. Svo að tryggja megi virkt eftirlit gerir frumvarpið ráð fyrir því að allir eftirlitsaðilar og leyfisveitendur skuli tilkynna sýslumanni á viðkomandi stað ef gerðar eru breytingar á veitinga- eða gististað, ef eitthvað er athugavert við rekstur eða ef rekstur missir eitt af leyfum sínum sem nauðsynleg eru til þess að starfsemi sé heimil. Í slíkum tilfellum hefur leyfisveitandi, þ.e. sýslumaðurinn, heimild til þess að fella niður viðkomandi rekstrarleyfi.
    Enn fremur hefur leyfisveitandi sjálfstæða heimild til þess að fella niður rekstrarleyfi hafi engin starfsemi verið af hálfu rekstrarleyfishafa á viðkomandi stað í tólf mánuði samfellt. Skal rekstrarleyfishafa tilkynnt um að niðurfelling standi til áður en hún fer fram og honum leyft að gera athugasemdir við niðurfellinguna eða fá hana dregna til baka.
    Komi nýr aðili að rekstri á tilteknum stað þarf að fara fram sama ferli og við veitingu nýs rekstrarleyfis, þó með tilteknum undantekningum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. laganna.
    Markmiðið með breytingunni er að vinna að einföldun og aukinni skilvirkni í rekstri veitingastaða og gististaða. Í núgildandi fyrirkomulagi hafa leyfishafar sem margir hverjir eiga fjölda rekstrarleyfa á mismunandi stöðum á landinu þurft að hafa mikið fyrir því að halda utan um endurnýjanir og hafa lagt í töluverða vinnu við endurnýjun á fjögurra ára fresti.

Samræming umsagna frá stjórnkerfi sveitarfélaga.
    Í ljósi markmiða um einföldun löggjafar felst í frumvarpinu enn fremur samræming á umsögnum sveitarfélags, byggingarfulltrúa, heilbrigðisnefndar og slökkviliðs enda starfa bæði byggingarfulltrúi, slökkvilið og heilbrigðisnefnd innan sveitarfélagsins. 6 Þannig mun sveitarstjórn senda sýslumanni samantekna niðurstöðu umsagnaraðila í þeim tilgangi að tryggja samræmda niðurstöðu og meira samstarf milli aðila innan sveitarfélagsins. Verði frumvarpið að lögum mun sveitarfélagið skila sameiginlegri umsögn og auk þess berst umsögn frá Vinnueftirliti ríkisins og lögreglu.

IV. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Ekki þótti ástæða til að meta samræmi við stjórnarskrá að öðru leyti en því að tryggja að ákvæði frumvarpsins gangi ekki gegn ákvæðum um atvinnufrelsi í 75. gr. og eignarrétt í 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í frumvarpinu felast breytingar á skilgreiningu flokka gististarfsemi og sett eru upp úrræði fyrir einstaklinga sem hafa ekki áhrif á atvinnufrelsi og eignarrétt þessara aðila. Heimagisting, með þeim takmörkunum sem felast í frumvarpinu, er ívilnandi úrræði sem þó getur ekki verið takmarkalaust. Því er mælt fyrir um að sé starfsemi svo umfangsmikil að hún vari lengur en 90 daga á ári eða taki til fleiri eigna en tveggja þá falli starfsemin í aðra þá flokka sem lögin mæla fyrir um.
    Að sama skapi er gert ráð fyrir því að þeir sem í dag hafa gild rekstrarleyfi í flokki I muni halda þeim þar til kemur að endurnýjun, lengst til fjögurra ára. Eftir þann tíma geta leyfishafar sótt um að nýju í flokkum II–IV eða skráð eign sína í flokk I uppfylli þeir skilyrði laganna. Slíkar breytingar á kröfum til rekstrarleyfa geta ekki talist brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi eða eignarrétt þar sem almennt er viðurkennt að löggjafanum sé heimilt að breyta almennum skilyrðum leyfis ef þörf þykir, svo sem vegna almannahagsmuna og þannig að almenn og hlutlæg sjónarmið ráði þar ferðinni.
    Hvað varðar þá breytingu að rekstur veitingastaða án áfengisveitinga verði ekki leyfisskyldur þá er þar um að ræða alfarið ívilnandi úrræði og engar breytingar gerðar á inntaki eða skilyrðum veitingaflokks I. Verður því að ekki talið að óeðlilegt sé, út frá stjórnarskrá, að gera þessa ívilnandi breytingu.
    Breyting sú sem varðar það að rekstrarleyfi fyrir gististaði í flokkum II–IV og fyrir veitingastaði í flokkum II og III verða ótímabundin er ívilnandi aðgerð og mun hafa áhrif frá og með gildistöku laganna. Þó munu handhafar rekstrarleyfa halda þeim fram að lokum gildistíma og geta þá sótt um nýtt og ótímabundið leyfi á grundvelli nýrra laga. Þá er frumvarpið ekki í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í málaflokknum.

V. Samráð.
    Eins og áður sagði var frumvarp þetta unnið af starfshópi sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði haustið 2013. Hópurinn sendi í byrjun árs 2014 bréf til ýmissa aðila og haghafa þar sem óskað var eftir ábendingum um hvað mætti betur fara í löggjöf veitinga-, gisti- og skemmtistaða. Þessir aðilar voru: lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Lögreglustjórafélag Íslands, Sýslumannafélag Íslands, Þjóðskrá, Ferðaþjónusta bænda, velferðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök verslunar og þjónustu og Ferðamálasamtök landshlutanna. Tillögur hópsins byggjast m.a. á svörum þessara aðila ásamt skýrslu um einföldun regluverks í ferðaþjónustu sem kom út í maí 2014. Við vinnslu þeirrar skýrslu var haft samráð við fjölmarga aðila innan ferðaþjónustunnar og ljóst að þar var haft víðtækt samráð. Þá hefur starfshópurinn hitt fjölmarga haghafa á fundum sínum frá upphafi vinnunnar í ágúst 2013. Þar á meðal eru Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, Mannvirkjastofnun, Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og leyfasvið lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur hópurinn hitt starfsfólk Vinnueftirlits ríkisins, fulltrúa úr gististaðanefnd Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og veitingahúsanefnd SAF. Enn fremur fékk hópurinn greinargóða kynningu á aðalskipulagi Reykjavíkur auk þess að hitta ríkisskattstjóra til þess að ræða sameiginlega skattaundanskot í greininni. Þá hefur verið haft samráð við velferðarráðuneytið vegna breytinga á húsaleigulögum, nr. 36/1994, en frumvarp þess efnis verður lagt fram á ný á haustþingi 2015. Samráð var haft um skilgreiningu á skammtímaleigu og það hvenær lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eiga við og hvenær leiga húsnæðis fellur undir húsaleigulögin. Enn fremur var samráð haft við Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fyrir framlagningu frumvarpsins vegna brunavarna í heimagistingu. Í samráðsferlinu komu fram ýmsar athugasemdir sem tekið var tillit til. Sem dæmi má nefna að bent var á ósamræmi í skilgreiningu á heimagistingu milli byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, með síðari breytingum, og laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, sem tekið verður á í reglugerð í málaflokknum. Einnig má, að hluta, rekja nýja útfærslu á heimagistingu til samráðs og samtals við hagsmunaaðila. Þá var samráð haft við skattaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis varðandi breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, varðandi rekstrarleyfisgjald og önnur gjöld vegna málaflokksins. Að auki var haft samráð við umhverfis- og auðlindaráðuneytið varðandi kröfur til reksturs heimagistingar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, m.a. um starfsleyfi og eftirlit.
    Enn fremur hefur verið unnið úr umsögnum sem bárust um frumvarpið sem lagt var fram á vorþingi 2015 en hlaut ekki afgreiðslu. Þar á meðal hefur verið tekið tillit til þess að tímalengd heimagistingar þótti of knöpp, óvissa var talin uppi um hvort skráningargjald ætti að greiða á hverju ári og skorta þótti á nægilegt eftirlit með starfsemi heimagistingar. Með frumvarpinu er komið til móts við þessar athugasemdir, svo sem með 90 daga heildarleigu í stað átta vikna, með skýrari ákvæðum um skráningu heimagistingar og með númerakerfi til að auðvelda eftirlit með starfsemi veitinga- og gististaða ásamt heimild til að sýslumenn og skattyfirvöld deili upplýsingum um heimagistingu. Auk þessa vörðuðu fjölmargar umsagnir sem bárust um frumvarpið lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, og það hvort að samþykki allra eigenda í fjöleignarhúsi þurfi þegar íbúðir eru leigðar út til skamms tíma. Af því tilefni ræddi starfshópurinn við velferðarráðuneytið sem fer með málaflokk fjöleignarhúsa.
    Frumvarpið var þannig unnið í samvinnu við fjölmarga aðila enda snertir málaflokkur þessi mörg svið sem heyra undir ýmis ráðuneyti og stofnanir.

