Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 757  —  474. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2015.

1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2015 bar hæst ástandið í Úkraínu og kólnandi samskipti NATO og Rússlands eftir hernaðaraðgerðir Rússa í landinu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga 2014 voru afgerandi og greiddi stjórnarnefnd þingsins einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Áhersla var lögð á samstöðu með íbúum Úkraínu og að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Þá fór fram umræða um viðskiptaþvinganir gegn Rússum, áhrif þeirra og kostnað auk ástands efnahagsmála í Úkraínu. Samskipti NATO við Rússland hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi og brot þeirra á tyrkneskri lofthelgi.
    Einnig var á árinu rík áhersla lögð á ástandið í Sýrlandi og straum flóttamanna til nágrannaríkja og Evrópu. Lögð var áhersla á þann vanda sem blasir við nágrannaríkjum Sýrlands við móttöku flóttamanna og að veita þeim stuðning. Mikið var rætt um óstöðugleika í löndunum við Austur-Miðjarðarhaf og Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu innflytjenda til nágrannasvæða og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum.
    Jafnframt var hryðjuverkaógnin í brennidepli á árinu og vaxandi áhrif hryðjuverkasamtaka eins og Daesh/ISIS. Hryðjuverkaárásirnar í París 13. nóvember juku enn á áhyggjur aðildarríkja sem leitt hefur m.a. til aukins þunga í sameiginlegri baráttu Bandaríkjanna og Evrópu gegn hryðjuverkum. Áhersla var lögð á þær áskoranir sem fylgja því að takast á við hryðjuverkastarfsemi sem skipulögð er frá grunni á Vesturlöndum og fjármögnun hennar.
    Umræða um aðgerð NATO í Afganistan, sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins, var áberandi á árinu eins og undanfarin ár, ekki síst í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu við árslok 2014. Verkefnið í Afganistan var fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Vel hefur gengið að byggja upp innlendar öryggissveitir sem hafa tekið við stjórn öryggismála í landinu. Eftir brottför fjölþjóðahersins þarf engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi. Til að bregðast við því hófst verkefnið Resolute Support, eða „Einarður stuðningur“, í janúar 2015 sem stendur yfir í tvö ár.
    Þá var áhersla lögð á að draga þyrfti úr niðurskurði á fjármagni til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna. Nauðsynlegt væri að auka fjárframlög til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússum. Einnig ber að nefna umræðu um loftslagsbreytingar og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í París í desember 2015. Samþykkt var skýrsla um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum sem undirstrikar aukið landfræðipólitískt (geopolitical) mikilvægi svæðisins, þar sem áhrif loftslagsbreytinga hafa m.a. gert auðlindir þess aðgengilegri og opnað fyrir nýjar og mikilvægar siglingaleiðir.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar árið 2015 má nefna þróun kjarnorkuáætlunar Írans, baráttuna við áróðursárásir gegn vestrænum samfélögum, stefnu bandalagsins um opnun gagnvart nýjum aðildarríkjum og mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum óróa og breytinga í landfræðipólitík og alþjóðastjórnmálum.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu.
    Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2015 Þórunn Egilsdóttir formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Páll Jóhann Pálsson, þingflokki Framsóknarflokks. Breytingar urðu á skipan varamanna í Íslandsdeild 8. september þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, tók sæti Ragnheiðar og 24. september þegar Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks, tók sæti Páls Jóhanns. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Íslandsdeildin hélt fjóra undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2015 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Þórunn Egilsdóttir
Til vara: Össur Skarphéðinsson
Stjórnmálanefnd: Þórunn Egilsdóttir
Til vara: Páll Jóhann Pálsson/Þorsteinn Sæmundsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Birgir Ármannsson
Til vara: Ragnheiður Ríkharðsdóttir/Hanna Birna Kristjánsdóttir
Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgir Ármannsson
Til vara: Ragnheiður Ríkharðsdóttir/Hanna Birna Kristjánsdóttir
Efnahagsnefnd: Össur Skarphéðinsson
Til vara: Kristján L. Möller
Vísinda- og tækninefnd: Þórunn Egilsdóttir
Til vara: Páll Jóhann Pálsson/Þorsteinn Sæmundsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Össur Skarphéðinsson

    Á ársfundi NATO-þingsins árið 2015 var Össur Skarphéðinsson kosinn skýrsluhöfundur annarrar undirnefndar efnahagsnefndar NATO-þingsins, um efnahafslegt samstarf yfir Atlantshaf, til tveggja ára.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2015 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í London, vorfundi í Búdapest, ársfundi í Stavanger og árlegum fundi um Atlantshafssamstarfið í Washington. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 14.–16. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags- og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru málefni Úkraínu og samkomulag um vopnahlé milli stríðandi fylkinga sem náðist í friðarviðræðum í Minsk 12. febrúar 2015, NATO í Afganistan og yfirfærsla öryggismála í hendur Afgana og stjórnmálastefna NATO. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Þórunn Egilsdóttir formaður og Össur Skarphéðinsson fundina, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Á fundunum var jafnframt rætt um viðbúnaðaráætlun bandalagsins (RAP), innleiðingu stuðningsáætlunar við Georgíu, öryggishorfur í Evrópu og hvernig haga megi varnaráætlunum bandalagsins með tilliti til aðgerða Rússa og útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Í opnunarávarpi sínu ræddi Michael Turner, forseti NATO-þingsins, um ástandið í Úkraínu og vonpnahléið sem samþykkt var í Minsk. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að útfærsla og framkvæmd vopnahlésins væri skýr og NATO styddi áfram við Úkraínu á ýmsum sviðum, m.a. við landamæraeftirlit og fjárhagslega. Þá þyrfti NATO að þróa nýja orðræðu við Rússland. Turner ræddi einnig um málefni Afganistan og viðbrögð nágrannaríkja við brotthvarfi NATO auk getu innan lands varðandi þróun mála næstu missiri.
