Ferill 416. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 802  —  416. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Helga Hjörvar um kostnað
við afturvirka hækkun lífeyris almannatrygginga
og launahækkun ríkisstarfsmanna.


     1.      Hver væri áætlaður kostnaður ríkissjóðs á yfirstandandi ári við að hækka lífeyri almannatrygginga um 10,9% afturvirkt frá 1. maí 2015?
    Í fjárlögum fyrir árið 2015 var kveðið á um 3% hækkun bóta almannatrygginga með hliðsjón af verðbólguspá. Hækkunin kom til útborgunar 1. janúar það ár, eða nokkrum mánuðum áður en launþegar fengu sínar hækkanir með nýjum kjarasamningum sem undirritaðir voru sl. sumar. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs á árinu 2015 vegna hækkunarinnar hafi numið 2,6 milljörðum kr. Ef gengið er út frá því að allir bótaflokkar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar hefðu verið hækkaðir afturvirkt sem nemur 10,9% frá 1. maí 2015 má ætla að heildarkostnaður ríkissjóðs á árinu 2015 hefði numið 6–6,5 milljörðum kr. Þannig má ætla að viðbótarútgjöld ríkissjóðs á árinu 2015 vegna slíkrar bótahækkunar umfram 3% forsendu fjárlaga hefðu numið um 3,5–4 milljörðum kr. Þegar áhrif hækkunarinnar væru að fullu komin fram á árinu 2016 má á hinn bóginn gera ráð fyrir að útgjaldaáhrifin á ársgrundvelli hefðu orðið 9,5–10 milljarðar kr. en það svarar til 6,9–7,4 milljarða kr. útgjaldaaukningar á ársgrundvelli umfram 3% hækkunina í fjárlögum 2015.

     2.      Hver er áætlaður kostnaður ríkissjóðs á yfirstandandi ári vegna launahækkana ríkisstarfsmanna á árinu, þ.m.t. vegna hækkana samkvæmt úrskurði kjararáðs frá 17. nóvember sl.?
    Í forsendum fjárlaga 2015 var gengið út frá 3,5% almennri prósentuhækkun launa hjá flestum ríkisstofnunum og öðrum rekstraraðilum sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði þar sem kjarasamningar ríkisstarfsmanna voru lausir á fyrri hluta ársins og óvissa var um hver niðurstaða þeirra gæti orðið. Eina frávikið í fjárlögum 2015 frá þessari almennu launaforsendu var fyrirliggjandi hækkun launa hjá framhaldsskólakennurum samkvæmt kjarasamningi við Kennarasamband Íslands, sem gerður var vorið 2014, en að þeim samningi meðtöldum var vegin meðallaunahækkun 4,1% fyrir árið 2015. Áætluð útgjöld á árinu 2015 samkvæmt þessum launaforsendum námu 6,5 milljörðum kr. en 6,9 milljörðum kr. á ársgrundvelli þar sem hluti launahækkana kennara gilti ekki fyrir allt árið heldur frá 1. maí. Í nóvember og desember fór fram heildarendurmat á launaforsendum fjárlaga 2015 en þá hafði verið samið við nær öll félög ríkisstarfsmanna. Það endurmat byggðist einnig á úrskurði Kjararáðs um laun embættismanna ríkisins og niðurstöðu gerðardóms í ágúst sl. í kjaradeilu milli ríkisins og átján aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH). Með hliðsjón af þessum kjarabreytingum er gert ráð fyrir að vegin meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna hafi verið nálægt 9% á árinu 2015 að teknu tilliti til þess hvenær hækkanirnar tóku almennt gildi innan ársins, sem var í flestum tilvikum 1. mars eða 1. maí. Á ársgrundvelli er á hinn bóginn gert ráð fyrir að áhrif launahækkana á árinu 2015 verði 11,7% til frambúðar. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna þessara launahækkana starfsmanna ríkisins er 14,6 milljarðar kr. á árinu 2015 en það svarar til ríflega 8 milljarða kr. viðbótarútgjalda fyrir ríkissjóð innan ársins miðað við það sem áður hafði verið áætlað í fjárlögum ársins 2015. Varanleg hækkun á launakostnaði ríkissjóðs þegar hækkanir eru komnar fram að fullu á ársgrundvelli er hins vegar áætluð 18,6 milljarðar kr. eða sem nemur 11,7 milljarða kr. útgjaldaaukningu á ársgrundvelli umfram forsendur fjárlaga 2015.