VI. Mat á áhrifum.
    Verði frumvarpið að lögum munu verða verulegar breytingar á umhverfi leyfisveitinga til veitingastaða, gististaða og skemmtistaða.
    Gistiflokkur I sem nú er rekstrarleyfisskyldur verður aðeins skráningarskyldur og skilyrðum flokksins breytt verulega. Af þessari breytingu hlýst töluverð einföldun og vinnusparnaður þar sem umsóknir munu ekki fara í gegnum sama umsagnarferlið og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Búist er við því að breyting þessi leiði til þess að fjölmargir aðilar skrái starfsemi sína. Fyrirhugað er að sýslumenn annist skráningu á vefsíðu sinni og mun þessi nýjung kalla á vinnu og mannafla þannig að þörf verður á fjárframlagi til sýslumannsembættanna svo að fyrirkomulagið virki eins og gert er ráð fyrir. Komi til sjálfstæð gátt á vegum ríkisins fyrir umsóknir og gögn gæti slík gátt tekið við vefsíðu sýslumanna. Þar sem í frumvarpinu felst ívilnun fyrir einstaklinga sem vilja leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign má enn fremur gera ráð fyrir fleiri skráningum í hið nýja skráningarkerfi og eins að fleiri rekstraraðilar hafi rétta tegund leyfis og greiði þar af leiðandi rétt leyfisgjald.
    Rekstrarleyfisskylda veitingastaða án áfengisveitinga verður felld niður. Það leiðir til töluverðrar einföldunar á umhverfi veitingastaða og vinnusparnaðar hjá leyfisveitanda. Áhrif þessa munu koma fram að hluta í upphafi en síðan þegar gildistíma núgildandi leyfa lýkur.
    Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að rekstrarleyfi gefin út eftir gildistöku laganna verði ótímabundin. Þannig kemur ekki til endurnýjunar á fjögurra ára fresti eins og nú er. Mun af þessu leiða minna álag í starfsemi sýslumannsembættanna en á móti mun koma til öflugra eftirlit með starfseminni og vinna við niðurfellingu leyfa ef starfsemi er ekki lengur fyrir hendi eða starfsemi uppfyllir ekki lengur skilyrði.
    Afleiðingar annarra breytinga eru minni háttar. Að öðru leyti vísast til kostnaðarumsagna fjármála- og efnahagsráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Breytingar í 1. gr. frumvarpsins varða aðallega skilgreiningu á hugtökunum gististaður og heimagisting.
    Í a-lið er tekið á mörkum gildissviðs laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og húsaleigulögum, nr. 36/1994. Í núgildandi lögum um veitingastaði og gististaði segir að gististaður sé staður þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi og svo rakin dæmi um gististaði. Í húsaleigulögum segir í 7. mgr. 1. gr. að lögin gildi ekki um samninga hótela, gistihúsa og sambærilegra aðila við gesti sína. Þá gildi ákvæðin ekki um skammtímaleigu á húsnæði, svo sem orlofsheimilum, sumarhúsum, samkomuhúsum, íþróttasölum, herbergjum og geymsluhúsnæði, þegar leigugjald er miðað við viku, sólarhring eða skemmri tíma. Borið hefur á að aðilar sem ákveða að leigja út heimili sitt, íbúð eða sumarhús hafi gert leigusamning sem miðast við átta daga í þeim tilgangi að komast undan því að slíkur samningur falli undir lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og falli fremur undir ákvæði húsaleigulaga. Með breytingunni er tiltekið að lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eigi við um gistingu sem boðin er hverjum viðskiptavini að hámarki 30 daga samfleytt. Samhliða þessari breytingartillögu verður gerð breyting á áðurnefndu ákvæði í húsaleigulögum í frumvarpi sem lagt verður fram af félags- og húsnæðismálaráðherra.
    Í b-lið greinarinnar er breyting á skilgreiningu heimagistingar. Samkvæmt gildandi lögum er heimagisting skilgreind sem gisting á heimili leigusala gegn endurgjaldi. Ekki hefur verið ljóst af lagaákvæðinu hvort krafa er gerð um lögheimili leigusala eður ei en með breytingu þessari er sá skilningur festur í sessi. Í því felst að til þess að um heimagistingu sé að ræða verði hið leigða húsnæði að vera lögheimili einstaklings. Þá er enn fremur bætt við skilgreiningu á flokknum og heimilað að einstaklingar leigi einnig út eina aðra fasteign sem er í persónulegum notum og í eigu viðkomandi einstaklings. Er þannig komið til móts við þá aðila sem eiga t.d. tiltekið lögheimili og síðan aðra fasteign, svo sem sumarhús eða íbúð til nota í frítíma, en nokkuð algengt er að einstaklingar eigi tvær fasteignir. Þess ber að geta að markmið ákvæðisins er að veita einstaklingum heimild til takmarkaðrar útleigu á annarri fasteign en lögheimili og er þá átt við eign sem getur verið í öðru sveitarfélagi en lögheimili, í öðrum þéttbýliskjarna eða öðru póstnúmeri þó a' ekki sé það beint skilyrði. Skilyrt er hins vegar að um sé að ræða fasteign sem eigandi hefur persónuleg not af, þ.e. að eignin sé ekki notuð í atvinnuskyni. Eins og áður hefur komið fram er aðeins gert ráð fyrir því að einstaklingar geti skráð eignir sínar í flokk heimagistingar en ekki lögaðilar.
    Ákveðin þrenging er gerð á flokknum þar sem heimiluð leiga í þessum flokki verður takmörkuð við 90 daga samtals á hverju almanaksári. Er þar átt við að ákveði einstaklingur að leigja út bæði lögheimili sitt og eina aðra fasteign þá geti slík leiga lengst verið samtals 90 daga á ári hverju. Ákveði einstaklingur að leigja aðeins út eina fasteign er hámarkstími einnig 90 dagar á ári hverju. Þannig er heildartíminn alltaf 90 dagar hvort sem leigð er út ein fasteign eða tvær. Þessi takmörkun kemur til af því að í nýjan flokk heimagistingar á að falla starfsemi einstaklinga sem bundin er við hluta af árinu en ekki leiga gistirýmis í atvinnuskyni sem fer fram allt árið. Tímalengdin ræðst af mati á því hvenær útleiga telst atvinnustarfsemi ásamt því að byggja á fordæmi sem sett hefur verið í Bretlandi, nánar tiltekið í Lundúnum. Íbúum borgarinnar var nýlega heimilað að leigja út eignir sínar í 90 daga að hámarki á ári hverju án þess að til þess þurfi sérstakt leyfi. Frumvarp svipaðs efnis var lagt fram á 144. löggjafarþingi en var þar miðað við átta vikna heildarleigutíma. Sú tillaga var nokkuð gagnrýnd í umsögnum og almennt talið að um of stuttan tíma væri að ræða. Hefur þannig verið tekið tillit til þeirra athugasemda og umsagna sem bárust um frumvarpið leigutími lengdur.
    Enn fremur verður gerð breyting á skilgreiningu heimagistingar í reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 585/2007, en hún verður miðuð við útleigu á mest fimm herbergjum og gistingu með tíu rúm að hámarki. Í gildandi reglugerð er miðað við átta herbergi eða 16 rúm. Breyting þessi er í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, nr. 112/2012, með síðari breytingum, sem gerir aðrar og ríkari kröfur til húsnæðis fyrir fleiri en tíu manns.
    Að lokum eru í c-lið sameinaðir tveir flokkar gististaða með áfengisveitingum undir heitinu: Gististaður með áfengisveitingum. Ekki þykir lengur ástæða til þess að hafa sérstakan flokk fyrir gististaði sem hafa minibar á herbergjum sínum heldur falla slíkir gististaðir í flokkinn gististaður með áfengisveitingum.

