Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 824  —  428. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur
um aðgerðir gegn einelti í grunnskólum.


     1.      Í hvaða lögum eða reglum eru ákvæði um viðbrögð við einelti í grunnskólum og um málsmeðferð til að taka á einelti? Er til heildstæð reglugerð um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum og hver er ábyrgð grunnskóla í eineltismálum?
    Ábyrgð grunnskóla í eineltismálum er skýr í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008. Í 3. mgr. 30. gr. laganna segir eftirfarandi:
    „Grunnskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi. Skólar skulu einnig hafa áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun. Áætlun skal m.a. framfylgt með því að hver skóli setji sér skólareglur. Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur. Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í reglugerð sem sett er sameiginlega á grundvelli þessarar greinar og 14. gr. Þar skal m.a. mælt fyrir um starfrækslu fagráðs á vegum ráðuneytisins er verði ráðgefandi í eineltismálum.“
    Í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 er hlutverk grunnskóla skilgreint nánar en þar segir í 7. gr:
    „Allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.
    Áætlunin skal ná til allrar starfsemi og alls starfsfólks skóla og skal kveða á um skyldur þess til að vinna gegn einelti með ábyrgum og virkum hætti. Áætlunin skal ná til allra nemenda og styrkja þá til að bera virðingu hver fyrir öðrum, sýna tillitssemi og samkennd og taka afstöðu gegn einelti. Áætlunin beinist einnig að foreldrum með það að markmiði að þeir séu virkir í samstarfi við skólann í að vinna gegn einelti og vinna með starfsfólki skóla að úrvinnslu eineltismála, eftir atvikum með formlegum samningi milli heimilis og skóla. Einnig skal í áætluninni vikið að aðilum í grenndarsamfélaginu sem starfa með börnum og unglingum og þeir upplýstir um vinnu skólans gegn einelti og óskað eftir samráði við þá eftir því sem þörf krefur.
    Aðgerðir skóla gegn einelti taka til skólans í heild, einstakra bekkjardeilda, námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.
    Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.
    Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega. Starfsfólk sérfræðiþjónustu skal aðstoða skóla í tengslum við aðgerðir gegn einelti og úrlausn einstakra mála eftir því sem þörf krefur.
    Foreldrar eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Ráðuneytið gefur út verklagsreglur um vísun mála til fagráðsins, málsmeðferð og eftirfylgni að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.“
    Á grundvelli reglugerðar um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/ 2009 vann ráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga handbók um velferð og öryggi barna í grunnskólum. Við gerð handbókarinnar var meðal annars stuðst við reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila í skólasamfélaginu í grunnskólum nr. 1040/2011. Þar segir í kafla 2.6.2:
    „Að allir skólar skuli hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólum ber að setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum. Áætlunin skal ná til allrar starfsemi og alls starfsfólks skóla og skal kveða á um skyldur þess til að vinna gegn einelti með ábyrgum og virkum hætti. Áætlunin skal ná til allra nemenda og styrkja þá til að bera virðingu hver fyrir öðrum, sýna tillitssemi og samkennd og taka afstöðu gegn einelti.
    Aðgerðir gegn einelti eru órjúfanlegur þáttur í að skapa nemendum öruggt umhverfi og taka til skólans í heild, einstakra námshópa og einstaklinga. Hver kennari ber ábyrgð á að framfylgja með virkum og ábyrgum hætti aðgerðaáætlun skólans gegn einelti og skólastjóri ber ábyrgð á að starfið sé samhæft.
    Eineltisáætlun á að vera virk í skólanum. Traust og vellíðan nemanda byggir á að honum sé ekki strítt eða hann niðurlægður á annan hátt. Nemandi á að geta treyst starfsfólki skólans til að grípa inn í aðstæður og skipta sér af sé þess þörf. Kanna þarf reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta. Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega.
    Foreldrar grunnskólabarna eða grunnskólar geta óskað eftir aðstoð fagráðs eineltismála í grunnskólum ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla eða sveitarfélags þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og aðkomu sérfræðiþjónustu. Ráðuneytið gefur út verklagsreglur um starfsemi fagráðsins, málsmeðferð og eftirfylgni að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Einnig er mikilvægt að skólar setji sér áætlanir um viðbrögð við ofbeldi og verklagsreglur fyrir starfsfólk um tilkynningar vegna ofbeldis sem þeir verða vitni að eða verða áskynja um í störfum sínum. Tillaga að gátlista um forvarnir gegn ofbeldi einelti og kynferðislegu áreiti er í viðauka.“
    Í aðalnámskrá grunnskóla eru víða ákvæði um aðgerðir gegn einelti. Þar segir m.a. á bls. 17 um grunnþætti menntunar að:
    „Grunnþættir menntunar eru settir fram sem sex þættir. Þeir tengjast þó innbyrðis í menntun og skólastarfi og eru háðir hver öðrum. Með því að hugsa út frá þeim má skapa meiri heildarsýn um skólastarfið. Þeir byggjast á þeirri hugmynd að ekki geti orðið virkt lýðræði án læsis á hvers konar táknkerfi og samskiptakerfi samfélagsins. Þeir eru einnig byggðir á því að virkt lýðræði þrífist aðeins ef jafnframt er stuðlað að hvers konar jafnrétti milli einstaklinga og hópa í samfélaginu. Mannréttindi allra verða ekki tryggð nema stuðlað sé að heilbrigði og velferð hvers og eins og baráttu gegn mismunun og hvers konar ofbeldi, þar með töldu einelti.“
    Á bls. 45 er fjallað um skólabrag og forvarnir þar segir m.a. að:
    „Nemendur þurfa að tileinka sér í daglegu lífi ýmsa þætti til þess að vera virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi, þar á meðal samskiptahæfni, virðingu, umburðarlyndi og skilning á uppbyggingu lýðræðislegs þjóðfélags. Nemendur þurfa að læra að umgangast hvern annan og allt starfsfólk skóla í sátt og samlyndi og taka ábyrgð á eigin framkomu og hegðun og virða skólareglur. Leggja þarf áherslu á námsaga og sjálfsaga nemenda. Til þess að svo megi verða ber starfsfólki skóla í hvívetna að stuðla að góðum starfsanda og gagnkvæmri virðingu allra í skólanum í samstarfi við nemendur, foreldra og starfsfólk. Efla skal félagsfærni nemenda með því að skapa þeim tækifæri til virkrar þátttöku í skólastarfi. Jákvæður skólabragur er í eðli sínu forvarnarstarf og getur dregið úr neikvæðum samskiptum, svo sem einelti og öðru ofbeldi. Meðal grundvallarréttinda nemenda er að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best. Því þarf að leggja áherslu á að skapa jákvæðan skólabrag í hverjum skóla og góðan vinnuanda í einstökum bekkjardeildum og námshópum.
    Grunnskólinn skal vinna markvisst að forvörnum og heilsueflingu þar sem hugað er að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda skólans. Lögð skal áhersla á almennar forvarnir, svo sem gagnvart tóbaki, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn, t.d. net- og spilafíkn. Mikilvægt er að allir grunnskólar komi sér upp forvarnaráætlun sem birt er í skólanámskrá. Í forvarnaráætlun skal m.a. vera áætlun skólans í fíknivörnum og áfengis- og tóbaksvörnum, áætlun gegn einelti og öðru ofbeldi, áætlun í öryggismálum og slysavörnum og stefna í agastjórnun. Einnig skal koma fram með hvaða hætti skólasamfélagið hyggst bregðast við ef mál koma upp. Kynna skal forvarnaráætlun skólans öllum aðilum skólasamfélagsins, starfsfólki skóla, foreldrum og nemendum og birta í skólanámskrá.“

