Ferill 319. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 771  —  319. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birni Val Gíslasyni
um samkomulag stjórnvalda og slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.


     1.      Hverjar eru helstu ástæður þess að gefa slitabúum kost á greiðslu stöðugleikaframlags í stað þess að sæta skattlagningu?
    Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 60/2015, um stöðugleikaskatt, er að finna lýsingu á áhrifum þess á greiðslujöfnuð og gengisstöðugleika ef fjármagnshöftum yrði aflétt og kröfuhafar þrotabúa fallinna viðskiptabanka og sparisjóða fengju þær innlendu eignir sem nú eru í búunum til greiðslu upp í kröfur sínar. Fyrirsjáanlegt var að krónueignum yrði skipt í erlendan gjaldeyri og allar innlendar eignir fluttar úr landi. Umfang eignanna er slíkt að áhrifin á gjaldeyrismarkað og greiðslujöfnuð yrðu meiri háttar.
    Tilgangur stöðugleikaskattsins var að draga úr neikvæðum áhrifum sem uppgjör við erlenda kröfuhafa fallinna viðskiptabanka og sparisjóða hefði haft á þjóðarbúskapinn við losun fjármagnshafta að öðru óbreyttu. Við greiðslu skattsins hefði verðmæti eigna búanna sem eftir stóðu í íslenskum krónum minnkað mikið og þannig dregið úr eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri vegna slitanna. Samkvæmt lögum um stöðugleikaskatt hefðu skattaðilar fengið undanþágu frá fjármagnshöftum við fullnægjandi greiðslu skattsins og þeim þá verið heimilt að skipta öllum eignum í krónum sem eftir stæðu í erlenda gjaldmiðla og flytja eignir úr landi. Áhætta hefði getað skapast fyrir greiðslujöfnuð og gengisstöðugleika reyndust innlendar eignir slitabúanna verðmætari en gert var ráð fyrir þegar skattprósentan var ákvörðuð. Við ákvörðun skattprósentu stöðugleikaskattsins var horft til þess að óvissa væri um mat á stærstu eignum slitabúanna, svo sem eignarhlutum í bönkunum og kröfusafni, og reynt að ganga úr skugga um að skatturinn yrði hæfilegur til að mæta þeirri óvissu. Markmið stöðugleikaskattsins var ekki að afla tekna fyrir ríkissjóð heldur að tryggja efnahagslegan stöðugleika við losun fjármagnshafta og að almenningur yrði ekki fyrir tjóni í ferlinu.
    Sömu sjónarmið liggja til grundvallar því að nauðasamningar fallinna viðskiptabanka og sparisjóða uppfylli stöðugleikaskilyrði til að hljóta staðfestingu Seðlabanka Íslands og dómstóla. Öll slitabú fallinna fjármálafyrirtækja fengu nauðasamning samþykktan af kröfuhöfum fyrir árslok 2015. Að uppfylltum stöðugleikaskilyrðum í tengslum við gerð nauðsamnings fá slitabúin undanþágu frá fjármagnshöftum, líkt og þau hefðu fengið við greiðslu stöðugleikaskatts. Slitabú þriggja stærstu viðskiptabankanna hafa nú þegar uppfyllt þessi skilyrði og fengið undanþágu. Stöðugleikaskilyrðin eru m.a. uppfyllt með afhendingu stöðugleikaframlags í ríkissjóð sem verða í heildina lægri fjárhæð en sem nemur áætluðum stöðugleikaskatti, enda er með þeim dregið úr áhættu tengdri slitum búanna með öðrum og skilvirkari hætti en greiðsla skattsins hefði gert. Fjárhæð stöðugleikaframlags endurspeglar þá áhættu sem stafar af ráðstöfun innlendra eigna búanna en mun breytast í samræmi við breytingar á virði eignanna. Þannig er dregið verulega úr hættu á því að hærra verðmat eigna við sölu en gert er ráð fyrir nú muni valda óstöðugleika. Nauðasamningar tveggja af þremur stærstu þrotabúunum gera ráð fyrir að búin styrki fjármögnun viðskiptabanka, sem eru í þeirra eigu, með því að breyta gjaldeyrisinnlánum búanna í fjármögnun til meðallangs tíma og að lánafyrirgreiðsla stjórnvalda til sömu banka verði endurfjármögnuð. Þá falla slitabúin frá frekari kröfum og málssóknum á hendur ríkinu og felur uppfylling stöðugleikaskilyrða þannig í sér endanleika sem ekki hefði verið tryggður með greiðslu stöðugleikaskatts. Leið nauðasamninga á grundvelli undanþágu að uppfylltum stöðugleikaskilyrðum er því metin skilvirkari og áhættuminni en leið stöðugleikaskatts að sömu markmiðum og flýtir fyrir að hægt verði að hrinda í framkvæmd næstu skrefum áætlunar um losun fjármagnshafta.

