Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 780  —  333. mál.
Fyrirvari.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972,
með síðari breytingum (endurskoðun höfundalaga,
einkaréttindi höfunda og samningskvaðir).

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Agnesi Guðjónsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Björn Th. Árnason frá Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Gunnar Guðmundsson frá Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, Rán Tryggvadóttur, Tómas Þorláksson, Erlu S. Árnadóttur, Sigríði Rut Júlíusdóttur og Knút Bruun frá höfundaréttarnefnd, Katrínu Dögg Þorsteinsdóttur frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Halldór B. Birgisson og Egil Örn Jóhannesson frá Félagi íslenskra bókaútgefanda, Helgu Sigríði Harðardóttur frá Fjölís, Ragnheiði Tryggvadóttur, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Sigríði Rut Júlíusdóttur frá Rithöfundasambandi Íslands, Björn Davíðsson frá Snerpu ehf., Hallgrím Kristinsson frá Félagi rétthafa í sjónvarpi og kvikmyndaiðnaði, Ólöfu Pálsdóttur og Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur frá Myndstefi, Steindór Steingrímsson frá Stofnun Árna Magnússonar, Jón Yngva Jóhannesson frá Hagþenki og Hafþór Ragnarsson og Einar Hrafnsson frá Hljóðbókasafni Íslands. Umsagnir bárust frá 1984 ehf., Símafélaginu ehf. og Snerpu ehf., Félagi íslenskra bókaútgefenda, Félagi íslenskra hljómlistarmanna, Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, Fjölís, Hagþenki, Hljóðbókasafni Íslands, höfundaréttarnefnd, IMMI, alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Myndstefi, Rithöfundasambandi Íslands, Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar og Steinþóri Steingrímssyni.
    Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi, (702. mál) og var afgreitt frá allsherjar- og menntamálanefnd með nefndaráliti en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið er nú lagt fram öðru sinni.
     Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar að færa ákvæði I. kafla gildandi höfundalaga, sem fjallar um réttindi höfunda og fleira, til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu og hins vegar að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum.
    Með samningskvöð er átt við að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru höfundarétti, sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga/félagsmanna þeirra, t.d. með ljósritun, skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna enda séu verkin sömu tegundar og verk sem samningurinn tekur til og notkunin að öðru leyti háð ákvæðum samningsins.
     Við meðferð málsins í nefndinni var þeim sjónarmiðum komið á framfæri að 1. gr. frumvarpsins fæli í sér takmarkanir á tjáningar- og upplýsingafrelsi. Nefndin vill í því sambandi benda á að einkaréttindi höfunda eru talin upp í I. kafla laganna. Í II. kafla laganna er hins vegar fjallað um takmarkanir og undantekningar frá einkarétti höfunda í þágu ýmissa nota. Nefndin telur rétt að benda á að í 2. og 3. mgr. áðurnefndrar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, sem var innleidd í höfundalög með breytingalögum nr. 9/2006, kemur fram tæmandi upptalning á þeim undantekningum og takmörkunum sem gera má á einkarétti höfunda í aðildarríkjum EES-samningsins. Nefndin fékk upplýsingar um að breytingar á undantekningum og takmörkunum á einkaréttindum höfunda hefðu verið til umræðu á vettvangi Evrópusamstarfs á sviði höfundaréttarmála og á vettvangi Alþjóðahugverkastofnunarinnar, WIPO, og að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði hafið endurskoðun á efni tilskipunar 2001/29/EB, ekki síst í ljósi hraðrar þróunar í upplýsinga- og samskiptatækni. Að mati nefndarinnar er mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að fylgjast vel með þeirri umræðu. Nefndin vísar einnig til þess að ráðgert er að fjallað verði nánar um undantekningar og takmarkanir á einkaréttindum höfunda við endurskoðun á II. kafla höfundalaga sem nú stendur yfir.