     2.      Hafa allir grunnskólar innleitt aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri viðbragðsáætlun eins og lagt var upp með árið 2010 þegar unnið var að heildstæðri reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins?
    Samkvæmt könnun sem ráðuneytið lét gera árið 2013 á innleiðingu reglugerðar um ábyrgð og skyldur í skólasamfélaginu, nr. 1040/2011, höfðu 93,3% grunnskóla mótað heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við einelti, öðru ofbeldi og einangrun. Um 4,9% voru með slíka stefnu í vinnslu. Skólar voru einnig spurðir hvort þeir hefðu sett sér aðgerðaáætlun og voru 91,4% búnir að setja sér áætlun en 7,4% voru með hana í vinnslu. Þeir tveir skólar sem ekki voru búnir að setja sér stefnu og/eða áætlun voru spurðir nánar út í hvers vegna ekki væri búið að því. Voru svör þeirra að ekki hefði verið sett stefna eða gerð áætlun um einelti vegna fámennis og að heildarstefna og -sýn skólans væri að byggja upp jákvæð samskipti og viðhorf nemenda til hvers annars og skólans í heild. Innan þeirrar stefnu rúmast ekki einelti og því væri tekið og unnið með öll samskiptamál sem upp kynnu að koma áður en þau ná að verða að endurtekinni hegðun.