Um 2. gr.

    Í greininni eru gerðar breytingar á ákvæðum laganna sem varða flokkun og skilgreiningu veitingastaða. Í flokki I eru veitingastaðir án áfengisveitinga en í flokkum II og III eru veitingastaðir með áfengisveitingum, annars vegar umfangslitlir áfengisveitingastaðir og hins vegar umfangsmiklir veitingastaðir. Einnig er skilgreiningin bundin við að opnunartími veitingastaða í flokki II sé ekki lengur en til kl. 23 og í flokki III að opið sé lengur en til kl. 23. Þessi skilgreiningin á opnunartíma í lögunum hefur valdið því að nokkur fjöldi veitingastaða hefur verið skráður í flokk III þó að starfsemi sé í eðli sínu ekki umfangsmikil og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Sem dæmi má nefna veitingastað sem vill hafa opið lengur en til 23 sem veldur þó ekki miklu ónæði. Margir veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu hafa nú t.d. opið til klukkan eitt eftir miðnætti um helgar. Með því að fella tilvísun til tímans út úr ákvæðunum er það lagt í hendur leyfisveitanda á hverjum stað að meta hvort starfsemi er umfangsmikil eða umfangslítil. Þá geta sveitarfélög einnig kveðið á um heimilan opnunartíma í aðalskipulagi sínu og stýrt þannig veitinga- og skemmtanahaldi.

Um 3. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Ákvæðið felur í sér breytingu frá þeirri skyldu sem fram kemur í 1. mgr. 7. gr. núgildandi laga að öll starfsemi á grundvelli laganna sé leyfisskyld. Með breytingunni er lagt til að gististaðir í flokkum II til IV verði áfram rekstrarleyfisskyldir en að heimagisting í flokki I verði eingöngu skráningarskyld. Þá verða veitingastaðir í flokki II og III áfram rekstrarleyfisskyldir en til þess að reka veitingastað í flokki I verður ekki lengur þörf á sérstöku rekstrarleyfi til viðbótar við önnur leyfi fyrir starfseminni.
    Gististaður í flokki I er heimagisting eins og áður hefur komið fram. Hér er lagt til að tímabundin starfsemi heimagistingar verði einungis skráningarskyld og þannig fallið frá kröfu um rekstrarleyfi að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Skráningin skal fara þannig fram að einstaklingar sem ákveða að bjóða upp á heimagistingu í takmarkaðan tíma yfir árið skrá sig og viðkomandi fasteign á vefsíðu sýslumanns í viðkomandi umdæmi eða á sameiginlegri vefsíðu sýslumanna eða annarri sameiginlegri gátt. Hver skráning gildir aðeins fyrir viðkomandi almanaksár og skal greiða skráningargjald sem nemur 8.000 kr., sbr. 25. gr. frumvarps þessa. Við skráningu verður einstaklingi úthlutað númeri sem honum ber að gefa upp og sýna við markaðssetningu á fasteign sinni, þar á meðal á vefsíðum og í auglýsingum. Einnig þarf einstaklingur að skila til sýslumanns yfirliti yfir hvenær fasteign var í útleigu svo að ljóst sé að starfsemi fari ekki fram yfir tímamörk flokksins. Gert er ráð fyrir því að skil á nýtingaryfirliti verði rafrænt á vefsíðu sýslumanns.
    Aflétting rekstrarleyfisskyldu fyrir gististaði í flokki I var áður lögð til í frumvarpi á þingskjali 1178, 704. mál á 144. löggjafarþingi, og er nú lögð fram aftur. Markmiðið með breytingunni er að auðvelda einstaklingum að nýta eignir sínar til tímabundinnar útleigu og hvetja einstaklinga til að skrá og tilkynna um starfsemi sína, meðal annars í ljósi öryggis ferðamanna.
    Nýmæli er hins vegar lagt til hvað varðar veitingastaði í flokki I, þ.e. veitingastaði án áfengisveitinga, en frumvarpið gerir ráð fyrir að hyggist einstaklingur eða lögaðili setja á fót veitingastað sem ekki býður áfengisveitingar þurfi hann ekki að afla rekstrarleyfis hjá sýslumanni. Enn verður slíkum aðilum skylt að afla leyfis fyrir starfseminni hjá heilbrigðisyfirvöldum, Vinnueftirliti ríkisins, slökkviliði og eftir atvikum hjá byggingarfulltrúa og skipulagsyfirvöldum. Er þannig í engu verið að draga úr kröfum til veitingastaða sem ekki framreiða áfengi. Í breytingunni felst hins vegar töluverð einföldun fyrir rekstraraðila sem þurfa ekki lengur að afla sér sérstaks rekstrarleyfis til viðbótar við önnur leyfi eða staðfestingar frá framangreindum aðilum.
    Þess ber einnig að geta að nauðsynlegt verður fyrir aðila sem hyggja á veitingarekstur að kynna sér vel skipulagsskilmála í viðkomandi sveitarfélagi þar sem nokkur sveitarfélög hafa afmarkað skýrt hvar starfsemi veitingastaða í flokki I má fara fram sem og sett takmarkanir á opnunartíma og fleira.

Um 6. gr.

    Í greininni eru gerðar breytingar sem varða í fyrsta lagi skilyrðið um búsetu á Íslandi sem umsækjandi um rekstrarleyfi þarf að uppfylla. Í a-lið 1. mgr. 8. gr. laganna segir að umsækjandi skuli hafa búsetu á Íslandi. Þá segir í 2. málsl. að ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, svo og Færeyingar og lögaðilar í Færeyjum, séu undanþegnir búsetuskilyrðinu. Þetta orðalag getur skilist svo að sé umsækjandi íslenskur ríkisborgari en hafi ekki búsetu á Íslandi þá sé honum ómögulegt að gerast rekstraraðili á grundvelli laganna meðan öðrum ríkisborgurum innan EES og í Færeyjum sé það mögulegt. Slík mismunun er ekki talin hafa verið vilji eða ásetningur löggjafans við setningu laganna auk þess sem svipuð ákvæði í öðrum lagabálkum eru ekki orðuð á sama hátt og leiða ekki til sömu stöðu. Með því að fella orðið „annarra“ brott, þ.e. ríkisborgarar og lögaðilar „annarra“ ríkja innan EES og Færeyja, verður skilningur ákvæðisins annar og leiðir ekki til mismununar milli íslenskra ríkisborgara og annarra ríkisborgara innan EES.
    Í öðru lagi er hér lögð til hækkun á viðmiði vegna skuldastöðu umsækjanda gagnvart skattyfirvöldum og lífeyrissjóðum. Í núgildandi ákvæði er miðað við að umsækjandi megi ekki skulda skatta, opinber gjöld eða iðgjöld í lífeyrissjóð sem nema samanlagt hærri fjárhæð en 500.000 kr. Lagt er til í ákvæðinu að þessi fjárhæð verði 1.000.000 kr. enda er algengt að umsækjendur skuldi meira en 500.000 kr. á hverjum tíma og þegar tekið er tillit til greiðslufresta.

Um 7. gr.