    Þá héldu Didier Reynders, utanríkisráðherra Belgíu, Thrasyvoulos Terry Stamatopoulos, sendiherra og ráðgjafi, framkvæmdastjóri stjórnmála- og öryggissviðs NATO, og Philip M. Breedlove, yfirmaður herafla í Evrópu (SACEUR), erindi um núverandi stjórnmálastefnu bandalagsins og blandaða hertækni í áætlanagerð bandalagsins. Í umræðum um efnið var rætt um hvernig bandalagið gæti bætt skilvirka og markandi upplýsingamiðlun, m.a. til að mæta áróðri Rússa gagnvart almenningi. Áhersla er lögð á að bæta samstarf á sviði innri upplýsingamiðlunar, bætt samstarf við ESB og hraðari ákvarðanatöku innan bandalagsins, ekki síst í tengslum við ákvarðanir vegna viðbragðsliðs.
    Össur Skarphéðinsson tók þátt í umræðunum og spurði um útfærslu og viðbrögð bandalagsins við 5. grein Atlantshafssáttmálans um að vopnuð árás á eitt aðildarríki skuli talin árás á öll, í ljósi þróunar mála undanfarið í austri og Rússlandi. Hann lagði áherslu á mikilvægi viðbúnaðar NATO við mögulegri neikvæðri þróun á svæðinu og spurði hvort Eystrasaltsríkin væru sátt við núverandi viðbúnað í ljósi óvissuþátta í alþjóðastjórnmálum. Breedlove svaraði því til að 5. greinin væri skýr og ófrávíkjanlegur þáttur NATO. Aftur á móti þyrftu aðildarríkin að spyrja sig að því hvort bandalagið byggi yfir getu og búnaði til að bregðast við ólíkum aðstæðum og tryggja að svo væri. Þær áskoranir sem NATO stæði frammi fyrir bæði til suðurs og austurs væru hinn nýi veruleiki og ólíklegt að aðstæður breyttust mikið til batnaðar á næstunni. Viðbúnaðaráætlun bandalagsins (RAP) gegndi því lykilhlutverki sem viðbragð bandalagsins við þessum ógnum og breyttu öryggisumhverfi.
    Jafnframt spurði Össur fulltrúa NATO hvort það væri raunhæft í núverandi ástandi fyrir bandalagið að halda úti stefnu um opnun fyrir ný aðildarríki (open door policy) og bætti við að íslensk stjórnvöld væru fylgjandi stækkunarstefnu NATO. Því var svarað til að núverandi stefnu, sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Wales í september, yrði framfylgt þrátt fyrir aukna spennu í alþjóðastjórnmálum. Þar var einnig lögð áhersla á samstarfsaðila NATO og mikilvægi þeirra. Bandalagið stæði frammi fyrir ógnum sem ekki væri endilega hægt að mæta eingöngu með hefðbundnum aðferðum eða þeim tækjum sem NATO ráði yfir. Það væri því brýnt að vinna náið með öðrum stofnunum, fjölþjóðasamtökum og ríkjum. Þá spurði Össur um stefnu NATO varðandi norðurskautið og hvort kólnandi samskipti NATO og Rússlands hafi áhrif á hana. Fulltrúi NATO sagði að hún væri að svo stöddu óbreytt en að bandalagið fylgdist vel með þróun mála á svæðinu.
    Þá tóku fjórir sendiherrar NATO, þeir Jean-Baptiste Mattéi frá Frakklandi, Douglas E. Lute frá Bandaríkjunum og Maris Riekstins frá Lettlandi, þátt í pallborðsumræðum við þingmenn og svöruðu spurningum. Rætt var um áskoranir í öryggismálum og þróun mála undanfarna mánuði með sérstakri skírskotun til Úkraínu. Nefndarmenn fögnuðu samkomulagi um vopnahlé milli stríðandi fylkinga sem undirritað var 12. febrúar 2015 af Frakklandi, Þýskalandi, Rússlandi og Úkraínu með von um að það mundi binda endi á átök sem höfðu þá þegar kostað þúsundir mannslífa. Aftur á móti gætti nokkurra efasemda og varkárni í umræðum um málið þar sem nefndarmenn voru sammála um að árangurinn réðist af því hvort Rússar væru í þetta skiptið tilbúnir til að standa við skuldbindingar sínar. Nefndarmenn voru þó sammála um mikilvægi þess að aðildarríki NATO virtu vopnahléið og stæðu sameinuð um áframhaldandi áskoranir í austri. Össur lagði áherslu á mikilvægi þess að NATO styddi enn frekar við bakið á Úkraínu og gagnrýndi stefnu bandalagsins fyrir að vera mótsagnakennda þegar kæmi að veittri aðstoð og þar mætti NATO gera betur. Um afar ójafnan leik væri að ræða og Úkraína þyrfti klárlega aukna aðstoð, m.a. vopn, til að geta tryggt öryggi sitt. Fulltrúi NATO svaraði því til að NATO veitti Úkraínu margvíslega aðstoð, bæði stjórnmála-, sérfræði- og efnahagslega. Varðandi það að leggja Úkraínu til vopn þá væri það umræða sem enn væri í gangi innan bandalagsins auk þess sem NATO ætti ekki vopn heldur aðildarríki þess og það væri því þeirra að ákvarða hvort þau styddu Úkraínu á þann hátt.
