Ferill 462. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 745  —  462. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2015.

1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var annars vegar farið yfir þann mikla fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíður upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA-ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA-ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans. Innleiðingarhallinn mældist hár í sögulegu samhengi á árinu 2014 en lækkaði á árinu 2015.
    Þá fylgdist þingmannanefnd EFTA grannt með undirbúningi upptöku gerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn þannig að slíkt eftirlitskerfi samræmdist tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Samkomulag náðist á fundi fjármálaráðherra EES/ EFTA-ríkjanna og ESB í október 2014 sem felur í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verður að bera þær undir EFTA-dómstólinn.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 25 talsins og taka til 36 ríkja. EFTA á nú í fríverslunarviðræðum við 12 ríki, þar á meðal Indland, Indónesíu, Filippseyjar, Víetnam og Malasíu. Hlé hefur verið gert á viðræðum við tollabandalag Rússlands, Kasakstan og Hvíta-Rússlands vegna ástandsins í Úkraínu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti í þessu skyni Tyrkland og Brasilíu á árinu og átti viðræður við þarlend stjórnvöld, þingnefndir, stofnanir og hagsmunaaðila um fríverslunarmál.
    Þá var ítrekað fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP), sem hófust í júlí 2013. Viðræður snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Náist samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu staðla eða sameiginlega staðla mun það hafa áhrif á regluverk innri markaðarins og þar með EES/EFTA-ríkin. Þrír möguleikar blasa við EFTA ef TTIP verður að veruleika. Í fyrsta lagi að fá eins konar aukaaðild að TTIP en ekki liggur fyrir hvort slíkt verður í boði. Í öðru lagi að EFTA geri eigin fríverslunarsamning við Bandaríkin. Og loks óbreytt ástand. Engin samræmd stefna liggur fyrir hjá EFTA-ríkjunum gagnvart TTIP en saman fylgjast þau grannt með gangi mála með reglubundnu samráði við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna og framkvæmdastjórn ESB. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA heimsótti Washington á árinu og átti viðræður við bandarísk stjórnvöld, þingmenn, stofnanir og hagsmunaaðila um gang TTIP-viðræðnanna, áhrif á EFTA-ríkin og möguleika náinna samstarfsríkja til að gerast aðilar að samningnum þegar hann liggur fyrir.
    Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu má nefna iðnaðarstefnu ESB, stefnu um stafrænan innri markað, orkusamband ESB, uppbyggingarsjóð EFTA, samskipti Sviss og ESB og ferðamannaiðnað á norðurslóðum.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES myndar sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum á ári og á þremur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA og utanríkisráðherrum EES/EFTA- ríkjanna. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA- þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES var þannig skipuð í upphafi árs 2015: Aðalmenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, Árni Páll Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Elín Hirst, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Karl Garðarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Katrín Júlíusdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 8. september 2015 varð sú breyting á skipan Íslandsdeildar að Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók við af Birgi Ármannssyni sem varamaður. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Á árinu tók Guðlaugur Þór Þórðarson að sér starf framsögumanns (rapporteur) skýrslu þingmannanefndar EES um um fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP). Meðframsögumaður hans af hálfu Evrópuþingsins var Angelika Mlinar og var skýrslan kynnt á fundi nefndarinnar í Fredrikstad í Noregi. Jafnframt var Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður skýrslu um stafrænan innri markað (e. Digital Single Market Strategy) ásamt Evrópuþingmanninum Daniel Dalton. Var skýrslan kynnt á fundi í Brussel.

4. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2015.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2015. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum og stofnunum í Ankara, Washington og Brasilíuborg um fríverslunarmál.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fimm skýrslur voru
teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli
þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu sem Íslandsdeildin sótti í tímaröð.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Ankara 11.–14. janúar 2015.
    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Ankara var að eiga viðræður við tyrkneska þingmenn, ráðherra, stofnanir og hagsmunaaðila um uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA og Tyrklands frá árinu 1991 og aukið efnahagslegt samstarf við EFTA. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Júlíusdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum og hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 25 talsins og taka til 36 ríkja. Þingmannanefnd EFTA hefur stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga við EFTA.
    Tyrkland hefur notið mikils hagvaxtar á síðustu 12 árum og er nú 19. stærsta hagkerfi heims. Tyrkir eru því aðili að G20 samtökunum og veita þeim forystu á þessu ári. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Tyrkland verði 10. stærsta hagkerfi heims árið 2023 á 100 ára afmæli tyrkneska lýðveldisins.
    Tyrkland er mikilvægur viðskiptaaðili EFTA-ríkjanna. Viðskipti hafa aukist hratt á undangengnum árum og nemur hlutur Tyrklands nú 0,8% í utanríkisviðskiptum EFTA. Í Ankara átti sendinefnd þingmannanefndar EFTA m.a. fundi með utanríkismálanefnd, Evrópunefnd, fjárlaganefnd og iðnaðarnefnd tyrkneska þingsins auk efnahagsráðherra landsins. Helst var rætt um mikilvægi þess að uppfæra fyrrnefndan fríverslunarsamning EFTA og Tyrklands og þau tækifæri sem í slíkri uppfærslu fælust til að auka viðskipti aðilanna. Fríverslunarsamningur EFTA og Tyrklands frá árinu 1991 er elstur núgildandi fríverslunarsamninga EFTA. Hann er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga og tekur aðallega til vöruviðskipta. Með uppfærslu samningsins er stefnt að því að hann taki til þjónustuviðskipta, opinberra innkaupa, samkeppnismála, hugverkaréttinda og sjálfbærrar þróunar eins og svokallaðir annarrar kynslóðar fríverslunarsamningar gera. Viðræður um uppfærslu samningsins hófust í júní 2014 og hafa þrjár viðræðulotur farið fram. Á fundunum kom fram jákvæður vilji tyrknesku viðræðuaðilanna til að ljúka uppfærslu fríverslunarsamnings EFTA og Tyrklands.