    Með ákvæðinu eru umsagnir skv. 10. gr. frá sveitarstjórnum og stjórnkerfi þeirra samræmdar í einni umsögn. Er þetta gert til einföldunar þannig að frá hverri sveitarstjórn komi heildarumsögn en ekki umsögn frá hverju stjórnvaldi innan sveitarfélags, svo sem byggingarfulltrúa, heilbrigðisnefnd og slökkviliði. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að frá sveitarstjórn komi ein umsögn um leyfi til reksturs veitingastaðar eða gististaðar þar sem staðfest er að starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála, að lokaúttekt hafi farið fram, að afgreiðslutími og staðsetning sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag segja til um sem og að starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi heilbrigðisnefndar og að grenndaráhrif hafi verið metin ásamt brunavörnum. Markmið með þessari breytingu er að einfalda leyfisveitingaferlið fyrir umsækjendum þannig að afstaða sveitarfélags, skipulagsyfirvalda, heilbrigðisnefndar og slökkviliðs sé sett fram á sama tíma gagnvart umsækjanda. Þetta krefst óneitanlega meira samstarfs og samræmingar milli aðilanna en ferlið í dag felur í sér. Ekki er um að ræða að sjálfstætt vald embætta eins og heilbrigðisnefnda eða slökkviliða sér skert heldur er hér um að ræða breytingu sem felur í sér að sveitarstjórn beri ábyrgð á því að taka saman umsagnir þessara aðila og skila sameiginlegri niðurstöðu sveitarfélags til leyfisveitanda. Nákvæm útfærsla á þessu hlutverki sveitarstjórna er í höndum þeirra sjálfra en meginmarkmiðið er einföldun fyrir umsækjanda eins og fyrr greinir.
    Í samræmi við framangreint eru 2., 3. og 5. tölul. 4. mgr. felldir brott en inntak þeirra fellt undir nýjan 1. tölul.

Um 8. gr.

    Í breytingu á a-lið felst það nýmæli að rekstrarleyfi verða ótímabundin. Kveðið er á um að rekstrarleyfi skuli ekki lengur vera gefin út til fjögurra ára heldur vera ótímabundin og verður þannig aðeins sótt um rekstrarleyfi einu sinni. Enn fremur kemur fram í a-lið að hyggist rekstraraðili hætta hinni leyfisskyldu starfsemi skuli hann tilkynna leyfisveitanda það án tafar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna.
    Ótímabundin rekstrarleyfi eru í samræmi við tillögu stýrihóps Ferðamálastofu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu. Eftir að ótímabundið leyfi er veitt er gert ráð fyrir öflugu eftirliti bæði umsagnaraðila og eftirlitsaðila. Er þar um að ræða eftirlit heilbrigðisnefnda, eftirlit með brunavörnum á grundvelli laga um brunavarnir, nr. 75/2000, eftirlit byggingarfulltrúa ef breytingar eru gerðar á húsnæði á grundvelli mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar ásamt eftirliti lögreglu. Virkt eftirlit er tryggt með því að núgildandi lög gera ráð fyrir því að allir eftirlitsaðilar og leyfisveitendur skuli tilkynna sýslumanni á viðkomandi stað ef gerðar eru breytingar á veitinga- eða gististað, ef eitthvað er athugavert við rekstur eða ef rekstur missir eitt af leyfum sínum sem nauðsynleg eru til þess að starfsemi sé heimil. Í slíkum tilfellum hefur leyfisveitandi, þ.e. sýslumaðurinn, heimild til þess að fella niður viðkomandi rekstrarleyfi. Enn fremur hefur leyfisveitandi sjálfstæða heimild til þess að fella niður rekstrarleyfi hafi engin starfsemi verið af hálfu rekstrarleyfishafa í tólf mánuði samfellt. Skal rekstrarleyfishafa tilkynnt um að niðurfelling standi til áður en hún fer fram og honum leyft að gera athugasemdir við niðurfellinguna eða fá hana dregna til baka. Komi nýr aðili að rekstri á tilteknum stað þarf að fara fram sama ferli og við veitingu nýs rekstrarleyfis, þó með tilteknum undantekningum í samræmi við ákvæði í 3. mgr. 12. gr. laganna.
    Í b- og c-lið eru gerðar breytingar á orðalagi til samræmis við framangreint um ótímabundin rekstrarleyfi.
    D-liður gerir ráð fyrir að rekstrarleyfishafar fái úthlutað númeri leyfis og verði skylt að nota númerið í allri markaðssetningu á starfsemi sinni. Ástæða þessarar nýjungar er að þetta er talið munu einfalda eftirlit með starfseminni enda starfar fjöldi fyrirtækja undir öðru heiti en nafni leyfishafa auk þess sem númerakerfið er talið einföld leið til að aðstoða við eftirlit.

Um 9. gr.

    Um er að ræða niðurfellingu á málslið sem varðar gildistíma rekstrarleyfis þegar breytingar verða sem varða rekstrarleyfi eða leyfishafa.

Um 10. gr.

    Frumvarpið fellir brott ákvæði 13. gr. um endurnýjun rekstrarleyfa og mun ákvæðið nú fjalla um skráningarskyldu sem er nýjung.
    Hyggist einstaklingur bjóða upp á heimagistingu eins og hún er skilgreind í b-lið 1. mgr. 1. gr. frumvarps þessa þarf hann að skrá sig hjá sýslumanni á viðkomandi svæði. Ekki er þannig um að ræða umsagnar- og leyfisferli eins og er um aðra flokka gistingar. Gert er ráð fyrir að skráning geti farið fram rafrænt og að við skráningu staðfesti einstaklingur að húsnæði hans uppfylli kröfur um brunavarnir samkvæmt reglugerð. Miðað er við að um lágmarksbrunavarnir sé að ræða, svo sem reykskynjara, eldvarnateppi og duftslökkvitæki eins og nánar verður kveðið á um í reglugerð. Einnig mun einstaklingur þurfa, við skráningu, að staðfesta að húsnæðið samræmist kröfum um hollustuhætti á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
    Enn fremur er gerð krafa um að einstaklingar skili inn yfirliti yfir þá daga sem fasteign var í útleigu, eitt yfirlit fyrir hvora fasteign um sig. Slíkt yfirlit og skil á því eru forsenda þess að mögulegt verði að skrá viðkomandi eign að nýju sem heimagistingu á næsta almanaksári. Þá er sýslumanni enn fremur heimilað að senda upplýsingar þær sem fram koma í nýtingaryfirliti eignar til skattyfirvalda. Markmiðið með þessari heimild er að tryggja leið fyrir eftirlitsaðila, bæði sýslumenn og skattyfirvöld, til þess að sporna við svartri atvinnustarfsemi og auka eðlileg skattskil í ferðaþjónustu. Er þannig hugsunin að skattyfirvöld geti samkeyrt nýtingaryfirlit og skattgreiðslur viðkomandi einstaklings.
    Að auki fær einstaklingur við skráningu tiltekið númer skráningar sem honum er skylt að nota í markaðssetningu á eigninni. Er þar átt við alla markaðssetningu, hvort sem er í auglýsingum eða á bókunarsíðum. Með þessu er eftirlit með starfseminni gert auðveldara þar sem hægt verður að tengja saman númer og skráningu.
    Á grundvelli 4. mgr. ákvæðisins eru tekin af öll tvímæli um það að ákvæði 19. gr. um upplýsingaskyldu til Hagstofunnar eigi við um skráningarskylda aðila í heimagistingu einnig ásamt ákvæði 26. gr. um kæruheimild stjórnvaldsákvarðana sýslumanna.
    Þá er tiltekið að ráðherri skuli í reglugerð kveða nánar á um skráningarskylduna, framkvæmd hennar, upplýsingagjöf og notkun skráningarnúmers.

Um 11. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 12. gr.

    Ákvæðið varðar meðal annars þær breytingar að rekstrarleyfi verða ótímabundin og þarfnast a–c-liður ekki frekari skýringa. Í d-lið er tiltekið að sýslumanni sé heimilt að fella niður rekstrarleyfi hafi sannanlega ekki verið nein starfsemi af hálfu rekstraraðila í 12 mánuði samfellt. Sýslumannsembættin verða að geta fellt niður gild leyfi þar sem ekki kemur lengur til endurnýjunar eins og á grundvelli núgildandi laga. Nauðsynlegt er talið að veita sýslumanni slíka heimild enda ekki öruggt að rekstraraðili tilkynni leyfisveitanda um að starfsemi hafi verið hætt að eigin frumkvæði þó að slíkt sé skylda skv. 2. mgr. 12. gr.