    Í 9. gr. frumvarpsins er að finna almenna heimild til samninga er veita samningskvaðaleyfi í þágu fatlaðs fólks. Aðildarríki EES-samningsins geta kveðið á um undanþágur eða takmarkanir á réttindum ef um er að ræða notkun í þágu fólks sem er fatlað og notkunin er í beinu sambandi við fötlunina og ekki viðskiptalegs eðlis og að svo miklu leyti sem nauðsynlegt er vegna þessarar tilteknu fötlunar. Á grundvelli þessarar heimildar er sett almenn undanþága í 1. mgr. 19. gr. höfundalaga en í 2. mgr. sömu greinar er þó settur sá fyrirvari að heimildin í 1. mgr. taki ekki til eintakagerðar og dreifingar á hljóðbókum sem gefnar eru út fyrir almennan markað. Fram kom í umsögn Hljóðbókasafns Íslands að bann skv. 2. mgr. mundi leiða til tvíverknaðar, þ.e. að safnið þyrfti ávallt að framleiða eigin hljóðbók í stað þess að mega nota upptöku sem gefin hefði verið út fyrir almennan markað. Nefndin bendir á að af einkarétti höfunda/útgefanda leiðir að þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir afhenda frumupptöku af útgefinni markaðsbók eða ekki. Nefndin beinir því til Hljóðbókasafnsins að hægt væri að gera samstarfssamning við Félag íslenskra bókaútgefenda um fyrirkomulag þessara mála. Hljóðbókasafn Íslands gerir einnig athugasemd við 3. mgr. 19. gr. höfundalaga þess efnis að hún sé takmarkandi þar sem hún heimili aðeins framleiðslu hljóðbóka. Nefndin bendir í því sambandi á hina almennu heimild sem er nú þegar fyrir hendi í 1. mgr. 19. gr. laganna en hún kveður á um að eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin er heimil þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem ófærir eru um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar. Einnig gerir safnið athugasemdir við nýja 4. mgr. 19. gr. höfundalaga, sbr. 9. gr. frumvarpsins, en það er álit safnsins að sú heimild sem þar sé veitt sé gagnslaus ef takmörk eru sett um að hún gildi aðeins innan stofnunar. Nefndin bendir á að rétt sé að þessi heimild eigi við um notkun innan stofnunar, þ.e. ekki t.d. á heimili lánþega Hljóðbókasafnsins. Vísar nefndin í hina almennu heimild sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna og vísar einnig til þess að fyrirmynd ákvæðisins er fengin úr norskum og dönskum lögum og er þar hugsuð til afnota innan stofnana eins og skóla, heilbrigðisstofnana og dvalarheimila þar sem fatlað fólk á þess ekki kost að nýta sér heimild 1. mgr. 11. gr. höfundalaga til að gera eintök af umræddu efni til einkanota.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að lögbannsheimild á þjónustu milliliða sem innleidd var með lögum nr. 93/2010, sbr. 59. gr. a. höfundalaga, hefði reynst rétthöfum torsótt í framkvæmd og var þá einkum vísað til málsmeðferðar hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík en sambærileg sjónarmið komu fram í máli ráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu við 1. umræðu þess. Nefndin ræddi þetta nokkuð og þá sér í lagi hvort ástæða væri til að lögfesta beinan aðgang rétthafa að flýtimeðferð hjá héraðsdómi í slíkum málum án þess að fyrst væri leitað til sýslumanns. Það er niðurstaða nefndarinnar að beina því til ráðuneytisins að taka þessi mál til nánari skoðunar og þá hvort tilefni sé til að koma með heildstætt frumvarp um þetta efni fyrir haustþing 2016.
    Það er mat nefndarinnar að með ítarlegri ákvæðum um samningskvaðaleyfi sé réttarstaða þeirra sem kjósa ekki að vera meðlimir í höfundaréttarsamtökum mun skýrari en áður og aðgengi almennings að höfundaréttarvernduðum verkum aukið til muna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að því að takmarka möguleika fatlaðs fólks á notkun hljóðbóka við stofnun með þeim hætti sem kveðið er á um í lokamálslið 9. gr. frumvarpsins.
    Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara sem lýtur að nauðsyn þess að innleiða tilskipun 2014/26/ESB áður en frumvarp þetta verður að lögum, að lögbannsheimild á þjónustu milliliða og því að takmarka möguleika fatlaðs fólks á notkun hljóðbóka við stofnun með þeim hætti sem kveðið er á um í lokamálslið 9. gr. frumvarpsins.

Alþingi, 28. janúar 2016.

Unnur Brá Konráðsdóttir,
form., frsm.
Guðmundur Steingrímsson. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Willum Þór Þórsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir,
með fyrirvara.
Helgi Hrafn Gunnarsson,
með fyrirvara.
Jóhanna María Sigmundsdóttir. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
með fyrirvara.
Vilhjálmur Árnason.