    Þá komu fríverslunarviðræður Evrópusambandsins (ESB) og Bandaríkjanna, TTIP (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership), ítrekað til tals. Viðræðurnar hófust í júlí 2013 og snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Tollar eru tiltölulega lágir milli Bandaríkjanna og ESB en gagnkvæm viðurkenning staðla eða sameiginlegir staðlar er talin munu örva mjög viðskiptin yfir Atlantsála. Það hefði óneitanlega mikil áhrif bæði á Tyrkland og EFTA-ríkin þó með ólíkum hætti yrði. Tyrkir eru í tollabandalagi við ESB þannig að fríverslun ESB við Bandaríkin mundi þýða að bandarískar vörur ættu aðgang inn á tyrkneskan markað án þess að gagnkvæmni ríkti gagnvart tyrkneskum vörum á bandarískum markaði. Tyrkneskir viðmælendur lögðu áherslu á að TTIP án aðildar eða sérstakrar lausnar fyrir Tyrkland mundi setja tollabandalagið í uppnám. Af hálfu EFTA-ríkjanna var lögð áhersla á að þau fylgdust náið með gangi TTIP-viðræðnanna enda ljóst að ef markaðsaðgangur bandarískra fyrirtækja á innri markað ESB breyttist hefði það óhjákvæmilega áhrif á EES/EFTA-ríkin og markaði þeirra sem aðila að innri markaðnum. Jafnframt þyrfti EFTA að tryggja að TTIP mundi ekki skerða samkeppnisstöðu fyrirtækja innan EFTA gagnvart fyrirtækjum í ESB þegar kemur að aðgangi að Bandaríkjamarkaði. Leiði viðræður um TTIP til niðurstöðu er óljóst hvort önnur ríki geti orðið aðilar að samningnum.
    Að auki hlaut sendinefnd þingmannanefndar EFTA ítarlega kynningu á stöðu og horfum í ríkisfjármálum á fundi með fjárlaganefnd tyrkneska þingsins. Þá var staða aðildarumsóknar Tyrklands að ESB kynnt á fundi með Evrópunefnd þingsins en Tyrkland sótti um aðild árið 1987 og aðildarviðræður, sem hafa verið mjög hægfara, hófust árið 2005. Loks var ástandið í Miðausturlöndum rætt á fundi með utanríkismálanefndinni og sér í lagi borgarastríðið í Sýrlandi. Mikill flóttmannastraumur hefur verið yfir landamærin til Tyrklands þar sem nú eru um 2 milljónir flóttafólks og er það næstmesti fjöldi flóttafólks í nokkru ríki um þessar mundir.

44. fundur þingmannanefndar EES í Fredrikstad 17. mars 2015.
    Fundur þingmannanefndar EES fór fram í Fredrikstad í Noregi. Evrópuþingmaðurinn Jørn Dohrmann og liechtensteinski þingmaðurinn Elfried Hasler stýrðu fundinum. Helstu dagskrármál hans voru þróun og framkvæmd EES-samningsins, iðnaðarstefna ESB, fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og samskipti Sviss og ESB. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Marta Veikeniece fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Gianluca Grippa fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, Bergdís Ellertsdóttir fyrir hönd EFTA og Oda Helen Sletnes, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Í umfjöllun þeirra komu m.a. fram áhyggjur af töfum á innleiðingu EES-gerða í EFTA/ EES-ríkjunum og lúta þær að tvennu, annars vegar töfum á upptöku gerða í EES-samninginn og hins vegar töfum á innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum eftir að þær hafa verið teknar upp í samninginn. Slíkar tafir koma í veg fyrir að lagalegt samræmi, sem er forsenda innri markaðarins, sé á milli ESB-ríkjanna og EES/EFTA-ríkjanna. Fram kom að á árinu 2014 voru 627 gerðir teknar upp í EES-samninginn og hafa þær aldrei verið fleiri. Þrátt fyrir það biðu yfir 440 gerðir upptöku í samninginn. Grippa sagði að af hálfu ESB hefði stöðugt verið varað við töfum á upptöku gerða síðustu fjögur ár en á þeim tíma hefði upptökuhallinn yfirleitt verið 400–600 gerðir. Upptaka hefði gengið vel árið 2014 og að nauðsynlegt væri að halda sama dampi á árinu 2015. Annar vandi væru tafir á innleiðingu í EES/EFTA-ríkjunum en samkvæmt Sletnes hafði innleiðingarhalli þeirra aukist og ekki verið jafn mikill frá því að mælingar hófust árið 1997. Sletnes fór einnig yfir mál til skoðunar hjá ESA og nefndi hvað Ísland varðar að ESA hefði í október 2014 sent frá sér rökstutt álit þess efnis að innflutningstakmarkanir á fersku kjöti væru andstæðar EES-samningnum. Því máli væri þó ekki lokið. Þá rannsakaði ESA hvort samningur Landsvirkjunar og Landsnets við PCC vegna fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík fæli í sér ríkisaðstoð.
    Þá var fjallað um samskipti Sviss og ESB og sérstaklega gengi svissneska frankans gagnvart evrunni. Þegar fjármálakreppan á evrusvæðinu hófst var mikið fjármagnsflæði yfir í svissneska frankann sem hækkaði gengi hans og dró úr samkeppnishæfni svissneskra útflutningsgreina. Seðlabanki Sviss hélt aftur af frekari hækkun svissneska frankans gagnvart evru frá september 2011 en vék frá þeirri stefnu 15. janúar 2015 þar sem hún var ósjálfbær til lengri tíma. Fjallað var um hækkun frankans í kjölfar stefnubreytingar seðlabankans og áhrif hennar á svissneskt efnahagslíf.