Um 13. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir skyldu sýslumanns til þess að afskrá heimagistingu ef einstaklingur verður uppvís að því að leigja út eign sína lengur en heimilt er. Í samræmi við stjórnsýslulög, nr. 37/1993, ber að tilkynna aðila um fyrirhugaða afskráningu og gefa honum tækifæri til þess að bæta úr annmörkum sé það mögulegt.
    Einnig felst í ákvæðinu skylda sýslumanns til að synja um skráningu heimagistingar án undangengins andmælaferils hafi heimagisting ítrekað verið afskráð, hafi einstaklingur ekki skilað nýtingaryfirliti frá fyrra ári eða síðast þegar eign var skráð eða ef aðili misnotar skráningu sína ítrekað.
    Ákvæðið heimilar sýslumanni einnig að senda tilkynningar um afskráningu eða synjun með rafrænum hætti og teljast slíkar birtingar þá sannanlega birtar aðila.

Um 14. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.

    Í ákvæðinu felast breytingar og lagfæringar á ákvæðum um tækifærisleyfi, þ.e. leyfi sem veitt eru fyrir skemmtunum og atburðum sem fram fara utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni, ásamt því að 17. og 18. gr. er steypt saman í eitt ákvæði.
    Í a-lið er lagt til að orðin „og eru til þess fallnir að valda ónæði, svo sem vegna hávaða“ falli brott. Hér er um að ræða breytingu á því hvaða atburðir og skemmtanir falli undir ákvæðið. Við mat á því hvort skipuleggjendur eða forsvarsmenn atburðar eða skemmtunar þurfi að afla sér tækifærisleyfis samkvæmt lögunum þarf ekki lengur að horfa til þess hvort viðkomandi atburður er líklegur til þess að valda ónæði vegna hávaða. Þannig getur þurft að kalla eftir tækifærisleyfi þrátt fyrir að viðburður verði ekki endilega talinn valda ónæði. Mat á því hvort þörf er á tækifærisleyfi mun þannig byggjast á því hvort viðkomandi atburður er haldinn í atvinnuskyni eða ekki og eins af því hvort hann kallar á eftirlit og/eða löggæslu. Ekki var talin þörf á því að leyfisskyldan yrði enn fremur miðuð við ónæði eða hávaða. Nokkuð hefur verið rætt um túlkun þess að viðburðir séu haldnir í atvinnuskyni, svo sem ef enginn aðgangseyrir er innheimtur. Í einhverjum tilfellum eru viðburðir haldnir með stuðningi einkafyrirtækja sem gerir það að verkum að ekki gerist þörf fyrir aðgangseyri. Það er mat starfshópsins að meta verði hvert tilfelli fyrir sig og að ekki geti verið um mjög þrönga túlkun á hugtakinu „í atvinnuskyni“ að ræða. Sérstaklega er tiltekið í athugasemdum um 17. gr. núgildandi laga að ákvæðið taki ekki til opinberra hátíðarhalda svo sem á þjóðhátíðardaginn, Menningarnótt í Reykjavík eða Sjómannadagsins. Hins vegar geta einstakir viðburðir haldnir á þessum dögum verið leyfisskyldir þótt sjálf umgjörðin sé það ekki.
    Breytingin í b-lið er tilfærsla undanþáguheimildar fyrir einkasamkvæmi, sbr. nýja málsgrein í c-lið ákvæðisins.
    Í c-lið er að finna ákvæði um tækifærisleyfi fyrir áfengisveitingum í atvinnuskyni sem er sambærilegt við ákvæði 18. gr. í gildandi löggjöf. Ákveðið var að sameina greinarnar tvær þar sem mikið var um misskilning á efni ákvæðanna og þá sérstaklega í samlestri 3. og 4. mgr. 18. gr. Hnykkt er á því að slík tækifærisleyfi eru almennt ekki gefin út til veitingastaða eða gististaða sem hafa rekstrarleyfi enda er þá gert ráð fyrir að áfengi sé veitt á grundvelli gildandi rekstrarleyfis. Hins vegar opnar ákvæðið einnig fyrir það að veitt sé tækifærisleyfi til rekstraraðila þegar um er að ræða til dæmis áfengisveitingar lengur en heimilað er eða fyrir utan hefðbundið svæði veitingastaðarins, svo sem á gangstétt fyrir framan veitingastaðinn. Einnig er rétt að tiltaka að veitingastaður í flokki I, þ.e. veitingastaður sem ekki veitir áfengi, getur sótt um tækifærisleyfi til áfengisveitinga á grundvelli 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar en að veitingastaðir í flokkum II og III geta eingöngu sótt um viðbót við áfengisveitingaleyfi sitt á grundvelli 3. málsl. málsgreinarinnar.
    Í d-lið segir að sækja skuli um tækifærisleyfi með þriggja vikna fyrirvara í stað einnar viku í núgildandi lögum. Ástæða þessa er sú að þegar umsókn um tækifærisleyfi er til meðferðar getur þurft að kalla eftir umsögnum aðila og slíkt ferli getur verið tímafrekt og tekið lengri tíma en sjö daga. Því er tímamark þetta hækkuð upp í þrjár vikur.
    Í e-lið er kveðið á um að leyfisveitanda sé heimilt að leita umsagnar hjá nefndum aðilum og er umsögn sveitarstjórnar bætt við núgildandi ákvæði.
    Þá er 4. mgr. felld brott í f-lið þar sem hún var felld inn í 1. málsl. 3. mgr., sbr. e-lið frumvarpsins. Breyting þessi er gerð til einföldunar.

Um 16. gr.

    Ákvæði 18. gr. var að mestu leyti fellt inn í 17. gr. laganna, sbr. framangreint.

Um 17. gr.

    Með ákvæðinu er kveðið á um að sýslumenn skuli halda skrá yfir heimagistingu í samræmi við það sem segir í 20. gr. núgildandi laga. Markmiðið er að hægt sé að hafa yfirsýn yfir skráningarskylda starfsemi, umfang hennar og dreifingu. Þá er skráin lykill að því að mögulegt sé að tengja saman númer og skráðan aðila og að númerið sé gilt.

Um 18. gr.

    Lagt er til að sýslumenn í viðkomandi umdæmi hafi eftirlit með skráðri og skráningarskyldri heimagistingu eins og hún er skilgreind í frumvarpi þessu. Þannig skuli sýslumenn hafa eftirlit með tímalengd útleigu eins og mögulegt er, þar á meðal með yfirferð yfir og innköllun á nýtingaryfirliti fyrir hvert ár og með því að grípa til úrræða sem fram koma í nýrri 15. gr. a um afskráningu og synjun skráningar. Þá geta sýslumenn framsent upplýsingar í nýtingaryfirliti til skattyfirvalda eins og nánar er fjallað um í skýringum við 9. gr. frumvarpsins. Enn fremur er gert ráð fyrir að sýslumenn geti óskað eftir liðsinni lögreglu við eftirlitið, svo sem ef valdbeitingar er þörf. Lögregla sinnir áfram hefðbundnu eftirliti með starfsemi veitingastaða sem bjóða upp á áfengi ásamt eftirliti með þeim aðilum sem afla sér tækifærisleyfis í samræmi við ákvæði þar um.
    Nýmæli í b-lið ákvæðisins varðar viðbót við skilyrði 3. mgr. núgildandi laga um að heilbrigðisnefnd skuli tilkynna leyfisveitanda ef fyrirhuguð er svipting starfsleyfis. Lagt er til að heilbrigðisnefnd sendi einnig tilkynningu ef starfsemi heimagistingar uppfyllir ekki lengur kröfur sem gerðar eru til hennar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þá segir að leyfisveitandi skuli tilkynna heilbrigðisnefnd á hverjum stað ef fyrirhuguð er svipting rekstrarleyfis eða afskráning heimagistingar. Með þessu er tryggt að báðar aðilar fái vitneskju um það ef misbrestir eru í starfsemi rekstraraðila eða skráðs aðila. Í því tilfelli þegar starfsleyfi heilbrigðisnefndar fellur niður er rekstrarleyfi á grundvelli laganna einnig fallið niður enda eru þessi tvö leyfi háð hvort öðru. Einnig er ljóst að niðurfelling starfsleyfis almennt, óháð hvaða starfsemi er um að ræða, samsvarar niðurlagningu reksturs, að minnsta kosti til skamms tíma.
    Í c-lið og d-lið er um að ræða minni háttar breytingar til þess að tryggja að ákvæðið eigi jafnt við um leyfishafa og þá sem hafa skráð starfsemi sína í samræmi við ákvæði frumvarps þessa.