     2.      Hversu mikið fé má ætla að verði bundið í skuldabréfum sem gefin verða út af lögaðilum sem áður iðkuðu fjármálastarfsemi og undanþegin verða skattskyldu og greiðslu afdráttarskatts af vöxtum sem greiddir verða úr landi verði frumvarpið á þskj. 175 að lögum?
    Frumvarpið sem vísað er til á þskj. 175 er orðið að lögum nr. 107/2015, um breytingu á lögum um tekjuskatt o.fl. Með 1. gr. þeirra laga var gerð breyting sem lýtur að skattlagningu vaxta vegna skuldabréfa sem lögaðilar, sem áður störfuðu sem viðskiptabankar eða sparisjóðir, gefa út í eigin nafni sem lið í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafa sína. Vextir af slíkum skuldabréfum, þ.m.t. afföll, verða samkvæmt ákvæðinu undanþegnir tekjuskatti í hendi raunverulegs eiganda skuldabréfs sem ber takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Þeir aðilar sem bera ótakmarkaða skattskyldu verða ekki undanþegnir skattskyldu samkvæmt ákvæðinu. Undanþága þessi tekur því ekki til slitabúanna heldur eigenda umræddra skuldabréfa sem bera takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Ítarlega er gerð grein fyrir þessari breytingu í minnisblaði ráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar frá 16. október 2015.
    Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands munu slitabú þriggja stærstu bankanna gefa út skuldabréf til samningskröfuhafa, að lokinni lágmarksgreiðslu og peningagreiðslu til kröfuhafa. Bréfin verða vaxtalaus, óveðtryggð og breytanleg skuldabréf þar sem andvirði af framtíðarsölu eigna verður úthlutað ýmist hálfsárslega eða ársfjórðungslega. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarupphæð skuldabréfanna.

     3.      Hver hefði hækkun stöðugleikaframlags slitabús Glitnis orðið ef hlutafé ISB Holding, eiganda Íslandsbanka, hefði ekki verið afsalað til íslenska ríkisins?
    Stöðugleikaframlag Glitnis hefði orðið 13 milljörðum kr. lægra samkvæmt tillögum að nauðasamningum frá júní sl. en fyrirliggjandi nauðasamningur með framsali hlutafjár ISB Holding til íslenska ríkisins gerir ráð fyrir, miðað við áætlað bókfært virði Íslandsbanka í lok árs 2015. Tillögur og áætlanir um sölu Íslandsbanka frá því í sumar gerðu ráð fyrir að allt að 60% af bókfærðu virði Íslandsbanka yrði greitt í stöðugleikaframlag við sölu bankans fyrir erlendan gjaldeyri. 1 Fari söluandvirði umfram það hefði það ekki skilað sér í ríkissjóð og því er nauðasamningurinn í núverandi mynd hagstæðari fyrir ríkissjóð ef hærra verð fæst fyrir bankann. Þá er ekki kvöð á stjórnvöldum að selja Íslandsbanka fyrir ákveðinn tíma líkt og var á slitabúi Glitnis í fyrri nauðasamningstillögum og því er verulega dregið úr líkum á því að bankinn verði seldur í tímaþröng sem aftur gæti leitt til lægra söluverðs. Að öðru leyti er vísað til greinargerðar Seðlabankans um uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða sem birt var á vef bankans 27. október sl.