    Iðnaðarstefna ESB var til sérstakrar umfjöllunar og var skýrsla lögð fram um hana. Fagnað var áherslum nýrrar framkvæmdastjórnar ESB á að einfalda regluverk á sviði iðnaðar með það fyrir augum að auka vöxt og samkeppnisfærni evrópskra fyrirtækja. Þá var lögð áhersla á að bætt orkunýtni eykur framleiðni og minnkar losun gróðurhúsalofttegunda. Í því sambandi kom fram að munur er á stöðu iðnaðar á EES-svæðinu milli ESB annars vegar þar sem orkuverð er hátt og Noregs og Íslands hins vegar sem búa við ódýra orku. Hátt orkuverð sem evrópskur iðnaður býr við, til að mynda í samanburði við Bandaríkin, veikir samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar sérstaklega.
    Þá var fjallað um fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP). Viðræður snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, afnám viðskiptahindrana, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Tollar eru tiltölulega lágir milli Bandaríkjanna og ESB en gagnkvæm viðurkenning staðla eða sameiginlegir staðlar eru taldir munu örva mjög viðskiptin yfir Atlantsála. Fyrst fluttu framsögur Lars Jakob Hiim, aðstoðarráðherra viðskiptamála í Noregi, og Arne Melchior frá norsku utanríkismálastofnuninni. Í máli þeirra kom m.a. fram hvaða áhrif TTIP mundi hafa á Noreg ef ekki kæmu til sérstakar ráðstafanir, eins og einhvers konar aukaaðild að samningnum. Hvað neikvæð áhrif varðar var m.a. nefnd aukin samkeppni við útflutning Norðmanna til ESB og Bandaríkjanna og hugsanleg fríverslun með fisk sem ekki gilti innan EES. Á jákvæðu hliðina væri aftur á móti væntanlegur hagvaxtarauki í ESB og Bandaríkjunum sem hlytist af TTIP sem kynni að auka eftirspurn eftir innflutningsvörum frá Noregi á þessum mörkuðum. Dæmi þar um væri að vænta mætti aukinnar eftirspurnar eftir fragtflutningum norskra skipafélaga yfir Atlantshafið við aukin viðskipti í kjölfar TTIP. Þá yrði samræming staðla til gagns og hugsanlegt væri að afnám tæknilegra viðskiptahindrana yrði með því móti að það gagnist fyrirtækjum í EFTA-ríkjunum utan TTIP ekki síður en fyrirtækjum í ESB og Bandaríkjunum.
    Guðlaugur Þór Þórðarson var framsögumaður skýrslu þingmannanefndarinnar um TTIP. Hann lagði áherslu á að TTIP og aðrir stórir fríverslunarsamningar væru svar við árangursleysi viðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, sem væri bagalegt. Viðskiptahindranir væru leið ríkra landa til að vernda niðurgreiddan landbúnað sinn gegn samkeppni frá fátækari ríkjum. Aukið frjálsræði í viðskiptum og opnun markaða á Vesturlöndum mundi gera meira fyrir þróun og baráttu gegn fátækt en nokkur önnur aðgerð. Hvað EFTA-ríkin varðaði væri mikilvægt fyrir þau að fylgjast grannt með TTIP-viðræðunum. Yrði TTIP að veruleika mundi það hafa margvíslega áhrif á EES/EFTA-ríkin sem aðila að innri markaði ESB. Önnur ríki sem væntanlega yrðu fyrir miklum áhrifum væru Tyrkland (vegna tollabandalags við ESB) og Mexíkó og Kanada (vegna NAFTA-samningsins). Þessi ríki ættu að vinna að því saman að þrýsta á um að TTIP-samningurinn yrði þeim opinn verði hann að veruleika. Loks talaði Guðlaugur Þór um breytta stöðu í öryggismálum og samskiptum við Rússland eftir átökin í Úkraínu sem knýi á um nánari samheldni Vesturlanda. Hin breytta geópólitíska staða kalli á þéttara samstarf yfir Atlantshafið og auki mikilvægi TTIP þótt oftast væri einungis fjallað um viðræðurnar á efnahagslegum forsendum.
    Þingmannanefnd EES samþykkti tvær ályktanir á 44. fundi sínum, annars vegar um iðnaðarstefnu ESB og hins vegar um TTIP.

Fundir framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Washington, Brasilíuborg og Ríó de Janeiro 12.–17. apríl 2015.
    Markmið heimsóknar þingmannanefndar EFTA til Washington var að eiga viðræður við bandarísk stjórnvöld, þingmenn, stofnanir og hagsmunaaðila um yfirstandandi viðræður Bandaríkjanna og ESB um fríverslunarsamning, TTIP (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership). Markmið heimsóknarinnar til Brasilíu var að eiga viðræður við sambærilega aðila um að styrkja tengsl EFTA við MERCOSUR sem eru fríverslunarsamtök Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA áttu sæti í sendinefndinni Guðlaugur Þór Þórðarson og Árni Páll Árnason, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna hófust í júlí 2013 og snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Tollar eru tiltölulega lágir milli Bandaríkjanna og ESB en gagnkvæm viðurkenning regluverks og staðla og afnám hvers kyns tæknilegra viðskiptahindrana er talið geta örvað mjög viðskiptin yfir Atlantsála. EFTA hefur fylgst náið með viðræðunum enda mun TTIP hafa áhrif á EFTA-ríkin verði samningurinn að veruleika. Það á sérstaklega við um EES/EFTA-ríkin sem eru hluti af innri markaði ESB enda mun mögulegt samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu regluverks og staðla hafa áhrif á regluverk innri markaðarins.