Um 19. gr.

    Ákvæðið felur í sér viðbót við 22. gr. laganna, þ.e. nýja málsgrein um sektarheimildir vegna heimagistingar án skráningar. Þannig er samkvæmt greininni gert refsivert að nýta heimili sitt eða eina aðra fasteign sem heimagistingu án skráningar.

Um 20. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir nýrri heimild sýslumanna til þess að leggja stjórnvaldssektir á einstaklinga sem verða uppvísir að því að leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign án skráningar. Einnig tekur heimildin til þess ef að einstaklingur eða leyfishafi notar ekki númer það sem úthlutað hefur verið í markaðssetningu eins og fram kemur í 7. og 9. gr. frumvarpsins.
    Sektirnar eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð. Heimilt er að skjóta ákvörðunum sýslumanna um sektir til ráðherra þess sem fer með málaflokk þann sem lög þessi taka til.

Um 21. gr.

    Hér er um að ræða viðbót við ákvæði laganna um þvingunarúrræði lögreglustjóra þegar leyfisskyld starfsemi fer fram án leyfis.
    Í c-lið er kveðið á um að sýslumenn geti farið fram á það við lögreglu að hún stöðvi heimagistingu ef sú starfsemi fer fram án skráningar. Nauðsynlegt þykir að lögreglan geti brugðist við með skjótum og áhrifaríkum hætti þegar þannig stendur á. Þar sem um er að ræða heimili einstaklinga getur lögreglan hins vegar átt erfitt um vik með að loka og meina aðgangi að heimilinu. Hins vegar er gert ráð fyrir að lögregla geti mætt á staðinn og upplýst leigjendur um að gisting þeirra sé ekki skráð og að viðkomandi gestir þurfi að yfirgefa húsnæðið.

Um 22. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 85/2007 voru bundin við innleiðingu nýrra laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald árið 2005 og eiga við um tilfelli sem ekki munu koma upp lengur. Því er lagt til að ákvæðin verði felld brott úr lögunum.

Um 24. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. maí 2016. Þannig er miðað við sýslumannsembættin fái ríflegan aðlögunartíma til að undirbúa til dæmis skráningarkerfi fyrir heimagistingu og ótímabundin rekstrarleyfi.

Um 25. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir breytingum á ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, en við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við skattaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í fyrsta lagi er lögð til hækkun á gjaldi fyrir rekstrarleyfi til samræmis við verðlagshækkanir frá árinu 2009. Enn fremur eru felldir brott tveir töluliðir í 11. gr. laganna þar sem fjallað er um gjald fyrir leyfi í tilteknum flokkum gististaða og veitingastaða þar sem leyfisskyldan fellur niður og gjaldi fyrir gistiflokk I, heimagistingu, er breytt til samræmis við frumvarpið. Þá er orðalag í 22. og 23. tölul. 11. gr. lagfært til samræmis við breytingar á 17. og 18. gr. laganna ásamt því að töluliður um endurnýjunargjald er felldur niður vegna ótímabundinna leyfa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Fyrra bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir því að þeir sem hafa aflað sér rekstrarleyfis fyrir starfsemi sína á grundvelli laganna muni halda leyfum sínum fram að endurnýjun samkvæmt útgefnu leyfisbréfi nema komi til niðurfellingar eða sviptingar á leyfinu fyrir þann tíma. Þetta á við um alla flokka veitinga- og gististaða. Að gildistíma loknum þarf viðkomandi að meta í hvaða flokk starfsemi hans fellur eftir breytingu á inntaki heimagistingar til dæmis. Hafi aðili áður haft rekstrarleyfi fyrir heimagistingu en mun ekki lengur uppfylla þau skilyrði sem sett eru í frumvarpi þessu getur hann sótt um nýja skráningu í gististaðaflokki II–IV. Hyggist aðili hins vegar starfa í samræmi við nýja skilgreiningu heimagistingar getur hann skráð sig á vefsíðu sýslumanns.
    Seinna bráðabirgðaákvæðið varðar útgáfu bráðabirgðaleyfa þegar núgildandi rekstrarleyfi renna út, óháð flokki eða tegund þjónustu. Þar eð leyfi verða ótímabundin verður heimilt að veita aðila sem sækir um nýtt og ótímabundið leyfi bráðabirgðaleyfi með sömu skilmálum og giltu um fyrra leyfið til allt að þriggja mánaða og í samræmi við 12. gr. laganna.



Fylgiskjal I.

Mat á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga,
sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga.

    Í frumvarpi þessu eru gerðar breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
    Meginefni frumvarpsins varðar breytingu á skilgreiningu og notkun gistiflokks I, heimagistingar, fráhvarf frá rekstrarleyfisskyldu fyrir veitingastaði í flokki I, þ.e. án áfengisveitinga, og rekstrarleyfi sem sýslumaður veitir verða ótímabundin. Þá er einnig lagt til að samræma umsagnir sveitarstjórnar, byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlits og slökkviliðs skv. 10. gr. laganna og ákvæði 17. og 18. gr. laganna um tækifærisleyfi og tímabundin áfengisveitingaleyfi skýrð betur.
    Þær breytingar sem helst varða málefni sveitarfélaganna eru eftirfarandi:

Breytt skilgreining á heimagistingu, skráningarskylda í stað leyfisskyldu og eftirlit með flokknum.
    Í frumvarpinu er lögð til útvíkkun á flokki heimagistingar, gistiflokki I. Flokkurinn er endurskilgreindur þannig að í hann falli einstaklingar sem heimilt verði að starfrækja heimagistingu hafi þeir skráð sig á vefsvæði sýslumanns á viðkomandi stað eða á tiltekinni sameiginlegri vefsíðu eða vefgátt. Lögaðilum verður ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar, einungis einstaklingum.
    Þar sem ekki er lengur gerð krafa um rekstrarleyfi munu þessir aðilar ekki fara í sama umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum. Aðilum ber þó að uppfylla kröfur um brunavarnir sem fram munu koma í reglugerð, svo sem varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna. Þá er gististarfsemi starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, en verði frumvarp þetta að lögum hyggst umhverfis- og auðlindaráðuneytið breyta reglugerð um hollustuhætti til samræmis við þær breytingar sem frumvarpið kveður á um þannig að í stað starfsleyfis fyrir heimagistingu komi tilkynningarskylda.
    Endurskilgreining heimagistingar felst enn fremur í því að aðilum verður nú heimilt að leigja út lögheimili sitt auk einnar annarrar fasteignar í eigu viðkomandi. Á móti kemur að þeim aðilum sem eru skráningarskyldir verður aðeins heimilt að leigja út viðkomandi eignir í 90 daga samtals á ári hverju. Þá er enn fremur gerð sú krafa til aðila með skráða heimagistingu að þeir skili nýtingaryfirliti til sýslumannsins á viðkomandi svæði.
    Sýslumenn verða eftirlitsaðilar með skráðum og skráningarskyldum aðilum í heimagistingu og munu þeir hafa heimild til þess að afskrá, synja um endurskráningu og leggja stjórnvaldssektir á þá einstaklinga sem stunda útleigu án skráningar. Ekki er gert ráð fyrir því að breytingin valdi auknu álagi á stjórnsýslu sveitarfélaga.