     4.      Hverjar eru helstu röksemdir fyrir þeirri ákvörðun að ganga að tilboði um afsal á hlutafé í eignarhaldsfélagi Íslandsbanka í stað þess að krefjast greiðslu á stöðugleikaframlagi í reiðufé? Hvers vegna var ekki gripið til sömu ráðstafana gagnvart Kaupþingi með framsali á Arion banka til ríkisins?
    Hátt hlutfall erlendra kröfuhafa og innlendra eigna í slitabúi Glitnis banka hf. skapar meiri hættu á ójafnvægi í greiðslujöfnuði og á gjaldeyrismarkaði við uppgjör þess bús en hinna bankanna tveggja. Áhættumeiri slit kalla á umfangsmeiri mótvægisaðgerðir og gerir nauðasamningur Glitnis banka hf. ráð fyrir hæsta stöðugleikaframlagi slitabúanna þriggja, eða sem nemur um 229 milljörðum kr. Það er um 100 milljörðum kr. hærra en stöðugleikaframlag slitabús Kaupþings banka hf. og um tífalt framlag LBI hf. Glitnir hf. og Kaupþing hf. eiga ekki laust fé eða auðseljanlegar eignir til þess að greiða þau stöðugleikaframlög sem þrotabúin telja nauðsynleg til þess að lágmarka áhrif slita sinna á stöðugleika í gengis- og peningamálum samhliða nauðasamningsgerð, enda er um að ræða áhrif sem nema um 15% af VLF. Því leggja þau til að framlagið verði að mestu leyti greitt með beinum eða óbeinum hætti með stærstu innlendu eignum sínum, Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. Kaupþing hf. leggur til skuldabréf og afkomuskiptasamning sem tengist Arion banka hf. og Glitnir hf. leggur til eignarhlut í Íslandsbanka hf. Líkt og fram kemur í greinargerð Seðlabanka Íslands frá 27. október 2015 telur bankinn að uppgjör búa bankanna á þessum grundvelli raski ekki stöðugleika.
    Stöðugleikaframlag er valfrjáls ráðstöfun af hálfu slitabúa og hluti stöðugleikaskilyrða sem þau verða að uppfylla til þess að nauðasamningar hljóti staðfestingu dómstóla sbr. 4. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Stöðugleikaskilyrði eru forsenda undanþága slitabúa frá fjármagnshöftum því þau tryggja að framkvæmd nauðsamnings valdi ekki óstöðugleika í gengis- og peningamálum og raski ekki fjármálalegum stöðugleika. Líkt og fram kemur í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um stöðugleikaskatt þá er ekki um samningsefni að ræða, annað hvort eru stöðugleikaskilyrðin uppfyllt að mati Seðlabankans eða ekki. Það er því ekki á færi stjórnvalda að ganga að tilboðum, krefjast framlaga eða grípa til ráðstafana hvað varðar stöðugleikaframlög.

     5.      Á hverju byggist verðmat það á Íslandsbanka og Arion banka sem stjórnvöld leggja til grundvallar útreikningum sínum, hvaða aðferð var beitt við gerð þess og hvaða aðilar unnu það? Er mat á virði umræddra fjármálafyrirtækja í samræmi við verðmat slíkra fyrirtækja á Norðurlöndum?
    Við mat á fjárhæð stöðugleikaframlags er virði bankanna í lok árs 2015 áætlað út frá bókfærðu virði eigin fjár þeirra eins og það birtist í hálfsársuppgjörum þeirra 2015 og að gefnum forsendum um rekstrarþróun fram að áramótum. Eignarhlutirnir hafa verið metnir á bókfærðu virði hjá slitabúunum og er með þessari verðmatsaðferð því gert ráð fyrir að eignirnar muni framseljast á því virði sem líklegt er að þær verði bókaðar á í uppgjörum slitabúanna í árslok 2015. Hvort endanlegt söluvirði bankanna verður frábrugðið bókfærðu virði mun koma í ljós við sölu þeirra. Ekkert sérstakt verðmat á væntu söluvirði hefur farið fram, enda hefur áhættu sem fylgir hærra virði bankanna fyrir stöðugleika í gengis- og peningamálum að mestu leyti verið eytt með framsali á eignarhlut í Íslandsbanka hf. til ríkisins og með afkomuskiptasamningi og útgáfu skuldabréfs vegna sölu á Arion banka hf. sem gert er ráð fyrir sem hluta af stöðugleikaframlögum.