     3.      Hefur verið komið á fót fagráði í eineltismálum sem foreldrar og skólar geta leitað til líkt og lagt var upp með í skýrslu um einelti í skólum og á vinnustöðum 2010?
    Fagráð eineltismála í grunnskólum var stofnað 2012 og staðfesti ráðherra starfsreglur þess 10. mars það ár. Fagráðið hafði aðsetur og umsýslu í mennta- og menningarmálaráðuneyti til áramóta 2014–2015 en var þá flutt til Námsgagnastofnunar nú Menntamálastofnun. Starfsmaður fagráðsins flutti jafnframt með verkefninu. Fagráðið hefur einkum tvíþætt hlutverk við meðferð mála, sem því berast. Í fyrsta lagi að leitast við að finna viðunandi niðurstöðu í málum með sáttum sé þess nokkur kostur og í öðru lagi að gefa út ráðgefandi álit á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga, sem fagráðinu hafa borist í viðkomandi máli. Ef fagráðið telur að ekki liggi fyrir nægilega greinargóðar upplýsingar skal það afla þeirra, annaðhvort með formlegum hætti eða með viðtölum við málsaðila. Með samhentum kröftum allra aðila skólasamfélagsins, þ.e. starfsfólks skóla, nemenda, foreldra auk sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, annarra stuðningsaðgerða og nú tilkomu sérstaks fagráðs, ættu að skapast enn betri skilyrði til að útrýma einelti úr samfélaginu. Einelti er ofbeldi og á ekki að fá að þrífast í skólum eða annars staðar í samfélaginu. Fagráðið leitast við að ná ásættanlegri niðurstöðu í eineltismálum sé þess nokkur kostur og veita ráðgefandi álit um úrlausn máls á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem ráðinu berast í tilteknu máli. Í fagráðinu sitja Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir náms- og starfsráðgjafi, Páll Ólafsson félagsráðgjafi og Þórkatla Aðalsteinsdóttur sálfræðingur og hafa þau setið í því frá upphafi. Upplýsingar um fagráðið má finna á vef Menntamálastofnunar: www.mms.is/menntun/fagrad-eineltismala.html.
    Greitt var fyrir vinnu fagráðsins af fjárveitingu verkefnisstjórnar um aðgerðir gegn einelti út árið 2013. Á árinu 2014 var greidd þóknun fyrir fagráðið, laun verkefnisstjóra verkefnisins auk annarra verkefna gegn einelti af safnliðum ráðuneytisins svo sem vegna dags gegn einelti samtals 10.700.000 kr.
    Áætlaður kostnaður fyrir fagráðið árið 2015 var 13.649.290 kr.
    Stefnt er að stofnun fagráðs um eineltismál í framhaldsskólum.

