Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 801  —  419. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni
um innflæði gjaldeyris.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu háum upphæðum nemur innflæði gjaldeyris á árinu 2015 sundurliðað eftir:
     a.      langtímainnslánreikningum,
     b.      kaupum á verðbréfum, skipt eftir flokkum verðbréfa,
     c.      hlutabréfakaupum,
     d.      fjárfestingum í fasteignum,
     e.      fjárfestingum í atvinnurekstri, skipt eftir atvinnugreinum,
     f.      öðrum fjárfestingum erlendra aðila,
     g.      aðilum sem standa að innflæðinu, svo sem bönkum, fjárfestingasjóðum eða áhættufjárfestum?


    Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands til þess að svara fyrirspurninni. Upplýsingar bankans um gjaldeyrisviðskipti einskorðast við það innflæði gjaldeyris sem kom inn í landið eftir svokallaðri „nýfjárfestingarleið“ í skilningi 13. gr. m laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og fyrir tilstilli gjaldeyrisútboðs Seðlabankans. Þá býr Seðlabankinn ekki yfir skiptingu eftir atvinnugreinum í samræmi við e-lið í fyrirspurninni. Sama á við um upplýsingar um flokkun fjárfesta í samræmi við g-lið og miðast svarið því við lögaðila annars vegar og einstaklinga hins vegar.

Innflæði gjaldeyris um nýfjárfestingarleið á árinu 2015.

Millj. kr. Einstaklingar Lögaðilar Samtals
a. innlán 351,2 46,5 397,7
b. verðbréf, önnur en hlutabréf 330,1 54.070,0 54.400,1
RIKB 16 1013 42,3 -
RIKB 19 0226 - 3.075,1
RIKB 20 0205 5,8 8.461,4
RIKB 22 1026 - 6.524,0
RIKB 25 0612 - 20.903,3
RIKB 31 0124 - 15.086,5
Innlendir verðbréfasjóðir 282,0 19,7
c. hlutabréf 107,6 5.748,3 5.855,9
EIM - 827,1
GRND - 848,2
HAGA - 829,7
ICEAIR 6,9 1.031,4
MARL 2,4 1.022,2
NYHR - 0,4
REITIR - 820,6
SIMINN 98,3 137,2
SJOVA - 216,6
VIS - 14,9
d. fasteignir 652,3 - 652,3
e. fjárfestingar í atvinnurekstri 273,9 13.003,0 13.276,9
f. aðrar fjárfestingar erlendra aðila 412,1 1.123,3 1.535,4
Samtals 1.853,3 60.988,1 76.118,3

    Samtals hafa því erlendir aðilar selt erlendan gjaldeyri að jafnvirði um 76,1 milljarðs kr. til landsins vegna fjárfestingar sem skráð hefur verið sem nýfjárfesting í samræmi við 13. gr. m laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
    Þá voru í febrúar 2015 haldin síðustu gjaldeyrisútboð Seðlabankans samkvæmt fjárfestingarleið og ríkisverðbréfaleið þar sem tilboðum að fjárhæð 60,7 millj. evra var tekið, 2,5 millj. evra í ríkisverðbréf og 58,2 millj. evra í fjárfestingarleiðinni. Samþykkt tilboð voru tekin á sama verði í hvorri leið fyrir sig, 195 kr. fyrir hverja evru í fjárfestingarleiðinni og 178 kr. fyrir evru í ríkisverðbréfaleiðinni. Samtals er því um að ræða 11,8 milljarða kr. Þeir fjármunir sem komu inn í gegnum fjárfestingarleiðina skiptast með eftirfarandi hætti: Hlutabréf 17,4 millj. evra, skuldabréf 33,3 millj. evra og fasteignir 7,5 millj. evra. Fjárfestar sem tóku þátt í útboði fjárfestingarleiðar þurftu að auki að selja hjá viðskiptabanka jafnháa fjárhæð gjaldeyris og þeir fengu samþykkta í útboðinu. Heildarinnflæði gjaldeyris í tengslum við fjárfestingu samkvæmt fjárfestingarleiðinni er því 116,4 millj. evra.