Veitingastaðir án áfengisveitinga ekki lengur rekstrarleyfisskyld starfsemi.
    Þá felst í frumvarpinu að rekstrarleyfisskylda fellur niður þegar um er að ræða veitingastað í flokki I, þ.e. veitingastaði án áfengisveitinga. Ekki fer þannig fram sama umsóknarferlið og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Rétt er að taka það fram að engar breytingar eru gerðar á kröfum sem lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, gera til starfseminnar og aðilar munu enn sem fyrr þurfa að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru á grundvelli þeirra laga og sæta eftirliti hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Nái frumvarpið fram að ganga mun starfsemi veitingastaða einungis vera háð leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi og starfsemin metin út frá samræmi við lagaákvæði þar um, byggingarreglugerð og skipulagskilmála. Ekki er fyrirséð að þessi breyting valdi auknum kostnaði fyrir sveitarfélög, sérstaklega með tilliti til þess að heimilt er að taka gjald fyrir starfsemi og þjónustu bæði heilbrigðisnefnda og byggingarfulltrúa.

Breytt flokkun veitingastaða.
    Með frumvarpinu eru enn fremur felld úr gildi viðmið og skil milli flokka byggð á opnunartíma veitingastaða til klukkan 23. Stafar þessi breyting af ákveðnum vandkvæðum sem skapast þegar umfangslitlir veitingastaðir óska eftir að hafa eldhús sín opin lengur en til kl. 23. Slíkir veitingastaðir hafa allir þurft rekstrarleyfi í flokki III sem hugsaður er fyrir umfangsmikla veitinga- og skemmtistaði. Með því að fella brott viðmiðið um tímann er það sett í hendur leyfisveitanda og umsagnaraðila á hverjum stað að meta hvort starfsemi veitingastaðar teljist umfangsmikil eða umfangslítil.
    Ekki er gert ráð fyrir að af þessu leiði aukin útgjöld eða kostnaður af hálfu sveitarfélaganna.

Rekstrarleyfi gerð ótímabundin.
    Með breytingu á 11. gr. gildandi laga eru rekstrarleyfi, þ.e. leyfi fyrir veitingastaði í flokki II og III og fyrir gististaði í flokkum II, III og IV gerð ótímabundin. Í núgildandi kerfi eru leyfin veitt til fjögurra ára í senn og mögulegt að sækja um endurnýjun að þeim tíma liðnum. Breyting þessi er í samræmi við tillögu stýrihóps Ferðamálastofu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu.
    Eftir að leyfi er veitt er gert ráð fyrir öflugu eftirliti bæði umsagnaraðila og eftirlitsaðila. Er þar um að ræða eftirlit heilbrigðisnefnda, eftirlit með brunavörnum á grundvelli laga um brunavarnir, nr. 75/2000, eftirlit byggingarfulltrúa ef breytingar eru gerðar á húsnæði á grundvelli mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar ásamt eftirliti lögreglu. Svo tryggja megi virkt eftirlit gerir frumvarpið ráð fyrir tilkynningum milli eftirlitsaðila og leyfisveitenda ásamt heimildum til niðurfellingar á leyfum, svo sem ef engin starfsemi hefur verið af hálfu rekstraraðila í 12 mánuði samfellt.
    Gert er ráð fyrir að ótímabundin leyfi leiði til aukinnar vinnu af hálfu eftirlitsaðila og sýslumanna og geti kallað á kostnaðarauka, sérstaklega í upphafi. Að einhverju marki ætti að vera unnt að mæta þeim kostnaðarauka með eftirlitsgjöldum.

Samræming umsagna.
    Í ljósi markmiða um einföldun regluverks felst í frumvarpinu samræming á umsögnum sveitarfélags, byggingarfulltrúa, slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits. Markmið breytingarinnar er að einfalda ferli leyfisveitinga gagnvart umsækjanda á þann hátt að sveitarstjórn safni saman umsögnum frá aðilum innan síns stjórnkerfis og gefi að því búnu út umsögn. Með þessu er reynt að koma í veg fyrir að umsækjandi fái umsagnir frá aðilum sveitarfélags á mismunandi tíma og stefnt að því að þeir samræmi sig áður en umsögn er gefin. Gert er ráð fyrir að hvert sveitarfélag hafi ákveðið svigrúm til að útfæra ferlið. Breyting þessi getur kallað á aukna vinnu fyrir sveitarfélögin, m.a. með auknu samstarfi milli umsagnaraðila.
    Samantekin niðurstaða ráðuneytisins er sú að það sé einkum sú breyting að rekstrarleyfi verði ótímabundin sem kunni að hafa kostnaðaráhrif fyrir sveitarfélögin, einkum í upphafi, vegna aukins eftirlits af hálfu eftirlitsaðila. Mögulega væri hægt að draga úr þeim kostnaðarauka með samstarfi á milli eftirlitsaðila, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þeir upplýsi hver annan um niðurstöðu eftirlits. Einnig má vænta einhvers kostnaðarauka hjá sveitarfélögum og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga vegna kröfu um að sveitarstjórn skili einni samræmdri umsögn fyrir byggingarfulltrúa, slökkvilið og heilbrigðiseftirlit. Á heildina litið er gert ráð fyrir því að útgjaldaauki sveitarfélaga verði óverulegur, verði frumvarpið að lögum.
    Þessi niðurstaða ráðuneytisins hefur verið kynnt Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sambandið gerir þann fyrirvara við niðurstöðuna að ekki liggur fyrir greining á því hve mikill tími muni fara í að sameina umsagnir frá stjórnsýslu sveitarfélaga í eina sameiginlega umsögn. Að áliti sambandsins er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að sameining umsagna muni fela í sér raunverulega einföldun stjórnsýslu en niðurstaða fyrirhugaðra breytinga mun velta á því hvernig takast mun til um útfærslu þeirra. Að áliti sambandsins er tilefni til þess að vakta áhrif fyrirhugaðra breytinga á næstu árum og meta í framhaldinu hvort þær valda sveitarfélögum kostnaðarauka.