    Þá hélt Marriet Schuurman, sérstakur fulltrúi málefna kvenna, friðar og öryggis hjá NATO, erindi um ályktun 1325 hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, um tækifæri og áskoranir út frá sjónarhóli NATO. Þórunn Egilsdóttir tók þátt í umræðum og spurði Schuurman að því hvort breytingar í landfræðipólitík og aukin spenna á alþjóðavettvangi hefðu neikvæð áhrif á innleiðingu ályktunar 1325 og ef svo væri, hvað þingmenn aðildarríkja NATO gætu gert til að sporna við þeirri þróun. Schuurman sagði að því miður hefði núverandi spenna í alþjóðastjórnmálum þær afleiðingar að jafnréttismál ættu undir högg að sækja. Þá þyrfti að horfa til ímyndar NATO þar sem stór hluti fulltrúa væri karlar (75%). Mikilvægast sagði hún þó vera að læra af reynslunni og gera sér grein fyrir því að breytingarnar byrjuðu heima fyrir. Við þyrftum að lifa í samræmi við það sem við boðuðum og innleiða kynjajafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, var haldinn í höfuðstöðvum NATO 16. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Hann ræddi helstu áhersluatriði bandalagsins og lýsti áhyggjum af minnkandi framlagi Evrópuríkja til varnarmála á árinu 2014 og sagði ljóst að Bandaríkin þyrftu á sterkri Evrópu að halda og það væri gagnkvæmt. Samstaða væri þó meðal aðildarríkjanna um að standa við yfirlýsinguna frá leiðtogafundinum í Wales um auknar fjárfestingar á sviði varnarmála. Þá greindi hann frá framvindu verkefna bandalagsins í Afganistan eftir yfirfærslu öryggismála til heimamanna þar sem áhersla væri lögð á þjálfun, ráðgjöf og aðstoð við afgönsku öryggissveitirnar. Jákvæð þróun hefði orðið þótt að mörgu og misjöfnu væri að huga og nefndi hann í því sambandi að núverandi stjórnvöld í Afganistan væru jákvæðari gagnvart alþjóðasamfélaginu en áður, auk þess sem svæðisbundið samstarf hefði batnað, t.d. við Kína, Rússland og Pakistan.

Fundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í London. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru umræða um ábendingar framkvæmdastjóra NATO við tillögum að stefnumótun bandalagsins sem samþykktar voru af NATO-þinginu árið 2014, hvernig NATO hefur tekist að framkvæma þau áhersluatriði sem samþykkt voru á leiðtogafundi bandalagsins í Wales, ástandið í Úkraínu og samskipti NATO-þingsins við Rússa. Auk þess fór fram umræða um starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2015 og fyrri hluta árs 2016 og fjárhagsáætlun þingsins. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Þórunn Egilsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Thomas Jopling lávarður bauð fundargesti velkomna til London og lagði áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum óróleika og breytinga í landfræðipólitík og alþjóðastjórnmálum. Michael Turner, forseti NATO-þingsins, ræddi m.a. um samskipti NATO-þingsins við Rússa í ljósi atburða síðasta árið. Nefndarmenn voru sammála um að ekki væri hægt að halda samskiptum við Rússa óbreyttum eftir innlimun þeirra á Krímskaga enda greiddu nefndarmenn einróma atkvæði á stjórnarnefndarfundi NATO-þingsins í apríl 2014 með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Framkvæmdastjórn NATO-þingsins var þá falið að hitta fulltrúa rússneska þingsins og útskýra ákvörðun þingsins fyrir þeim og ræða framtíðarsamskipti en síðan þá hafa Rússar ekki sýnt áhuga á frekara samstarfi. Með ákvörðun þingsins var nágrannaríkjum Úkraínu og Rússlands í Austur-Evrópu einnig sýndur stuðningur. Turner sagði samvinnu NATO og Úkraínu afar mikilvæga og lagði áherslu á mikilvægi áframhaldandi stuðnings bandalagsins fyrir úkraínsku þjóðina.
    Þá var rætt um starfsemi, umræðuefni og áherslur NATO-þingsins fyrir seinni hluta ársins 2015 og fyrri hluta árs 2016. Síðustu ár hafa málefni Afganistan verið stærsta verkefni NATO og verður áfram mikilvægt viðfangsefni þó þáttaskil hafi orðið í árslok 2014 með yfirfærslu öryggismála til Afgana. Bæði varnar- og öryggismálanefnd og nefnd um borgaralegt öryggi munu vinna að skýrslu um þróun mála í Afganistan auk þess sem fyrirhugað er að heimsækja landið í árslok. Sérstök kynning fór fram á skipulagi vorþingsins sem haldið var í Búdapest 15.–18. maí 2015. Þingið fór fram með hefðbundnum hætti en fyrirhugað var að utanríkisráðherra, varnarmálaráðherra og forsætisráðherra Ungverjalands ávörpuðu þingið. Jafnframt fór fram umræða um 60 ára afmæli NATO-þingsins 2015 og voru nefndarmenn hvattir til að sækja sérstakan afmælisfund sem franska þingið hélt í París 18. júlí 2015 en þann dag voru 60 ár liðin frá því að NATO-þingið kom fyrst saman í París 1955.
    Jafnframt var fjallað um umsókn Palestínu um áheyrnaraðild að NATO-þinginu og umræðum um málið haldið áfram á vorþingi NATO-þingsins í maí 2015. Alls eiga þjóðþing 13 ríkja aukaaðild að NATO-þinginu eftir ákvörðun fundarins um að Rússland væri ekki lengur eitt þeirra.
    Þá tók til máls danski þingmaðurinn John Dyrby Paulsen og lýsti yfir undrun og áhyggjum af ummælum Mikhail Vanin, sendiherra Rússlands í Kaupmannahöfn, þann sama dag, þar sem hann boðaði í Jyllands-Posten að dönsk herskip kynnu að verða skotmörk rússneskra kjarnorkuflauga ef Danir tækju þátt í eldflaugavörnum NATO. Hann sagði fráleitt að sætta sig við að vera hótað með svo alvarlegum hætti. Boðskapur sendiherrans var aðalfréttin í dönskum fjölmiðlum auk þess sem hann vakti athygli m.a. í Noregi og höfuðstöðvum NATO í Brussel. Paulsen taldi afar ólíklegt að ummælin hefðu áhrif á ákvarðanir danskra stjórnvalda varðandi þátttöku í eldflaugavörnum NATO. Í framhaldinu fór fram umræða um samband NATO við Rússa sem nefndarmenn voru sammála um að gæti ekki talist gott og kallaði á að taka þyrfti á málum með hliðsjón af því að ekki væri lengur hægt að líta á Rússa sem samstarfsaðila. Rætt var um hvernig hægt væri að ná utan um núverandi ágreining og að NATO- ríkin gætu í því sambandi neyðst til að móta nýja Rússlandsstefnu.
