Ferill 414. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 743  —  414. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur
um stjórnsýslu dómstóla.


     1.      Hvernig hefur ráðherra brugðist við ábendingum GRECO frá 28. mars 2013 um dómskerfið, sbr. enn fremur eftirfylgniskýrslu GRECO frá 27. mars sl.?
    Frá 15. janúar sl. hafa drög að frumvarpi til nýrra laga um dómstóla og frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála verið til umsagnar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins. Frumvörpunum er í sameiningu ætlað að leggja grunn að nýrri dómstólaskipan með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum sem taki mið af hinni nýju skipun. Í frumvarpi til nýrra laga um dómstóla er að finna sérstakan kafla um sérfróða meðdómsmenn, þ. á m. um val á sérfróðum meðdómsmönnum að undangengnu opnu ferli sem og um þá reynslu og þekkingu sem sérfróðir meðdómsmenn skulu búa yfir. Með ákvæðum kaflans er komið til móts við athugasemdir GRECO sem lúta að sérfróðum meðdómsmönnum. Í frumvarpinu er jafnframt að finna ákvæði um að dómurum beri að leitast við að viðhalda þekkingu sinni í lögum og að þeim skuli gefinn kostur á leyfi og stuðningi til símenntunar.
    Rétt er að taka fram að GRECO hefur einnig gert ýmsar athugasemdir varðandi Félagsdóm en sá dómstóll heyrir undir velferðarráðuneytið.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis í skýrslum hans fyrir árin 2003, 2009 og 2012, og enn fremur sérstöku bréfi umboðsmanns til ráðherra 2012, um annars vegar skýrari umgjörð um stjórnsýslu dómstóla með hliðsjón af málsmeðferðarreglum stjórnarsýsluréttar og hins vegar starfssvið umboðsmanns Alþingis þegar kemur að eftirliti stjórnsýslu dómstóla, svo sem stjórnsýslu dómstólaráðs og nefndar um dómarastörf?
    Í frumvarpi til nýrra laga um dómstóla er ráðgert að stjórnsýslulög gildi um nefnd um dómarastörf, sem m.a. fjallar um kvartanir vegna starfa dómara svo og þau aukastörf sem dómurum er heimilt að gegna. Að öðru leyti er ekki ráðgert í frumvarpinu að stjórnsýslulög gildi um störf dómstólaráðs né heldur er þar að finna ákvæði um að starfsemi dómstólaráðs eða störf nefndar um dómarastörf sæti eftirliti umboðsmanns Alþingis.

     3.      Telur ráðherra ástæðu til að bregðast við ábendingum og athugasemdum í umsögn réttarfarsnefndar frá apríl 2015 við drög að frumvörpum tengdum upptöku millidómstigs varðandi endurskoðun stjórnsýslu dómstólanna í heild og sérstaklega varðandi:
                  a.      sameiginlegt dómstólaráð í samræmi við tilmæli alþjóðlegra samþykkta dómara og það markmið að efla sjálfstæði dómstóla og traust almennings á þeim,
                  b.      skipun og starfssvið dómstólaráðs,
                  c.      endurskipulagningu yfirstjórnar héraðsdómstólanna,
                  d.      gagnrýni á að dómarar hafa ekki möguleika á að bera ágreining við dómstjóra undir óháðan aðila,
                  e.      eftirlit innan dómskerfisins,
                  f.      fyrirkomulag fjárveitinga til dómstóla, m.a. að teknu tillit til þess hve stofn- og rekstrarkostnaður nýs millidómstóls yrði hár?

    a. Með frumvarpi til nýrra laga um dómstóla er lagt til að dómstólaráð verði lagt niður í núverandi mynd en í stað þess verði sett á fót sérstök stjórnsýslustofnun innan dómskerfisins, er beri heitið dómstólasýslan, en hún hafi það hlutverk að annast og vera í fyrirsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna allra. Þessi breyting er lögð til í því augnamiði að efla og styrkja sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna og um leið að stuðla að samræmingu í framkvæmd mála er varða innri starfsemi allra dómstiganna þriggja. Ráðgert er að yfir dómstólasýslunni verði sérstök stjórn sem taki mikilvægustu ákvarðanir á valdsviði stofnunarinnar en feli framkvæmdastjóra að öðru leyti daglegan rekstur hennar.
    b. og c. Í frumvarpi til nýrra laga um dómstóla er að finna ítarleg ákvæði um skipun og starfssvið dómstólasýslunnar sem fyrirhugað er að annist sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna, sjá svar við a-lið 3. tölul.
    d. Í frumvarpi til nýrra laga um dómstóla er ráðgert að starfsfólk dómstóla, þ. á m. dómarar, geti borið fram við stjórn dómstólasýslunnar kvartanir vegna athafna forstöðumanns dómstóls, þ. á m. dómstjóra, í skjóli stjórnunarheimilda sinna.
    e. Sjá svar við d-lið 3. tölul. Því er við að bæta að áfram er gert ráð fyrir að nefnd um dómarastörf geti tekið við og leyst úr kvörtunum sem beinast að störfum dómara. Kvörtunum vegna dómsúrlausna verður hins vegar ekki beint til nefndar um dómarastörf heldur einungis til æðra dóms.
    f. Með frumvarpi til nýrra laga um dómstóla er lagt til að dómstólasýslan leggi mat á og geri tillögur til ráðherra um nauðsynlegar fjárveitingar til stofnana dómskerfisins, að fengnum tillögum einstakra dómstóla, og taki stofnunin við hlutverki dómstólaráðs og Hæstaréttar að þessu leyti. Þá er lagt til að ráðherra skuli gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir því ef hann víkur frá tillögum stjórnar dómstólasýslunnar auk þess sem gera skal grein fyrir frávikum í frumvarpi til fjárlaga. Þá er í frumvarpinu gerð tillaga um að kveðið verði í fjárlögum á um aðskildar fjárveitingar til Hæstaréttar Íslands, Landsréttar, héraðsdómstólanna sameiginlega og dómstólasýslunnar.