     6.      Hvaða eignir eru það nákvæmlega sem falla í hlut ríkisins við uppgjör á stöðugleikaframlagi og hvert er andvirði hverrar eignar um sig? Óskað er eftir sundurliðun á eignum hvers slitabús um sig, lýsingu á sérhverri eign og verðmati hennar.
    Þær eignir slitabúa sem framseldar verða til stjórnvalda eða verða háðar sérstökum fjársópsákvæðum vegna afhendingar á stöðugleikaframlagi eru útlán, hlutafé, skuldabréf, kröfuréttindi, svo sem afleiðukröfur, skattakröfur, kröfur á grundvelli skaðabóta- eða riftunarmála og fullnustueignir, svo sem fasteignir.
    Vegna beiðni um sundurliðun á eignum hvers slitabús um sig og lýsingu á sérhverri eign og verðmati hennar verður að taka fram að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja teljast til einkaréttarlegra aðila og njóta lögbundinnar verndar um viðskiptalegar upplýsingar. Réttur alþingismanna til þess að óska eftir upplýsingum með því að beina fyrirspurn til ráðherra takmarkast skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 49. gr. þingskapalaga, við opinber málefni.

     7.      Hvernig skiptast stöðugleikaframlög slitabúanna í:
                  a.      afhendingu reiðufjár,
                  b.      afhendingu eigna,
                  c.      afsal innlendra eigna og krafna,
                  d.      óbeint framsal með fjársópsákvæði,
                  e.      útgáfu skuldabréfa á móti eignarhlut í banka og afkomuskiptasamningi?

    Sé eingöngu gerð grein fyrir þeim liðum sem óskað var eftir fengist ekki heildarmynd á stöðugleikaframlögin. Taflan hér á eftir tiltekur því fleiri liði en fyrirspurnin nær til og er ítarlegri en óskað var eftir. Hún sýnir mat ráðuneytisins á eignunum eins og það var lagt fram við 3. umræðu fjárlaga og er að örlitlu leyti frábrugðin þeirri tölu sem birtist í greinargerð Seðlabankans frá 27. október 2015, þar sem heildarfjárhæðin er metin 379 milljarðar kr.

Tafla 1. Stöðugleikaframlög.
Ma. kr.
Laust fé 17,2
Aðrar eignir 60,4
Hlutabréf, skráð 5,9
Hlutabréf, óskráð 4,9
Skuldabréf, skráð 11,1
Skuldabréf, óskráð 1,6
Lánaeignir 18,6
Aðrar eignir 18,3
Skilyrtar fjársópseignir 18,4
Laust fé 0,0
Varasjóður 11,8
Lánaeignir 0,7
Aðrar eignir 5,9
Framlag vegna viðskiptabanka 288,2
Íslandsbanki, hlutafé 184,7
Veðskuldabréf vegna Arion banka 84,0
Afkomuskiptasamn. v. sölu Arion, bókf. verð 19,5
Samtals framlög til ríkissjóðs 384,3

