Ferill 475. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 758  —  475. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál fyrir árið 2015.


1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál (SCPAR) á árinu 2015 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi verið í brennidepli.
    Nefndin lagði að venju ríka áherslu á umhverfismál og horfði sérstaklega til loftslagsbreytinga á svæðinu. Nefndarmenn kynntu sér og ræddu seinna bindi skýrslu um mannlífsþróun á norðurslóðum ( Arctic Human Development Report II) sem kom út í lok árs 2014. Áhersla var m.a. lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum. Í skýrslunni er sjónum beint að mikilvægi þess að skilja þarfir íbúa norðurslóða, menntun, heilbrigði og efnahagsmál.
    Á tveggja ára fresti heldur þingmannanefndin ráðstefnu um norðurskautsmál og var fyrsta þingmannaráðstefnan haldin í Reykjavík árið 1993. Á ráðstefnum þingmannanefndarinnar kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, fræðasamfélögum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðurslóða varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu og var lögð áhersla á það verkefni á árinu.
    Í yfirlýsingu elleftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar (CPAR), sem haldin var í Whitehorse í september 2014, er tilmælum beint til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Einnig var kallað eftir stuðningi við uppbyggingu innviða samfélagsins, eins og flugvalla, hafna og þjóðvega, sem styðja við þróun ferðaþjónustu og efnahagslíf heimamanna auk annarra umhverfisvænnar og sjálfbærrar starfsemi. Þá var hvatt til þess að skoðaðir yrðu möguleikar á frekari bindandi samningum milli norðurskautsþjóðanna. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar lögðu m.a. áherslu á mikilvægi þess að standa þyrfti vörð um rétt íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt, eflingu Norðurskautsráðsins, umhverfismál og öryggis- og björgunarmál á hafi.
    Þá áttu nefndarmenn bréfaskipti við þáverandi formann Norðurskautsráðsins, Leona Aglukkaq, frá Kanada og núverandi formann ráðsins, John Kerry frá Bandaríkjunum. Í bréfinu áréttuðu nefndarmenn helstu áhersluatriði ráðstefnuyfirlýsingar elleftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar frá 2014. Meðal áhersluatriða voru samstarf um sjálfbæra þróun innviða samfélaga á norðurslóðum og mikilvægi þess að auðvelda þátttöku fastafulltrúa ( permanent participants) í Norðurskautsráðinu.
    Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2015 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, áhersluatriði formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og 21. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21) í París. Þá var einnig rætt um opnun nýrra siglingaleiða, öryggismál á sjó og bætt efnahags- og lífsskilyrði á norðurslóðum.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem formlega var sett á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni nefndarinnar eru að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Nokkur samtök frumbyggja og þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í nefndinni með rétt til þátttöku í umræðum, svo sem Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Þá hefur þingmannanefndin á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að eiga frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda. Í því sambandi var þingmannanefndin leiðandi í hugmyndavinnu fyrir ritun skýrslu um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum, Arctic Human Development Report, (AHDR I) sem kom út undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 og seinna bindi skýrslunnar (AHDR II) sem var gefin út seinni hluta árs 2014. Einnig hefur opnun nýrra siglingaleiða, orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem snertu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en starf ráðsins byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það leitt til margvíslegra sameiginlegra verkefna og stofnana. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið íslaust að sumarlagi. Þá færast mörk gróðurlenda æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem verða á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig hækki að jafnaði á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna en annars staðar kólnar þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga.
    Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða til þess að draga úr mengun á norðurslóðum og auka enn á samstarf og skuldbindingar ríkjanna. Á leiðtogafundi Norðurskautsráðsins í Nuuk í maí 2011 var undirritaður fyrsti bindandi samningur aðildarríkjanna um leit og björgun á norðurslóðum (SAR). Samningurinn er sögulegur þar sem um er að ræða fyrsta alþjóðasamninginn milli aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Jafnframt má segja að samningurinn sé fordæmisgefandi og vísir að frekari samningsgerð og nánara samstarfi milli ríkja ráðsins. Talið hefur verið brýnt að bregðast við fyrirsjáanlega aukinni umferð á hafi og í lofti og annarri starfsemi á norðurslóðum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og aukinni hættu á slysum. Í samningnum eru afmörkuð leitar- og björgunarsvæði sem hvert ríkjanna átta bera ábyrgð á og kveðið er á um skuldbindingar þeirra og samstarf við leitar- og björgunaraðgerðir. Þá var á leiðtogafundi ráðsins í Kiruna í Svíþjóð árið 2013 undirritaður samningur milli norðurskautsríkjanna átta um gagnkvæma aðstoð vegna olíumengunar í hafi.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2015 Jón Gunnarsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Bjarnadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Svandís Svavarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Vilhjálmur Bjarnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þórunn Egilsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnu nefndarinnar sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeildin kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og nefndarmenn fá jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar um norðurskautsmál 2015.
