Ferill 476. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 759  —  476. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2015


1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum, sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2015, eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins sem eru að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna málefni innflytjenda og flóttamanna sem voru mjög til umræðu á haustþingi IPU. Lögð var áhersla á mikilvægi siðferðilegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn. Áhersla var m.a. lögð á stuðning við flóttamenn frá Sýrlandi og nágrannaríkin sem taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna frá landinu. Jafnframt var ályktað um hlutverk IPU, þjóðþinga, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn vegna stríðsástands, innanlandsátaka og félagslegra aðstæðna, samkvæmt meginreglum alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og siðareglna. Haft var að markmiði að virkja þjóðþing og alþjóðastofnanir til að tryggja vernd og stuðning við flóttamenn í heiminum.
    Þá var rætt og ályktað um lýðræði í stafrænum heimi og ógnir gegn friðhelgi einkalífs. Birgitta Jónsdóttir var annar tveggja höfunda ályktunarinnar, fyrst íslenskra þingmanna til að fá ályktun samþykkta hjá IPU. Í ályktuninni sem var samþykkt einróma á haustþinginu er m.a. lögð áhersla á að öll löggjöf á sviði eftirlits, friðhelgis einkalífs og persónulegra gagna verði að byggjast á meginreglum lögmætis, gagnsæis, meðalhófs, nauðsynjar og réttarríkis og þjóðþing hvött til að gaumgæfa landslög og verklag ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana sem starfa í umboði þeirra til að tryggja að þær virði alþjóðalög og mannréttindi, einkum varðandi rétt til friðhelgi einkalífsins, og skorað á þjóðþing að tryggja, með þessari endurskoðun, að opinber fyrirtæki og einkafyrirtæki verði ekki neydd til að vinna með stjórnvöldum að aðgerðum sem skerða mannréttindi viðskiptavina þeirra, með þeim undanþágum sem kveðið er á um í alþjóðlegum mannréttindalögum.
    Einnig fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að berjast gegn hryðjuverkum sem eru framin af hryðjuverkasamtökum eins og Daesh/ISIS og Boko Haram gegn almennum borgurum, sérstaklega konum og stúlkum. Í umræðum um neyðarályktunina var lögð áhersla á að ekki beri að tengja hryðjuverkastarfsemi við trúarbrögð, þjóðerni eða þjóðfélagshópa. Þá beri að líta svo á að hvers kyns hryðjuverk séu glæpir og að þau séu alltaf óréttlætanleg, sama hver ástæðan og fremjandinn sé.
    Á vorþingi IPU var fjallað um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem fulltrúar Alþingis lögðu m.a. áherslu á menntun og jafnrétti kynjanna sem forsendu farsællar innleiðingar og framkvæmdar markmiðanna. Þeir sögðu að leggja þurfi ríka áherslu á hvernig tryggja megi framgang nýju markmiðanna með ábyrgð stjórnvalda að leiðarljósi og áherslu á hinn mannlega þátt þeirra. Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2015 má nefna vígbúnað á internetinu, hvernig tryggja megi vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns, alþjóðalög í tengslum við fullveldi ríkja og íhlutunarleysi um innanlandsmál.
    Þá ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2015 má nefna tveggja daga fund sem haldinn var í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem var haldin í París og svæðisbundna málstofu um ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir þjóðþing í Austur-Evrópu. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í mismunandi málaflokkum. Á árinu 2015 voru m.a. gefinar út skýrslur um hjálparstarf og meðferðir við HIV-veirunni.

2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 167 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga tíu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, að vori sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins og að hausti sem er haldið í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir því um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
     1.      nefnd um friðar- og öryggismál,
     2.      nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
     3.      nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
     4.      nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2015 Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Pírata. Varamenn voru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokki Pírata, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu 2015, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.