     4.      Er unnið í tilteknum verkefnum sem varða aðgerðir gegn einelti í skólum og eru einhver þeirra fjármögnuð af ríkissjóði?
    a. Verkefnisstjórn um aðgerðir gegn einelti var samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta en skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra til þriggja ára í árslok 2010 til þess að fylgja eftir tillögum nefndar um aðgerðir gegn einelti frá júní 2010. Ásamt fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra sátu í henni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra. Ríkisstjórn Íslands samþykkti að veita 9 millj. kr. á ári til verkefnisins til þriggja ára, 2011 til 2013. Markmið verkefnisins var að stuðla að vitundarvakningu um það samfélagslega vandamál sem einelti er, vekja athygli á þáttum í skóla- og starfsumhverfi sem geta stuðlað að einelti, skilgreina leiðir til að taka á kvörtunum um einelti, skapa umræðu um neikvæð samfélagsleg áhrif eineltis og vinna að aðgerðum til að sporna gegn einelti.
    Ýmis verkefni voru framkvæmd í samræmi við verkefnisáætlun 2010 til 2013, sbr. eftirfarandi:
     *      Fagráði eineltismála í grunnskólum hefur verið komið á fót sem fær reglulega til sín mál. Fagráðið starfar á grundvelli reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum og verklagsreglna sem ráðuneytið gefur út.
     *      Árlegur dagur gegn einelti hefur verið haldinn fimm sinnum með góðum árangri.
     *      Samráðshópur um þróun kennaramenntunar og símenntunar m.t.t. eineltis hefur verið stofnaður. Í hópnum sitja, auk fulltrúa frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, fulltrúar allra kennaramenntunarstofnana landsins. Haldinn hefur verið umræðufundur um einelti á kennaramenntunardeildum háskólanna.
     *      Samstarfsverkefni Knattspyrnusambands Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytisins í forvörnum gegn einelti til ársloka 2014.
     *      Fjölbreytt samstarfsverkefni með ýmsum frjálsum félagasamtökum eins og UNICEF á Íslandi, Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, SAFT ásamt Heimili og skóla.
     *      Samráðsfundur með Vitundarvakningu, samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta gegn kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn börnum.
     *      Samráðsfundur öryggisnefnda Stjórnarráðsins.
     *      Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað kom út 2015.
     *      Fræðslufundur um eineltismál fyrir Félag forstöðumanna ríkisstofnana.
     *      Virk heimasíða, www.gegneinelti.is.
     *      Þjóðarsáttmáli gegn einelti.
     *      Samráðsfundur fagráðs eineltismála í grunnskólum og Þorláks Helgasonar framkvæmdastjóra Olweusaráætlunarinnar á Íslandi.

    b. Vinátta „Fri for mobberi“, verkefni Barnaheilla gegn einelti fyrir leikskólabörn, fékk 300 þús. kr. styrk árið 2015.
    Vináttuverkefni Barnaheilla er forvarnaverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Efnið heitir á frummálinu Fri for mobberi og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Fri for mobberi er einnig til fyrir yngstu bekki grunnskóla í Danmörku. Vinátta eða Fri for mobberi byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu skólastarfinu auk raunhæfra verkefna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra.

    c. Verkefnið Ekkert hatur hefur frá árinu 2014 fengið 1,7 millj. kr. í styrk frá ráðuneytinu til að framkvæma verkefni á vegum Evrópuráðsins. Föstudaginn 11. október 2013 var farið af stað með verkefni gegn hatursorðræðu á Íslandi. Verkefninu, sem m.a. er beint gegn hatursáróðri og kynþáttafordómum var ýtt úr vör á landsleik Íslands gegn Kýpur á Laugardalsvelli. Hópur stofnana og samtaka á Íslandi stendur á bak við átakið og er það hluti af verkefni Evrópuráðsins sem ber heitið No Hate Speech Movement. Fyrir hönd ráðuneytisins annast eftirtaldir aðilar útfærslu verkefnisins á Íslandi: SAFT, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvangurinn, í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands.

    d. Olweusarverkefnið var upphaflega unnið í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Að auki var Kennaraháskóli Íslands stuðningsaðili. Markmiðið var að styrkja og fræða skólasamfélagið eftir Olweusarkerfinu til að geta betur komið í veg fyrir og tekist á við einelti. Verkefnið felst fyrst og fremst í að aðstoða skóla við að byggja upp viðvarandi kerfi gegn einelti með markvissri fræðslu og samvinnu í öllu skólasamfélaginu. Verkefnið er skilgreint sem símenntun og nær það til allra starfsmanna skóla í tvö skólaár. Verkefnið hefur frá vori 2009 verið í umsjá Þorláks H. Helgasonar á fjárhagslega sjálfstæðum grunni og með styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

    e. Heimili og skóli hafa fengið styrk vegna SAFT-netöryggisverkefnisins síðan 2012 til að vinna að netöryggi og þar með talið gegn einelti á vefmiðlum. SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er einnig styrkt af ESB.