     8.      Hafa verið undirritaðir samningar milli fulltrúa slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og hins opinbera um greiðslu stöðugleikaframlags og heimild til fjármagnsflutninga? Ef svo er, að hverju lúta þeir samningar og hvaða aðili staðfesti þá fyrir hönd ríkisins?
    Seðlabanki Íslands veitir undanþágur frá fjármagnshöftum. Samráð skal þó haft við fjármála- og efnahagsráðherra varði undanþága fjármálafyrirtæki sem sætir slitameðferð og feli hún í sér heimild til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa fyrir hærri fjárhæð en sem nemur 25 milljörðum kr. á einu ári. Varði undanþágan lögaðila með efnahagsreikning yfir 400 milljörðum kr. og geti hún haft umtalsverð áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins og varði eignarhald viðskiptabanka skal hún aðeins veitt að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðherra og að undangenginni kynningu ráðherra á efnahagslegum áhrifum hennar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
    Hvað varðar nauðasamninga slitabúa þriggja stærstu viðskiptabankanna sem hér störfuðu fyrir fjármálakreppuna hefur þessu ferli verið fylgt. Að mati Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytis uppfylla nauðasamningar þeirra kröfur laga um gjaldeyrismál um að efndir samninganna ásamt fyrirhuguðum mótvægisráðstöfunum leiði hvorki til óstöðugleika í gengis- og peningamálum né raski fjármálastöðugleika. Því hefur þessum þrotabúum verið veitt undanþáguheimild til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnsflutninga milli landa, sbr. 7. gr. og 13. gr. o í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
    Samningar, í skilningi þess að leitað hafi verið samkomulags um upphæð, tilhögun eða aðra þætti stöðugleikaframlags, hafa ekki og munu ekki vera gerðir en undirrituð verða skjöl um framsal eigna og aðrar ráðstafanir. Með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði III í lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er það Seðlabankinn sem staðfestir skjöl um framsal eigna í tengslum við afhendingu stöðugleikaframlags fyrir hönd ríkisins.

     9.      Hversu mikið fé fá kröfuhafar í slitabúin heimild til að flytja úr landi innan gjaldeyrishafta?
    Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er heildarfjárhæð endurheimta kröfuhafa, bæði innlendra og erlendra, af innlendum eignum slitabúa 497 milljarðar kr. Væru það allt lausar eignir gæti skapast mikill þrýstingur á gjaldeyrismarkaði en miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er gert ráð fyrir að af þessari fjárhæð muni 131 milljarði kr. verða skipt í erlendan gjaldeyri.
    Það sem eftir stendur, eða 375 milljarðar kr., skiptist í gjaldeyrisinnlán, aðrar innlendar gjaldeyriseignir og skuldabréf Landsbankans til slitabús LBI hf. Gjaldeyrisinnlánum fyrir um 77 milljarða kr. verður breytt í markaðshæf skuldabréf með gjalddaga árið 2023. Skuldabréf Landsbankans til slitabús LBI hf. nam um 149 milljörðum kr. í árslok 2015. Lokagjalddagi þess er árið 2026 og eru 122 milljarðar kr. af eftirstöðvunum á gjalddaga 2020 eða síðar. Loks er gert ráð fyrir að um 140 milljarðar kr. af innlendum gjaldeyriseignum verði nýttir til greiðslu forgangskrafna en eftirstöðvar þeirra krafna nema 210 milljörðum kr.

Tafla 2.     Endurheimtur kröfuhafa af innlendum eignum slitabúa miðað við áætlaða stöðu í árslok 2015.
Milljarðar kr. Glitnir Kaupþing LBI Minni bú Samtals
Endurheimtur krónueigna sem skipt er í erlendan gjaldeyri 72 46 13 131
Endurheimtur vegna innlána í erlendum gjaldeyri sem breytt er í markaðshæf skuldabréf 35 42 77
Endurheimtur vegna Landsbankabréfs 149 149
Endurheimtur forgangskröfuhafa LBI vegna innlendra eigna í erlendum gjaldeyri 140 140
Samtals 497
Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá nánar samanburð á tillögum að nauðasamningum Glitnis í viðauka II í greinargerð Seðlabankans um uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða.