Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 865  —  479. mál.
Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Rósu Björk Brynjólfsdóttur
um samskiptavanda innan lögreglunnar.


     1.      Hefur ráðherra áform um að bregðast við samskiptavanda meðal yfirmanna í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og þá hvernig?
    Síðastliðið ár bárust ráðuneytinu ábendingar um að það væri samskiptavandi innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ráðuneytið fundaði með lögreglustjóranum vegna þessa og var ákveðið sl. vor, í samráði við lögreglustjórann, að fá utanaðkomandi ráðgjafa til að greina hvort slíkur vandi væri fyrir hendi og þá hver rót hans væri og hvernig ráða mætti bót á honum.
    Ráðgjafinn skilaði skýrslu til ráðuneytisins í lok síðasta árs. Niðurstöður hans voru að eftir viðtöl við stjórnendur við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefðu komið fram skýrar vísbendingar um vanda sem snerti samskipti og samstarf. Væri hann þess eðlis að hann yrði ekki leystur án utanaðkomandi aðstoðar. Mat ráðgjafans var að ráðast yrði í aðgerðir sem miðuðu að því að taka á umræddum vanda og mælti hann með því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fengi utanaðkomandi hlutlausan aðila sem yfirstjórn embættisins bæri fullt traust til. Óskaði ráðuneytið eftir því við lögreglustjórann að hann fylgdi eftir þessum niðurstöðum og ráðleggingum. Lögreglustjórinn hefur, í samráði við yfirstjórn embættisins, ráðið sérfræðinga til aðstoðar við að bæta samskipti innan embættisins.

     2.      Hefur samskiptavandi innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða sams konar vandi í samskiptum milli lögregluembætta leitt til mistaka í aðgerðum lögreglu og ef svo er, hvaða dæmi eru um slíkt?
    Hafi svo verið að samskiptavandi innan eða á milli lögregluembætta hafi leitt til mistaka í lögregluaðgerðum hefur athygli ráðuneytisins ekki verið vakin á því.

     3.      Telur ráðherra að mistök við rannsókn umfangsmikils fíkniefnamáls sem lyktaði með 11 ára fangelsisdómi yfir hollenskri konu kalli á sérstaka rannsókn á starfsháttum lögreglu?
    Málið hefur fengið meðferð hjá viðeigandi embættum innan réttarvörslukerfisins, þ.e. lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum. Niðurstaða Hæstaréttar og héraðsdóms liggja fyrir í þessu máli. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að aðhafast hvað þetta mál varðar en ráðuneytið hefur að undanförnu unnið að því að bæta eftirlit með störfum lögreglu, sbr. svar við 4. lið fyrirspurnarinnar.

     4.      Telur ráðherra þörf á að efla eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu og ef svo er, hvernig telur ráðherra rétt að haga því?
    Ráðherra skipaði 15. janúar 2015 nefnd sem fjalla átti um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Nefndinni var falið að leggja mat á núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögur að breyttu verklagi og lagabreytingum. Þá var nefndinni falið það hlutverk að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem fælist í móttöku og afgreiðslu á kærum og kvörtunum vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni á athugasemdum ríkissaksóknara vegna starfa lögreglu og eftir atvikum frumkvæðiseftirliti með störfum lögreglu.
    Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðherra í október sl. en nefndin vann jafnframt drög að breytingum á VII. kafla lögreglulaga og reglum um meðferð mála vegna kæra og kvartana á hendur lögreglu. Tillögur nefndarinnar hafa verið færðar í frumvarpsform og eru til umsagnar á vef ráðuneytisins til og með 24. febrúar. Eftir almennt umsagnarferli mun ráðuneytið yfirfara frumvarpið og í kjölfarið verður það lagt fyrir þingið til frekari umræðu og afgreiðslu.
    Þá er rétt að geta þess að að nýsamþykktar breytingar á skipan ákæruvaldsins, með stofnun embættis héraðssaksóknara, miðuðu m.a. að því að efla stjórnunar- og eftirlitshlutverk ríkissaksóknara þ.m.t. yfirstjórn lögreglurannsókna, eftirlit með símahlustunum, eftirlit með sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglu og endurskoðun ákvarðana lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að vísa frá kæru, hætta rannsókn og fella niður mál.