    f. Æskulýðsvettvangurinn hefur fengið rekstrarstyrk frá árinu 2012 og hafa samtökin staðið fyrir átaksverkefnum gegn einelti og lagt fram aðgerðaáætlun sem allir geta tekið upp hjá sér. Verkefnið Ekki meir kemur frá þeim og hafa þau unnið verkefnið í samstarfi við Kolbrúnu Baldursdóttur. Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) var stofnaður árið 2007 og samanstendur hann af fjórum félagasamtökum, þ.e. Ungmennafélagi Íslands, KFUM og KFUK á Íslandi og Bandalagi íslenskra skáta. Slysavarnarfélagið Landsbjörg eru fjórðu samtökin en þau komu inn í samstarfið árið 2011. Markmið Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslumála, útbreiðslu og kynninga og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að standa fyrir námskeiðum, ráðstefnum og öðrum sameiginlegum verkefnum sem lúta að hagsmunum barna og ungmenna.

    g. Rannsóknamiðstöðin Rannsóknir & greining (R&G) sérhæfir sig í rannsóknum á högum og líðan ungs fólks bæði á Íslandi og erlendis. Niðurstöður rannsóknanna hafa verið nýttar á vettvangi meðal fólks sem starfar með börnum og unglingum, í forvarnavinnu, meðal stefnumótunaraðila og stjórnmálamanna. Rannsóknir og greining hefur undanfarin ár fengið styrk fyrir rannsóknarverkefnið Ungt fólk til að fylgjast með líðan ungs fólks þ.m.t. einelti.

     5.      Hversu mikið fjármagn hefur verið veitt úr ríkissjóði til styrktar verkefnum gegn einelti undanfarin átta ár?
    Á undanförnum átta árum hefur ríkissjóður styrkt verkefni gegn einelti um samtals 77.759.290 kr.

Ár Fagráð um einelti í grunnskólum Verkefnisstjórn um aðgerðir
gegn einelti
Olweus Æskulýðs- vettvangurinn Samtals
2007 5.000.000 kr. 5.000.000 kr.
2008 5.000.000 kr. 5.000.000 kr.
2009 4.000.000 kr. 4.000.000 kr.
2010 – kr.
2011 9.000.000 kr. 2.000.000 kr. 11.000.000 kr.
2012 9.000.000 kr. 400.000 kr. 9.400.000 kr.
2013 9.000.000 kr. 3.000.000 kr. 2.050.000 kr. 14.050.000 kr.
2014 10.700.000 kr. 1.360.000 kr. 12.060.000 kr.
2015 13.649.290 kr. 3.000.000 kr. 600.000 kr. 17.249.290 kr.
24.349.290 kr. 27.000.000 kr. 22.000.000 kr. 4.410.000 kr. 77.759.290 kr.

    Vakin er athygli á að framlag til SAFT-verkefnisins er ekki eingöngu vegna verkefna gegn einelti. Framlag vegna SAFT er því ekki meðtalið í framlögum úr ríkissjóði til styrktar verkefnum gegn einelti. SAFT-verkefnið hefur fengið 7.000.000 kr. framlag árin 2012, 2013, 2014 og 2015.

     6.      Hefur ráðherra kannað hvort setja ætti lög svipuð sænskum lögum um sönnunarbyrði í eineltismálum í skólum þannig að skólar þurfi að sýna fram á að þeir hafi brugðist við einelti á fullnægjandi hátt til að firra sig ábyrgð og skaðabótaskyldu?
    Ráðherra hefur ekki látið kanna sérstaklega hvort setja ætti í lög kröfur um sönnunarbyrði í eineltismálum í skólum eða um skaðabótaskyldu. Ráðuneytinu hafa ekki borist formleg erindi þess efnis