    Í Washington átti sendinefnd EFTA viðræður við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna (e. US Trade Representative), þingmenn í TTIP-hópi fulltrúadeildar Bandaríkjaþings (e. TTIP Caucus) og viðskiptaráð auk þess sem pallborðsumræður voru skipulagðar af hugveitunni European Institute. Meginskilaboð EFTA-þingmanna á fundunum voru þríþætt. Í fyrsta lagi var lögð áhersla á væntanleg almenn áhrif TTIP á náin viðskiptaríki. Samkeppnisstaða fyrirtækja innan EFTA mun versna við það að markaðsaðgangur fyrirtækja ESB styrkist á Bandaríkjamarkaði auk þess sem samkeppni harðnar á Evrópumarkaði með bættum aðgangi bandarískra fyrirtækja. Útflutningsatvinnuvegir EFTA-ríkjanna yrðu ekki einungis fyrir áhrifum af tollalækkunum heldur ekki síður af gagnkvæmri reglusetningu og stöðlum. Í öðru lagi var lögð áhersla á sérstök áhrif TTIP á EES/EFTA-ríkin en breytingar á regluverki á sviði þjónustuviðskipta, opinberra innkaupa, fjárfestinga o.fl. munu hafa áhrif á þau sem aðila að regluverki innri markaðar ESB. Hliðsjón þyrfti að hafa af samstarfi ESB og EFTA á innri markaðnum á EES-svæðinu þegar samið yrði um samstarf á sviði regluverks í TTIP. Í þriðja lagi lögðu margir þingmenn sendinefndar EFTA áherslu á að æskilegt væri að TTIP yrði opinn samningur þannig að þriðju ríki gætu tengst honum á einhvern hátt og vísuðu til greiningar hugveita þar sem EFTA-ríkin og Tyrkland eru nefnd Evrópumegin, og Mexíkó og Kanada Bandaríkjamegin, sem sérlega náin viðskiptaríki sem ætti að gefast kostur á einhvers konar aðild að TTIP. Í fjórða lagi var viðskiptasamráði EFTA og Bandaríkjanna fagnað en að mörgu leyti hafa bandarísk stjórnvöld verið opnari í upplýsingagjöf varðandi gang TTIP-viðræðnanna en framkvæmdastjórn ESB.
    Á fundi með Dan Mullaney, aðstoðarviðskiptafulltrúa Bandaríkjanna og aðalsamningamanni vegna TTIP, kom fram að aðalviðfangsefni viðræðnanna um þær mundir væri samstarf á sviði regluverks og staðla. Horft væri til gagnkvæmrar viðurkenningar reglna án þess þó að lækka fyrirliggjandi staðla á sviði umhverfis-, heilbrigðis- og vinnumarkaðsmála. Auk viðræðna um TTIP ættu bandarísk stjórnvöld í viðræðum við 11 Kyrrahafsríki um annan stóran marghliða fríverslunarsamning, TPP (e. Trans-Pacific Partnership) (TPP-viðræðunum lauk með samningi 5. október 2015). Vonast stjórnvöld til þess að TTIP og TPP geti orðið fyrirmyndir að auknu starfi að fríverslunarmálum á vettvangi Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar WTO eftir stöðnunartímabil Doha-samningalotunnar. Þá var farið yfir hugsanlegan ávinning sem þriðju ríki hefðu af TTIP-samningi sem einkum lyti að einfaldari markaðsaðgangi vegna gagnkvæmrar viðurkenningar staðla. Iðnfyrirtæki í EFTA-ríki þyrfti væntanlega ekki lengur að framleiða tvær mismunandi útgáfur af vöru til að uppfylla ólíka staðla á Evrópu- og Bandaríkjamarkaði og kostnaður við vottun og prófanir fyrir nýjar vörur minnkaði að sama skapi. Loks kom fram að engar ákvarðanir hefðu verið teknar af Bandaríkjunum og ESB um hvort mögulegur TTIP-samningur yrði að einhverju leyti opinn fyrir aukaaðild eða annars konar tengingu fyrir náin viðskiptalönd. Samningsaðilar einbeittu sér fyrst og fremst að því að ná góðum samningi en álitamál varðandi tengingu við þriðju ríki yrðu tekin fyrir síðar. Mullaney hvatti loks EFTA-ríkin til að móta sér fasta stefnu um hvort þau óskuðu tengingar við TTIP eða að halda viðskiptamálum sínum í tvíhliða farvegi, annars vegar við ESB og hins vegar við Bandaríkin.
    Á fundi með þremur þingmönnum úr TTIP-hópi fulltrúadeildar Bandaríkjaþings var m.a. fjallað um pólitískar hindranir á vegi fríverslunarsamninga. Fyrir lá að á næstu vikum eftir fundinn yrði lagt fram frumvarp um samningsumboð til fríverslunarsamninga (e. Trade Promotion Authority, TPA). Slíkt umboð veitir forseta Bandaríkjanna opna heimild til að gera hvers konar tvíhliða eða fjölþjóðlega viðskiptasamninga við önnur ríki á þeim tíma sem umboðið gildir. Samningarnir sem gerðir eru með slíku umboði eru háðir samþykki þingsins, sem getur þó einungis staðfest eða hafnað viðskiptasamningi en ekki gert á honum breytingar. Þingmennirnir voru bjartsýnir á að TPA yrði samþykkt fyrir þinglok (Samningsumboðið var samþykkt af Bandaríkjaþingi 24. júní 2015) og sögðu viðskiptamál eitt fárra viðfangsefna bandarískra stjórnmála þar sem góður grundvöllur væri fyrir samvinnu Obama forseta og meiri hluta repúblíkana á bandaríska þinginu. Þá kom fram að þeir teldu minni andstöðu við TTIP en TPP einkum vegna þess að minni hætta þykir á félagslegum undirboðum frá Evrópu þar sem regluverk vinnumarkaðar og vinnuverndar er háþróað en frá aðildarríkjum væntanlegs TPP-samnings. Þá kom fram að TTIP hefði öðlast aukið geópólitískt vægi við átökin í Úkraínu og þróun öryggismála í Evrópu og það hefði leitt til aukins stuðnings við TTIP á Bandaríkjaþingi.
    Í Brasilíuborg og Ríó de Janeiro átti sendinefnd EFTA viðræður við forseta brasilíska þingsins, nefndarmenn í utanríkisviðskiptanefnd og iðnaðarnefnd þingsins, helstu embættismenn í utanríkisráðuneyti og iðnaðarráðuneyti sem fara með fríverslunarmál, samtök iðnaðarins og fulltrúa fræðasamfélags. Brasilíumenn fara með formennsku í MERCOSUR, sem eru eins og fyrr segir fríverslunarsamtök og tollabandalag fimm Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela. EFTA og MERCOSUR hafa um árabil átt formlegt samráð um viðskiptamál en í mars 2015 var ákveðið að fram færu könnunarviðræður sem leitt geta til þess að formlegar fríverslunarviðræður hefjist. Meginskilaboð EFTA- þingmanna á fundunum voru að áhugi hefði verið á því að styrkja viðskiptatengslin við MERCOSUR innan EFTA frá árinu 2011. Mikil aukning hefði orðið í fjárfestingum og viðskiptum EFTA við Brasilíu síðasta áratug og enn væri rúm til að auka viðskiptin. Brasilískir viðmælendur töldu tækifæri til að efla viðskiptatengsl við EFTA, ekki síst vegna minnkandi hagvaxtar heima fyrir og áherslu á þá lausn að tryggja fyrirtækjum MERCOSUR aðgang að erlendum mörkuðum og opna jafnframt heimamarkaði. Á fundum í brasilíska þinginu kom fram að mikill stuðningur væri við að auka frjálsræði í efnahagsmálum og vinda ofan af verndarstefnu. Þrjú MERCOSUR-ríki, Brasilía, Paragvæ og Úrúgvæ, eru samstíga í áherslum á aukna fríverslun en síðari ríkin tvö taka við formennsku í samtökunum á eftir Brasilíu. Það kom ítrekað fram á fundum að landbúnaðarmálin eru ríkjunum einkar mikilvæg í fríverslunarsamningum og að þess yrði krafist í væntanlegum fríverslunarviðræðum að EFTA-ríkin opnuðu markaði sína fyrir landbúnaðarafurðum frá MERCOSUR. Einnig kom fram í viðræðum við fulltrúa stjórnvalda að EFTA og Brasilía gætu átt tvíhliða samstarf um að auka viðskipti. Tollamál eru einungis umsemjanleg við MERCOSUR en hægt væri að eiga samstarf um að ryðja úr vegi tæknilegum viðskiptahindrunum og aðrar aðgerðir til að örva viðskipti.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA í Liechtenstein 21.–23. júní 2015.
    Í Liechtenstein fór fram hefðbundinn fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk þess sem þingmannanefndin hélt fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var farið yfir stöðu EES-samningsins. Annars vegar var farið yfir þann mikla fjölda ESB-gerða á sviði innri markaðarins sem bíður upptöku í EES-samninginn og hins vegar var fjallað um svonefndan innleiðingarhalla EES/EFTA- ríkjanna sem mælir hversu hratt ríkin innleiða þær gerðir sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Mikilvægi þess að upptaka gerða í samninginn og innleiðing í EES/EFTA- ríkjunum gangi snurðulaust fyrir sig felst í því að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum sem er ein forsenda virkni hans. Nýtt verklag var innleitt hjá EFTA í október 2014 með það markmið að hraða vinnu við upptöku gerða í EES-samninginn. Í júní 2014 beið 581 gerð upptöku í EES-samninginn en nú eru þær 405 sem svarar til 30% fækkunar. Mikill meiri hluti gerða er ekki flókinn og auðveldur í vinnslu. Ef hins vegar er um að ræða flókna „móðurgerð“ sem finna þarf lausn á getur fjöldi undirgerða hlaðist upp að baki hennar. Þannig eru 114 gerðir sem bíða innleiðingar á sviði fjármálaeftirlits en unnið er að upptöku gerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn. Unnið er að tæknilegri útfærslu í kjölfar pólitísks samkomulags fjármálaráðherra EES/EFTA-ríkjanna og ESB frá október 2014 sem felur í sér að allar bindandi ákvarðanir á fjármálamarkaði gagnvart EES/ EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn. Í umfjöllun um innleiðingarhalla gerða sem þegar hafa verið teknar upp í EES-samninginn kom fram að samkvæmt síðustu samantekt ESA frá apríl 2015 er meðalhalli EES/EFTA-ríkjanna 2% en halli ESB- ríkjanna er að meðaltali 0,5%. Yfirlýst markmið er halda innleiðingarhalla undir 1%.
    Auk fyrrgreindrar umræðu um EES-mál á fundi þingmannanefndar EFTA gerði Carl Baudenbacher, forseti EFTA-dómstólsins, grein fyrir þróun dómstólsins á síðustu 20 árum. Síðar á fundinum, við hringborðsumræðu um stjórnmál í einstökum aðildarríkjum, fór Guðlaugur Þór Þórðarson yfir áætlun íslenskra stjórnvalda til að afnema fjármagnshöft sem kynnt var 8. júní 2015.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafanefndar EFTA var fjallað um yfirstandandi fríverslunarviðræður Bandaríkjanna við ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP), sem hófust í júlí 2013. Viðræður snúa að markaðsaðgangi og varða lækkun og niðurfellingu tolla, upprunareglur, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og opinber innkaup. Náist samkomulag um gagnkvæma viðurkenningu staðla eða sameiginlega staðla mun það hafa áhrif á regluverk innri markaðarins og þar með EES/EFTA-ríkin. Fram kom að erfið svið í TTIP-viðræðunum væru landbúnaður þar sem Bandaríkin krefjast fulls afnáms allra tolla en ESB vill undanskilja nokkra vöruflokka; gagnkvæm viðurkenning staðla á sviði matvæla þar sem viðhorf til erfðabreyttra matvæla og hormónagjafar við kjötrækt eru ólík; og gerðardómar til að leysa deilur fjárfesta og stjórnvalda (e. Investor-State dispute settlement). Þrír möguleikar blasa við EFTA ef TTIP verður að veruleika. Í fyrsta lagi að fá eins konar aukaaðild að TTIP en ekki liggur fyrir hvort slíkt verður í boði. Í öðru lagi að EFTA geri eigin fríverslunarsamning við Bandaríkin og loks óbreytt ástand. Í umræðum kom fram að ef svo fer að TTIP verður opið fyrir þriðju ríkjum, eins og EFTA-ríkjunum, Tyrklandi, Kanada og Mexíkó, með aukaaðild er ólíklegt að nokkurt svigrúm verði veitt til samninga eða undantekninga heldur gangist aukaaðildarríki undir TTIP-samninginn óbreyttan. Engin samræmd stefna liggur fyrir hjá EFTA-ríkjunum gagnvart TTIP en saman fylgjast þau grannt með gangi mála með reglubundnu samráði við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna og framkvæmdastjórn ESB. Rifjað var upp að Sviss átti um tíma í fríverslunarviðræðum við Bandaríkin en upp úr þeim slitnaði árið 2005 vegna deilna um fríverslun með landbúnaðarvörur. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði árangursleysi á sviði hnattrænna fríverslunarviðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, hafa orðið til þess að Bandaríkjamenn hefðu misst þolinmæðina og væru að byggja upp eigið kerfi alþjóðaviðskipta með TTIP- viðræðunum annars vegar og TPP-viðræðunum við 11 Kyrrahafsríki hins vegar.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var að venju annars vegar fjallað um fríverslunarmál og hins vegar um EES. Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, fór yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA sem hefur 25 gilda fríverslunarsamninga sem taka til 36 ríkja. Hún sagði að mikill gangur væri í þróun viðskiptanets EFTA í Asíu: fríverslunarviðræður við Indland væru langt komnar, vonast væri til þess að taka upp viðræður að nýju við Indónesíu eftir hlé sem fylgdi kosningum þar í landi, góður gangur væri í viðræðum við Malasíu en hægari við Víetnam og loks hefði fyrsta viðræðulota við Filippseyjar farið fram. Hvað aðra heimshluta snertir lægju fríverslunarviðræður niðri við tollabandalag Rússlands, Kasakstans og Hvíta-Rússlands vegna átakanna í Úkraínu. Fríverslunarviðræður við Georgíu hæfust síðar um sumarið. Þá væri búist við því að EFTA og Kanada hæfu haustið 2015 vinnu við uppfærslu á fríverslunarsamningi sínum frá 2008 þannig að hann tæki auk hefðbundinna vöruskipta einnig til þjónustuviðskipta, fjárfestinga og opinberra innkaupa. Þá kom fram að ráðherrar EFTA fylgdust grannt með gangi TTIP-viðræðna Bandaríkjanna og ESB og leituðu nú leiða til að efla viðskiptasamband EFTA og Bandaríkjanna.
    Í umræðu um EES á fundi þingmanna og ráðherra EFTA var m.a. fjallað um upptöku gerða í EES-samninginn og framlög til uppbyggingarsjóðs EFTA (e. EFTA Financial Mechanism). Fram kom að tekist hefði að fækka þeim gerðum ESB sem bíða upptöku í EES-samninginn en enn biði mikið verk á þessu sviði. Með uppbyggingarsjóðunum leggja EES/EFTA-ríkin sitt af mörkum til að koma á jöfnuði og styðja félagslega þróun innan nýrra aðildarríkja ESB. Síðasta fimm ára tímabil hans rann út árið 2014 og viðræður stæðu yfir við framkvæmdastjórn ESB um uppbyggingarstyrki EFTA fyrir tímabilið 2014–2019. EFTA- ríkin teldu að of mikillar hækkunar framlaga væri krafist af hálfu ESB og sögðu ráðherrarnir að langt væri í samkomulag nema ESB slakaði á kröfum sínum.

Fundir þingmannanefndar EFTA og 45. fundur þingmannanefndar EES í Brussel 17.–19. nóvember 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundina Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Í fundalotunni fór m.a. fram fundur þingmanna með sveitarstjórnarvettvangi EFTA, fundur þingmanna og utanríkisráðherra EES/ EFTA-ríkjanna og fundur þingmannanefndar EES.
    Á fundi þingmanna og sveitarstjórnarvettvangs EFTA voru yfirstandandi fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP) einkum til umræðu. Fram kom m.a. að aukin bjartsýni væri á að viðræðum gæti lokið á kjörtímabili Obama Bandaríkjaforseta, þ.e. fyrir lok árs 2016, í ljósi þess að samningur náðist um fríverslun yfir Kyrrahafið (e. Trans-Pacific Partnership, TPP) í október 2015. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði grein fyrir vinnu þingmannanefndar EFTA hvað varðar TTIP og lagði áherslu á áhrifin á EFTA/EES-ríkin ef gagnkvæm viðurkenning staðla og regluverk verður niðurstaðan af TTIP-viðræðunum. Þá var fjallað um hvort EFTA/EES-ríkjunum byðist að gerast aukaaðilar að TTIP í framtíðinni og vinnu að hagrænum úttektum á því hvort slík aðild yrði ríkjunum hagkvæm.
    Á fundi þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA-ríkjanna gerði Vidar Helgesen, Evrópuráðherra Noregs, grein fyrir niðurstöðum fundar EES-ráðsins fyrr um daginn. Þar var m.a. lögð áhersla á að ljúka sem fyrst tæknilegri vinnu að undirbúningi upptöku gerða ESB um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn til að tryggja lagalega einsleitni innan EES á þessu sviði. Unnið er á grunni pólitísks samkomulags fjármálaráðherra EES/EFTA-ríkjanna og ESB frá október 2014 sem felur í sér að allar bindandi ákvarðanir á fjármálamarkaði gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA- dómstólinn. Helgesen taldi niðurstöðu í nánd og undirstrikaði að upptaka gerða á sviði fjármálaeftirlits væri mikilvæg í því skyni að fækka þeim gerðum sem biðu upptöku í EES-samninginn en þriðjungur þeirra væri á sviði fjármálamarkaða. Upptökuhallinn var ræddur á fundi EES-ráðsins sem kallaði eftir að unnið yrði hörðum höndum að því að minnka hann. Þá fjallaði Helgesen um nýtt samkomulag um uppbyggingarsjóð EFTA fyrir tímabilið 2014– 2021 sem unnið er að fullgildingu á. Guðlaugur Þór Þórðarson hvatti til þess að á nýju tímabili uppbyggingarsjóðsins yrði stórum hluta hans veitt til viðbragða við flóttamannastraumi til Evrópu. Á nýju sjóðstímabili væri samstarf í dómsmálum eitt af sex skilgreindum samstarfssviðum. Fyrir lægi að gera tvíhliða samkomulag EFTA við einstök styrkþegaríki innan ESB um uppbyggingarstyrkina og hvatti Guðlaugur Þór til þess að í þeirri vinnu yrðu verkefni sem tengjast flóttamönnum sett í forgang. Loks var fjallað um samvinnu ESB og EES/EFTA-ríkjanna í aðdraganda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 30. nóvember til 11. desember 2015.
    45. fundur þingmannanefndar EES fór fram í Evrópuþinginu 19. nóvember. Helstu dagskrármál hans voru þróun og framkvæmd EES-samningsins, upptaka regluverks um fjármálastarfsemi í EES-samninginn, stefna um stafrænan innri markað, ferðamannaiðnaður á norðurslóðum og orkusamstarf ESB.
    Á fundinum var fulltrúum stofnana ESB og EFTA að venju boðið að hafa framsögur í umræðum um þróun og framkvæmd EES-samningsins. Til máls tóku Marc Bichler fyrir hönd formennsku ESB í EES-ráðinu, Claude Maerten fyrir hönd ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, Oda Sletnes fyrir hönd EFTA og Sven Erik Svedman, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í umræðunum kom fram að talsverður árangur hefði náðst í að vinna á hala þeirra gerða sem biðu upptöku í EES-samninginn og jafnframt á innleiðingarhalla í EES/EFTA- ríkjunum sem mælir hve hratt gerðir eru innleiddar í landsrétt eftir að þær hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Þó biðu margar gerðir upptöku og innleiðingar og hvöttu fulltrúar ESB til hraðari vinnu í þessu sambandi til að tryggja lagalegt samræmi á innri markaðnum. Samkvæmt samantekt ESA sem mælir innleiðingarhalla tvisvar á ári var halli Noregs sá minnsti sem mælst hefur. Ísland bætti sig verulega og náði hallanum úr 2,8% niður í 2,1% en er engu að síður með mesta halla innan EES. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi uppbyggingarsjóð EFTA og hvatti til þess að á nýju tímabili sjóðsins 2014–2021 yrði stórum hluta hans veitt til viðbragða við flóttamannastraumi til Evrópu. Oda Sletnes tók undir og sagði Noreg horfa jákvæðum augum á að veita fé úr uppbyggingarsjóði EFTA í auknum mæli til flóttamannamála.
    Á fundinum var lögð fram skýrsla og drög að ályktun um stefnu um stafrænan innri markað (e. Digital Single Market Strategy). Framsögumenn voru Vilhjálmur Bjarnason fyrir hönd EFTA og Daniel Dalton fyrir hönd Evrópuþingsins. Vilhjálmur lagði áherslu á að með stefnunni væri hindrunum rutt úr vegi til að koma á einum stafrænum markaði í stað 28 markaða aðildarríkja ESB. Stefnan byggist á þremur stoðum sem snúa að því að tryggja neytendum og fyrirtækjum betri aðgang að stafrænum vörum og þjónustu, skapa skilyrði sem tryggja jafnræði á samkeppnismarkaði fyrir stafræn þjónustukerfi, og hámarka vöxt hins stafræna hagkerfis. Þá kom fram í máli Vilhjálms að könnun framkvæmdastjórnar ESB á stöðu starfænnar stjórnsýslu sumarið 2015 hafi leitt í ljós að Ísland og Noregur standa afar vel að vígi ásamt norrænum ESB-ríkjum og Hollandi.
    Þá var á fundinum lögð fram skýrsla og ályktun um orkusamband ESB (e. Energy Union). Leiðarljós stefnunnar um orkusamband er að stuðla að öruggum, sjálfbærum og samkeppnishæfum orkumarkaði. Stefnan felur í sér fimm víddir sem snúa að orkuöryggi, samhæfðum innri orkumarkaði, bættri orkunýtni til að draga úr orkueftirspurn, samdrætti í losun koltvísýrings og rannsóknum, nýsköpun og samkeppnishæfni. Mikil áhersla er á orkuöryggi en ESB er stærsti orkuinnflytjandi heims, þar sem 53% af allri orkunotkun þess er innflutt. Sex aðildarlönd eru alfarið háð einum birgja fyrir sína gasnotkun og eru því mjög berskjölduð fyrir röskun á framboði. Til að auka orkuöryggi ESB er stefnt að því að auka fjölbreytni orkugjafa, orkubirgja og dreifileiða. Í umfjöllun um skýrsluna sagði Katrín Jakobsdóttir hæpið að tala um Ísland sem mögulegan orkuútflytjanda til Evrópu. Vissulega væri uppi umræða um mögulegan rafstreng til Bretlands en sú umræða væri skammt á veg komin og engin niðurstaða lægi fyrir.
    Loks fór fram umfjöllun um norðurslóðir og ferðamannaiðnað. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti framsögu og fjallaði um hvernig saman færi að byggja upp ferðamannaiðnað í viðkvæmu umhverfi og öryggismál, m.a. er varðar leit og björgun ef skemmtiferðaskip kæmist í vanda. Þá fór hann yfir þá miklu aukningu sem orðið hefur í íslenskum ferðamannaiðnaði og þær áskoranir sem fylgja svo hröðum vexti.

Fundur þingmannannefndar og ráðherra EFTA í Genf 23. nóvember 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES sóttu fundinn Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Páll Árnason, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson, auk Stígs Stefánssonar ritara. Auk fundar þingmanna og ráðherra EFTA hélt þingmannanefnd EFTA eigin fund í Genf.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var Guðlaugur Þór Þórðarson kosinn formaður nefndarinnar fyrir árið 2016 og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen varaformaður. Aðildarríki EFTA fara með formennsku í nefndinni til skiptis.
    Á fundi þingmanna og ráðherra EFTA í Genf var fjallað um gerð fríverslunarsamninga EFTA, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Fríverslunarsamningar EFTA eru nú 25 talsins við 36 ríki og ná yfir 13% af vöruskiptum EFTA-ríkjanna. Í framsöguræðu sinni lagði Vidar Helgesen, Evrópuráðherra Noregs og formaður ráðherraráðs EFTA, áherslu á að mest gróska í gerð fríverslunarsamninga væri í Asíu. Fríverslunarviðræður EFTA við Indland hefðu legið niðri frá fyrri hluta árs 2014, þá hefðu þingkosningar farið fram í landinu en nú hefðu Indverjar lýst sig reiðubúna að halda þeim áfram. Viðræður hefðu einnig legið niðri við Indónesíu um skeið en EFTA þrýsti á að þær hæfust að nýju. Fimmta lota viðræðna við Malasíu fór fram í október 2015 og sú sjötta er ráðgerð í mars 2016. Góður gangur er í viðræðum við Filippseyjar og er stefnt að því að þeim ljúki á árinu 2016. Hægur gangur er í viðræðum við Víetnam sem staðið hafa lengi. Þá hófust fríverslunarviðræður við Georgíu í september 2015 og er búist við að þær geti gengið hratt fyrir sig. Viðræður við tollabandalag Rússlands, Kasakstans og Hvíta-Rússlands liggja niðri vegna átakanna í Úkraínu. Áformað er að hefja fríverslunarviðræður við Ekvador á árinu 2016. Þá var fjallað um vikugamla yfirlýsingu ESB og Ástralíu um að hefja viðræður um fríverslunarsamning á árinu 2016 og að EFTA þyrfti að fylgja í kjölfarið til að tryggja samkeppnishæfni fyrirtækja innan EFTA gagnvart fyrirtækjum innan ESB á áströlskum markaði.
    Hvað eldri fríverslunarsamninga EFTA varðar er áfram rætt við Tyrkland um uppfærslu á samningi frá árinu 1992. Þá standa fyrir dyrum könnunarviðræður sama efnis við Kanada með von um að formlegar viðræður geti hafist sumarið 2016. Samningur ESB og Kanada frá 2014 er mun víðtækari en samningur Kanada við EFTA-ríkin svo kapp er lagt á uppfærslu til að tryggja samkeppnisstöðu EFTA gagnvart ESB í viðskiptum við Kanada. Á fundinum í Genf voru enn fremur hafnar viðræður við Mexíkó um að uppfæra og breikka fríverslunarsamning frá 2001. Mexíkó hefur hafið sams konar viðræður við ESB og mun ræða við EFTA samhliða.
    Guðlaugur Þór Þórðarson greindi frá nýlegri heimsókn sinni til Túnis. Undirstrikaði hann að Túnis væri það ríki sem best hefði komið út úr hinu svokallaða arabíska vori. Þótt EFTA væri fyrst og fremst fríverslunarsamtök væri fríverslunarstefnan ekki einangruð frá annarri pólitík eins og fríverslunarsamningar við Palestínu á sínum tíma og nýhafnar viðræður við Georgíu sýndu. Hvatti Guðlaugur Þór til þess að hugað yrði að því að virkja þá fríverslunarsamninga sem fyrir eru við Miðjarðarhafsþjóðir til að styðja við þær.
    Í umfjöllun um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og ESB (e. Transatlantic Trade and Investment Partnership, TTIP) greindu ráðherrarnir frá fundi sínum með varaviðskiptafulltrúa Bandaríkjanna, Michael Punke, fyrr um daginn. Fram kom að aukinnar bjartsýni gætti hjá bandarískum stjórnvöldum um að hægt yrði að ljúka viðræðunum áður en kjörtímabili Obama forseta lyki í janúar 2016. Eftir 18 mánaða stöðnun væri gangur í viðræðunum að nýju. Fram kom að Bandaríkin vildu hafa TTIP opið þannig að náin viðskiptaríki geti fengið aðild að samningnum.

5. Ályktanir árið 2015.
Ályktanir þingmannanefndar EES:
          Ályktun um iðnaðarstefnu Evrópu, samþykkt í Fredrikstad 17. mars 2015.
          Ályktun um fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og möguleg áhrif þeirra á EFTA/EES-ríkin, samþykkt í Fredrikstad 17. mars 2015.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2014, samþykkt í Brussel 19. nóvember 2015.
          Ályktun um stefnu um stafrænan innri markað, samþykkt í Brussel 19. nóvember 2015.
          Ályktun um orkusamband, samþykkt í Brussel 19. nóvember 2015.

Alþingi, 25. janúar 2016.

Guðlaugur Þór Þórðarson,
form.
Katrín Jakobsdóttir,
varaform.
Árni Páll Árnason.
Vilhjálmur Bjarnason. Willum Þór Þórsson.