Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 768  —  362. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972,
með síðari breytingum (lenging verndartíma hljóðrita).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Björn Th. Árnason frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Gunnar Guðmundsson frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Rán Tryggvadóttur, Tómas Þorláksson, Erlu S. Árnadóttur, Sigríði Rut Júlíusdóttur og Knút Bruun frá höfundaréttarnefnd, Katrínu Dögg Þorsteinsdóttur frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Umsagnir bárust frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar.
    Frumvarpið var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi (701. mál) og var afgreitt með nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (þskj. 1408) en hlaut ekki frekari afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram á ný.
    Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/77/ESB frá 27. september 2011 um breytingu á tilskipun 2006/116/EB um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda sem var tekin upp í XVII. viðauka um hugverkaréttindi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar bar að innleiða hana í aðildarríkjum Evrópusambandsins eigi síðar en 1. nóvember 2013 en EES/EFTA-ríkjunum var veittur frestur til 1. ágúst 2014 til að innleiða tilskipunina.
    Í frumvarpinu er lagt til að útreikningur á verndartíma tónverka með texta verði samræmdur þannig að sömu reglur gildi um útreikning verndartíma fyrir þá tvo verkhluta sem um ræðir, þ.e. tónverkið og textann. Kveðið er á um lengdan verndartíma hljóðrita fyrir listflytjendur og lengist verndartími hljóðrita sem hafa verið gefin út eða gerð aðgengileg almenningi úr 50 árum í 70 ár, reiknað frá útgáfudegi eða þegar hljóðrit var gert aðgengilegt almenningi. Jafnframt er mælt fyrir um sambærilega lengingu verndartíma fyrir framleiðendur hljóðrita. Með hliðsjón af framlengingu verndartíma hljóðrita er gert ráð fyrir rétti listflytjenda til árlegrar viðbótarþóknunar á framlengdum verndartíma. Þá felur frumvarpið í sér ákvæði um uppsögn framsalssamnings.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var rætt um tilefni og nauðsyn þess að kveða á um að verndartími tónverks með texta verði 70 ár frá dánarári þess höfundar sem lengur lifir, hvort sem það er tónskáld eða textahöfundur, að því gefnu að höfundarframlag hvors um sig hafi verið búið til fyrir tónverkið með texta. Meiri hlutinn undirstrikar að frumvarpið felur ekki í sér breytingu á verndartíma höfundaréttar, sem er nú 70 ár frá andlátsári höfundar, sbr. 43. gr. höfundalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 145/1996 sem innleiddi tilskipun 93/98/EBE um samræmingu á verndartíma höfundaréttar. Í ljósi þess að líta má á tónverk með texta sem tvö sjálfstæð verk getur verndartíminn reiknast sjálfstætt fyrir hvort verk og getur hann verið mislangur eftir andlátsári tónhöfundar og textahöfundar. Nauðsynlegt er að kveða á um samræmdan verndartíma tónverks með texta innan EES-ríkjanna þar sem mismunandi framkvæmd að því er varðar útreikning verndartíma slíkra verka getur valdið vandkvæðum.
    Á fundum nefndarinnar var rætt um nauðsyn þess að lengja verndartíma hljóðrita. Meiri hlutinn áréttar að frumvarpið kveður ekki á um lengingu verndartíma höfundaréttar, heldur annarra skyldra réttinda, þ.e. flutningsréttar og framleiðandaréttar. Markmiðið er m.a. að draga úr hættu á að listflytjendur á hljóðritum missi mikilvægan tekjustofn seint á starfsævi sinni og að hljóðrit séu notuð á þann hátt að vegið sé að listamannsheiðri þeirra. Hafa verður í huga að hljóðrit, þ.e. listflutningur, nýtur sjálfstæðrar verndar, óháð þeirri vernd sem það verk sem flutt er kann að njóta að höfundarétti. Meiri hlutinn telur mikilvægt að umræða um lengingu verndartíma fari fram, þar sem umrætt réttarsvið er í mikilli þróun. Meiri hlutinn leggur hins vegar áherslu á nauðsyn þess að reglur um verndartíma séu samræmdar innan EES-ríkjanna.
    Þá var bent á að ganga mætti lengra hvað varðar uppsögn á framsalssamningi við útgefanda en tilskipunin kveður á um þar sem ljóst sé að fjöldi hljóðrita sé ófáanlegur á markaði þótt 50 ár séu ekki liðin frá fyrstu útgáfu. Meiri hlutinn telur að þetta atriði mætti skoða við heildarendurskoðun höfundalaga.
    Við meðferð málsins í nefndinni var bent á að íslenskum stjórnvöldum hefði borist formleg tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA um ákvörðun, dags. 12. nóvember 2014, um að hafið væri tafamál vegna dráttar á innleiðingu tilskipunarinnar, sem frumvarpið byggðist á, í íslenskan rétt. Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnti 4. nóvember 2015 þá ákvörðun að Íslandi yrði stefnt fyrir EFTA-dómstólinn vegna brots á EES-samningnum en áður hafði verið gefið út rökstutt álit um samningsbrot Íslands.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 26. janúar 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Willum Þór Þórsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Jóhanna María Sigmundsdóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Vilhjálmur Árnason.