    Þingmannanefndin hélt þrjá fundi á árinu. Hér á eftir verður gerð stuttlega grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Washington 13. mars 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru áhersluatriði formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu, norðurslóðastefna Bandaríkjanna, viðhorf Alaska til formennskuáætlunar Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og hlutverk þeirra. Lisa Murkowski, öldungardeildarþingmaður frá Alaska, var gestgjafi fundarins og bauð fundargesti velkomna til Washington. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Robert Papp, aðmíráls og sérstaks sendifulltrúa Bandaríkjanna um málefni norðurslóða sem skipaður var af John Kerry utanríkisráðherra seinni hluta síðasta árs. Hann greindi frá því að drög að formennskuáætlun Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu hafðu verið kynnt í október 2014 á fundi æðstu embættismanna aðildarríkjanna í Yellowknife, Kanada. Síðan þá hafi aðildarríkin komið með tillögur að viðbótum við áætlunina. Jafnframt hefur Papp heimsótt aðildarríkin og hitt stjórnvöld og hagsmunaaðila um málefni norðurslóða og safnað frekari upplýsingum. Í nýjustu drögum áætlunarinnar eru eftirfarandi þrjú meginþemu í forgrunni, öryggismál á sjó, bætt efnahags- og lífsskilyrði á norðurslóðum auk umhverfismála og hvernig takast skuli á við áhrif loftslagsbreytinga. Papp sagðist vilja sjá öflugra Norðurskautsráð í framtíðinni, sterkari og virkari stofnun sem tækist á við þau viðfangsefni sem hún stendur frammi fyrir. Þá vill hann halda áfram því sem hefur verið gert vel en jafnframt gera ráðið framsýnna og djarfara, setja skýr og mælanleg markmið.
    Enn fremur sagði Papp að skipta mætti norðurslóðum í þrennt. Í fyrsta lagi væri það þróaði hlutinn sem hefði búið við opið haf í mörg hundruð ár. Þetta væru m.a. Ísland og Noregur. Þessar þjóðir hefðu ríka reynslu af fiskveiðum, stjórnun, leitar- og björgunarstörfum og fleiru sem fylgdi því að búa við erfiðar aðstæður. Í öðru lagi væri það sá hluti sem tilheyrði Bandaríkjunum (Alaska) og Kanada. Sá hluti hefði þar til nýlega verið umlukinn ís. Þróunarstig þar er ekki jafnhátt og þar eru engir varanlegir innviðir til staðar. Þriðji hlutinn tilheyrði svo Rússlandi og væri að mörgu leyti svipaður þeim bandaríska nema að því leyti að hann opnaðist fyrr og væri í þróun. Þá tók Papp skýrt fram að þó stirt hefði verið milli Bandaríkjanna og Rússlands undanfarið vegna ástandsins í Úkraínu þá hefðu þær deilur ekki áhrif á samstarfið innan Norðurskautsráðsins.
    Næstur tók til máls Craig Fleener, sérstakur ráðgjafi varðandi norðurslóðastefnu í Alaska. Hann kynnti áhersluatriði og sýn íbúa Alaska á formennskuáætlun Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og svaraði spurningum nefndarmanna. Hann áréttaði mikilvægt hlutverk Alaska við stefnumótun um norðurskautsmál í Bandaríkjunum og við undirbúning formennskuáætlunarinnar. Stjórnvöld í Bandaríkjunum ættu að leggja meiri áherslu á Alaska og beina sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu og þörfum þess. Þau áhersluatriði sem brýnast væri að takast á við væru innviðir samfélagsins, fæðuöryggi íbúanna og varðveisla og viðurkenning arftekinnar þekkingar í Alaska. Þá væri mikilvægt að finna leiðir til að gera sjóði og fjármagn aðgengilegra fyrir svæðið. Jafnframt væru orkumálin afar erfið í Alaska og finna þyrfti lausn á þeim mikla kostnaði sem hamlaði íbúum og skerti lífsgæði þeirra. Íbúar Alaska væru opnir fyrir nýjum tækifærum varðandi viðskipti og atvinnurekstur og orkumálin væru þar í brennidepli. Að lokum ræddi Fleener um fólksflótta af svæðinu og lýsti yfir áhyggjum af þeirri þróun að menntað fólk snéri ekki til baka til heimabyggða eftir að hafa lokið námi í öðrum ríkjum og stærri borgum. Ástæða þess væri fyrst og fremst hár framfærslukostnaður og það bæri að skoða sérstaklega og leita lausna.
    Næsta mál á dagskrá var kynning á starfsemi Skrifstofu um ábyrgð ríkisstjórna ( The Governmental Accountability Offices (GAO)) í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Rússlandi og Bandaríkjunum. Skrifstofurnar hafa unnið skýrslur um það hvernig starfsemi Norðurskautsráðsins er skipulögð í viðkomandi aðildarríkjum og með hvaða hætti ákvörðunum ráðsins er framfylgt auk ábendinga um skilvirkari leiðir til að framfylgja þeim. Skrifstofur Finnlands og Kanada voru áheyrnaraðilar að þessu verkefni.
    Þá ávörpuðu nefndarmenn í bréfi núverandi formann Norðurskautsráðsins, Leona Aglukkaq, frá Kanada og verðandi formann ráðsins, John Kerry frá Bandaríkjunum. Í bréfinu áréttuðu nefndarmenn helstu áhersluatriði ráðstefnuyfirlýsingar elleftu ráðstefnu þingmannanefndar um norðurskautsmál sem haldin var í Whitehorse 9.–11. september 2014. Samstarf um sjálfbæra þróun innviða á norðurslóðum og mikilvægi þess að auðvelda þátttöku fastafulltrúa (permanent participants) í Norðurskautsráðinu voru á meðal áhersluatriða.
    Að lokum var starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar rædd. Formaður Vestnorræna ráðsins, Bill Justinussen frá Færeyjum, sagði ráðið sjá möguleika á auknu svæðisbundnu samstarfi í efnahagsmálum milli Vestur-Norðurlanda og norðurskautsvæðisins. Hann sagði Vestnorræna ráðið vera að vinna að tillögum þess efnis sem kynntar verða á 30 ára afmælisársfundi ráðsins í ágúst 2015. Þá greindi Justinussen frá því að síðar í mánuðinum mundi Vestnorræna ráðið eiga fund í Evrópuþinginu til að ræða bann Evrópusambandsins við sölu á selaafurðum og áhrif þess á afkomu inúíta, þrátt fyrir undanþágu fyrir afurð þeirra. Á þeim fundi mundi Vestnorræna ráðið vísa til ráðstefnuyfirlýsingar CPAR frá Whitehorse árið 2014 þar sem réttur íbúa norðurslóða til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt er áréttaður. Jafnframt var Guy Lindström, ritara finnsku landsdeildarinnar um árabil og fyrrum framkvæmdastjóra þingmannanefndarinnar, þakkað fyrir störf í þágu nefndarinnar en hann lét af störfum vegna aldurs. Lindström starfaði með nefndinni frá upphafi og býr yfir ómetanlegri reynslu og þekkingu á málefnum hennar.
    Þá greindi Líneik Anna Sævarsdóttir frá skipulagningu fjórðu ráðstefnu þingmanna hinnar norðlægu víddar sem haldin yrði í Hörpu 10.–11. maí 2015 og bauð nefndarmenn velkomna til þátttöku. Þingmannaráðstefna um norðlægu vídd er haldin annað hvert ár af Evrópuþinginu og þjóðþingum Rússlands, Noregs og Íslands til skiptis. Fyrsti fundurinn var haldinn af Evrópuþinginu í Brussel árið 2009 og samstarfið því frekar ungt að árum. Þingmannafundurinn var ekki hugsaður sem ný stofnun heldur sem vettvangur fyrir þingmenn til að hittast og ræða hina norðlægu vídd og þróa hana enn frekar, m.a. með því að leggja aukna áherslu á orkumál, loftslagsbreytingar og norðurskautssvæðið. Meginþemu ráðstefnunnar í Reykjavík yrðu ógnir og tækifæri fyrir umhverfisvæna orku, sjálfbær nýting sjávarspendýra á norðurslóðum og félags- og jafnréttismál. Nefndarmönnum voru sendar upplýsingar varðandi ráðstefnuna og drög að dagskrá.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Reykjavík 12. maí 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sóttu fundinn Jón Gunnarsson formaður og Líneik Anna Sævarsdóttir varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru niðurstöður ráðherrafundar Norðurskautsráðsins í Iqaluit 24. apríl 2015, áhersluatriði norðurslóðastefnu Íslands og kynning á seinna bindi skýrslu um mannlífsþróun á norðurslóðum (AHDR II). Jón Gunnarsson var gestgjafi fundarins og bauð fundargesti velkomna til Reykjavíkur. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Stefáns Hauks Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, á stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og helstu niðurstöður ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem haldinn var í Iqaluit 24. apríl 2015 Stefán sagði helstu áhersluatriði ráðherrafundarins hafa verið áætlun til að koma í veg fyrir olíumengun, 21. loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París og rammi til að draga úr losun kolefnis og metans. Þá hafi formennskuáætlun Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu verið í brennidepli með þrjú meginþemu: Umhverfismál og viðbrögð við áhrifum loftslagsbreytinga, bætt efnahags- og lífsskilyrði á norðurslóðum og stjórnun Norður-Íshafsins. Bandaríkin leggja jafnframt áherslu á að auka eftirlit með súrnun sjávar og byggja m.a. á niðurstöðum og ráðleggingum skýrslu AMAP-vinnuhópsins um súrnun hafsvæða Norður-Íshafsins (Arctic Ocean Acidification) sem kynnt var á ráðherrafundinum í Kiruna árið 2013. Þá leggja Bandaríkin áherslu á mikilvægi þeirra tveggja lagalega bindandi samninga sem Norðurskautsráðið hefur gert. Annars vegar samninginn um eflingu leitar og björgunar á norðurslóðum, sem skrifað var undir árið 2011, og hins vegar samninginn um samvinnu ríkjanna til þess að bregðast við mengunarslysum. Ekki síst í ljósi breytinga á lífríki norðursins vegna loftslagsbreytinga sem m.a. hafa leitt til stóraukinnar ferðamennsku á norðurskautssvæðinu.          Þá kynnti Stefán helstu áhersluatriði stefnu Íslands frá árinu 2011 í málefnum norðurslóða sem samþykkt var samhljóða á Alþingi. Stefnan miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins. Stefnan felur m.a. í sér að efla Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða, tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins og byggja á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna á svæðinu. Þá er lögð áhersla á að auka samstarf við Færeyjar og Grænland með það fyrir augum að efla hag og pólitískt vægi landanna þriggja og styðja réttindi frumbyggja í samstarfi við samtök þeirra og styðja beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins. Árið 2013 var sett á fót ráðherranefnd um málefni norðurslóða í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar í því skyni að horfa heildstætt á þróunina norðurslóðum. Jafnframt var unnið að ítarlegri skýrslu um norðurslóðir til útgáfu í október 2015. Þá hefur Ísland gert fríverslunarsamning við Færeyjar og á í viðræðum við Grænland um svipaðan samning.
    Eirik Sivertsen, formaður þingmannanefndar, tók þátt í ráðherrafundinum í Iqaluit fyrir hönd nefndarinnar. Í máli hans kom fram að þar hefði verið lögð áhersla á áframhaldandi samstarf á norðurslóðum þrátt fyrir ágreining á öðrum sviðum auk þess sem áherslur formennsku Bandaríkjanna á loftslagbreytingar og áhrif þeirra hafi verið í brennidepli. Þá hafi ekki enn verið fundin lausn á umsókn Evrópusambandsins sem áheyrnarríki Norðurskautsráðsins.
    Næst á dagskrá fundarins var kynning Huga Ólafssonar, formanns vinnuhóps Norðurskautsráðsins um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum (PAME), á verndun umhverfis sjávar og verkefni vinnuhópsins. Hann benti nefndarmönnum á að 70% af skilgreindu svæði norðurslóða væri hafsvæði og sú mikla hopun hafíss sem ætti sér stað gæti leitt til íslausra svæða á sjó að sumri til fyrir miðja öldina. Þá sagði hann aukna nýtingu auðlinda og auknar siglingar, auk vaxandi viðskipta, kalla á frekari samræmingar og mat á þróuninni. Verkefnið Arctic Marine Shipping Assessment frá 2009 hefur verið mikilvægt í starfi PAME en það felur í sér að fylgja eftir 17 tillögum að meðtöldum málefnum eins og að auka öryggi á sjó, verndun umhverfis og fólks og uppbyggingu siglinga á svæðinu.
    Næstur tók til máls Dr. Níels Einarsson, forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, og kynnti seinna bindi skýrslu um mannlífsþróun á norðurslóðum sem kom út í lok árs 2014. Hann sagði skýrsluna vera hugsaða sem handbók um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum og þakkaði þingmannanefndinni fyrir að hafa sýnt frumkvæði að því að hrinda gerð fyrra bindis af stað árið 2014 og fyrir stuðning á síðari stigum við gerð seinna bindisins. Hann áréttaði í máli sínu að nauðsynlegt væri fyrir þá sem kæmu að málefnum norðurslóða að kynna sér vel menningu og líf fólksins á svæðinu. Hann sagði skýrsluna fræðilega uppfærslu af fyrra bindinu, lausa við alla pólitík og benda á breytingar og tilhneigingar varðandi þróun á svæðinu. Komist hefði jafnvægi á íbúafjölda á norðurslóðum en um fjórar milljónir manna væru þar búsettar. Í skýrslunni væri lögð áherslu á að skilja þarfir íbúa norðurslóða, menntun, heilbrigði og efnahagsmál.
    Jón Gunnarsson tók til máls og lagði áherslu á mikilvægi þess að íbúar norðurslóða hefðu tækifæri til að nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og að viðskiptamarkaðir væru opnir fyrir vörur þeirra. Það hefði sýnt sig að ef lokað væri á þá möguleika heimamanna gæti það haft skaðlegar afleiðingar á samfélagið í heild sinni.
    Næst á dagskrá var kynning Belindu Theriault, framkvæmdastjóra Fulbright á Íslandi, á norðurslóðaverkefni Fulbright. Í tengslum við formennskuáætlun Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu var tekin ákvörðun um aukna áherslu á norðurslóðir og var nýtt verkefni sett á stofn: Fulbright Arctic Initiative. Þar munu 17 vísindamenn frá öllum ríkjum Norðurskautsráðsins vinna saman undir hatti Fulbright að rannsóknum sem ná yfir þrjú megin þemu: Orku, vatn og innviði/heilsu. Verkefnið stendur í 18 mánuði og mun hópurinn leggja fram tillögur í október 2016. Til viðbótar eru sumar Fulbright-stofnanir með eigin Norðurskautsverkefni. Fulbright-stofnunin á Íslandi hefur gert samning við utanríkisráðuneytið um þriggja ára tilraunaverkefni sem styður ályktun Alþingis um stefnu í Norðurskautsmálum. Ráðuneytið greiðir styrk til að fjármagna komu bandarísks fræðimanns til kennslu og rannsóknarstarfa á Íslandi í eina önn á ári. Fyrsti styrkþeginn kom haustið 2015. Fulbright-stofnunin á Íslandi hefur jafnframt gert samning við National Science Foundation (NSF), fyrst allra Fulbright- stofnana í heiminum. Sá samningur er einmitt á sviði Norðurskautsfræða. Um er að ræða þriggja ára tilraunaverkefni upp á 550.000 bandaríkjadali sem NSF fjármagnar.
    Að lokum var starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar rædd. Líneik Anna Sævarsdóttir þakkaði nefndarmönnum fyrir þátttöku á fundinum og fjórðu ráðstefnu þingmanna hinnar Norðlægu víddar sem haldin var í Hörpu 10.–11. maí 2015. Hún lagði áherslu á mikilvægi aukins samstarfs á norðurslóðum og fagnaði samhljóma samþykkt yfirlýsinguar ráðstefnunnar. Þá tilkynnti rússneska landsdeildin að Rússar mundu halda tólftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar í Uland-Ude nálægt Baikal-vatni í lok ágúst eða byrjun september 2016.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Strassborg 16.–17. desember 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar um norðurskautsmál sótti fundinn Líneik Anna Sævarsdóttir varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning tólftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin verður í Rússlandi 14.–17. júní 2016, kynning á Háskóla norðurslóða og Efnahagsráði norðurslóða. Formaður þingmannanefndarinnar, Eirik Sivertsen frá Noregi, stýrði fundinum.
    Fyrsta mál á dagskrá var kynning Jørn Dohrmann, þingmanns á Evrópuþinginu, á norðurslóðastefnu Evrópusambandsins (ESB). Dohrmann greindi frá því að þrjú aðildarríki ESB væru norðurskautsríki og að ESB mundi kynna endurskoðaða norðurslóðastefnu í byrjun árs 2016. Dohrman lagði áherslu á mikilvægi þess að þróa viðskipti og iðnað á norðurslóðum í samvinnu við íbúa svæðisins.
    Þá kynnti Lars Kullerud hjá Háskóla norðurslóða, starfsemi háskólans. Háskóli norðurslóða er samstarfsvettvangur háskóla, menntaskóla, rannsóknastofnana og annarra stofnana er láta sig menntun og rannsóknir á norðurslóðum varða. Í máli hans kom fram að markmið háskólans sé að byggja upp og styrkja sameiginlegar rannsóknir sem gera stofnunum betur kleift að þjóna landsvæðum sínum á norðurslóðum. Í gegnum samstarf um menntun og rannsóknir stefnir háskólinn að því að bæta stöðu íbúa svæðisins, efla hagkvæmni samfélaga og sjálfbærni efnahagslífs og ryðja leið fyrir hnattræna samvinnu. Þingmannanefnd um norðurskautsmál hefur átt náið samstarf við Háskóla norðurslóða frá stofnun hans árið 2001 og hefur stutt við starfsemi hans og þróun og það markmið að færa fólk og stofnanir nær hvert öðru þvert á landamæri á norðurslóðum.
    Næsta mál á dagskrá var kynning Erling Kvadsheim, forstjóra norsku olíu- og gas- samtakanna og fulltrúa Noregs í Efnahagsráði norðurslóða ( The Arctic Economic Council (AEC)) á starfsemi ráðsins. Efnahagsráð norðurslóða var stofnað árið 2014 og var það liður í formennskuáætlun Kanada fyrir árin 2013–2015 í Norðurskautsráðinu en Ísland, Finnland, Rússland og formennskuríkið leiddu vinnuna innan ráðsins. Stjórnvöld og viðskiptalífið unnu í sameiningu að undirbúningi að stofnun ráðsins. Efnahagsráð norðurslóða er sjálfstæður vettvangur með það meginmarkmið að stuðla að sjálfbærri og ábyrgri þróun, efnahagsvexti og samfélagsþróun á norðurslóðum og stöðugu, fyrirsjáanlegu og gagnsæju viðskiptaumhverfi. Einnig greindi Kvadsheim frá því að í september 2015 hafi skrifstofa ráðsins verið formlega opnuð í Tromsø.
         Þá kynnti rússneski þingmaðurinn Michael Slipenchuk framgang mála við skipulagningu tólftu ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem haldin verður í Uland-Ude nálægt Baikal-vatni 14.–17. júní 2016. Rætt var um fyrstu drög að dagskrá ráðstefnunnar og fyrirhuguð þrjú þemu hennar sem eru samstarf á norðurslóðum í ljósi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, áhrif breytinga á norðurslóðum á íbúa svæðisins, og ný tækifæri á norðurslóðum. Nefndarmenn samþykktu þemun þrjú en auk þess verður á ráðstefnunni tími gefinn til opinnar umræðu. Hugsunin að baki þessum þremur meginefnum er að hafa tiltölulega opnar yfirskriftir/fyrirsagnir á þremur mikilvægum sviðum samstarfs á norðurslóðum, þ.e. umhverfis- og íbúamálum og efnahagslegum tækifærum. Þá munu nefndarmenn skoða það að bæta inn í opnunardagskrá ráðstefnunnar sérstöku erindi í tengslum við 20 ára afmæli Norðurskautsráðsins árið 2016. Tekin var ákvörðun um að velja skýrsluhöfunda úr hópi þingmanna landsdeildar fyrir þemun þrjú á næsta fundi þingmannanefndarinnar ásamt því að ræða fyrstu drög að ráðstefnuyfirlýsingu. Hlutverk skýrsluhöfunda er að undirbúa skriflega skýrslu um viðkomandi efni og kynna hana fyrir ráðstefnugestum með tillögu að drögum að yfirlýsingu ráðstefnunnar.
    Að lokum var starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar rædd. Líneik Anna Sævarsdóttir vakti athygli nefndarmanna á mikilvægu stafi vinnuhóps Norðurskautsráðsins um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum ( PAME), sem starfrækt er á Akureyri. Vinnuhópurinn gaf m.a. út skýrslu ( The Arctic Marine Tourism Project (AMTP)) í apríl 2015 þar sem ferðaþjónusta á norðurslóðum er rannsökuð og lagðar til leiðir að sjálfbærri ferðaþjónustu á svæðinu ( best practice document) með áherslu á öryggi og umhverfisvernd á sjó í ljósi aukinna siglinga skemmtiferðaskipa á svæðinu. Í framhaldinu sagði Líneik frá þróun ferðaþjónustunnar á Íslandi undanfarið og auknum fjölda ferðamanna sem heimsækti landið árlega. Hún sagði að eins og annars staðar á norðurslóðum væru bæir á Íslandi víða fámennir og því væri ein af áskorunum ferðaþjónustunnar að auk fjölda viðkomustaða þeirra sem heimsæktu landið svo álag á einstaka staði yrði ekki óhóflegt. Þá greindi hún frá því að samkvæmt skoðanakönnunum heimsæktu um 80% ferðamanna landið vegna náttúrunnar og því þyrfti að hlúa sérstaklega að henni með sjálfbærni að leiðarljósi. Enn fremur greindi Líneik frá árlegri ráðstefnu um framtíð Norðurslóða, Arctic Circle, sem haldin var 16.–18. október 2015 í Reykjavík. Rúmlega 1.800 gestir frá yfir 50 þjóðlöndum hefðu sótt ráðstefnuna þetta árið en þetta hefði verið þriðja skipti sem hún var haldin á Íslandi og hefðu dagsetningar fyrir ráðstefnuna næstu tvö árin verið staðfestar í Hörpu í Reykjavík. Markmið ráðstefnunnar væri að auka þátttöku í umræðum um málefni norðurslóða og styrkja alþjóðlegan fókus á framtíð svæðisins. Að lokum sagði Líneik frá þátttöku sendinefndar frá Alþingi á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París 30. nóvember – 11. desember 2015 en megináhersla sendinefndarinnar var á málefni Norðurlandanna og norðurslóða.
         Jafnframt tilkynnti formaður nefndarmönnum að Dennis Bevington, varaformaður nefndarinnar frá Kanada, hefði ekki náð endurkjöri í þingkosningunum í Kanada í október 2015 og því þyrfti nefndin að kjósa nýjan varaformann. Öldungardeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski hefur sýnt embættinu áhuga en hún hefur þó tilkynnt um takmarkaða möguleika sína á því að sækja fundi þingmannanefndar sem haldnir eru utan Bandaríkjanna fyrir kosningarnar í nóvember 2016. Hún sagðist sjá sér fært að sækja og eiga frumkvæði að fundum um málefni norðurslóða í Bandaríkjunum á meðan Bandaríkin færu með formennsku í Norðurskautsráðinu. Murkowski hefur verið fulltrúi í þingmannanefndar síðan hún var kosin á þing árið 2002. Nefndarmenn tóku ákvörðun um að kjósa nýjan varaformann á næsta fundi nefndarinnar sem haldinn verður í Stokkhólmi 3.–4. mars 2016.

Alþingi, 26. janúar 2016.

Jón Gunnarsson,
form.
Líneik Anna Sævarsdóttir,
varaform.
Valgerður Bjarnadóttir.