    Loks var farið yfir fjármál NATO-þingsins og ársreikning fyrir árið 2014 sem var samþykktur samhljóða. Þá var vakin athygli á því að fjárhagsáætlun NATO-þingsins hefur ekki hækkað síðastliðin fjögur ár þrátt fyrir verðbólgu og skilaði afgangi fyrir árið 2014.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Búdapest dagana 15–18. maí. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Þórunn Egilsdóttir formaður, Össur Skarphéðinsson varaformaður og Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna, alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru ástandið í Úkraínu, kólnandi samskipti NATO og Rússlands, málefni Afganistans í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu á síðasta ári og hryðjuverkaógnin auk þess sem málefni norðurslóða voru rædd. Um 270 þingmenn sóttu fundinn frá 28 aðildarríkjum.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta ársins. Afganistan hefur verið stærsta verkefni NATO undanfarin ár og verður áfram mikilvægt viðfangsefni þótt þáttaskil hafi átt sér stað í árslok 2014 með yfirfærslu öryggismála til Afgana. Michael Turner, forseti NATO-þingsins, gerði jafnframt grein fyrir samskiptum sínum við rússneska þingið en á síðasta fundi stjórnarnefndarinnar sem haldinn var í London í mars 2015 voru nefndarmenn sammála um að halda samskiptum við Rússa óbreyttum í samræmi við ákvörðun stjórnarnefndarfundar þingsins í Riga 2014 þar sem nefndarmenn greiddu einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu eftir innlimun þeirra á Krímskaga. Þá sagði hann mikilvægt að Úkraína hefði frelsi til að velja sína leið í stjórnmálum án þrýstings frá Rússum.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um þrjár skýrslur. Sú fyrsta fjallaði um Rússland og öryggismál, önnur um samstarfsaðila NATO og þriðja um óstöðugleika í löndunum við Austur- Miðjarðarhaf. Þar kom fram að átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu og vaxandi styrkur Daesh hefðu valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum og mundu krefjast hernaðarlegra og stjórnmálalegra viðbragða auk aðstoðar frá hjálparstofnunum til að ná fram stöðugleika. Vísinda- og tækninefnd ræddi um tæknivæðingu herafla Rússlands, loftslagsbreytingar, alþjóðlegt öryggi og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015 auk skýrslu um norðurslóðir.
    Þórunn Egilsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar um málefni norðurslóða og lýsti yfir ánægju með að nefndin sýndi málefnum norðurslóða áhuga. Hún sagði ljóst að mikilvægi norðurslóða væri vaxandi í landfræðilegu og efnahagslegu tilliti. Hafís á svæðinu væri í rénun en slíkar breytingar hefðu gríðarleg áhrif á hefðbundin lífsviðurværi heimamanna. Auk þess sem ný tækifæri opnuðust varðandi siglingar, viðskipti, ferðaþjónustu og fiskveiðar á norðurslóðum. Hún lagði áherslu á að NATO væri meðvitað um þróun umhverfis-, efnahags- og stjórnmála á svæðinu. Þá væri stuðningur við þær alþjóðastofnanir sem væru nú þegar til staðar á svæðinu mikilvægur og nefndi hún Norðurskautsráðið í því sambandi. Samvinna ætti að vera í forgrunni á svæðinu og eins og hingað til væri mikilvægt að samstarf við Rússa færi friðsamlega fram. Jafnframt sagði Þórunn mikilvægt að NATO mótaði sér stefnu varðandi málefni norðurslóða, ekki síst í ljósi aukinnar viðveru Rússa og breytinga í landfræðipólitík á svæðinu.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði í skýrslum sínum um viðskiptaþvinganir gegn Rússum, áhrif þeirra og kostnað, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og ástand efnahagsmála í Úkraínu og horfur fyrir framtíðarþróun. Össur Skarphéðinsson, varaformaður annarrar undirnefndar efnahagsnefndarinnar, tók þátt í umræðum. Hann kvað erfitt að túlka gögn sem lægju fyrir nefndinni um viðskiptaþvinganir Vesturlanda öðruvísi en svo að þær skiptu afar litlu máli fyrir efnahagslega þróun Rússa. Miklir erfiðleikar blöstu við í hagkerfi þeirra sem líklegt væri að færu versnandi undir lok árs en upplýsingar nefndarinnar bentu eindregið til að þeir erfiðleikar stöfuðu nær eingöngu af verðfalli á olíu sem rekja mætti til Sádi-Arabíu. Þótt efnahagsþvinganirnar hefðu að sönnu táknrænt gildi fyrir samstöðu Vesturlanda gegn háttsemi Rússa í Krím og Austur-Úkraínu hefðu þær því sem næst engin áhrif á þróun efnahagskerfisins. Vesturlönd ættu því að beita harðari aðgerðum, eins og að meina Rússum aðgang að SWIFT-bankamiðlunarkerfinu sem hefði reynst áhrifaríkasta þvingunaraðgerðin gagnvart Íran. Össur lýsti jafnframt þeirri skoðun að beitingu þvingunaraðgerða ætti jafnan að fylgja skýr markmið, og við hvaða aðstæður þeim yrði aflétt. Sú væri ekki raunin varðandi aðgerðirnar gagnvart Rússum. Taldi hann óraunhæft að samningar næðust í bráð sem breyttu stöðu Krím, en öðru máli gegndi um Donbass-svæðið. Taldi Össur að skilgreina ætti og beita viðskiptaþvingunum út frá háttsemi Rússa í austurhlutanum, og ákvarða út frá henni hvort herða ætti eða lina aðgerðir. Slík nálgun fæli í sér að „frysta“ deiluna um Krím en freista þess að koma í veg fyrir harðari aðgerðir Rússa í austurhlutanum. Það gæfi Úkraínu tóm til að vinna að innanlandsfriði og efnahagslegri uppbyggingu í samstarfi við Vesturlönd og koma í veg fyrir efnahagskreppu.
    Í umræðum um stöðu Úkraínu sagði Össur að mestu skipti að koma efnahag landsins aftur á fætur. Hann gagnrýndi hversu lítil efnahagsaðstoð ESB væri til landsins og sagði ömurlegt að hún hrykki hvorki til að tryggja að Úkraína sigldi úr gjaldeyrisskorti yfirstandandi árs né næstu fjögurra ára miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Hann benti á að Kínverjar stæðu sig mun betur, en í nýlegri för nefndarinnar til Washington hefði komið fram að Kína ætlaði að fjárfesta fyrir 20 milljarða dollara í Úkraínu á næstu árum. Hann vísaði til bandarískra sérfræðinga um málefni Úkraínu, sem nefndin hitti, sem hefðu talið að gjaldmiðlaskiptasamningur milli ESB og Úkraínu væri besta leiðin til að tryggja að ekki kæmi til greiðslufalls og efnahagskreppu. Þeir hefðu jafnframt talið að til væru tryggar leiðir til að búa svo um að spilltir stjórnmálamenn gætu ekki hagnast á slíkri aðstoð. Lagði hann til að nefndin reifaði þennan möguleika í lokagerð skýrslu sinnar.
    Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um þrjár skýrslur á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um blandaðan hernað og þær áskoranir sem blasa við NATO, önnur um styrkingu samstarfs yfir Atlantshaf og þriðja um viðbragðsáætlun NATO í ljósi nýrra ógna. Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi um áskoranir sem fylgja því að takast á við hryðjuverkastarfsemi sem skipulögð er frá grunni í Vesturlöndum, baráttuna við áróðursárásir gegn vestrænum samfélögum og umbreytingar í Afganistan og áhrif þeirra í Mið-Asíu. Í skýrslunni er lögð áhersla á að Afganistan þarfnist alþjóðlegs langtímastuðnings til að fjármagna og þjálfa herafla, þróa hagkerfið og styðja við bætta stjórnhætti í landinu.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 18. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Michael Turner, forseti NATO-þingsins, László Kövér, forseti ungverska þingsins, Zsolt Semjén, varaforsætisráðherra Ungverjalands, Alexander Vershbow, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, og David Usupashvili, forseti georgíska þingsins. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og ræddi m.a. ástandið í Úkraínu og mikilvægi þess að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Hann sagði Rússa ógna gildum Vesturlanda og öryggi með ófyrirleitni sinni og endurskoðunarstefnu. Einnig að þörf væri á að beina sjónum að ástandinu í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, ekki síst átökunum í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu flóttamanna til nágrannasvæða og Evrópu. Í ávarpi sínu sagði Alexander Vershbow, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, stefnu bandalagsins um opnun fyrir ný aðildarríki (open door policy) enn vera öflugt verkfæri til að stuðla að Evrópu sem væri óskipt, frjáls og friðsæl. Þá væri NATO opið fyrir Úkraínu ef það óskaði eftir aðild, uppfyllti kröfur og aðhyltist meginreglur bandalagsríkjanna.
    Þingfundurinn samþykkti yfirlýsingu að frumkvæði ungversku landsdeildarinnar um stækkun NATO og lagði áherslu á mikilvægi og eftirfylgni við stefnu bandalagsins um opnun fyrir ný aðildarríki (open door policy). Í yfirlýsingunni hvatti þingið NATO til að halda möguleikum opnum fyrir umsóknarríkin Bosníu og Hersegóvínu, Georgíu og fyrrum júgóslavneska lýðveldið Makedóníu og taka ákvörðun fyrir lok árs hvort bjóða ætti Svartfjallalandi aðild.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins var haldinn í Stavanger dagana 9.–12. október 2015. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Þórunn Egilsdóttir formaður, Össur Skarphéðinsson varaformaður og Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 243 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 23 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru kólnandi samskipti NATO og Rússlands í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi og brot þeirra á tyrkneskri lofthelgi, ástandið í Úkraínu og hryðjuverkaógnin. Einnig voru málefni Afganistans í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu árið 2014 rædd auk þess sem skýrsla um ógnir og tækifæri á norðurslóðum var samþykkt.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins á árinu 2016. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 og hún samþykkt með smávægilegum breytingum. Stjórnmálanefnd afgreiddi þrjár skýrslur. Sú fyrsta fjallar um Rússland og vestrænt öryggi, önnur um samstarfsaðila NATO á heimsvísu og sú þriðja um óstöðugleika í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þá afgreiddi varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjórar skýrslur á fundum sínum. Sú fyrsta fjallaði um blandaðan hernað og þær áskoranir sem blasa við NATO, önnur um styrkingu samstarfs yfir Atlantshaf og þriðja um viðbragðsáætlun NATO í ljósi nýrra ógna eftir 2014 og fjórða um málefni Afganistans eftir brotthvarf Alþjóðlegu öryggissveitanna (ISAF). Nefnd um borgaralegt öryggi ræddi skýrslur um áskoranir sem fylgja því að takast á við hryðjuverkastarfsemi sem skipulögð er frá grunni á Vesturlöndum, baráttuna við áróðursárásir gegn vestrænum samfélögum og umbreytingar í Afganistan og áhrif þeirra í Mið-Asíu.
    Vísinda- og tækninefnd ræddi þrjár skýrslur um tæknivæðingu herafla Rússlands, loftslagsbreytingar og loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015 (COP21) auk skýrslu um norðurslóðir. Í ályktun nefndarinnar um loftslagsbreytingar og alþjóðlegt öryggi voru stjórnvöld aðildarríkjanna hvött til að styðja við metnaðarfullt, lögbundið alþjóðlegt samkomulag á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram færi í París í desember. Samþykkt var skýrsla um áskoranir og tækifæri á norðurslóðum en í henni er undirstrikað aukið landfræðipólitískt (geopolitical) mikilvægi svæðisins þar sem áhrif loftslagsbreytinga hafa m.a. gert auðlindir þess aðgengilegri og opnað fyrir nýjar og mikilvægar siglingaleiðir. Skýrsluhöfundurinn, Osman Bak frá Tyrklandi, sagði umhverfi norðurslóða hættulegt en koma þyrfti í veg fyrir að það yrði hættulegra sökum aukins hernaðar og samkeppni um auðlindir svæðisins. Þá lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum sínum af aukinni hervæðingu Rússa á norðurslóðum.
    Þórunn Egilsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar og lýsti yfir ánægju með að nefndin sýndi málefnum norðurslóða áhuga. Jafnframt þakkaði hún formanni norsku landsnefndarinnar, Øyvind Halleraker, fyrir fræðandi og áhugaverða dagskrá sem haldin var fyrir nefndarmenn í Miðstöð leitar- og björgunarmála í Suður-Noregi. Hún sagði ljóst að mikilvægi norðurslóða væri vaxandi í landfræðilegu og efnahagslegu tilliti. Bráðnun hafíss á svæðinu hefði mikil áhrif á hefðbundið lífsviðurværi heimamanna, auk þess sem ný tækifæri væru að opnast varðandi siglingar, viðskipti, ferðaþjónustu og fiskveiða. Þá sagði hún að með breytingum í landfræðipólitík á svæðinu ykjust áhyggjur af aukinni spennu milli strandríkja á Norðurslóðum. Hún lagði áherslu á stuðning við alþjóðastofnanir sem væru nú þegar á svæðinu og hefðu gefið góða raun og nefndi Norðurskautsráðið sem meginstofnun í því samhengi. Samvinna ætti að vera forgangsatriði eins og hingað til og mikilvægt væri að samstarf við Rússa færi friðsamlega fram. Fimm af aðildarríkjum NATO ættu landsvæði á norðurslóðum og því ljóst að umboð NATO nái til svæðisins. Því væri mikilvægt að NATO væri meðvitað um þróun umhverfis-, efnahags- og stjórnmála á svæðinu.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins samþykkti þrjár skýrslur á fundum sínum um viðskiptaþvinganir gegn Rússum, áhrif þeirra og kostnað, um fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og um ástand efnahagsmála í Úkraínu og horfur fyrir framtíðarþróun. Nefndarmenn hvöttu aðildarríki NATO til að viðhalda refsiaðgerðum og þrýstingi gegn Rússum. Þá ættu stjórnvöld NATO-ríkja að huga að harðari viðskiptaþvingunum gegn Rússum virði þeir ekki samkomulag um vopnahlé í Austur-Úkraínu.
    Össur Skarphéðinsson, tók þátt í umræðum nefndarinnar, m.a. um skýrslu um viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja gagnvart Rússum vegna Úkraínudeilunnar. Hann kvað fyrirliggjandi gögn sem nefndin hefði aflað sér benda til þess að þvinganirnar hefðu til þessa haft lítil áhrif á olíuframleiðslu Rússa á norðlægum slóðum. Fjárfesting og uppbygging á þeim svæðum þar sem olía eða gas væri unnin hefði verið til staðar áður en átökin brustu á í Úkraínu. Hins vegar mætti ætla að aðgerðirnar torvelduðu verulega uppbyggingu á svæðum þar sem engar framkvæmdir væru hafnar þar sem vinnsla á þeim væri mjög torveld og Rússa skorti bæði fjármagn og vestræna tækni til að hefja vinnslu. Af þeim sökum mundu Rússar ekki ráða við að auka vinnslu á kolefnaeldsneyti meðan á deilunnni stæði. Niðurstaðan væri því sú að erfiðustu áhrif þvingananna á framleiðsluna ættu eftir að koma fram. Þá kvaðst Össur ósammála þeim sem héldu því fram að það væru einungis lögmál samkeppni sem drifu OPEC-ríkin til að halda uppi mikilli framleiðslu olíu þrátt fyrir lágt verð og freista þess þannig að ryðja af markaðnum nýjum fyrirtækjum sem ynnu olíu og gas með kostnaðarsömum „fracking“ aðferðum. Öðrum þræði væru sterk olíuríki einsog Sádi-Arabía augljóslega einnig að nota lágt olíuverð til að refsa Rússum fyrir stuðning þeirra við fornan óvin, Assad forseta Sýrlands, og sömuleiðis til að skaða Íran. Össur var kosinn skýrsluhöfundur undirnefndar efnahagsnefndar um efnahafslegt samstarf yfir Atlantshaf til næstu tveggja ára. Hlutverk skýrsluhöfundar er að taka saman skýrslu um það málefni sem nefndin kýs að taka til sérstakrar skoðunar og leggja fram drög að ályktun um málið á fundi efnahagsnefndar sem síðar fer fyrir þingfund NATO-þingsins.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins var haldinn 12. maí 2015 þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Michael Turner, forseti NATO-þingsins, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Jan Egland, framkvæmdastjóri norska flóttamannaráðsins. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og ræddi m.a. ástandið í Úkraínu og mikilvægi þess að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Stoltenberg sagði í ávarpi sínu mikilvægt að NATO græfist fyrir um orsakir vandans og ynni að því að koma í veg fyrir hættuástand og auka stöðugleika í ríkjum eftir að átökum lýkur. Þá sagðist hann hugsi yfir því hversu miklum fjármunum væri eytt í stríð eða til að ýta úr vör stórri hernaðaraðgerð, miðað við hversu erfitt væri að fá fjármagn til að fyrirbyggja stríð og koma á stöðugleika eftir stríðsátök. Stoltenberg lýsti jafnframt yfir áhyggjum af hlutverki Rússa í Sýrlandi þar sem þeir styðja stjórn Bashar al-Assads, Sýrlandsforseta, um leið og þeir veitast að Daesh-hryðjuverkasamtökunum. Jafnframt hvöttu þingmenn Stoltenberg til að styðja aðildarumsókn Svartfjallalands að NATO og fara varlega í að skera of hratt niður herlið í Afganistan.
    Erna Solberg sagði mikilvægt að NATO gleymdi ekki hafsvæðinu á norðurslóðum þegar kæmi að varnaráætlunum bandalagsins. NATO þyrfti að beina sjónum sínum í auknum mæli að siglingaleiðum og hafsvæðum þar sem lokun á sjóleið gæti hindrað hæfni NATO til að verja aðildarríki sín. Jan Egeland varaði við því að straumur flóttafólks til Evrópu mundi aukast enn frekar ef alþjóðasamfélagið beitti ekki diplómatískum aðgerðum til að binda enda á átökin í Sýrlandi. Hann hvatti vestræn ríki til að sameinast Rússlandi, Íran, Sádi-Arabíu og öðrum hlutaðeigandi aðilum til að þrýsta á að stríðandi fylkingar í Sýrlandi tækju upp friðarviðræður. Þá taldi Egeland ekki skynsamlegt að NATO beitti hervaldi í tengslum við átökin í Sýrlandi.

Fundur um Atlantshafssamstarfið.
    NATO-þingið, Atlantshafsráð Bandaríkjanna og National Defence University (NDU) efna árlega til fundar, „Transatlantic Forum“, um helstu málefni Atlantshafssamstarfsins í Washington D.C. Fundurinn fer fram í húsakynnum NDU í McNair-virki og var haldinn í fimmtánda sinn. Þátttakendur voru þingmenn aðildarríkja og aukaaðildarríkja NATO-þingsins, auk embættismanna og sérfræðinga í alþjóðamálum. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins Þórunn Egilsdóttir formaður og Birgir Ármannsson, auk Stígs Stefánssonar, deildarstjóra alþjóðadeildar.
    Megintilgangur hins árlega fundar er að gera fulltrúum NATO-þingsins kleift að ræða sameiginleg málefni er varða öryggi og varnir Evrópu og Bandaríkjanna við aðila úr bandaríska stjórnkerfinu, fræðasamfélagi, hugveitum og öðrum stofnunum. Fundurinn er iðulega skipulagður á þann hátt að nokkur svið alþjóðamála sem verið hafa í brennidepli á undangengnum missirum eru tekin fyrir, bandarískir sérfræðingar halda framsöguerindi og eiga svo viðræður við NATO-þingmenn.
    Í upphafi fundar var almenn umræða um samstarfið yfir Atlantsála. Framsögu hafði John A. Heffern, sendiherra frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Í umræðunum kom m.a. fram að í kjölfar aukinna hryðjuverkaógna, ekki síst eftir árásirnar í París 13. nóvember, hafi verið aukinn þungi í sameiginlegri baráttu Bandaríkjanna og Evrópu gegn hryðjuverkum. Á leiðtogafundi NATO í Wales í september 2014 voru teknar mikilvægar ákvarðanir um að auka framlög til öryggis- og varnarmála og hafa mörg aðildarríki fylgt því eftir. Þá er mikilvægt að dyr NATO standi opnar þeim ríkjum sem þangað sækja og uppfylla skilyrði um lýðræði, mannréttindi og réttarríki en ákveðið var 2. desember 2015 að bjóða Svartfjallalandi aðild að bandalaginu. Það er fyrsta boð um aðild í sex ár og undirstrikar að bandalagið er opið sem ætti að vera ríkjum sem áhuga hafa á aðild mikilvæg hvatning til umbótastarfs. Þá var fjallað um fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og ESB, TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership), en vonast er til að samningaviðræðum ljúki á árinu 2016. Gangi það eftir mun fullgildingarferli taka við á vakt nýs forseta og ríkisstjórnar í Bandaríkjunum. Lögð var áhersla á gildi TTIP út frá öryggissjónarmiðum en aukin viðskipti binda Bandaríkin og Evrópu enn nánari böndum. Sér í lagi gæti orkusala frá Bandaríkjunum aukið orkuöryggi Evrópu sem reiðir sig um of á gaskaup frá Rússlandi. Nokkrar áhyggjur voru uppi um andstöðu almennings í Evrópu gegn TTIP, sér í lagi í Þýskalandi, og óvissu um afstöðu nýrra stjórnvalda í Bandaríkjanna til TTIP að loknum forsetaskiptum í janúar 2017.
    Þá fór fram umræða um samskiptin við Rússland og átökin í Úkraínu. Framsögu höfðu Kenneth B. Handelman frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og John Herbst frá Atlantshafsráðinu sem áður gegndi stöðu sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu. Í umræðunum var m.a. rætt um viðbrögð NATO við óhefðbundnum hernaði (hybrid warfare) Rússa í Úkraínu og viðbúnað gagnvart rússneskri ógn við bandalagsríki. Vísað var til æfinga í herstjórnarhermum sem vakið hefði alvarlegar spurningar um hvort NATO væri í stakk búið til að verja Eystrasaltsríkin þrjú gegn hefðbundinni hernaðarinnrás frá Rússlandi. Raunverulegur þrýstingur væri á Eystrasaltsríkin frá Rússlandi og var nefnt sem dæmi að nokkrum dögum eftir leiðtogafund NATO í Wales og heimsókn Obama Bandaríkjaforseta til Eistlands í september 2014 hefðu Rússar rænt eistneskum lögreglumanni við landamæri ríkjanna. Fæling væri mikilvægasti þátturinn til þess að forðast átök við Rússa, ekki væri nóg að flytja hersveitir til og halda heræfingar reglubundið heldur þyrfti að auka fasta viðveru hersveita á austurlandamærum bandalagsins. Stefna Rússlands varðandi Úkraínu þar sem austurhluti landsins er á valdi uppreisnarmanna er ekki ný af nálinni heldur hafa svokölluð frosin átök verið í tækjabúri rússneskra stjórnvalda frá endalokum Sovétríkjanna og verið notuð til að viðhalda áhrifum Rússlands á hinu gamla landsvæði Sovétríkjanna. Má nefna frosin átök í Nagorno- Karabak í Armeníu, Transnistríu í Moldóvu og Abkhazía og Suður-Ossetíu í Georgíu sem dæmi. Þá var rætt um tilraunir rússnesku stjórnarinnar til að valda klofningi og óstöðugleika innan og milli ESB-ríkja með fjárhagslegum stuðningi við öfgaflokka í stjórnmálum. Einn fundarmanna hvatti til að sálfræðistríði Pútíns yrði svarað með því að vestrænar leyniþjónustur gerðu opinskátt um bankareikninga æðstu ráðamanna Rússlands á Vesturlöndum svo að rússneskur almenningur gerði sér grein fyrir hvernig leiðtogarnir hefðu auðgast á hans kostnað. Loks var fjallað um veika stöðu Rússlands gagnvart Vesturlöndum að því leyti að Rússland ætti fáa bandamenn, verulega hefði kreppt að efnahagslega á undanförnum mánuðum vegna lágs heimsmarkaðsverðs á olíu og viðskiptaþvingana Vesturlanda vegna átakanna í Úkraínu. Þá væri landið fast í stöðu hráefnisframleiðanda og hefði ekki nýtt tækifærið til nýsköpunar og tæknivæðingar á tímum hás olíuverðs.
    Sérstök umfjöllun var um Daesh/ISIS-hryðjuverkasamtökin og fluttu Shadi Hamid frá Brooking-stofnuninni og Frederic Hof frá Atlantshafsráðinu framsöguræður. Í umræðunum kom m.a. fram að ISIS hefði orðið til við samruna íslamskra vígamanna úr Al-Kaída og álíka samtökum og liðsmönnum Baath-flokks Saddam Husseins í Írak. Með liðsmönnum úr Baath- flokknum kom reynsla af stjórnsýslu og skipulagi sem nýst hefur Daesh/ISIS vel enda er einn munurinn á Deash/ISIS og Al-kaída sá að fyrrnefnd samtök hafa tekið yfirráð á stórum landflæmum. Í raun hefur Deash/ISIS gefið tóninn með að séu landsvæði ekki undir styrkri stjórn munu öfgasamtök fara þar inn, ná völdum og stofna lítil kalíföt sem á endanum eiga að sameinast í ríki allra múslima samkvæmt hugmyndafræði Deash/ISIS. Við arabíska vorið árið 2011 virtist lærdómurinn vera að hægt væri að ná fram friðsamlegum breytingum í þessum heimshluta en árið 2015 virðist málum öfugt farið. Ákveðin þversögn felst í því að flestir erlendir vígamenn Deash/ISIS koma frá Túnis sem að öðru leyti er fyrirmyndarríki arabíska vorsins þar sem tókst að innleiða raunverulegar umbætur. Hvað varðar samkeppni ISIS við aðrar íslamskar stjórnmálahreyfingar sem reynt hafa að komast til valda með lýðræðislegum leiðum, líkt og múslimska bræðralagið í Egyptalandi og víðar, hefur Deash/ISIS lagt áherslu á valdbeitingu og byltingu og sagt ómögulegt að ná markmiðum um íslamskt ríki eftir leiðum lýðræðis.
    Að lokum var umræða um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári og möguleg áhrif þeirra á utanríkisstefnu landsins. Frummælendur voru Stephen J. Wayne frá Georgetown-háskóla og Darrell M. West frá Brooking-stofnuninni. Í umræðunni kom fram að kosningarnar 2016 væru væntanlega síðasta tækifæri repúblíkanaflokksins til þess að vinna forsetaembættið án þess að djúptækar umbætur á flokknum kæmu til og hann næði að höfða til minnihlutahópa. Lýðfræðileg þróun í Bandaríkjunum væri einfaldlega þannig að vænst væri fækkunar í hefðbundnum kjósendahópum flokksins samfara fjölgun í minnihlutahópum sem almennt hafa fylgt demókrataflokknum að málum. Talið er að erfitt verði fyrir repúblíkana að höfða til minnihlutahópa nema róttæk breyting verði á stefnu flokksins í innflytjendamálum. Hvað utanríkisstefnu varðar hefur málflutningur þeirra sem keppa að því að verða forsetaframbjóðendur repúblíkana einkennst af meiri vilja til að beita herstyrk Bandaríkjanna erlendis en núverandi stjórnvöld hafa sýnt. Haukar í frambjóðendahópnum vilja beita herstyrk í auknum mæli til að verja hagsmuni Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi og eru tilbúnir til að hefja aðgerðir í Sýrlandi, svo sem að loka flughelgi landsins. Þá hafa helstu frambjóðendur repúblíkana lagt áherslu á að NATO hafi sterkari herafla í Austur-Evrópu. Hillary Clinton, sem búist er við að verði forsetaframbjóðandi demókrata, hefur að sama skapi lýst sig reiðubúna til að beita herstyrk í auknum mæli og hefur ekki dregið dul á að sem utanríkisráðherra hafi hún lagt til harðari stefnu í málefnum Sýrlands en varð ofan á hjá Obama forseta.

Nefndarfundir.
    Birgir Ármannsson sótti fundi öryggis- og varnarmálanefndar í janúar í Washington og Norfolk og 60 ára afmælisfund NATO-þingsins í París í júlí. Össur Skarphéðinsson sótti nefndarfund efnahagsnefndar í apríl í Washington og Boston og í nóvember í Flórens. Jafnframt sótti Össur nefndarfund Miðjarðarhafshóps NATO-þingsins í Túnis í september. Þá sóttu Þórunn Egilsdóttir og Birgir Ármannsson fund um Atlantshafssamstarfið á vegum NATO-þingsins í Washington í desember.

Alþingi, 26. janúar 2016.

Þórunn Egilsdóttir,
form.
Össur Skarphéðinsson,
varform.
Birgir Ármannsson.



Fylgiskjal.


Yfirlýsingar og ályktanir NATO-þingsins árið 2015.


Vorfundur í Búdapest, 15.–18. maí:.
          Yfirlýsing um stækkunarferli NATO.

Ársfundur í Stavanger, 9.–12. október:
          Ályktun 420 um hvernig takast eigi á við hryðjuverkaógnina.
          Ályktun 421 um hvernig sporna megi við áróðursstefnu og upplýsingafölsun Rússa.
          Ályktun 422 um samstöðu með Úkarínu.
          Ályktun 423 um stuðning við hæfnismarkmið leiðtogafundarins í Wales.
          Ályktun 424 um efnahagsþvinganir gegn Rússlandi.
          Ályktun 425 um framlengt ákall til aðgerða sem stuðla að stöðugleika í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
          Ályktun 426 um aukið öryggi og stöðugleika í gegnum stefnu NATO varðandi samherja og opnun fyrir ný aðildarríki.
          Ályktun 427 um loftslagsbreytingar og alþjóðlegt öryggi.