Fylgiskjal II.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti,
skrifstofa opinberra fjármála:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði,
gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lögð til ný lagaákvæði með það að markmiði að bregðast við breytingum í samsetningu gististaða á landinu og þróun gistiframboðs, m.a. í ljósi mikils fjölda óskráðra og leyfislausra gististaða. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. maí 2016.
    Í frumvarpinu er fyrsta lagi gert ráð fyrir útvíkkun á flokki heimagistingar en samkvæmt núgildandi lögum eru gerðar allar sömu kröfur í umsóknarferli til að öðlast rekstrarleyfi fyrir heimagistingu og gilda um aðra gististaði, svo sem hótel eða gistiheimili. Með frumvarpinu er lagt til að þeir einstaklingar sem óska eftir að starfrækja heimagistingu þurfi ekki lengur að fá rekstrarleyfi heldur nægi þeim að skrá sig og fasteignina á vefsvæði sýslumanns eða á tiltekinni sameiginlegri vefsíðu eða vefgátt. Með þessu móti þarf viðkomandi aðili ekki að fara í gegnum sama umsóknar- og umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum. Þá er gert ráð fyrir því að flokkur heimagistingar verði takmarkaður við lögheimili viðkomandi aðila eða aðra fasteign í eigu viðkomandi, auk þess sem leigutími fasteignar verði að hámarki 90 dagar á ári. Gert er ráð fyrir að telji aðili sig uppfylla skilyrði til þess að reka heimagistingu samkvæmt frumvarpinu skuli hann greiða skráningargjald að fjárhæð 8.000 kr. Samkvæmt lauslegri áætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu geti orðið í kringum 12–16 m.kr. á ári en þær munu renna í ríkissjóð samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að gjöld fyrir gisti- og veitingaleyfi skv. 11. gr. sömu laga hækki sem nemur verðlagsbreytingum og er áætlað að sú hækkun geti skilað ríkinu um 3 m.kr. tekjuauka en gjöldin hafa verið óbreytt frá árinu 2009. Þess má geta að fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2015 hefur á höfuðborgarsvæðinu verið sótt um 268 ný leyfi, þar af 192 gististaðaleyfi og 76 veitingastaðaleyfi, en verð fyrir endurnýjun fer eftir því um hvaða flokk leyfis er að ræða, sbr. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sýslumenn verði eftirlitsaðilar með skráðum og skráningarskyldum aðilum í heimagistingu og munu þeir hafa heimild til þess að afskrá, synja um endurskráningu og leggja stjórnvaldssektir á þá einstaklinga sem stunda útleigu án skráningar. Samkvæmt gildandi lögum hafa lögreglustjórar eftirlit með þeim sem hafa leyfi í flokki heimagistingar, hvort þeir uppfylli skilyrði fyrir leyfinu og fari eftir lögum sem um það gilda. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur eftirlitið hins vegar verið lítið hingað til og einungis byggst á athugunum í framhaldi af ábendingum eða kvörtunum frá nágrönnum. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag eftirlitsins verði að hluta til eins og núverandi eftirlit með þeim breytingum að heimagisting verður nú skráningarskyld eins og áður segir og fleiri úrræði eru til að koma í veg fyrir óskráða starfsemi eða brot gegn lögunum. Má því gera ráð fyrir að eftirlit sýslumanna með heimagistingu verði nokkuð meira en nú er. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um að ráðherra verði í reglugerð heimilt að kveða á um að öll skráning, vinnsla og/eða allt eftirlit með heimagistingu geti farið fram hjá einu sýslumannsembætti. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er gert ráð fyrir að þessi verkefni verði í höndum sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að rekstrarleyfisskylda falli niður þegar um er að ræða veitingastað í flokki I, þ.e. veitingastað án áfengisveitinga. Ekki fari þannig fram sama umsóknarferli og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Nái frumvarpið fram að ganga mun starfsemi slíkra veitingastaða einungis verða háð leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi í samræmi við lagaákvæði þar um, svo sem ákvæði um starfsleyfi heilbrigðiseftirlits, byggingarreglugerðar og skipulagsskilmála. Gangi þessar breytingar eftir munu tekjur ríkisins af leyfisveitingum fyrir veitingastaði í flokki I falla niður skv. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu eru nú skráðir á landsvísu um 322 veitingastaðir í flokki I og munu rekstraraðilar þeirra ekki þurfa að endurnýja leyfi sitt á fjögurra ára fresti, og greiða 7.100 kr. endurnýjunargjald, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Þá eru ótaldir þeir nýju rekstraraðilar sem munu framvegis ekki þurfa að greiða gjald fyrir rekstrarleyfi. Gera má ráð fyrir að ríkið geti orðið af ríflega 1 m.kr. á ári miðað við hvernig tekjur af þessu gjöldum hafa þróast fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2015. Þá mun breytingin leiða til þess að sýslumenn munu ekki lengur hafa aðkomu að leyfisveitingum fyrir veitingastaði í flokki I og má því reikna með að vinnuálag muni minnka eitthvað hjá sýslumannsembættunum vegna þessa.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að útgefin rekstrarleyfi, þ.e. leyfi fyrir veitingastaði í flokki II og III og fyrir gististaði í flokkum II, III og IV, verði gerð ótímabundin en sem fyrr segir eru leyfin nú veitt til fjögurra ára í senn. Svo tryggja megi virkt eftirlit gerir frumvarpið ráð fyrir tilkynningum milli eftirlitsaðila og leyfisveitenda ásamt heimildum til niðurfellingar á leyfum, svo sem ef engin starfsemi hefur verið af hálfu rekstraraðila í 12 mánuði samfellt. Með þessum breytingum má búast við að minna álag verði á starfsemi sýslumannsembættanna en á móti komi aukin vinna í tengslum við heimild til niðurfellingar leyfa sé starfsemi ekki lengur fyrir hendi eða hún uppfyllir ekki lengur skilyrði leyfisveitingar. Þá má gera ráð fyrir að með því að gera leyfin ótímabundin muni tekjur ríkissjóðs af endurnýjunargjöldum vegna þeirra falla niður en þær geta numið um 20 m.kr. Fyrir fyrstu 9 mánuði ársins hafa á höfuðborgarsvæðinu verið endurnýjuð 78 gistileyfi og 47 veitingaleyfi en verð fyrir endurnýjun er mismunandi eftir því hvaða flokk leyfis er um að ræða, sbr. 11. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs.
    Aðrar helstu breytingar í frumvarpinu eru þær að gert er ráð fyrir að felld verði út viðmið og skil milli flokka sem byggjast á opnunartíma veitingastaða. Þá er gert ráð fyrir að umsagnir sveitarstjórnar og byggingarfulltrúa verði sameinaðar þannig að viðkomandi sveitarfélag skili aðeins einni sameiginlegri umsögn. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að leyfisveitandi leiti umsagna nokkurra aðila í því umdæmi þar sem starfsemin er fyrirhuguð, þ.e. hjá sveitarstjórn, heilbrigðiseftirliti, slökkviliði, vinnueftirliti og byggingarfulltrúa. Markmiðið með þessu er að einfalda umsóknarferlið fyrir rekstrarleyfi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sýslumenn verði eftirlitsaðilar með skráðum og skráningarskyldum aðilum í heimagistingu og er áætlað að kostnaður sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa geti numið sem samsvarar um tveimur til þremur stöðugildum, þar af einu stöðugildi lögfræðings. Þá er gert ráð fyrir einu stöðugildi lögfræðings og einum almennum starfsmanni vegna aukinnar umsýslu er lýtur að skráningum heimagistingar og stjórnsýslumeðferðar í tengslum við sviptingu og niðurfellingu rekstrarleyfa. Gert er ráð fyrir að varanlegur kostnaður vegna frumvarpsins geti numið allt að 39 m.kr. en þar af má ætla að um 2/3 kostnaðarins sé vegna aukinna verkefna við eftirlit með heimagistingu. Þessu til viðbótar er reiknað með að til falli tímabundinn 10 m.kr. kostnaður vegna forritunar- og kerfisvinnu í tengslum við vefsíðugerð fyrir skráningar. Eftirlit með heimagistingu er samkvæmt gildandi lögum hjá lögreglustjórum þannig að vinna hjá þeim embættum dregst saman á móti og má því gera ráð fyrir að varanlegur kostnaður vegna þessa eigi að hluta að geta rúmast innan þeirra fjárheimilda sem nú eru veittar til þessara mála innan útgjaldaramma innanríkisráðuneytisins. Í þessu sambandi má auk þess nefna að samkvæmt frumvarpinu munu sýslumenn ekki lengur hafa aðkomu að leyfisveitingum fyrir veitingastaði í flokki I og má því reikna með að vinnuálag þar muni minnka eitthvað vegna þessa. Þá er gert ráð fyrir auknum tekjum ríkissjóðs af skráningargjöldum og hækkun leyfisgjalda fyrir ýmis gisti- og veitingaleyfi en á móti falla niður nýskráningar- og endurnýjunargjöld þannig að nettóbreyting tekna vegna þessa gæti orðið neikvæð um 2–7 m.kr. ár ári. Að samanlögðu má því gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs geti versnað um 28–33 m.kr. verði frumvarpið lögfest óbreytt.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Árni Sverrir Hafsteinsson og Jón Bjarni Steinsson. Skattsvik í ferðaþjónustu. Umfang og leiðir til úrbóta. Rannsóknastofnun atvinnulífsins, Bifröst. Maí 2014.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Skattsvik í ferðaþjónustu. Umfang og leiðir til úrbóta, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Íslensk ferðaþjónusta. Íslandsbanki. Mars 2015.
         www.islandsbanki.is/library/Skrar/Fyrirtaeki/Ferdatjonustuskyrsla.PDF
Neðanmálsgrein: 4
    4 Íslensk ferðaþjónusta, bls. 17.
Neðanmálsgrein: 5
    5 Íslensk ferðaþjónusta, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Rétt er að taka fram að bæði slökkvilið og heilbrigðisnefndir starfa oft innan fleiri en eins sveitarfélags.