Ferill 448. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 772  —  448. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni
um eignarhald á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fríhafnarverslun.


     1.      Eru áform uppi í ráðuneytinu um að endurskoða aðkomu ríkisins að eignarhaldi á Flugstöð Leifs Eiríkssonar nú þegar mikil þörf hefur skapast fyrir fjárfestingar og uppbyggingu? Ef svo er, hvenær má vænta aðgerða í þá veru að draga úr fjárhagslegri ábyrgð ríkissjóðs á fyrirhugaðri uppbyggingu?
    Skipan flugmála á Íslandi breyttist árið 2006 með lögboðnum aðskilnaði flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstrar frá stjórnsýslu- og eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar. Þetta mátti rekja til breytinga sem orðið höfðu í umhverfi flugsamgangna og nýrra krafna Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og Evrópusambandsins um aðskilnað rekstrar- og eftirlitshlutverks í flugþjónustu. Opinbera hlutafélagið Flugstoðir ohf. tók í framhaldinu við rekstri íslenskra flugvalla og flugleiðsöguþjónustu utan Keflavíkurflugvallar, þ.m.t. flugleiðsöguþjónustu í alþjóðaflugi.
    Um áramótin 2009 tók Keflavíkurflugvöllur ohf. við rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en félagið var stofnað til að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar. Félagið annaðist einnig flugleiðsöguþjónustu og þjónustu við flugrekendur, rekstur fríhafnarverslana og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar auk þess að sjá um hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála.
    Skömmu eftir stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. var skipaður starfshópur til þess að kanna kosti sameiningar Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. með tilliti til aukinnar hagkvæmni, skilvirkni, fagþekkingar og þjónustu í stjórnun flugvalla og flugleiðsöguþjónustu ásamt jákvæðri byggðaþróun í landinu. Lagði starfshópurinn til að stefnt skyldi að sameiningu félaganna sem fyrst og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi og var stofnfundur hins nýja sameinaða félags, Isavia ohf., haldinn snemma árs 2010.
    Á síðasta ári fóru um 4,8 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll eða einni milljón fleiri en árið 2014. Fjöldi farþega um völlinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 25,5% aukningu frá fyrra ári. Að mati Isavia ohf. er fyrirsjáanlegt að til að mæta þeim mikla fjölda farþega sem fer um völlinn og áætlaðri fjölgun á næstu árum muni félagið þurfa að fara í gríðarmikla uppbyggingu í og við flugstöðvarbygginguna. Hefur félagið unnið markvisst að þróunaráætlun um uppbyggingu og stækkun Keflavíkurflugvallar til að mæta því álagi á völlinn sem áætlanir benda til að verði. Gert er ráð fyrir því að stækkunin verði í nokkrum áföngum og ræðst stærð þeirra af því hversu mikil og hröð farþegaaukningin verður. Þó er ljóst að fyrsti áfanginn verður talsvert stór vegna mikillar uppsafnaðrar þarfar til afkastaaukningar.
    Að mati Isavia eru möguleikar félagsins til fjármögnunar á umræddum framkvæmdum góðir. Í núverandi áætlunum ríkisins er því ekki gert ráð fyrir því að íslenska ríkið sem eigandi Isavia þurfi að leggja fjármuni til framkvæmdanna. Hins vegar felast í þessum miklu framkvæmdum augljós tækifæri til að skoða frekar, í samráði við félagið, hvort hagkvæmt sé að fjármögnun, bygging og rekstur hluta þessara mannvirkja verði í höndum annarra aðila til framtíðar. Ráðherra hefur fullan hug á því að gefa einkaaðilum tækifæri til þess að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á flugvallarsvæðinu þegar skilyrði til þess eru ákjósanleg.

     2.      Hyggst ríkissjóður halda áfram að reka fríhafnarverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar?
    Ríkissjóður sem slíkur rekur ekki fríhafnarverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Opinbera hlutafélagið Isavia á og rekur hins vegar félagið Fríhöfn ehf., sem er sérstakt einkahlutafélag sem hefur þann afmarkaða tilgang að reka umræddar fríhafnarverslanir. Í núverandi lagaumhverfi er sérstaklega mælt fyrir um skyldu Isavia til hafa með höndum rekstur fríhafnarverslana. Á þessu stigi hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir í þá veru að breyta þessu fyrirkomulagi. Í ljósi hinnar gríðarmiklu uppbyggingar sem fyrirhuguð er á flugvellinum og þeirra breytinga sem óhjákvæmilega munu verða á öllu rekstrarumhverfi hans á næstu árum er ekki ólíklegt að þessi þáttur rekstrar Isavia muni sæta frekari skoðun í nánustu framtíð. Ráðherra telur skynsamlegt að auka þátttöku einkaaðila í rekstri fríhafnarverslana en telur jafnframt mjög mikilvægt að í þeim efnum verði vandlega gætt að því að raska ekki samkeppnisstöðu gagnvart aðilum sem stunda rekstur utan flugvallarsvæðisins.