    Birgitta Jónsdóttir var skipuð á haustþingi IPU í október 2014 sem höfundur ályktunar í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi. Yfirskrift ályktunarinnar er Lýðræði á tímum internets: ógnir við friðhelgi og einstaklingsfrelsi. Undirbúningur við vinnu ályktunarinnar hófst á vormánuðum 2015 og var hún lögð fram til umræðu og samþykktar á haustþingi 2015.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Starfsemi Íslandsdeildar var með hefðbundnum hætti á árinu 2015. Íslandsdeildin var venju samkvæmt virk í starfi IPU á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Danmörk formennsku á árinu. Báðir fundirnir voru haldnir í Kaupmannahöfn, í mars og í september 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar, síðari samráðsfund ársins. Fundurinn var haldinn til undirbúnings þátttöku í 133. þingi IPU sem haldið var í Genf 18.–21. október. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundunum.
    Síðari norræni samráðsfundurinn fór fram 28. september í Kaupmannahöfn og var fyrsta mál á dagskrá umræða um niðurstöður vorþings IPU í Hanoi í apríl, ráðstefnu ungra þingmanna í Tókýó í maí og alheimsráðstefnu þingforseta sem haldin var í New York fyrr í mánuðinum. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að norrænu ríkin ættu fulltrúa á fundum ungra þingmanna hjá IPU en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum missirum. Ásmundur Einar Daðason hefur tekið þátt í þeim fundum fyrir hönd Íslandsdeildar.
    Næsta mál á dagskrá var kynning Dr. Hans Lucht, sérfræðings hjá Alþjóðamálastofnun Danmerkur. Hann ræddi um málefni flóttamanna í tengslum við þema almennrar umræðu á 133. þingi IPU sem bar yfirskriftina: Mikilvægi siðferðilegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari, skynsamlegri og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn. Luch sagði að í málefnum innflytjenda og flóttamanna undanfarin ár hefði þróunin verið sú að vandinn hefði aukist ár hvert með vaxandi fjölda og aðstöðuleysi. Nú væri landamæraeftirlit aftur orðið strangara og ólöglegir innflytjendur víða í hrakningum. Hann sagði mikilvægt að leggja meira fé til málaflokksins strax því annars væri hætta á því að kostnaðurinn yrði þeim mun meiri þegar fram í sækti. Hjálpa þyrfti nágrannaríkjum þeirra landa sem mestur flóttamannastraumur væri frá til að bæta þær flóttamannabúðir sem nú þegar væru til staðar. Mikilvægt væri að koma upp þannig aðstöðu að íbúar búðanna gætu verið þar í lengri tíma, allt að fimm ár. Þar þyfti að bjóða upp á menntun og aðra þjónustu sem nauðsynleg teldist til að lifa mannsæmandi lífi. Þá væri mikilvægt að komast fyrir rætur vandans er lyti að fátækt, lýðfræði og þróun og beina sérstaklega sjónum að ríkjum á borð við Sýrland, Afganistan, Írak og Erítreu. Um tvær milljónir flóttamanna væru um þessar mundir í Tyrklandi og því brýnt að ríki Evrópu aðstoðuðu tyrknesk yfirvöld við að takast á við þennan mikla fjölda og þau brýnu úrlausnarmál sem honum fylgdu.
    Þá kynnti sænski þingmaðurinn Krister Örnfjäder það sem helst var til umræðu á fundi undirnefndar um fjármál IPU þar sem hann gegnir formennsku. Hann sagði fjármál IPU hafa verið eitt aðalumræðuefni stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins síðastliðin ár með áherslu á niðurskurð. Velt hefði verið upp ýmsum möguleikum til að lækka árgjald þeirra ríkja sem greiða hlutfallslega mest og lausn virtist vera í sjónmáli. Málið yrði rætt frekar á fundum framkvæmdastjórnar IPU í Genf í tengslum við haustþingið og reynt að finna ásættanlega lausn. Örnfjäder sagði að skoðaðir hefðu verið ýmsir möguleikar til að minnka kostnað við rekstur sambandsins og yrðu þeir kynntir fyrir framkvæmdastjórn IPU í Genf. Nefndarmenn lögðu áherslu á að með niðurskurði fjármagns til IPU yrði sambandið að takmarka starfsemi sína við meginforgangsverkefni sem skilgreind eru í stefnumörkun sambandsins fyrir árin 2012–2017.
    Þá var rætt um lausar stöður fyrir fulltrúa Tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU. Anti Avsan, varaformaður sænsku landsdeildar IPU, hefur gefið kost á sér sem formaður nefndar um málefni Sameinuðu þjóðanna hjá IPU en hún er ein af fjórum fastanefndum sambandsins. Krister Örnfjäder, formaður sænsku landsdeildar IPU, tilkynnti nefndarmönnum í framhaldinu að hann hygðist ekki bjóða sig fram í lausa stöðu Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU þar sem reglur IPU leyfðu ekki að tveir fulltrúar frá sama landi gegndu ábyrgðarstöðum í fastanefndum og framkvæmdastjórn á sama tíma. Örnfjäder mun þó áfram gegna formennsku undirnefndar um fjármál IPU. Kallað var eftir nýjum norrænum fulltrúa sem væri tilbúinn til að bjóða sig fram sem einn fjögurra fulltrúa Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og var Jutta Urpilainen, formaður finnsku landsdeildarinnar, tilbúinn til að skoða það framboð.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi, hvernig tryggja megi varanlega verndun gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns og hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja samstarf á heimsvísu gegn ógn við lýðræði og mannréttindi. Ákveðið var að árlegur kvennafundur yrði haldinn 17. og 20. október 2015 þar sem m.a. verður rætt um flóttamenn og konur, ályktun öryggisráðs Sameinuðuð þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og framlag kvenna til starfsemi IPU.
    Ragnheiður Ríkharðsdóttir vakti athygli nefndarmanna á ályktun 3. nefndar um lýðræði og mannréttindi sem bar yfirskriftina: Lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi. Birgitta Jónsdóttir var skipuð annar tveggja ályktunarhöfunda ásamt suður-kóreska þingmanninum Ha-Jin Jhun. Ragnheiður óskaði eftir stuðningi nefndarmanna við ályktunina og hvatti þá til að senda athugasemdir eða spurningar ef einhverjar væru til ritara Íslandsdeildar eða Birgittu. Nefndarmenn voru jákvæðir gagnvart ályktuninni og sammála um mikilvægi efnis hennar.
    Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til undirbúnings fyrir vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt, þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborgum viðkomandi formennskuríkis. Þá var jafnframt ákveðið að halda næsta norræna undirbúningsfund í Helsinki í mars 2016 til undirbúnings fyrir 134. vorþing IPU sem haldið verður í Lusaka, Sambíu 19.–23. mars 2016.
    
132. þing IPU í Hanio 28. mars – 1. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, og Birgitta Jónsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru hvernig stuðla mætti að nýju kerfi varðandi stjórnun vatns í heiminum, alþjóðalög í tengslum við fullveldi ríkja, íhlutunarleysi um innanlandsmál og mannréttindi og friðhelgi einkalífs á 21. öldinni og lýðræði framtíðar. Þá fór fram almenn umræða um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun auk þess sem haldinn var fundur þingkvenna. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um hlutverk þjóðþinga við að berjast gegn hryðjuverkum sem eru framin af hryðjuverkasamtökum eins og Daesh og Boko Haram gegn almennum borgurum, sérstaklega konum og stúlkum. Um 1.400 þátttakendur sóttu þingið, þar af 678 þingmenn frá 128 ríkjum og 45 þingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Formaður hópsins, Philippe Mahoux frá Belgíu, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU kynntu helstu niðurstöður funda stjórnarinnar sem haldnir voru 26. og 27. mars 2015 og fundar stjórnarnefndar Tólfplús- hópsins sem haldinn var í Brussel 2. mars.
    Við setningu 132. þings IPU flutti forseti Víetnams, Truong Tan Sang, ávarp. Hann bauð þátttakendur velkomna til Víetnam og lofaði IPU fyrir jákvætt framlag sitt til aukins friðar, samvinnu, þróunar, lýðræðis og mannréttinda. Hann sagði heiminn í dag ganga í gegnum djúpstæðar og óútreiknanlegar breytingar. Aukinn óstöðugleiki, trúarleg og lýðfræðileg átök, deilur um landsvæði og náttúruauðlindir, vígbúnaðarkapphlaup og vandamál tengd loftslagsbreytingum og farsóttum væru raunveruleg áhyggjuefni. Þá sagðist hann vonast til að 132. þing IPU gæti kallað fram aðgerðir og breytingar þar sem hugmyndir og ályktanir yrðu að veruleika og hlutverk þjóðþinga eflt. Forseti IPU, Chowdhury frá Bangladess, ávarpaði þingið og kynnti dagskrá þess. Hann lýsti yfir ánægju með val á þema þingsins fyrir almenna umræðu sem hann sagði bæði tímabæra og mikilvæga. Þá vonast hann til þess að niðurstöður yfirlýsingar þingsins yrðu nýttar hjá Sameinuðu þjóðunum við innleiðingu þróunarmarkmiðanna.
    Níu tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins og fjölluðu fimm þeirra um ógnina sem stafar af aðgerðum hryðjuverkasamtaka. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Fyrir valinu varð tillaga um hlutverk þjóðþinga við að berjast gegn hryðjuverkum sem eru framin af hryðjuverkasamtökum eins og Daesh og Boko Haram gegn almennum borgurum, sérstaklega konum og stúlkum. Í ályktun þingsins var lýst yfir alvarlegum áhyggjum af áframhaldandi ógn við öryggi og frið alþjóðasamfélagsins sem stafar frá hryðjuverkasamtökum. Þá var lögð áhersla á að ofbeldisverknaðir hryðjverkasamtaka beindust gegn almennum borgurum, sérstaklega konum, börnum og öldruðum. Ítrekað var að ekki bæri að tengja hryðjuverkastarfsemi við trúarbrögð, þjóðerni eða þjóðfélagshópa. Þá bæri að líta svo á að hvers kyns hryðjuverk væru glæpir og að þau væru alltaf óréttlætanleg, sama hver ástæðan og fremjandinn væri. Þá var ítrekuð krafa um að þeir sem fremdu, skipuðu fyrir um, fjármögnuðu eða styddu hryðjverkastarfsemi yrðu dregnir fyrir dóm. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum undir yfirskriftinni Ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun – frá orði til framkvæmdar. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þátt í umræðunni fyrir hönd Íslandsdeildar og lagði í ræðu sinni áherslu á menntun og jafnrétti kynjanna sem forsendu farsællar innleiðingar og framkvæmdar markmiðanna. Þá sagði hún ljóst að ekki væri nægjanlegt að þingmenn og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna flyttu metnaðarfullar ræður á viðhafnarstundum ef þær væru ekki í takt við ríkjandi viðhorf í samfélaginu. Til að mögulegt sé að koma markmiðunum í framkvæmd þurfi raunveruleg hugarfarsbreyting að eiga sér stað og hún hefjist inni á heimilunum, hjá börnunum okkar og ungmennum. Fræða þurfi bæði syni og dætur jafnt innan veggja heimilisins sem og í skólum. Ræða þurfi jafnréttismál opinskátt og fjalla um málaflokkinn á opinberum vettvangi. Aðeins þannig verði varanlegum árangri náð í átt til aukins jafnréttis og velsældar. Jafnframt lagði Ragnheiður áherslu á nauðsyn þess að mannréttindi og þarfir fólks verði í fyrirrúmi við framkvæmd og útfærslu markmiðanna. Leggja þurfi ríka áherslu á hvernig tryggja megi framgang nýju markmiðanna með ábyrgð stjórnvalda að leiðarljósi og áherslu á hinn mannlega þátt þeirra. Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið yfirlýsingu (Hanoi Declaration) þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman.
    Fastanefndirnar tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var ályktun um vígbúnað á internetinu (cyberwar) rædd og samþykkt. Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum nefndarinnar og gagnrýndi frummælendur harðlega fyrir að gera ekki greinarmun á njósnum og uppljóstrun í samhengi við Edward Snowden. Einnig var tekin ákvörðun um að umræðuefni nefndarinnar á næsta ári yrði hryðjuverkastarfsemi. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, fór fram umræða og samþykkt var ályktun um nýjar leiðir að bættu kerfi við stjórnun vatns. Þá var tekin ákvörðun um að umræðuefni næsta árs yrði hvernig tryggja megi varanlega verndun gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns.
    Birgitta Jónsdóttir tók þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, og fór fram sérstök umræða um tillögu hennar að ályktun sem samþykkt var á haustþingi IPU í Genf 2014 undir yfirskriftinni: Lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi. Birgitta var skipuð annar tveggja skýrsluhöfunda ásamt suður-kóreska þingmanninum Ha-Jin Jhun. Birgitta kynnti tillöguna fyrir nefndarmönnum og stýrði umræðum en sérfræðingarnir Danny O'Brien, framkvæmdastjóri alþjóðastarfs Electronic Frontier Foundation, og Hernán Vales, frá mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, héldu erindi um efnið og svöruðu spurningum nefndarmanna. Fyrirhugað var að vinna við ályktunina færi fram á vor- og sumarmánuðum og hún tekin til umræðu og afgreiðslu á haustþingi IPU í Genf í október 2015. Birgitta lagði í máli sínu áherslu á að friðhelgi einkalífsins í hinum stafræna heimi nyti ekki sömu lagalegu verndar og í raunheimum en það væri grundvöllur lýðræðis að geta gengið að þeim mannréttindum vísum. Hún vísaði jafnframt til ályktunar á grundvelli máls hennar sem samþykkt var á ráðsfundi IPU í nóvember 2011. Mál Birgittu hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU sem hefur m.a. fjallað um það út frá skilyrðislausum rétti þingmanna að geta átt í samskiptum við umbjóðendur sína án þess að eiga á hættu að þau samskipti séu gerð aðgengileg öðrum ríkjum. Er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingur gegnir stöðu ályktunarhöfundar fastanefndar IPU.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 166. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og 2016 og yfirlit yfir skipulagða fundi. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið ályktanir á grundvelli þeirra. Þess má geta að 189 fulltrúar á 132. þingi IPU voru konur (28%), sem er lakara hlutfall en náðist á síðasta þingi (32,1%).
    Samhliða vorþingi buðu IPU og samtökin Nuclear Non-proliferation and Disarmament (PNND) en Birgitta Jónsdóttir er í stjórn PNND, upp á frumsýningu kvikmyndarinnar The Man Who Saved the World, um kjarnorkuógn heimsins. Þá tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir þátt í afmælisfundi þingkvenna til stuðnings nýjum sameiginlegum meginreglum IPU til stuðnings þjóðþingum heims. Ásmundur Einar Daðason tók þátt í fundum ungra þingmanna IPU.

133. þing IPU í Genf 18.–21. október 2015.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, og Birgitta Jónsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar, og Aðalheiðar Ámundardóttur, starfsmanni þingflokks Pírata.
    Helstu mál á dagskrá voru hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja samstarf á heimsvísu gegn ógn við lýðræði og hvernig tryggja megi vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns. Þá var ályktun um lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi tekin til umræðu og afgreiðslu. Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Íslandsdeildar IPU, er annar tveggja ályktunarhöfunda. Jafnframt fór fram almenn umræða um málefni innflytjenda sem bar yfirskriftina mikilvægi siðferðilegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari, skynsamlegri og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn. Þá fór fram utandagskrárumræða um hlutverk IPU, þjóðþinga, þingmanna, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn vegna stríðsástands, innanlandsátaka og félagslegra aðstæðna, samkvæmt meginreglum alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og siðareglna. Enn fremur fór fram árlegur kvennafundur 17. og 20. október í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um flóttamenn og stöðu kvenna, ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi og framlag kvenna til starfsemi IPU. Um 1.300 þátttakendur sóttu þingið, þar af 670 þingmenn frá 134 ríkjum og 94 þingforsetar og varaþingforsetar.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Formaður hópsins, Philippe Mahoux frá Belgíu, stýrði fundunum. Fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og stýrihópum IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í Brussel 21. september 2015. Þá kynnti Birgitta Jónsdóttir drög að ályktun 3. nefndar um lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi þar sem hún er framsögumaður. Hún greindi frá því að ályktunin væri að nokkru leyti byggð á nýlegum niðurstöðum Evrópudómstólsins og ályktun Sameinuðu þjóðanna og Evrópuþingsins um sama efni. Þá var nefndarmönnum tilkynnt að allar 113 breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram við ályktunina yrðu afgreiddar á nefndarfundi og ekki yrði skipuð undirnefnd til að ganga frá tillögu (drafting committee). Birgitta lagði áherslu á að ein af meginniðurstöðum ályktunarinnar vera þá að mannréttindi ættu að vera hin sömu hvort sem það væri í hinum stafrænu heimum eða í raunheimum. Næsti fundur Tólfplús-hópsins verður haldinn í Lusaka 19. mars 2016.
    Fimm tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Fyrir valinu varð tillaga um hlutverk IPU, þjóðþinga, þingmanna, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn vegna stríðsástands, innanlandsátaka og félagslegra aðstæðna, samkvæmt meginreglum alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og siðareglna. Ályktun þingsins hafði það að markmiði að virkja þjóðþing og alþjóðastofnanir til að tryggja vernd og stuðning við áætlaðan fjölda upp á 30 milljónir flóttamanna í heiminum. Í ljósi fordæmislauss fjölda fólks á flótta undan átökum í mismunandi heimshlutum eru þjóðþing og alþjóðasamfélagið hvött til þess að vinna saman og deila byrðinni við að taka við flóttamönnum og kostnaðnum sem af því hlýst fyrir móttökuríkin.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og sjónum beint að mikilvægi siðferðilegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari, skynsamlegri og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þátt í umræðunni fyrir hönd Íslandsdeildar og lagði í ræðu sinni áherslu á mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið styddi nágrannaríki átakasvæða sem taka við mestum fjölda flóttamanna. Deila þyrfti byrðinni með nágrannaríkjunum og tryggja fjármagn svo hægt væri að viðhalda flóttamannabúðum sem uppfylltu þarfir íbúa þeirra. Það mætti ekki gleymast að flestir flóttamenn vildu ekkert frekar en að geta snúið aftur heim eftir að átökum lyki. Mikilvægt væri að í flóttamannabúðunum væru grunnþarfir uppfylltar auk heilbrigðisþjónustu og menntunar. Menntun væri gríðarlega mikilvæg, ekki síst fyrir börn flóttamanna þar sem hún stuðlaði m.a. að öryggistilfinningu og von sem oft væri skortur á í slíkum aðstæðum. Jafnframt lagði Ragnheiður áherslu á stöðu kvenna og barna á flótta. Konur og stúlkur væru í sérstakri hættu þegar stríðsátök stæðu yfir og flóttanum fylgdi mikið óöryggi og lítil vernd. Móta þyrfti skýra stefnu í þeim ríkjum sem tækju við flóttamönnum um öryggi kvenna og stúlkna þar sem m.a. yrði tryggt öruggt svæði í flóttamannabúðum og sérstök vernd. Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið yfirlýsingu um sanngjarnari, skynsamlegri og mannúðlegri stefnu varðandi flóttamenn þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregnar saman.
    Fastanefndirnar tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um hryðjuverkastarfsemi. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, fór fram umræða um hvernig tryggja mætti varanlega verndun gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns.
    Birgitta Jónsdóttir tók þátt í störfum 3. nefndar, um lýðræði og mannréttindi, þar sem fram fór ítarleg umræða og afgreiðsla á tillögu hennar að ályktun sem samþykkt var á haustþingi IPU í Genf 2014 undir yfirskriftinni: Lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi. En eins og áður hefur komið fram var Birgitta skipuð annar tveggja skýrsluhöfunda ásamt suður-kóreska þingmanninum Ha-Jin Jhun. Vinna við afgreiðslu á breytingartillögunum fór fram á fundum nefndarinnar þar sem Birgitta kynnti tillöguna, fór yfir breytingartillögur sem kosið var um og svaraði spurningum nefndarmanna. Fjölmargar breytingartillögur voru samþykktar en öðrum, sem hefðu veikt hana, var hafnað og það fór svo á endanum að ályktunin var mun sterkari eftir þessa vinnu. Ályktunin var samþykkt samhljóða í nefndinni og afgreidd á þingfundi 21. október þar sem Birgitta mælti fyrir henni og fór yfir störf nefndarinnar. Birgitta lagði í máli sínu áherslu á nauðsyn þess að sömu lög giltu í netheimum og raunheimum. Friðhelgi einkalífsins í hinum stafræna heimi yrði að njóta sömu lagalegu verndar alls staðar, það væri grundvöllur lýðræðis. Ályktunin, sem sett er fram í 25 liðum, hvetur þjóðþing til að endurskoða löggjöf sína svo koma megi í veg fyrir söfnun, greiningu og varðveislu persónulegra upplýsinga án upplýsts samþykkis viðkomandi einstaklinga eða gilds dómsúrskurðar. Hún undirstrikar nauðsyn þess að vernda friðhelgi einkalífs og samræma löggjöf milli ríkja. Þá eru þingmenn hvattir til að tryggja að ekki sé hægt að fara fram hjá löggjöf með samkomulagi um dreifingu gagna milli ríkja. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ná jafnvægi milli þjóðaröryggis og frelsi einstaklingsins með því að tryggja að ákvarðanir/aðgerðir sem teknar/framkvæmdar eru í nafni þjóðaröryggis grafi ekki undan lýðræði eða ógni mannréttindum. Jafnframt er lögð áhersla á að stranglega sé bannað í landslögum að halda aftur af rödd lýðræðis á netinu, að meðtöldum röddum blaðamanna og talsmanna mannréttinda, með fangelsun, ritskoðun eða öðrum þvingandi aðgerðum. Einnig er sterklega mælt með samræmdri löggjöf til verndar uppljóstrurum sem samræmast alþjóðastöðlum.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Aðildarríki IPU eru nú 167 eftir að þing Fídjieyja fékk endurinngöngu í IPU við upphaf 133. þings. Rætt var um fjárhagsáætlun fyrir árin 2015 og 2016 og yfirlit yfir skipulagða fundi. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið 19 ályktanir á grundvelli þeirra varðandi 71 þingmann í 14 löndum. Næsta vorþing verður haldið í Lusaka í Sambíu 19.–23. mars 2016.

Sameiginlegur fundur IPU og franska þingsins í París 5.–6. desember 2015.
    Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) og franska þingið stóðu fyrir sameiginlegum fundi um loftslagsmál 5.– 6. desember í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í París 30. nóvember – 11. desember. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, Birgitta Jónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Fundurinn var haldinn í franska þinginu og öldungadeild þar sem 600 þingmenn frá 90 aðildarríkjum IPU auk sérfræðinga og embættismanna tóku þátt.
    Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hélt opnunar ávarp fundarins en einnig tóku til máls Arnold Schwarzenegger, fyrrverandi fylkisstjóri Kaliforníu og framkvæmdastjóri Regions of Climate Action (R20), Claude Bartolone, þingforseti franska þingsins, Laurent Fabius, utnaríkisráðherra Frakklands og forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21), og Saber Chowdhury, forseti IPU.
    Schwarzenegger lagði í ræðu sinni áherslu á nauðsyn samvinnu milli ríkja og að virkja þjóðþing til aðgerða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þá kynnti hann samkomulag milli IPU, R20 og Háskóla Suður-Kaliforníu þar sem hlutaðeigandi hafa fallist á að vinna að framkvæmdaáætlun sem er ætlað að styrkja getu þeirra til að takast á við vaxandi ógn af loftslagsbreytingum. Samkomulagið var undirritað í franska þinginu eftir ræðu Schwarzeneggers og markar það ný spor í viðleitni til að styrkja pólitíska hnattræna aðgerð gegn þessum alheimsvanda. Markmið verkefnisins er m.a. að auka meðvitund og skilning þingmanna á þeim áskorunum sem felast í loftslagsbreytingum og stuðla að þverpólitískum stuðningi, þar með talið við lagasetningu og umsjón með að staðið sé við skuldbindingar einstakra þjóða og alþjóðlegar skuldbindingar um að minnka losunun gróðurhúsaloftegunda.
    Forseti IPU, Chowdhury, lagði í máli sínu áherslu á að nauðsynlegt væri að hugafarsbreyting ætti sér stað bæði í þróunarríkjum og þróuðum ríkjum þar sem hugarfar einkennist af því að mögulegt sé að vaxa hratt og hafa áhyggjur af afleiðingum fyrir komandi kynslóðir og jörðina seinna. Þá sagði hann þörf á lífrænum vexti samfélaga sem héldist í hendur við mannlega velferð, en í því fælist m.a. réttur fólks til ákvarðanatöku varðandi líf sitt.
    Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum og vakti athygli á því að það vantaði raddir kvenna í framsögu í dagskránni fyrri fundardaginn, en engar konur höfðu tekið til máls, hvorki sem frummælendur né úr sal fyrr en hún fékk orðið. Þá vottaði Birgitta Frökkum samúð sína vegna hryðjuverkanna sem framin voru 13. nóvember en minnti jafnframt á að voðaverk væru framin daglega víða um heim. Enn fremur gagnrýndi Birgitta frönsk yfirvöld harðlega fyrir að segja í orði að þau vildu vernda mannréttindi og vinna frá grasrótinni til að stuðla að almennri sátt um þær ákvarðanir sem yrði að taka á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, en á sama tíma væru fjöldi umhverfisverndarsinna í stofufangelsi til að fyrirbyggja mótmæli og aðhald frá grasrótinni. Það gengi ekki upp að reyna að tryggja mannréttindi á aðra höndina og afnema þau á hina.
    Síðari fundardaginn var m.a. rætt um loftslagsbreytingar og jafnrétti kynjanna. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þátt í umræðum um efnið og sagði samfélagslega hugarfarsbreytingu nauðsynlegan þátt í þróun ríkja til aukins jafnréttis kynjanna. Konur bæru oftar en ekki ábyrgð á daglegum valkostum varðandi rekstur heimila, stórum hluta landbúnaðarvinnu og á því að tryggja fæðuöryggi fjölskyldna. Það væri því ljóst að konur gegndu mikilvægu hlutverki bæði varðandi framleiðslu og neyslu og framlag þeirra til þróunar til að minnka kolefni í andrúmsloftinu mjög mikilvægt. Jafnrétti kynjanna þyrfti að innleiða í alla þætti í tengslum við loftslagsbreytingar en spurningin væri hvernig best væri að koma því á.
    Samþykkt var yfirlýsing fundarins þar sem þingmenn ítrekuðu nauðsyn þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og takmarka hækkun meðalhita heims við minna en tvær gráður á Celsíus. Færð voru rök fyrir því að á meðan sameiginleg ábyrgð væri á því að berjast gegn lofslagsbreytingum yrði samkomulag sem komist yrði að á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að taka tillit til mismunandi getu ríkja til framkvæmda, sérstaklega þróunarríkja. Þá lögðu þingmennirnir áherslu á að samkomulagið yrði að fela í sér metnaðarfulla leið til að draga úr og aðlagast áhrifum loftslagsbreytinga og nýta auðlindir á sjálfbæran hátt.
    Jafnframt samþykkti fundurinn þingræðislega aðgerðaráætlun í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í aðgerðaráætluninni eru skýrar lokadagsetningar og markmið varðandi fullgildingu fyrirhugaðs samkomulags af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Áætlunin verður rædd og formlega samþykkt á 167. þingi IPU sem verður haldið í Lúsaka í mars 2016.

5. Ályktanir og yfirlýsingar IPU árið 2015.
    Ályktanir 132. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Öryggisógn vígbúnaðar á internetinu.
     2.      Hvernig stuðla megi að nýju kerfi varðandi stjórnun vatns í heiminum.
     3.      Alþjóðalög í tengslum við fullveldi ríkja, íhlutunarleysi um innanlandsmál og mannréttindi.
     4.      Hlutverk þjóðþinga við að berjast gegn hryðjuverkum sem eru framin af hryðjuverkasamtökum eins og Daesh/ISIS og Boko Haram gegn almennum borgurum, sérstaklega konum og stúlkum.

    Yfirlýsing 132. þings IPU:
    Ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun: Frá orði til framkvæmdar.     

    Ályktanir 133. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Lýðræði á stafrænum tímum – ógnir gagnvart friðhelgi einkalífsins og einstaklingsfrelsi.
     2.      Um hlutverk IPU, þjóðþinga, þingmanna, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn vegna stríðsástands, innanlandsátaka og félagslegra aðstæðna, samkvæmt meginreglum alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og siðareglna.

    Yfirlýsing 133. þingis IPU:
    Um sanngjarnari, skynsamlegri og mannúðlegri stefnu varðandi flóttamenn.

Alþingi, 26. janúar 2016.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
form.
Ásmundur Einar Daðason,
varaform.
Birgitta Jónsdóttir.